24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru fyrst örfá orð um málsmeðferðina á Alþingi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er stjórnarfrv., og því var útbýtt í hv. Nd. 24. febr. Það var svo afgr. þaðan 22. maí, eftir sem sagt þriggja mánaða meðferð þar. Þegar það kemur til þessarar d. í fyrradag, þá er kallaður saman fundur hér á óvenjulegum tíma fyrirvaralítið, þar sem þetta mál er tekið á dagskrá og lögð á það áherzla af fjmrh., að það sé afgr. með skyndingu, helzt jafnvel sama dag. Að vísu varð nú sú ekki raunin á, og d. samþykkti að vísa málinu til fjhn, til athugunar, þótt ætlun fjmrh. virðist hafa verið sú að ganga fram hjá n. í jafnþýðingarmiklu máli. Hins vegar hefur eftirrekstur verið það mikill á eftir þessu máli, að því fer fjarri, að nægur tími hafi fengizt til þess að athuga það ofan í kjölinn og fá allar þær upplýsingar og skýringar, sem æskilegt hefði verið.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess réttilega, að við ættum í þessari hv. d. ekki að taka okkur Nd. til fyrirmyndar. En ég vil segja, að eitthvað má nú á milli vera, einhver millivegur ætti að vera til, að liggja í þrjá mánuði yfir frv. eða krefjast þess, að það sé til athugunar í d. aðeins einn, tvo eða í mesta lagi þrjá daga, fyrir allar þrjár umr. og athugun n. Og eins og ég hef nú tekið fram við hinn virðulega forseta þessarar d., sem um leið er formaður fjhn., þá skoraði ég á hann að hafa í huga, sem hann jafnan hefur, virðingu þessarar d. með því að ætla henni nokkru rýmri tíma, en þetta til athugunar á svo þýðingarmiklu máli. Það er svo vafalaust rétt hjá honum, að það er orðið mjög aðkallandi fyrir skattanefndir að fá að vita ákveðið, eftir hvaða lögum eigi að leggja á skatta nú í ár. En þessir miklu annmarkar á meðferð málsins, of mikill dráttur í Nd. og of mikill hraði í þessari d., skrifast auðvitað fyrst og fremst á reikning hæstv. ríkisstj. eða fjmrh., sem hefur flutt málið, og hefði þá átt að athuga það í tæka tíð, áður en málið kom hingað, að það væri jafnaðkallandi fyrir skattanefndir og hv. form. fjhn. lætur nú í skína.

Þessar aths. vildi ég láta koma fram hér um sjálfa málsmeðferðina. Ég vil um leið taka það fram, að hv. frsm. og form. fjhn. varð fúslega við óskum okkar í minni hl. um að reyna að afla álits eða fá til viðtals á fundi fjhn, suma þá aðila, sem við óskuðum eftir, en hins vegar fékkst ekki að ræða við alla þá aðila, sem óskað var eftir, m.a. skattstjórann í Reykjavík og fleiri þá, sem við óskuðum upplýsinga frá, — en ég vil taka það fram, að hann varð fúslega við því að ná í suma þessa aðila.

Þetta frv. hefur bæði sína kosti og galla. Það er í því merkilegt ákvæði og þýðingarmikið, að því er snertir hámark eða ákvörðun á skattgjaldi félaga. Það hefur verið svo síðan 1942, þegar lögleiddur var stríðsgróðaskattur hér á landi, að stríðsgróðaskattur og tekjuskattur til samans hafa verið mjög háir og numið af tekjum, sem eru fram yfir 200 þús. kr., 90% af tekjunum. Um leið var svo ákveðið, að sveitarfélög mættu ekki leggja útsvar á þann hluta teknanna, sem fram yfir væri 200 þús., en í staðinn skyldu sveitarfélögin fá 45% af stríðsgróðaskatti, sem til félli þar.

Nú er það auðvitað ljóst, að meiri háttar atvinnurekstur getur auðvitað ekki þrifizt í landinu með slíkri skattaáþján eins og þessari. Þessi skattalög, sem gilt hafa allan þennan tíma, í 16 ár, hafa lamað stórlega atvinnureksturinn í landinu og þá fyrst og fremst allan meiri háttar atvinnurekstur, þar sem gera má ráð fyrir, að hagnaður, a.m.k. sum árin, fari yfir þessa fjárhæð, 200 þús. kr., eða nálgist þá upphæð.

Það hefur því verið og er hin brýnasta nauðsyn að kippa þessum málum í lag og færa skattgjöldin af hinum hærri tekjum til ríkissjóðs í skaplegra horf til þess að veita atvinnu-. rekstrinum nægilegt svigrúm og möguleika til að þróast og dafna. En um leið og ég tel mikla nauðsyn á þessu, vil ég taka það jafnframt fram, að ég tel brýna nauðsyn til bera að lækka þær álögur, þau útsvör, sem sveitarfélögin taka af atvinnurekstrinum, sumpart með allháum útsvarsstigum og sumpart með svokölluðum veltuútsvörum.

Nú er það svo, að ríkissjóður styðst ekki nema að tiltölulega litlu leyti við þessa beinu skatta, tekjuskatt og stríðsgróðaskatt. Langsamlega mestur hluti af tekjum ríkissjóðs er hinir óbeinu skattar, tollar, innflutnings- og aðflutningsgjöld, söluskattur o.s.frv., og á hinum síðari árum hefur hluti hinna beinu skatta af heildartekjum ríkissjóðs farið sífellt minnkandi. Þess vegna verka tekjuskatturinn og stríðsgróðaskatturinn ekki ýkjamikið í heildartekjum ríkissjóðs.

Fyrir sveitarfélögin gegnir hér gerólíku máli. Þar eru hinir beinu skattar — útsvörin — yfirgnæfandi hluti af tekjum og starfsfé sveitarfélaganna, og hver breyting eða skerðing á þeirra möguleikum þar hefur því veruleg áhrif á framkvæmdir og fjárhag sveitarfélagsins. Útsvörin eru svo til eini tekjustofn, sem bæjar- og sveitarfélög hafa yfir að ráða, en til þess að tryggja fjárhag sveitarfélaganna og til þess um leið að gera það mögulegt, sem ég nefndi áðan, sem er líka nauðsyn, að sveitarfélögin gætu fært niður sína útsvarsstiga og dregið úr veltuútsvörunum, sem liggja þungt á atvinnurekstrinum, þá er alveg óhjákvæmileg nauðsyn að útvega sveitarfélögunum nýja tekjustofna, og það hefur verið krafa sveitarfélaganna og samtaka þeirra mörg ár og sú krafa verið flutt hér inn í Alþingi hvað eftir annað. Nefndir hafa verið settar á laggirnar með þessu hlutverki, m.a. fyrir nokkrum árum var n. skipuð af fyrrverandi ríkisstj. undir forustu Skúla Guðmundssonar, hv. þm. V-Húnv., en þrátt fyrir margra ára starf og strit varð enginn árangur af því starfi, og Alþingi hefur ekki fengið frá þeirri nefnd neinar till. um þetta, sem var annað meginhlutverk n., þ. e. að athuga nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin og um leið endurskoða verkaskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga.

Inn á Alþingi hefur verið flutt nokkrum sinnum frv. í samræmi við óskir Sambands íslenzkra sveitarfélaga um það, að þau fengju hluta af söluskatti, meðan hann er innheimtur. En þrátt fyrir það þó að söluskatturinn fari nú hækkandi ár frá ári, hafi nýlega verið stóraukinn og eigi með þeim efnahagsmálatillögum, sem nú liggja fyrir Alþ., að stórhækka hann enn þá, þ.e.a.s. ekki prósenttöluna, heldur með því að reikna hana á miklu hærri grundvelli en áður, og þrátt fyrir það að söluskatturinn hefur — ég held öll árin — farið mikið fram úr áætlun fjárlaga, þá hafa þessar óskir sveitarfélaganna ekki fengið áheyrn hjá meiri hl. Alþingis og ríkisstj.

Ég skal taka það fram í því sambandi, að þessar óskir og till. hafa haft mikinn hljómgrunn í þremur þingflokkanna, þ.e. Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb., eða Sósfl. áður. Hins vegar hefur andstaðan gegn þessu jafnan komið frá Framsfl., og vegna þess að þau hafa nú verið álög á þjóðinni undanfarin ár, að Framsfl. hefur farið með fjármálin og verið í ríkisstj., þá hefur ekki fengizt lagfæring á þessum málum enn þá.

Það hefur sem sagt engin leiðrétting fengizt á þessu mikla vandamáli um nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin. En þegar nú þetta frv., er hér liggur fyrir, er lagt fram, þá er það eitt það fyrsta, sem sést, að með því á að svipta sveitarfélögin einum tekjustofni, sem þau hafa haft, án þess að annar tekjustofn komi í staðinn, en þessi tekjustofn hefur verið um 16 ára skeið, þessi 45% af stríðsgróðaskatti, sem ríkið innheimtir, en endurgreiðir síðan sveitarfélögunum.

Ég verð að taka það fyrst fram, að mér sýnist hér vera töluvert öfugstreymi, og ber vott um og sannar enn algert skilningsleysi núv. hæstv. fjmrh. á fjármálum og tekjuþörf sveitarfélaga. Í stað þess að verða við ítrekuðum óskum sveitarfélaganna og ítrekuðum óskum, sem bornar hafa verið fram á Alþingi um að reyna að finna nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin, þá lætur hann það eins og vind um eyrun þjóta, en leggur í staðinn fram frv. um að taka tekjustofn af sveitarfélögunum án þess að sjá fyrir nokkrum öðrum tekjustofni í staðinn. Þetta finnst mér ákaflega mikið skilningsleysi á þessu mikla vandamáli.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. taldi, að þetta skipti í rauninni sáralitlu máli fyrir sveitarfélögin. Hann tók svo til orða, að hluti sveitarfélaganna eða sú upphæð, sem sveitarfélögin fengju af stríðsgróðaskatti, væri furðulega lítið og ekki teljandi nema í Reykjavík, og virtist svo sem þá gerði það ekki mikið til, fyrst það væri eingöngu Reykjavík, sem hefði fengið einhvern hluta af þessu. Að vísu veit ég ekki, hvort rétt er að túlka orð hv. frsm. meiri hl. þannig frá honum persónulega, en ég veit, að sá er hugurinn og andinn hjá hæstv. fjmrh., sem hefur nú flutt þetta mál inn í þingið.

Á árinu 1956 varð stríðsgróðaskatturinn í heild rúmar 9 millj. kr. og hlutur sveitarfélaganna 41/2 millj. Á árinu 1957 varð hann nokkru hærri. Og ég geri ráð fyrir, að í ár mundi þetta verða alltaf um 6 millj. kr., sem félli í hlut sveitarfélaga. Það má vera, að hv. frsm. meiri hl. finnist 6 millj. ekki vera neinn peningur, en ég get sagt honum það, að öll sveitarfélög á landinu og höfuðborgina líka munar vissulega um þá upphæð.

Það er að vísu rétt, að með afnámi laganna um stríðsgróðaskatt er um leið afnumið bannið við því að leggja útsvör á hærri tekjur, en 200 þús. kr. skattskyldar, en þau fyrirtæki, sem hafa slíkar tekjur, eru sárafá, þannig að útsvarstekjur af þeim nema aldrei nema litlum hluta af þeirri upphæð, sem sveitarfélögin eru þannig svipt.

Þetta er viðhorfið gagnvart sveitarfélögunum, og í tilefni af því, hverju máli þetta skiptir þau, óskaði fjhn. eftir að fá formann Sambands ísl. sveitarfélaga á fund og óskaði skriflegrar umsagnar stjórnarinnar, og er hún prentuð með nál. minni hl., en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Sambandsstjórnin er og hefur jafnan verið þeirrar skoðunar, að stefna beri að því að sjá sveitarsjóðum fyrir nýjum tekjustofnum, og þar til það hefur verið gert, er hún andvíg því, að þeir tekjustofnar, sem fyrir eru, séu af þeim teknir“. M.ö.o.: hún andmælir því, að þessi tekjustofn sé af tekinn án þess að sjá fyrir einhverju nýju í staðinn.

Nú þykist ég vita, að hv. frsm. meiri hl. muni svara því til, að fjhn. þessarar deildar hafi flutt þáltill., sem væntanlega kemur til afgreiðslu strax eftir hvítasunnu, um að skora á hæstv. ríkisstj. að leggja fyrir næsta Alþingi frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga. En það eru náttúrlega engin rök, því þó að slík áskorun sé gerð og jafnvel þó að ríkisstj. færi eftir henni og legði fyrir næsta Alþingi slíkt frv., þá yrði það þó aldrei lögfest fyrr en á næsta Alþingi, en eitt ár fellur þá úr, sem sveitarfélögin verða svipt þessum tekjustofni, án þess að nokkuð kæmi í staðinn. En auk þess er ég ekki ákaflega bjartsýnn eftir þá reynslu, sem orðin er í þessum málum, þó að fjhn. Ed. flytji slíka áskorun, að hæstv. ríkisstj. hrökkvi þá strax við og fái lögfest strax á næsta Álþingi nýja og fullnægjandi tekjustofna til sveitarfélaga. Framburður þessarar till. fjhn. er auðvitað spor í rétta átt, en hann er engin rök í þessu máli í sambandi við sviptingu þessa tekjustofns sveitarfélaganna nú.

Ég tók það fram, að það væri brýn nauðsyn að lagfæra og lækka hina háu skatta, sem eru á atvinnurekstrinum. Nú er með þessu frv. ákveðið, að félög skuli greiða 25% af sínum skattskyldu tekjum í tekjuskatt til ríkissjóðs, og að þessu leyti er frv. gagnlegt. Og eins og ég tók fram, þá verður næsta sporið að vera það, að um leið og sveitarfélögunum eru útvegaðir nýir tekjustofnar, sé hægt að færa niður skattstigana og veltuútsvörin á félögunum til að skapa atvinnurekstrinum betri skilyrði frá skattalegu sjónarmiði, heldur en verið hefur. En um leið og þetta er gert, verðum við að hafa annað í huga, og það er það, að þótt skatturinn til ríkisins sé þannig lækkaður á hinum stærri og tekjuhærri félögum, þá er hann hækkaður verulega á öllum hinum smærri atvinnurekendum.

Í grg., sem fjhn. Nd. barst frá ýmsum samtökum atvinnuveganna, er gerð grein fyrir þessu. Það bréf er undirritað af Páli Þorgeirssyni f.h. Félags ísl. stórkaupmanna, Sveini Valfells f. h. Félags ísl. iðnrekenda, Eggert Jónssyni f.h. Landssambands iðnaðarmanna, Lárusi Péturssyni f.h. Sambands smásöluverzlana, Gunnari Guðjónssyni f.h. Verzlunarráðs Íslands og Björgvin Sigurðssyni f.h. Vinnuveitendasambands Íslands. Í þessu bréfi, sem er dags. 11. marz, segir svo m.a.: „Það leiðir af breytingu þeirri, sem nú er fyrirhugað að gera, að þau félög, sem hafa lágar tekjur, muni nú greiða miklum mun hærri tekjuskatt en áður“. Síðan benda þau á atriði, sem ég mun koma síðar að, hversu þetta bitnar sérstaklega á eldri félögum, sem hafa tiltölulega lágt innborgað stofnfé og hlutafé.

Ég hef aflað mér útreikninga á því, hvernig þessi nýju lög verka, og höfum við hv. þm. N-Ísf. aðeins getið um dæmi í nál., en þessi athugun leiðir til þess, að ef teknar eru skattskyldar tekjur félaga, hvort sem eru hlutafélög eða sameignarfélög, þá leiðir þetta frv. af sér hærra skattgjald til ríkissjóðs heldur en gildandi lög á öllum félögum, sem hafa lægri skattskyldar tekjur,en 145 þús. kr.

Ég skal taka fram, að hér er að sjálfsögðu átt við hluta ríkissjóðs af stríðsgróðaskatti nú og núgildandi tekjuskatt. Hins vegar fer svo skatturinn lækkandi samkvæmt þessu frv. Hann lækkar frá því, sem nú er, á félögum, sem hafa meira en 145 þús. kr. skattskyldar tekjur, og lækkar mjög verulega, þegar tekjurnar eru orðnar nokkuð háar. T.d. þegar félag er með 500 þús. kr. skattskyldar tekjur, þá lækkar samkvæmt frv. skatturinn úr 229.250 kr. niður í 125 þús. kr. Um leið og ég endurtek, að það er nauðsyn að lagfæra og breyta þeim fráleitu skattalögum, sem hér hafa verið um 90% af tekjum yfir 200 þús. kr., þá skulum við líka gera okkur grein fyrir, að það eru fyrst og fremst hin stærri félög með háar tekjur, sem njóta góðs af þessu frv., en ég býst við, að miklu fleiri félög hér á landi hafi tjón af þessari breytingu að því leyti, að ríkisskatturinn á þeim hækkar.

Að þessu leyti er frv. að sjálfsögðu meingallað, og er furðulegt, að þessari lagfæringu á hinum stærri atvinnurekstri þurfi að fylgja svo þungar búsifjar fyrir allan þorra af hinum smærri atvinnufyrirtækjum á landinu.

Eins og þetta frv. hefur verið gyllt í augum manna, bæði þingmanna, atvinnurekenda og alls almennings, af hálfu aðstandenda þess eða flm., þá skyldi maður ætla, að hér væri ríkissjóður að gefa eftir stórkostlega sínar skatttekjur af félögunum, en því fer fjarri, því að samkvæmt grg. frv. og þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, á ríkissjóður alls einskis í að missa, þó að þetta frv. verði að lögum. Það er gert ráð fyrir því, að það, sem linað er á hinum tekjuhærri félögum, verði tekið með hinni hendinni af hinum smærri atvinnurekendum. M.ö.o.: ríkissjóður ætlar engu að sleppa. En að því leyti sem á að verða gróði fyrir atvinnufyrirtækin í heild af þessu, þá á það allt að gerast á kostnað sveitarfélaganna. Þessi vinnubrögð eru með þeim hætti, að ekki verður hjá því komizt að átelja þau og átelja þau harðlega.

Við í minni hl. flytjum nokkrar brtt. við frv. Þær munu ekki vera komnar úr prentun enn, enda er það svo, að allt er þetta síðbúið og prentsmiðjan hefur ekki undan, þannig að þetta mál fái þinglega meðferð, og ég vil út af ummælum hv. frsm. meiri hl. um, að málið hafi hlotið alveg þinglega meðferð, taka fram, að svo er ekki. Það er ekki hægt að segja, að málið fái þinglega meðferð, þegar ekki er einu sinni hægt að fá prentaðar brtt. og nál., áður en mál er tekið til meðferðar. Þessar brtt. eru því enn skriflegar, þar sem þær eru ekki komnar úr prentsmiðjunni, og vildi ég leyfa mér að skýra þær í örfáum orðum.

1. brtt. er við 3. gr. frv., en þar segir svo: „Félög þau, sem um ræðir í 3. gr. a. mega draga frá tekjum sínum útborgaðan arð, þó eigi meira en 8% af innborguðu hlutafé eða stofnfé.“

Nú er það svo í gildandi lögum, að slík félög mega draga frá tekjum sínum 5% af innborguðu hlutafé eða stofnfé. Þessi 5% eru hér hækkuð upp í 8%, og er það mjög eðlilegt, miðað við hækkun vaxta, sem hér hefur orðið hin síðari ár. Hitt er óeðlilegt, að binda þetta nú því skilyrði, sem ekki er í gildandi lögum, að þessi frádráttarhlunnindi koma aðeins til greina, ef arður er útborgaður. Ef fyrirtæki t.d. á byrjunarstigi eða síðar á einhverju sérstöku framkvæmda- eða útþenslustigi telur ekki rétt að borga út arð, heldur vill nota þessa sömu fjárhæð til aukningar fyrirtækisins eða til að gera það samkeppnishæfara, þá nýtur það ekki þessara hlunninda, og verð ég að segja, að ég skil ekki, hvaða rök liggja til þess, að svo er gert. Í því bréfi frá samtökum atvinnuveganna, sem ég gat um, er lögð áherzla á að fá breytingu á þessu. Þar segir: „Samtökin álíta, að þau félög, sem vilja nota arð af eigin fé í félaginu til þess að byggja það upp og treysta fjárhag þess, eigi einnig að hafa heimild til þess að draga 8% arð af hlutafé eða stofnfé, þótt hann sé ekki greiddur út sem útborgaður arður.“ Um þetta fjallar fyrsta till., og vænti ég, að hún fái áheyrn hjá hv. þdm., því að 8% frá 5% er aðeins eðlileg lagfæring vegna vaxtahækkunar, en hitt er óeðlilegt, að skerða þessi hlunnindi frá því, sem verið hefur.

Þá er 2. brtt. Hún er við 4. gr., og hún er til þess að greiða fyrir fjársöfnun til ýmiss konar vísinda, menningar- og mannúðarmála. Þar segir, að fjárhæð, sem skattþegn hafi gefið einhverjum eftirgreindum aðila, þ.e. kirkjum eða félögum og stofnunum, sem vinna að vísindum, menningar- og mannúðarmálum, fari hún ekki fram úr 15% af nettótekjum gefanda, enda hafi þá skattayfirvöldum borizt tilkynningar um gjafirnar frá þeim aðilum, sem þær hafa þegið, megi draga frá skattskyldum tekjum. Hér hafa verið samþykkt á Alþingi ýmis hlunnindi og fríðindi í skattamálum í sambandi við fjársafnanir menningar- og líknarfélaga, fjársafnanir þeirra og happdrætti. Komið hefur fyrir, að með sérstökum lögum væru gjafir manna eða fyrirtækja til slíkra mannúðarmála gerðar skattfrjálsar. Hér er lagt til, að sett sé almenn regla um, að gjafir til slíkra aðila skuli frádráttarbærar, þó aldrei þannig, að gjöfin verði meira en 15% af nettótekjum gefandans.

Þá er næst brtt. varðandi hjónasköttun, og er hún á þá lund, að samanlögðum skattskyldum tekjum hjóna, sem samvistum eru, skuli skipta til helminga og reikna skatt af hvorum helmingi fyrir sig, Þetta mál var rætt nokkuð við 1. umr. þessa máls af hv. þm. V-Sk. og hv. þm. S-Þ. Sú lausn, sem í frv. er gert ráð fyrir á þessu vandamáli, er ekki fullnægjandi. Þar er meginreglan sú, að aðeins þegar kona vinnur fyrir sjálfstæðum tekjum utan heimilis og við annan atvinnurekstur, en maður hennar rekur, skuli dregið frá 50% af hennar tekjum, áður en skattur er á lagður. Núverandi ástand er óviðunandi í þessum efnum og ósanngjarnt. En með þessum till. er sporið ekki stigið nema til hálfs, og er þessi skipan á ýmsa lund gölluð. Það hefði verið eðlilegra, eins og hv. þm. V-Sk. rökstuddi rækilega hér við 1. umr., að láta þær húsmæður, sem vinna störf sín á heimilinu, en ekki utan þess, njóta einnig hér nokkurra fríðinda eða þau heimili. En með þeirri skipan, sem hér er lögð til í frv., er fremur verið að örva og hvetja giftar konur til þess að vinna utan heimilis, í staðinn fyrir að þjóðfélagið ætti, eins og hv. þm. benti á, fremur að stuðla að því gagnstæða. Hér er lagt til, að sú regla verði lögtekin, að tekjum hjóna verði skipt til helminga, og nær þetta þá bæði til þeirra heimila, þar sem bæði hjónin vinna úti fyrir sjálfstæðum tekjum, og þeirra heimila, þar sem konan leggur fram allt sitt starf á heimilinu.

Við flm. ætlum, að í þessu sé fólgin heppilegri regla fyrir þjóðfélagið og miklu réttlátari skipun.

Þá er 4. till. okkar um það að breyta nokkuð skatti og álagningu og útreikningi eignarskattsins, en þvert ofan í yfirlýsingar og gefin fyrirheit um það, að fasteignamatið nýja ætti út af fyrir sig ekki að hafa áhrif til hækkunar á eignarskatti, þá er frv. þannig úr garði gert frá fjmrh., að fasteignamatið er látið hafa þar veruleg áhrif til hækkunar. Fjallar 4. brtt. um að breyta þar nokkuð skattstiganum og auk þess að við útreikning eignarskatts á eignir í árslok 1957 skuli verð fasteigna tekið eftir fasteignamatinu 1942, Þessar till. lágu einnig fyrir í hv. Nd.

Loks er 5. till. um ákvæði til bráðabirgða, sem ég skal aðeins víkja að nánar. Það segir svo í hinu tilvitnaða bréfi samtaka atvinnuveganna, að þessi hækkun á skatti á hinum smærri atvinnurekstri eða tekjulægri mundi bitna alveg sérstaklega á og vera tilfinnanleg fyrir þau félög, sem stofnuð eru fyrir löngu og innborgað stofnfé eða hlutafé er lág upphæð, miðað við nútímaverðgildi krónunnar, vegna þess að þessi 8%, sem draga má frá, eru miðuð við hlutafé eða stofnfé og hjá þessum eldri félögum er oft um mjög lágar stofnfjár- eða hlutafjárupphæðir að ræða. Þessi félög njóta því alls ekki þess hagræðis, sem þeim er ætlað að hafa samkvæmt ákvæðum frv. Hér telja fulltrúar samtaka atvinnuveganna að sé hið mesta ósamræmi og misrétti á ferðinni í skattlagningu einstakra félaga, sem þurfi leiðréttingar, og leggja því til, að hlutafélögum og sameignarfélögum sé heimilt að hækka hluta eða stofnfé, sem greitt er inn fyrir mörgum árum, í samræmi við verðgildisrýrnun krónunnar, frá því að innborgað var og til þessa dags.

Í 5. brtt. okkar um ákvæði til bráðabirgða er reynt að verða við þessum eðlilegu óskum þannig, að til ársloka 1959 sé hlutafélögum og sameignarfélögum heimilt að hækka hlutafé eða stofnfé félagsmanna í samræmi við eignir þeirra 31. des. 1958, þó megi hækkun hlutafjár eða stofnfjár aldrei vera meiri, en sem svarar vísitöluhækkun dagvinnukaups í almennri verkamannavinnu í Reykjavík, frá því er hlutafé eða stofnfé var greitt, o.s.frv., till. nokkru lengri, en þetta er aðalefnið. Enn fremur segir þar, að ný hlutabréf eða stofnfjárbréf, sem út eru gefin fyrir þessari hækkun í réttu hlutfalli við eign hvers hluthafa í félaginu, skuli ekki vera skattskyld sem úthlutun til félagsmanna þrátt fyrir ákvæði d-liðs 7. gr. þessara laga. Og er þetta vegna þess, að hér er aðeins um eðlilega leiðréttingu að ræða vegna breytingar á verðgildi krónunnar.

Ég hef þá rakið nokkur almenn atriði í sambandi við þetta frv., bæði kosti þess og galla, og þær brtt., sem við í minni hl. flytjum hér og eru að mestu samhljóða þeim brtt., sem minni hl. hv. fjhn. Nd. flutti um meðferð málsins þar.

Auk þess, sem ég hef nú getið, eru ákvæði í þessu frv. um skattfrádrátt sjómanna á íslenzkum fiskiskipum, og það er gert ráð fyrir að hækka hann lítils háttar frá því, sem verið hefur, þannig að skattfrádrátturinn nemi 1.350 kr. á mánuði fyrir sjómenn á íslenzkum fiskiskipum.

Hv. frsm. meiri hl. upplýsti hér, að þetta væri samningsmál. Mér er að vísu spurn, hvaða heimild einstakir ráðh. eða hæstv. ríkisstj, hefur til þess að semja, gera bindandi samning við einstök samtök eða félög um breytingar á gildandi lögum og svo sé aðeins komið til Alþ. og sagt: Alþ. verður að samþykkja þetta, því að þetta er bindandi samningur. — Ég ætla, að ríkisstj. og ráðh. séu að fara nokkuð út fyrir sínar heimildir með slíkri samningagerð. Hitt er annað mál, að þessi aukni skattfrádráttur sjómanna er nauðsynlegur og æskilegur, og ég vil aðeins segja út af ummælum hv. frsm. meiri hl., — hann sagði, að sjómenn vildu helzt vera skattfrjálsir, en hverjir vildu það ekki, yfirleitt hvaða stétt vildi ekki vera skattfrjáls? — að þetta mál hefur fleiri hliðar, en það, sem hann ræðir hér um. Þetta eru ekki eingöngu fríðindi til þeirra manna, sem á hverjum tíma að þessu vinna, heldur er hér um þjóðfélagslegt vandamál að ræða til þess að örva menn til starfa á íslenzkum fiskiskipum. Á síðustu vertíð, þ.e.a.s. á síðasta ári, þurfti að fá erlenda fiskimenn nokkuð á annað þúsund, — ég ætla, að það hafi verið milli 12 og 13 hundruð eða þar um bil, — til starfa á íslenzkum fiskiskipum til að geta haldið flotanum úti. Að vísu var það nokkru minna á síðustu vertíð, ég ætla um 6–7 hundruð, en vitanlega ber að því að stefna, að Íslendingar sjálfir fáist til að starfa á sínum fiskiskipum. Og eitt af því, sem samtök og trúnaðarmenn sjómanna telja að væri eitt stærsta sporið í þessa átt, er einmitt það að gera þessi störf skattfrjáls. Hefur verið flutt frv. í hv. Nd. af hv. þm. Snæf. og fleirum um að gera tekjur sjómanna á íslenzkum fiskiskipum algerlega skattfrjálsar. Við í minni hlutanum höfum ekki flutt þá till. hér, vegna þess að aðrir hv. þingmenn, hv. þm. Vestm. og tveir aðrir, hafa flutt till. í þá átt, og mun hann að sjálfsögðu reifa það mál.

Ég mun svo ekki hafa um þetta frv. frekari umræður að sinni, en vænti, að ég hafi skýrt í megindráttum sjónarmið okkar hv. þm. N-Ísf., sem skipum minni hl. fjhn. í þessu máli. En ég vil aðeins taka fram, að það er ákaflega illa farið, þegar inn í bráðnauðsynlega leiðréttingu á skattlagningu félaganna er blandað og tengd við óaðskiljanlega önnur atriði, sem eru skaðleg að ýmsu leyti og óheppileg og spilla fyrir málinu, að um leið og brýna nauðsyn ber til að lækka stórum og breyta núgildandi skattstiga á félögum, sérstaklega á tekjuhærri félögum, þá skuli hæstv. ráðh. og þingmeirihluti þurfa að setja það skilyrði fyrir framgangi slíks máls annars vegar, að sveitarfélögin séu svipt tekjustofnum, sem þau hafa haft, án þess að sjá fyrir nokkrum nýjum, og um leið heimta þá hækkun á öllum þorra hinna smærri atvinnurekenda. Ég segi, að það er ákaflega slæmt, þegar góðum málum er spillt með slíkum vinnubrögðum.