03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Ed. Ég vil segja frá efni þess með fáeinum orðum.

Vitaskuld er það ákaflega þýðingarmikið, að hinn beini starfrækslukostnaður ríkisins geti orðið sem minnstur. Þótt meginhluti ríkisútgjaldanna sé lögboðin útgjöld, þá er hinn beini starfrækslukostnaður ævinlega mjög verulegur þáttur í ríkisbúskapnum og því mikið undir þessu komið.

Það er sumpart lögboðið, hversu þessi kostnaður skuli vera, en vitaskuld er ómögulegt að setja lagaákvæði um alla þætti þessarar starfrækslu, og því verður það ætið nokkuð mikið komið undir framkvæmdastjórninni, framkvæmdavaldinu, hversu þessi kostnaður verður hár eða hvernig á þessum málum er haldið.

Menn hafa af og til kosið sérstakar nefndir til þess að kynna sér, hvernig ástatt væri í þessum efnum, og oftast hafa þær verið kallaðar sparnaðarnefndir. Þessar nefndir hafa skoðað ýmsa þætti þessara mála og ætíð gert álit og einhverjar uppástungur. En það mun vera nær alltaf, að þessar n. hafa látið þau fororð fylgja sínum bendingum, að þær hafi ekki haft aðstöðu til þess að kynna sér þessi mál eins og skyldi, þar sem þær hafi starfað einvörðungu tiltölulega stuttan tíma, og hafi því ekki tök á að fullyrða neitt um það, hvort ein eða önnur ráðstöfun eigi að koma til greina. Það hafa því meira orðið bendingar um atriði, sem þurfi nánari íhugunar við, heldur en beinar till., sem nefndirnar hafa yfir höfuð treyst sér til þess að gera. Þær hafa t.d. ekki treyst sér til þess að fullyrða, að í þessari eða hinni stofnuninni væri hæfilega margt starfslið miðað við verkefnin og annað þvílíkt, sem er meginatriði í þessum málum. Samt sem áður er ég þeirrar skoðunar, að störf þessara sparnaðarnefnda hafi gert gagn, því að þær benda oft á atriði, sem nauðsynlegt er að íhuga, og venjulega verða störf þeirra til þess, að menn litast betur um í starfrækslunni, en ella mundi vera, þannig að það er vafalaust nauðsynlegt, að af og til komi til greina slíkar sparnaðarnefndir og fari fram slíkar sérstakar athuganir.

Uppástungur hafa stundum komið fram um að veita aðhald um útþenslu skrifstofa og stofnana með því að setja á fót sérstakt ráðsmannsembætti til eftirlits í því skyni, — setja upp ráðsmann ríkisins. En úr því hefur ekki orðið, og er það vegna þess, að margir hafa óttazt, að fastskipaður embættismaður í því starfi mundi ekki, þegar til lengdar lætur, verða það aðhald, sem sumir hafa vonazt eftir. Þess vegna hefur ekki verið sett löggjöf um að setja á fót slíkt fast ráðsmannsembætti.

Nú er hér till. um að fara í þessu efni aðra leið, eins konar millileið á milli þess að hafa aðeins sparnaðarnefndir við og við og svo aftur hins að hafa fastan embættismann, sem eigi að skoða þessi mál að staðaldri, og sú leið er fólgin í því að setja á fót nefnd, sem sé skipuð einum embættismanni og tveimur öðrum mönnum, sem tilnefndir væru þá til stutts tíma í senn, ásamt honum, annar af ríkisstj. í heild og hinn af fjárveitingavaldinu, fjvn. Alþingis, og þessari n. væri ætlað, eins og segir í frv., að „gera tillögur um hagfelldari vinnubrögð í ríkisstofnunum til að spara mannahald og annan rekstrarkostnað“ — og enn fremur að athuga og gera álit um þær óskir, sem til hennar mundu koma um að setja stofnanir á fót eða fjölga starfsfólki eða leggja í annan aukinn kostnað í ríkisstarfrækslunni. Og til þess að tryggja það, að n. fái til meðferðar öll slík mál, þá eru þau ákvæði, að það megi ekki fjölga starfsliði við ríkisstofnanir eða annars staðar í ríkisrekstrinum, nema hafi verið leitað tillagna þessara trúnaðarmanna, enn fremur að skipun eða ráðning í störf sé ekki gild, nema málin hafi farið rétta boðleið og tillögur eða umsögn borizt um þau frá þessum trúnaðarmönnum. Loks er ákveðið, að ef ráðh. telur sér ekki rétt að fara eftir bendingum n., þá geti hann að vísu gert þá ráðstöfun, sem um er að ræða, t.d. ráðið mann eða fjölgað mönnum í stofnun, en þá sé ráðh. skylt að senda fjvn. Alþingis rökstudda grg, um það, hvers vegna hann taldi sér ekki fært að fara eftir áliti trúnaðarmannanna. Á sama hátt er gert ráð fyrir, að þessir trúnaðarmenn skuli fjalla um till., sem fram koma um að auka kostnað að öðru leyti í ríkisstarfrækslunni, svo sem t.d. aukningu húsnæðis, bifreiðakosts eða aðra slíka þýðingarmikla liði.

Með þessu er hugsunin sú að veita aukið aðhald í þessum efnum frá því, sem verið hefur, og er það skoðun þeirra, sem standa að þessu frv., að það ætti að mega gera ráð fyrir því, að þetta gæti orðið að verulegu liði til þess að skapa meiri festu og meira aðhald í þessum efnum, en verið hefur. Það er sjálfsagt nokkurt álitamál, hvernig skuli velja þá trúnaðarmenn, sem eiga að hafa þetta starf með höndum, en hér er sem sagt stungið upp á, að það sé einn ráðuneytisstjórinn, úr fjmrn., og svo annar tilnefndur af ríkisstj. í heild og sá þriðji kosinn af fjvn. Alþ., og er þetta hugsað þannig, að þá geti saman farið hjá trúnaðarmönnun um nákvæm þekking á ríkisstarfrækslunni, sem ætti að vera hjá ráðuneytisstjóranum fyrst og fremst, en jafnframt séu með honum aðrir, sem eru sérstaklega tilnefndir fyrir styttri tímabil í senn og ættu að tryggja það, að þarna komi fleiri sjónarmið til greina, en embættismannsins eins, þegar dæmt er um þau erindi um útfærslu starfrækslunnar, sem trúnaðarmönnunum berast.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til fjhn. d. að lokinni þessari umr.