27.05.1958
Efri deild: 107. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson [frh]:

Herra forseti. Ég var nokkuð byrjaður á að tala um það frv., sem hér liggur fyrir, þegar hæstv. forseti d. stöðvaði umr. á síðasta fundi, sem mun hafa verið á laugardaginn fyrir hvítasunnu.

Ég var nú að vísu ekki með skriflega ræðu og er því ekki vel viss á því, hvar ég hafði staðar numið, en ég hafði varið nokkrum orðum í að benda á, að með þessu frv. væri bæjar- og sveitarfélögum enn íþyngt m.a., og þar sem einhver af hv. þm. hafði til þess vísað, að nokkur bót kynni að vera í því, að hér væri í þessari hv. d. flutt þáltill., sem benti í þá átt að afla bæjarfélögunum tekna, þá kvað ég, að ég legði litla trú á, að slíkt mál næði framgangi frekar nú en endranær, og það væri ekki sterkur grundvöllur fyrir þeirri kröfu, þó að hún kæmi frá annarri d. þingsins í formi þál. Er mjög illa farið með þessa tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, hvaða vettlingatökum öll stjórnarvöld virðast á henni taka, því að jafnvel þegar fyrirsvarsmenn — sumir hverjir - bæjar- og sveitarfélaga eru komnir á Alþingi, þá gerast þeir styrktarmenn þess, að í stað þess að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaga á einhvern hátt, séu enn þá þyngdar byrðar þessara sveitarfélaga og þar með byrðar skattborgaranna á þeim stöðum.

Það er vitanlegt, að Samband ísl. sveitarfélaga, sem er þekkt stofnun í þessu landi, en ekki að því skapi mjög áhrifamikil, að því er virðist, hefur andmælt frv. og bréf sambandsins fylgdi með nál. minni hl. fjhn. og fylgir því.

Í sinni glöggu ræðu talaði frsm, minni hl., hv. 6. þm. Reykv. (GTh), mjög skilmerkilega fyrir því og sýndi fram á, hversu þetta frv., till. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hefur á sér, ef svo mætti að orði kveða, yfirskin guðhræðslunnar, þar sem það í vissum atriðum virðist gera tilslakanir, er á hinn bóginn ekki nema yfirskin að því er snertir allan fjölda manna, því að frv. sýnir það bezt sjálft, að þær byrðar, sem létt er af stóratvinnurekstrinum, eiga að leggjast á hina minni skattgreiðendur víðs vegar um land, og verð ég því að skoða þetta sem yfirskin. Og það er merkilegt, að undir þeirri fjármálayfirstjórn, sem við nú höfum hér í landi, er einmitt hafizt handa um að létta sköttum af stóratvinnurekstrinum, þegar það er vitað, að þeir aðilar, sem stjórnin leggur sérstaka rækt við hvað snertir að létta undir skattgreiðslur þeirra, þeir aðilar, sem þar eru starfandi, eru svo mjög komnir út í að mynda stórgróðafyrirtæki á ýmsum sviðum. Þá vaknar hæstv. fjmrh. til vitundar um, að það þurfi að létta sköttum af þessum fyrirtækjum, og lætur sína menn koma með frv. í því efni og um leið til þess að þyngja á öðrum mönnum, sem ekki eru við þessi stórfyrirtæki sambandsins — Sambands ísl. samvinnufélaga og starfsmanna þess — riðnir. Smáfyrirtækjum annarra, er íþyngt til þess að létta á vinum fjmrh.

Þetta frv. ber þess ljósan vott, hve hlutdrægnin er enn þá ríkjandi í till. þeim til skattaálagningar, sem hæstv. fjmrh. gengst fyrir, að hann hlífist ekki við að láta það út ganga hreint og beint á prenti, að hann vilji létta á stórfyrirtækjum og þyngja á þeim smærri. Þessi þjónusta hæstv. ráðh. við það auðvald og þá auðhringa, sem eru skyldir Sambandinu eða Sambandshagsmununum, kom bezt fram í því, þegar hér var stofnað fyrirtæki, sem kennt er við Coca-cola, á árunum, að þá hefði eftir öllum venjulegum reglum ekki verið unnt að koma því á stofn, en hæstv. fjmrh. barg því þá, að það, sem bannað var öðrum, var þeim leyft, en þar er forstjóri SÍS eigandi, og áfram er haldið á þeirri braut, líka með þessu frv.

Hv. frsm. minni hl. benti mjög rækilega á það, að ríkinu er ekki ætlað að missa neins í við þessa minnkun á sköttum, og til þess að það mark náist, að ríkið missi ekki neins í, er farin sú leið að þyngja á hinum smærri skattgreiðendum. Þó eru til í þessu frv, önnur atriði, sem eru óskyld þessum skattabreytingum og eiga að vera svona eins og til þess að sykra þetta í munni einhvers hluta af almenningi. Það er t.d. skattalækkunin á sjómönnum, sem ég held að hv. 1. þm. Eyf. hafi lýst hér yfir að væri samkv. samningi við Alþýðusambandið eða önnur öfl, sem standa utan þessara veggja. Það er að vísu óviðkunnanlegt, að því sé opinberlega yfir lýst, þegar svona löggjöf er sett, að viss ákvæði í lögunum séu sett af ríkisstj. samkvæmt samningi við stofnanir utan þings og hópa manna utan þings, en framan í það er manni nú sýnt með þessum ákvæðum sumum hverjum. Þó er það svo, að þessi lækkun á skattskyldu sjómanna er að því er virðist meira til að sýnast en vera, og vinnur alls ekki bug á því þjóðfélagsvandamáli, sem fyrir liggur, að því er snertir það að útvega næga sjómenn á báta og togara. Þetta vandamál er orðið öllum kunnugt og ekki síður fyrir það, þegar við ár eftir ár verðum að flytja inn mörg hundruð af útlendingum til þess að stunda sjóinn, bæði á togurum og vélbátum. Smávegis skattalækkun á kaupi sjómanna eða tekjum þeirra er næsta þýðingarlítið spor til þess að gera það eftirsóknarvert og miklu eftirsóknarverðara, en það nú er fyrir menn að stunda sjómennsku og vinna fyrir kaupi á sjó yfir höfuð. Það duga ekki þessi vettlingatök, sem hæstv. ríkisstj. er að burðast við hér með þingstyrk sinna flokksmanna að koma í gegn. Það verður næsta haldlítið til þess að ríða baggamuninn, þannig að vandamálið leysist á eðlilegan hátt og menn fari að hafa meiri áhuga fyrir því eða svo mikinn áhuga fyrir því að vinna við sjóinn — Íslendingar — að það þurfi ekki að grípa til innflutnings útlendinga.

Við umr. í Nd. kom líka í ljós af hálfu flokksmanna minna, að þessi litla viðleitni í frv. mundi ná skammt til þess að ráða bót á þessu þjóðfélagsvandamáli, þó að það kunni að vera fyrir einstaka menn og þá kannske fyrir Alþýðusambandið, ef það hefur sett þessa kröfu upp, að það yrði lækkaður skattur á sjómönnum, og stjórnin sé að leitast við að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart því. Og það er víst líka sá hópur manna í landinu, sem hæstv. ríkisstj. virðist vilja virða sem þegna, hinir allir, sá mikli fjöldi, sem þar er utan við, nýtur lítils tillits frá hálfu stjórnarvaldanna og er mergsoginn á öllum sviðum. En þetta er þó svo alvarlegt mál, hvað menn eru tregir til að stunda sjómennskuna hér á landi og fiskveiðarnar einkum, að því verður að gefa alvarlegan gaum af hálfu þeirra, sem stjórna þessu landi, að svo miklu leyti sem þeir ráða við, og það hefur verið á undanförnum mánuðum viða rætt og mikið rætt, að það kröftugasta átak, sem í þessu efni væri hægt að gera og fært að gera og yrði að gera, væri að losa undan skattskyldu kaupgreiðslur til skipverja á fiskiskipum alveg til þess að gera það verulega eftirsóknarvert að ráða síg á fiskiskip, bæði á smærri og stærri skip. Í Nd. mun hafa verið flutt till. af hálfu okkar flokks í þessu efni, ekki vegna þess, að við séum bundnir samningum eða loforðum við neinn einstakan hóp manna í þessu skyni, heldur vegna þess, að Sjálfstfl. viðurkennir það, sem hv. 6, þm. Reykv. í sinni ágætu ræðu um daginn, taldi vera þjóðfélagslegt vandamál. Lausnina á því teljum við nauðsynlega, sjálfstæðismenn alls staðar yfir höfuð, og viljum stiga djarft spor í því efni að létta skattgreiðslum af þeim, sem sjóinn stunda, og bæta þeim á þann hátt þeirra aukna erfiði, auknu hættur og langar fjarvistir frá heimili sínu, sem aðrir atvinnuvegir heimta ekki. Við leggjum því til, eins og í Nd, var lagt til, í brtt. 554, sem flutt er af mér, hv. þm. V-Sk. og hv. þm. N-Ísf., að kaup skipverja, sem lögskráðir eru á íslenzk fiskiskip, þar með talin sel- og hvalveiðiskip, yfir lengri eða skemmri tíma á skattárinu, sé undanþegið tekjuskatti og gildi það jafnt, hvort sem þeir taka hlut í afla skipsins eða séu ráðnir upp á beinar peningagreiðslur.

Það ber öllum saman um, að niðurgreiðslurnar á kostnaði við útgerðina séu orðnar lítt bærilegar að þyngslum til, og engir hafa talað hærra um það en þeir, sem nú stjórna þessu landi. Nú veit maður það, að niðurgreiðslurnar byggjast á þeim mikla tilkostnaði, sem útgerðin hefur, og væri hann enn hækkaður með hækkuðu kaupi til sjómanna, þá mundi þörf fyrir niðurgreiðslur ekki minnka, heldur aukast, og sjómennirnir yrðu að fórna, eins og hingað til hefur verið, hér um bil öllu sínu kaupi, ef það væri komið upp í háar summur, í útsvör og ríkiskassann. Er því bezta leiðin til úrbóta fyrir þennan hóp manna að veita þeim svo ríflega skattívilnun, að þeir þurfi ekki, eins og hingað til hefur verið, beinlínis að óttast það að fá miklar tekjur, vegna þess að við það hækki skattarnir á þeim — tekjuskattarnir — svo óhemjulega, að það eru dæmi þess, að sumir þessara manna hafa hreint og beint gengið af skipunum vissan tíma ársins til þess að minnka tekjur sínar. Og hvað það þýðir, að duglegir sjómenn og forustumenn á því sviði séu svo hrelldir með tekjuskattskröfum, að þeir hreint og beint hætti við störf sín, — hvað það þýðir fyrir framleiðsluna og afkomu atvinnuvegarins geta allir skilið, því að það eru vitaskuld færustu mennirnir, sem mest afla, og við það, að þeir hrökklist í land, missir atvinnuvegurinn miklu meira, en höfðatala þeirra segir til um.

Ég býst við, að þessi krafa, sem nú er komin hátt á loft og haldið er uppi af mörgum talsmönnum í þessu landi, talsmönnum sjómanna og talsmönnum þess, að atvinnuvegurinn til sjávarins gangi ótruflaður, — ég býst við, að þessi krafa endi á því, að löggjafarþingið verði að sinna henni. Og þó að hv. Ed. Alþ. í þetta sinn kunni ekki að sjá sér fært að greiða atkv. með brtt. okkar þrímenninganna, sem er á þskj. 654, þá er merkið ekki fyrir það fallið.

Á aðra brtt. vildi ég aðeins minnast. Hún er á þskj. 552 og er flutt af hv. þm. V-Sk., og hef ég heyrt málflutning hans og málflutning mótherja hans, hv. þm. S-Þ., og verð að segja, að þrátt fyrir hinar lærðu og ýtarlegu ræður, sem hv. þm. S-Þ, hefur haldið til þess að kveða niður þá kröfu, sem hv. þm. V-Sk, hefur fært hér upp fyrir húsmæður þessa lands, þá hef ég ekki sannfærzt um, að málstaður hv. þm. V-Sk. sé rangur. Hv. þm. S-Þ. hefur í andmælum sínum gegn þessari till. m.a. minnzt á það, að húsmæðurnar á heimilunum, sem ekki gengju út á reita eða annað til að fá borgaða atvinnu, ynnu ekki fyrir, — eða mér hefur skilizt það, að hann vildi láta þær koma í þann flokk, að þær ynnu ekki fyrir því, sem skattlagt yrði af skattayfirvöldunum. Störf húsmóðurinnar á heimilinu, svo nauðsynleg sem þau eru, væru ekki þess eðlis, að skattayfirvöldin gætu náð sér þar niðri á þeim, en á hinn bóginn, ef þær færu í vinnu utanhúss, þá ynnu þær fyrir tekjum, sem skattlagðar yrðu, og finnst mér það vera meginuppistaðan í málflutningi hv. þm. S-Þ. En húsmóðirin á heimilinu vinnur óbeinlínis að því að ala upp handa ríkinu skattstofna, sem eru engu þýðingarminni, en kaupið á reitunum eða kaupið í frystihúsunum, — eða guð veit hvað það er, — eða búðunum eða sjoppunum, sem unnið er fyrir. Húsmóðirin á heimilinu hefur fyrst og fremst það hlutverk að ala upp kynslóðina, sem á að taka við á eftir okkur, og í þeim mikla hópi verða margir dýrmætir kraftar, starfandi og góðir skattþegnar sinnar fósturjarðar, þegar fram í sækir. Þegar litið er á málið frá þessu sjónarmiði, jafnvel þegar bara er hugsað um það, sem skattkrefjandi ríkisins getur gert sér að mat, þá finnst mér, að hv. þm. S-Þ. ætti að kannast við það, að húsmóðurstarfið á heimilunum og uppeldisstarf hennar og aðhlynningin að ungviðinu er sízt af öllu þýðingarminni, en vinnan í sjoppunum eða á reitunum eða frystihúsunum, á ökrunum eða túnunum eða hvar sem sú vinna á sér stað. Fyrir utan þetta er svo það almenna heilsusamlega sjónarmið þjóðarinnar um hið þýðingarmikla starf húsmóðurinnar í landinu. Það er sannarlega ekki um of ýtandi undir það, að húsmæður sleppi sínum heimilisstörfum til að vinna sér inn kaup utanhúss, því að þær hljóta að sleppa niður einhverju af skyldustörfum gagnvart uppvaxandi kynslóð um það sama leyti, þær geta ekki annað. Það getur ekki farið saman að stunda sitt heimili myrkranna á milli og vera verndarandi hinnar uppvaxandi kynslóðar og vakandi yfir heill húsbónda og heimilis jafnt og þétt og leggja alla sína krafta þar fram, — það getur ekki farið saman við það að vinna öllum stundum utanhúss og hafa heimilisverkin í hjáverkum.

Ég vona því, að með tilliti til hinna mörgu ágætu húsmæðra í þessu landi, sem bæði nú og í framtíðinni sinna sínum heimilisstörfum og hafa enga hjáguði í þeim efnum til að ala önn fyrir heill heimilisins, — með tilliti til þess mikilvæga starfs og með tilliti til þeirra, sem þess njóta nú, sem er hin uppvaxandi kynslóð, og með tilliti til þess, að þeir verða ríkinu góðir skattgjafar á sínum tíma, þá geti jafnvel hv. þm. S-Þ., sá sanngjarni maður, fallizt á, að breytingartillaga hv. þm. V-Sk. á þskj. 552 á við mjög sterk rök að styðjast. Ekki fyrir það, að ég vilji gera lítið úr rökum hins ágæta þm. S-Þ., heldur vegna þess, að ég þykist vita, að hann hafi sett markið við nokkuð önnur og þrengri sjónarmið en rétt er að gera í þessu efni, þegar störf íslenzkra húsmæðra yfir höfuð koma til umr.

Nú eru komnar út prentaðar þær brtt., sem ekki lágu fyrir prentaðar, þegar ég var að byrja þessa ræðu, brtt. hv. minni hl. Þær eru að vísu ekki mjög margar, en þær eru allar mjög þýðingarmiklar, þær eru komnar hér á þskj. 561, og veit ég, að hv. 6. þm. Reykv. hefur um þær rætt og óþarfi fyrir mig að endurtaka nokkuð af hans ræðu. Ég tel þær allar til stórra bóta á þessu máli og vil óska þess fyrir mitt leyti, að þær nái framgangi, eins og aðrar till., sem miða að því að bæta frv., og vil benda á, að það er næsta hættulítið fyrir þessa hv. deild að taka einhverjum sönsum á einhverju sviði og áhættulítið um það, að málið stöðvist nokkuð fyrir það, vegna þess að við höfum virka daga núna komandi og Nd. mundi ekki þurfa að tefja þetta mál, enda ekki til þess ætlazt af neinum, að það sé gert, heldur aðeins farið fram á það af okkur, sem erum í minni hl. hér á þingi, að tekið sé tillit til sanngjarnra breytinga til að bæta frv. stjórnarinnar eða hennar sendimanna, sem er að vísu á yfirborðinu til bóta á einu takmörkuðu sviði eða fleirum, en er meingallað að mörgu leyti og þarf mikillar lagfæringar við.

Út af skattgreiðslu sjómanna vil ég sérstaklega leggja áherzlu á það, að við verðum að gera okkur ljóst, að þegar farið er að tala um að ívilna sjómönnum í skatti, þá er það gert til að gera tilraun til að leysa þetta stóra þjóðfélagslega vandamál, sem er að verða hvað snertir framleiðslu aðalgjaldeyrisvörunnar, sem landið hefur á boðstólum og þarf að hafa, og það verður að taka dálítið djarft spor til þess að reyna að kippa í lag með áhugann á fiskimannsstörfunum frá því, sem verið hefur að undanförnu. Við getum ef til vill sætt okkur við það í framtíðinni, þó að enginn íslenzkur fjósamaður sé til á þessu landi, heldur einungis danskir eða útlendir fóðurmeistarar o.s.frv., það er ekki svo geysilega há tala, sem þar kemur til greina. En þegar um er að ræða þann atvinnuveginn, sem er undirstaða þjóðarbúsins að mestu leyti og stendur undir svo að segja allri útlendri fjáröflun, þá er ekki hægt að sætta sig við það, að við eigum að búa við hjálp útlendinga í framtíðinni, hjálp, sem við búumst við að geti tekið enda af öðrum ástæðum, þegar minnst vonum varir. Það eru aðallega, eins og menn vita, Færeyingar, sem hafa á þann hátt hlaupið undir bagga með Íslendingum, að þeir hafa léð sinn mannafla hingað til þess að vinna á íslenzkum skipum. En þeir eru í örum vexti með uppbyggingu síns eigin flota, og má búast við, að það líði ekki langur tími, þangað til þeir þurfa allra sinna manna við, og við þurfum þess vegna að vera við því búnir í tíma og vinna af alefli að því, að straumhvörf verði hjá íslenzkum sjómönnum með áhuga þeirra á að fara á fiskiskipin hér heima og vinna að öflun sjávarfanga.

Ég er þess fullviss, að áreynslu minnsta skrefið í þessu efni er að veita sjómönnunum skattfrelsi, og ég held eftir viðræður við marga menn, sem eru nákunnugir þessum málum, að það út af fyrir sig mundi duga til þess að festa íslenzka sjómenn við íslenzk skip.