20.02.1958
Efri deild: 54. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja nema örfá orð, sökum þess að í þessari síðustu ræðu hv. 2. þm. Árn. kom ekki neitt nýtt fram nema atriði, sem hann benti á, og sú staðreynd, sem hann benti á, er náttúrlega rétt, að það er sá munur á starfi yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna og starfi þessarar n., ef hún verður sett á laggirnar, að þessi n. á að segja til fyrir fram um það, hvort hún vill fallast á, að nýtt starf sé stofnað eða ný stofnun, en yfirskoðunarmennirnir segja til um það eftir á, hvort heimild hafi verið til þess og hvort þeir vilja láta samþykkja það í ríkisreikningunum athugasemdalaust. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En mundi nú ekki verða töluverður aðstöðumunur fyrir yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna, ef þessi n. kæmist á? Nú vill ráðh. stofna embætti, og n. leggur á móti því, að það sé stofnað. Ráðherrann gerir það samt. Ég býst við, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna stæðu betur að vígi að vita þetta og jafnvel að leggja til í fyrsta sinn í þingsögunni, að komið væri fram ábyrgð á hendur hlutaðeigandi ráðherra, ef hann gerði slíkt þvert á móti till. þessarar n. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna eiga að fylgjast með ríkisrekstrinum, og þó að þeirra athugasemdir komi ekki fram fyrr, en eftir á fyrir Alþingi og það löngu eftir á, þá vitanlega gera þeir sínar fyrirspurnir og hafa afskipti nokkur, jafnóðum og hlutirnir eru að gerast, eða þannig hygg ég að þeir starfi. Og það sést á fylgiskjölum með ríkisreikningunum, að þeir hafa skrifað bréf til ýmissa stofnana - eða til ráðuneytis og ráðuneyti til stofnana — löngu áður, en ríkisreikningurinn er lagður fram. Ég held þess vegna, að þessi n. hafi mikla þýðingu, ekki hvað sízt til þess að undirbyggja starf yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna.

Svo vil ég að endingu taka það fram, sem ég hef oft gert í þessari hv. d. undir meðferð ríkisreikninganna, að ég álít, að yfirskoðunarmennirnir geri ekki fyllilega skyldu sína, þegar þeir einmitt um stærstu atriðin, þar sem þeir hafa mest við að athuga, segja bara: Svörin eru ekki fullnægjandi frá hendi hlutaðeigandi ráðherra og vísast til aðgerða Alþingis, — án þess að nokkur till. liggi þar fyrir frá þeim um, hvað Alþ. eigi að gera. Þeir að mér finnst eiga eins og aðrir endurskoðendur allra reikninga að úrskurða beint um það, hvað gera skuli. Nú eyðir t.d. ríkisstofnun langt fram yfir það, sem hún hefur leyfi til, og þá gæti beint komið til mála, að þeir gerðu till. um það, að innheimta bæri upphæðina hjá forstöðumanni þessarar ríkisstofnunar, o.s.frv. Ég álít, að það væri mjög nauðsynlegt í þessu sambandi, að þessu yrði breytt, einmitt endurskoðun ríkisreikninganna, þannig, að það lægju frammi ákveðnar till. út af hverri einustu athugasemd, sem þeir gera.