22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Við höfum hér á Íslandi lengi búið við verðbólguþróun, og þess vegna hygg ég, að ekki sé ágreiningur um það, að mikilvægt sé, ef slíka verðbólguþróun á að hefta með árangri, að ríkisbúskapurinn sé rekinn hallalaus og gætni ríki í fjármálastjórninni. Um það virðast nú allir sammála, þó að ég geti ekki stillt mig um að bæta hér við hvað snertir a.m.k. suma þá, sem nú styðja hæstv. ríkisstj., að ást þeirra á greiðsluhallalausum ríkisbúskap og gætilegri fjármálastjórn er ung, þó að ekki sé meira sagt.

Um þetta atriði ætti ekki að vera meiri háttar ágreiningur. Hins vegar vil ég gjarnan lýsa því sem skoðun minni, að enda þótt eftirlit með fjárreiðum ríkisins geti verið til bóta, ef skynsamlega er til þess stofnað, þá hef ég enga tröllatrú á því, að slík skipan, hversu skynsamleg sem hún kynni að vera, mundi vera fullnægjandi lausn þess vandamáls, sem hér er um að ræða.

Meginástæðan til þeirra miklu umframgreiðslna umfram heimildir fjárlaga, sem átt hafa sér stað lengi að undanförnu, er að mínu áliti hið almenna misvægi, sem hefur verið í þjóðarbúskapnum, þannig að hér er um að ræða aðeins anga af hinu almenna efnahagsvandamáli. Það gefur auga leið, að þegar það skeður, sem oft hefur skeð að undanförnu, að mjög stórkostlegar hækkanir hafa orðið á verðlagi og kaupgjaldi, ef til vill skömmu eftir að fjárlög hafa verið afgreidd, þá verður ekki komizt há verulegum umframgreiðslum, ef þýðingarmiklir þættir ríkisbúskaparins eiga ekki að stöðvast með öllu.

Fyrir þessu finnst mér, að ekki megi loka augunum. Samt sem áður er að mínu áliti ekki vafi á því, að eftirlit með ríkisrekstrinum, meira en nú er, gæti verið hér til bóta, því þó að rekja megi kannske meginhluta þeirra umframgreiðslna, sem átt hafa sér stað, til hinnar almennu verðlagsþróunar, þá er ekki vafi á því, að það á ekki við allar umframgreiðslur.

Þetta mál hefur nú verið rætt ýtarlega við fyrri umr. þessa máls svo og í sambandi við frv. það um svipað efni, sem hér hefur verið flutt af hv. þm. A-Húnv., og fjölyrði ég ekki meira um það. En ég tel, að ef til slíks eftirlits eigi að stofna, þá sé það þýðingarmikið atriði, — og það er í rauninni mikilvægasta ákvæðið í þeim brtt., sem við hv. 5. þm. Reykv. höfum flutt, — að þetta eftirlit sé að nokkru leyti a.m.k. óháð fjármálastjórninni sjálfri.

Ef n. sú, sem þetta eftirlit á að hafa með höndum, verður skipuð á þann hátt, sem frv. upphaflega gerir ráð fyrir, þá þýðir það í rauninni ekki annað en það, að það er ríkisstj. sjálf og fjármálastjórnin, sem mundi eingöngu hafa þetta eftirlit með sjálfri sér. Ég tel, að það mundi því einmitt verða til mikilla bóta, ef það fyrirkomulag yrði tekið upp, sem við hv. 5. þm. Reykv. leggjum til, að Alþingi kjósi þessa nefnd, þannig að stjórnarandstaðan hafi þar a.m.k. hönd í bagga, eftir sem áður yrði það auðvitað þannig, að sá meiri hl. Alþingis, sem hæstv. ríkisstj. styður hverju sinni, hefði auðvitað meiri hl. í þeirri n., sem þannig yrði skipuð.

Hv. þm. A-Húnv. lagði til í sínu frv., að þetta eftirlit yrði falið endurskoðunarmönnum ríkisreikninganna. Hann hefur tekið fram, að á það leggi hann ekki áherzlu út af fyrir sig, en það, sem mundi mæla með slíku fyrirkomulagi, er kostnaðarhliðin. Þessir menn eru að störfum hvort sem er, þannig að gera má ráð fyrir því, að það yrði ódýrasta fyrirkomulagið, ef það yrði tekið upp. Hins vegar má, ef til vill benda á ýmsa annmarka á því fyrirkomulagi, og þess vegna lögðum við hv. 5. þm. Reykv. til, að Alþingi kysi n., ef það gæti orðið líklegra til víðtækara samkomulags.

Við gerum okkur ekki neinar tyllivonir um það, að þessi ráðstöfun, jafnvel þó að okkar brtt. yrðu samþykktar, flytji fjöll í þessu efni, en ég er smeykur um, að verði sá háttur hafður á, sem gert er ráð fyrir í frv., eins og það liggur fyrir upphaflega, þá muni ekki einu sinni verða fluttar þúfur.

Ég fjölyrði svo ekki meira almennt um okkar brtt., enda hefur hv. 5. þm. Reykv. að mínu áliti þegar gert því efni góð skil, en vildi aðeins ljúka þessum orðum, með því að víkja örlítið að nokkrum aths., sem hv. þm. V-Húnv. gerði við till. okkar.

Hann taldi óþarfa brtt. okkar við 1. gr., þess efnis, að skýrt yrði tekið fram um það, til hvaða ríkisstofnana og hvaða þátta ríkisrekstrar þetta eftirlit ætti að ná, og taldi fullnægjandi í því efni ákvæði 7. gr. frv. um það, að fjmrh. beri að setja reglugerð um starfssvið n. Ég er í þessu máli á annarri skoðun. Ég tel einmitt miklu réttara, að Alþingi kveði skýrt á um það, hvert starfssvið þessarar n. skuli vera, en það sé ekki tekið fram í reglugerð.

Um hitt má vitanlega deila, hvort þetta eftirlit á eingöngu að ná til þeirra greina ríkisbúskaparins, sem fjárlög fjalla um, eða vera viðtækara. Það tel ég ekki meiri háttar atriði, en hitt finnst mér eðlilegt og raunar sjálfsagt, að starfssvið n, sé sem skýrast ákveðið í lögunum.

Varðandi það, að í okkar till. er ekki ákveðið um starfstímabil væntanlegrar nefndar, þá skal ég játa, að þar hefur okkur orðið yfirsjón á. En það munum við leiðrétta, áður en till. verða bornar upp til atkvæða, og vænti ég þess, að okkur gefist til þess tóm.

Varðandi valdsvið n. vil ég taka það fram, að við höfum ekki hugsað okkur, hvorki að n. í heild né einstakir meðlimir hennar hefðu stöðvunarvald um fjárgreiðslu. Það var ekki okkar hugsun, heldur hugsuðum við okkur í því efni, að um öll þau mál, sem n. kemur til að fjalla um, giltu svipuð ákvæði og í 4. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir, en sú 4. gr. mundi verða 5. gr., ef okkar till. væru samþykktar, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Telji ráðherra eigi fært að fara að till., er hann eigi við þær bundinn, en skal þá senda fjvn. Alþingis rökstudda grg.

Við teljum eðlilegt, að þessi ákvæði gildi um valdsvið n. almennt, þannig að hún hafi ekki stöðvunarvald, hvorki um lengri né skemmri tíma. Eftir sem áður ættu þó störf n. að geta skapað aukið aðhald í þessum efnum frá því, sem nú er.