22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég varð þess ekki var í ræðu hæstv. fjmrh., að hann legði til, að málinu yrði vísað til hv. fjhn. Það má vera, að það hafi farið fram hjá mér. En ef hann hefur ekki gert það að sinni till., þá vil ég leggja það til, að málinu verði vísað þangað til athugunar.

Ég skal ekki gera þetta mál að umræðuefni neitt að ráði á þessu stigi, en það hefur í umr. um það komið mjög fram, að hér væri létt stórum álögum af atvinnurekstrinum, þ.e.a.s. af félögum.

Nú er það þannig, að hér er um að ræða bæði tekjuskatt og stríðsgróðaskatt. Tekjuskatturinn rennur allur í ríkissjóð, en stríðsgróðaskatturinn skiptist milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Nú er ætlunin að fella stríðsgróðaskattinn niður. Nú kemur það hins vegar fram í grg. frv., að tilgangurinn er ekki sá að draga úr tekjum ríkissjóðs af heildarsköttum fyrirtækja eða félaga. Það segir í grg. á bls. 5 og hefur þó komið enn skýrar fram á öðrum stöðum, að gert sé ráð fyrir, að þessi nýja tilhögun gefi ríkissjóði svo til sömu heildarskatta og áður. Ef þetta frv. felur þannig í sér svo mikla leiðréttingu fyrir félögin, þá er mér spurn: Er það þá eingöngu á kostnað sveitarfélaganna, sem þessi létting gjalda á að vera? Nú er það öllum kunnugt, að sveitarfélögin hafa svo að segja aðeins einn tekjustofn, sem eru útsvörin, og á undanförnum árum hefur hvað eftir annað verið rætt um það á Alþingi og skipaðar nefndir í það mál að reyna að finna nýja tekjustofna handa sveitarfélögunum. Lítill árangur hefur að vísu orðið af því. En nú fyrir fáeinum dögum samþykkti fjhn. þessarar deildar einróma að flytja hér till. um að skora á ríkisstj. að athuga og gera till. um nýja tekjustofna sveitarfélaga og leggja frv. um það fyrir næsta Alþingi. Sú till. hv. fjhn. mun væntanlega verða lögð hér fram mjög fljótlega. En meðan sveitarfélögin í landinu — ég vil segja öll eða svo að segja öll — stynja undir því hafa ekki aðra tekjustofna við að styðjast en útsvörin og það er stefna Alþingis að reyna að finna nýja eða aukna tekjustofna handa sveitarfélögunum, þá er mér spurn: Er það ætlun hæstv. fjmrh. með þessu frv., að án þess að sveitarfélögunum sé séð fyrir nokkrum nýjum tekjustofnum, eigi að svipta þau þessum tekjustofni, og er sem sagt öll leiðréttingin á skattgreiðslu félaga með þessu frv. fólgin í því, að ríkissjóður á að hafa sitt eins og áður, en sveitarfélögin eiga að missa sínar tekjur?

Að vísu má segja, að til þess að ná þessu upp hafi sveitarfélögin þá leið að hækka sín útsvör. Nú ætla ég, að flestum þyki, að æskilegt sé að þurfa ekki að hækka neitt að ráði heildarupphæðir útsvara sveitarfélaganna né heldur útsvarsstiga. En meðan málin horfa svo sem nú er, þá er vant að sjá, meðan sveitarfélögin fá enga nýja tekjustofna, hvaða leiðir þau hafa þá aðrar, en að hækka enn útsvörin til þess að mæta þeim tekjumissi, sem þau verða fyrir samkvæmt þessu frv.

Mér finnst rétt að láta þessi sjónarmið koma fram, vegna þess að allmikið hefur á því borið, að með þessu frv. væri verið að bæta stórlega hag atvinnurekstrarins í landinu, en sem sagt, grg. sjálf segir: ríkissjóður á einskis í að missa, og ég vænti, að hæstv. fjmrh. geri hér glögga grein fyrir því, hvort þetta á allt saman að ganga út yfir sveitarfélögin og á þeirra kostnað.