20.02.1958
Efri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Um efni þessa frv., sem fyrir liggur, tel ég nægja að vísa til framsöguræðu hæstv. fjmrh, við 1. umr. málsins svo og til grg. þeirrar, er frv. fylgir, Tel ég, að þannig sé öllum hv. þm. d. fullljóst, hvað frv. hefur inni að halda.

Fjhn. d. hefur athugað þetta mál og rætt það á tveimur fundum. Á seinni fundinum voru tveir hv. nm. fjarverandi, þ.e.a.s. fulltrúar Sjálfstfl., en annar þeirra, hv. 6. þm. Reykv. (GTh), hafði mælzt til bæði við mig og hlutaðeigandi þm., að hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) mætti fyrir sína hönd á nefndarfundinum, og skrifar hann því undir nál.

Nefndin var öll á einu máli um það að mæla með frv. með eða án breyt., en hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) hefur þó skrifað undir nál. með fyrirvara, og er sjálfsagt hans fyrirvari kominn fram í brtt., sem hann flytur á þskj. 247 og inniheldur þá eina breytingu, að í þá nefnd, sem frv. gerir ráð fyrir, kjósi fjvn. 2 menn og ráðuneytisstjórinn í fjmrn. sé þar sjálfkjörinn, en fulltrúi stj. í heild falli niður.

Það var kunnugt um þetta sjónarmið, þegar frv. var vísað til n., því að hv. þm. V-Sk. (JK) hafði hreyft því við 1. umr., að n. tæki þetta til athugunar, og það gerði hún lítillega á fyrri fundinum.

Það hafa komið fyrr fram tillögur svipaðs efnis og í þessu frv. felast og verið stungið upp á ýmsum leiðum hvað það snertar. Það var fyrir æði mörgum árum borið fram stjfrv. um ráðsmann ríkisins. Það var hv. þm. Vestm. (JJós), sem þá var fjmrh. og bar það frv. fram. Ef ég man rétt, var svo ákveðið í því frv., að þessi ráðsmaður ríkisins, sem átti að hafa svipað starf og hér er gert ráð fyrir að nefnd hafi, væri skipaður af hlutaðeigandi ráðherra. (Gripið fram í: Forseta.) Ja, það er nú sama, forseta Íslands, — já, það er sama, — eftir tillögum hlutaðeigandi ráðherra, því að forsetinn getur ekki skipað í embætti öðruvísi, en eftir tillögum ráðherra.

Síðan liðu nokkur ár, og þá bar hv. þáverandi þm. Barð., Gísli Jónsson, fram frv. um svipað efni, en fór þó aðra leið, því að hann ætlaðist til, að fjvn. kysi þennan mann, en hann væri þó fastur starfsmaður.

Þannig hafa þessi tvö sjónarmið komið fram, annars vegar að fjvn. hefði þetta algerlega með höndum og hins vegar að fulltrúi ríkisstj. gerði það. — Í frv. er hér farið bil beggja og ætlazt til, að fastur embættismaður sé í nefndinni stöðu sinnar vegna, sem er ráðuneytisstjórinn í fjmrn., og svo að ríkisstj. öll skipi annan mann, en þriðja manninn kjósi fjvn.

Ég held, að það sé skoðun meiri hl. n., að þessi tilhögun sé einna heppilegust, að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið eigi þarna hlut að í sameiningu. Nú mætti segja, að sú regla væri ekki beinlínis brotin, þó að till. hv. 2. þm. Árn. yrði samþ., en ég býst við, að meiri hl. d. finnist þó ekki ástæða til að samþ. hana, sökum þess að fjvn. hefur undir öllum kringumstæðum mikinn aðgang að því að fylgjast með í þessum málum og hafa afskipti af þeim. Ef fjvn. finnst stofnað til starfs að tilefnislausu, getur hún miðað fjárveitingu til hlutaðeigandi ríkisstofnunar í samræmi við það og neitað að viðurkenna slíkt starf. Frá því sjónarmiði virðist það vera óþarft, að fjvn. hafi tvo fulltrúa í nefndinni.

Hvað snertir það, sem hv. þm. V-Sk. minntist hér á, að með þessu móti, sem hér er farið fram á í frv., hefði stjórnarandstaðan ekki fulltrúa, þá er það að vísu rétt, að líkur eru nú til, að hún hafi ekki fulltrúa í þessari nefnd, en á hinn bóginn mundi sú stjórnarandstaða, sem nokkurs er megnug, t.d. sem telur einn þriðja fulltrúa í Alþ., hafa ýmis tækifæri til þess að hafa afskipti af þessum málum og gera sínar aths., bæði í fjvn., eins og ég þegar hef minnzt á, og auk þess að stjórnarandstaða, sem teldi einn þriðja alþm., fær einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna, og vitanlega hafa þeir aðgang að öllum skjölum og skilríkjum viðvíkjandi fjárreiður ríkisins og geta gert sínar aths.

Mér hefur að vísu fundizt yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna ekki fylgja eftir sínum aths. nægilega, og það efni hefur oft verið rætt hér í hv. deild í sambandi við afgreiðslu ríkisreikningsins, þar sem þeir vísa hvað eftir annað málum, sem þeir hafa gert aths. við, ótiltekið til aðgerða Alþ. án þess að gera nokkrar till. um það, hvað eigi að gera. En þetta er atriði, sem ég álit að í Alþ. eigi að laga og krefjast þess af yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna, að þeir geri beinlínis tillögur um það, hvað skuli gera út af þeim aths., sem þeir gera, — öllum þeirra aths.

En hvað sem um þetta er og ekki sízt ef yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna ynnu starfið eins og ég álít að þeir eigi að vinna það, þá hefur auðvitað stjórnarandstaðan alveg fullkomin tök á því að fylgjast með og gera sínar aths. að því er starfrækslu ríkisins snertir, en hitt hlýtur alltaf að vera, að yfirráðin séu hjá meiri hl. Alþ. og þeirri ríkisstj., sem hann skipar eða velur.

Ég geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. Árn. tali fyrir sinni till., og ég skal ekki ræða hana frekar eða þetta mál nú, fyrr en þá, ef mér svo sýnist, þegar hann hefur talað fyrir sínu máli. En ég vék aðeins að þessu vegna þess, að þeim tilmælum var beinlínis beint til n., jafnhliða því sem málinu var til hennar vísað, að hún tæki þetta atriði til athugunar.

Það er sem sagt tillaga n., sem ég gat um, að frv. verði samþ., — vitanlega leggur hv. 2. þm. Árn. til, að það verði samþ. með þeirri breyt., sem hann hefur gert till. um. En ég fullyrði ekki um það, hvort hans fyrirvari gildir það, að fylgi hans við frv. sé bundið því skilyrði, að sú till. verði samþ. Ég held, að það sé nú ekki.