24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls rakti hæstv. fjmrh. efni frv. í stórum dráttum. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, sem hann sagði, enda munu allir hv. þdm. hafa kynnt sér frv.

Fjhn. d., sem málinu var vísað til, ræddi það á tveimur löngum fundum í gær. Verð ég að kannast við það, að ég beitti meðnm, mína töluverðri vinnuhörku þá, en ég vona, að þeir séu þó óskemmdir af.

En ástæðan til þess, að ég lagði áherzlu á að fá málið afgr. í n. og einnig að ég boðaði þennan fund í dag sérstaklega til þess að koma þessu máli áleiðis, er sú, að það er orðið mjög bagalegt a.m.k. og raunar alveg óforsvaranlegt, að skattanefndir landsins vita ekki enn þá, eftir hvaða reglum á að leggja skatta á fólkið. Að vísu ber þessi hv. d. enga ábyrgð á, hvað málið hefur dregizt. Það hefur tafizt óeðlilega í hv. Nd. En ég sé enga ástæðu til þess, að þessi hv. d. taki. sér vinnubrögð hv. Nd. til fyrirmyndar, heldur þvert á móti. Samt hefur sá hraði ekki verið hafður á, að málið hafi ekki fengið algerlega þinglega meðferð hér í þessari hv. deild.

Á fundum sínum í gær fékk fjhn. ýmsa aðila, sem hafa haft afskipti af þessu máli, til viðtals og ræddi við hvern þeirra um sig þann þátt frv., sem hann varðaði sérstaklega.

Frv. er að stofni til samið af n., sem Skúli Guðmundsson, hv. þm. V-Húnv., var form. í. Ræddi n, við hann sérstaklega um félagaskattinn, sem var aðaltillaga þeirrar nefndar. N. ræddi einnig við Jón Sigurðsson erindreka, form. Sjómannasambandsins, og þá sérstaklega um skattafríðindi þau, sem sjómönnum eru ákveðin í frv. Einnig ræddi n. við Karl Kristjánsson, hv. þm. S-Þ., um þau ákvæði frv., er snerta skattgreiðslu hjóna, en hann hafði veríð í n., sem undirbjó þann þátt frv. Alþingismennirnir, hv. þm. S-Þ. og hv. þm. V-Húnv., mæltu með þeim þáttum frv., sem n. ræddi við þá um. Jón Sigurðsson erindreki sagði að vísu, að fiskimenn mundu óska eftir algeru skattfrelsi, — og hvaða stétt mundi ekki gera það, ef hún væri um spurð? Hins vegar viðurkenndi hann, að skattfríðindi þau, sem sjómönnum eru ákveðin í frv. og fiskimönnum sérstaklega, væru í samræmi við loforð, sem þeim höfðu verið gefin í sambandi við kjarasamninga, og má því næstum skoða þessi ákvæði sem samning við fiskimenn, og samningum er sjálfsagt mjög varhugavert að breyta með lögum.

Auk þessara manna ræddi n. við Jónas Guðmundsson, form. Sambands íslenzkra sveitarfélaga, um viðhorf bæjar- og sveitarfélaga til frv. Jónas kallaði síðan stjórn sambandsins til fundar, og sendi hún bréf síðar á fundinn. Það bréf ætlaði ég að lesa hér upp, það er mjög stutt, en því miður veit ég ekki vel, hvar það er. Ég hélt, að ég hefði haft það hér hjá mér í skúffunni. — Nú, hér er það komið prentað sem fskj, við álit hv. minni hl. n., og þarf því ekki að lesa upp, þar sem hv. þm. hafa það fyrir augum. Þessu bréfi fylgdi skrá yfir stríðsgróðaskattinn á árinu 1956. Við athugun þessarar skrár kom það í ljós, sem ég skal játa að mér kom á óvart, að sveitarfélögin missa furðulega lítils í samkv. frv. og fá það væntanlega að fullu bætt með meira gjaldþoli margra fyrirtækja, ef frv. verður samþ. Í raun og veru er þessi hluti sveitarfélaga af stríðsgróðaskatti ekki teljandi nema í Reykjavík. Í Reykjavík er hann 3 millj. og einhver hundruð þúsund króna, ef ég man rétt, og má segja að sjálfsögðu, að það muni um þá upphæð nokkuð, en þó ekki ýkja mikið í þeim háu tekjum, sem Reykjavíkurbær hefur. Hvað önnur sveitarfélög snertir, þá sé ég ekki, að það muni þau að neinu ráði. Til dæmis er sá hluti, sem Akureyrarbær, þar sem ég bý, fær af stríðsgróðaskatti, lítið hærri en útsvarið mitt, og þá geta menn getið nærri, að það mun ekki mikið muna um það. Í sumum bæjum er það miklu minna og öðrum sveitarfélögum.

Ég verð að segja það, að í n. kom ekki fram mikill ágreiningur um þetta mál. Þó fór það svo, að n. fylgdist ekki að um eitt nál. Meiri hl. n., hv. 8. landsk., hv. 4. þm. Reykv. og ég leggur til, að frv. verði samþ. Við bindum okkur ekki við, að það sé endilega óbreytt, en tveir hv. nm., hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. N-Ísf., tóku ekki þátt í atkvgr. um málið, en sögðust mundu skila séráliti. Nú var þessu nál. þeirra útbýtt hér á fundinum fyrir augnabliki, og hef ég ekki haft tíma til að lesa það. E.t.v. bera þeir fram einhverjar brtt., þó að þær fylgi ekki þeirra nál., og sé ég ekki ástæðu til þar af leiðandi og ekki við því búinn að ræða þeirra nál, né þær brtt., sem annars staðar liggja fyrir, fyrr en flm. hafa gert grein fyrir þeim, eða þá að ég sé ástæðu til þess að gera aths., sem ekkert er víst.

En það er sem sagt till. meiri hl. n., að frv. verði samþ., og er það að líkum, að meiri hl. óskar þá jafnframt eftir því, að það verði með sem allra minnstum breytingum.

Og hvað sem öðru líður um breytingar, þá er nokkuð á það að líta, hve mikið liggur á því að fá þetta mál afgert, og ef það á að sendast aftur til hv. Nd., þá gæti það eftir fenginni reynslu að dæma töluvert dregizt, að úrslit á málinu fengjust.