03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gæti gefið tilefni til mikillar umræðu og lýsinga á ýmsu því, sem gerzt hefur á undanförnum árum. Að þessu sinni skal ég þó ekki fara langt út í þær sakir, því að til þess mun gefast frekara tilefni síðar. En það er kunnugt mál, að það hafa hvað eftir annað verið fluttar till. um að skapa aðhald í sambandi við fjármál ríkisins, og eins og síðasti ræðumaður vék að, þá var á sínum tíma flutt frv. af þáverandi fjmrh., Jóhanni Jósefssyni, um ráðsmann ríkisins. Síðar voru hvað eftir annað fluttar tillögur af hálfu hv. fyrrv. þm. Barð., sem lengi var form, fjvn., um að gefa fjvn. tækifæri til þess að fylgjast með fjárreiðum ríkisins, betur á milli þinga en verið hefur. Allt þetta hefur verið fellt eða komið í veg fyrir, að það væri samþykkt, og fyrst og fremst af hálfu hæstv. fjmrh. og framsóknarmanna.

Það frv., sem hér liggur fyrir, sýnir það, sem ekkert er undarlegt, að hæstv. fjmrh. er farinn að finna, að honum er stundum nokkuð heitt, bæði hér á þingi og annars staðar, vegna þeirra óvinsælda, sem farið er að skapa meðal landsfólksins, allt það hóflausa sukk í ríkisrekstrinum, sem hefur farið sívaxandi undir hans stjórn og þó aldrei eins og núna síðustu tvö árin. Þess vegna virðist mér, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé sprottið af því, að hæstv. ráðh. vill fá setta þrjá af sínum stuðningsmönnum til þess að dreifa á þá ábyrgðinni af því, hvað hér muni gerast, því að eins og síðasti ræðumaður vék að, þá er það gefið, að eftir þessu frv. mundu allir nm. verða stuðningsmenn verandi stjórnar, eins og nú er þeirrar, sem er, og hvenær sem skipt væri um, þeirrar stjórnar, sem við völd væri. Að vísu má segja, að það sé ekki alveg öruggt, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. sé alltaf fylgismaður stjórnarinnar, þó að hann sé það nú, en hitt er nokkurn veginn víst, að sá maður, sem skipa ætti af verandi ríkisstj., og sá, sem skipaður yrði af meiri hl. fjvn., eru fylgismenn þeirrar stjórnar, sem á hverjum tíma er.

Ég stóð nú upp aðallega til þess að geta þess, að ég hafði hugsað mér í byrjun þessa þings að flytja frv. með allt öðrum hætti um eftirlit með fjárreiðum ríkisins, og það frv. kemur áður, en langt líður. En að það er ekki komið fram fyrir löngu, stafar af því, að ég og aðrir, sem að því standa, höfum verið að fá upplýsingar um það, hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum, og þær upplýsingar eru nú að mestu komnar, eftir því sem við höfum beðið um. En eins og sakirnar standa í þessum málum og staðið hafa á undanförnum árum, þá hefur raunar fyrir löngu verið full ástæða til þess að gera það upp og þá aldrei eins og nú á þessum síðustu tímum, hvort það á að vera svo áfram í framkvæmdinni, að fjárveitingavaldið sé hjá Alþ. eða hjá ríkisstj. Eins og menn vita, þá er fjárveitingavaldið skv. stjórnarskránni hjá Alþ., og það er það að formi til, en það hefur að undanförnu verið og er ekki í rauninni nema að forminu til, vegna þess að fjmrh. og ríkisstj. hafa leyft sér að víkja svo gífurlega frá ákvæðum fjárlaga og annarra fyrirmæla Alþ., að í raun og veru er það ekki nema á sumum sviðum, sem ákvörðun Alþ. er fylgt. Þess vegna ber mikla nauðsyn til þess, að það sé úr því skorið, betur en verið hefur, að fjárveitingavaldið er hjá Alþ., en ekki hjá ríkisstj., því þó að við, sem erum yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, sjáum þetta allt eftir dúk og disk, þegar allt er um garð gengið, þá höfum við ekki eða þeir, sem fjalla um okkar tillögur, neina aðstöðu til þess að gera ráðstafanir gegn þeim ákvörðunum og allri þeirri eyðslu, sem búið er að framkvæma löngu áður, en yfirskoðun um það fer fram.

Nú skal ég ekki, nema frekara tilefni gefist til, fara um þetta fleiri orðum að sinni. En ég mun gera, áður en langir tímar líða, frekari grein fyrir því, hvað það er, sem ég hef hér í huga, og hvernig ástandið hefur verið á síðustu árum.