29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var meðferðin að vissu leyti samsvarandi því, að hv. stjórnarsinnar hér stæðu á móti því, að leiðréttar væru prentvillur í lagafrumvarpi. Eins og ég sagði þá m.a., var um það rætt innan fjhn., við hvaða ríkisstofnanir og við hvaða ríkisrekstur væri átt, og það er sameiginlegt álit nm. og líka — skv. upplýsingum hv. formanns n. - ríkisstjórnarinnar, að það sé aðeins átt við þær ríkisstofnanir, sem í fjárlögum greinir, Og við leggjum þá til, að það sé m.a. sett inn í frvgr., að það sé það, sem menn meina, því að eins og hún er núna samþykkt, þá er hún miklu víðtækari. Þetta fellir nú allt stjórnarliðið hér, og ég segi: það samsvarar því, að menn fáist ekki lengur hér á Alþ. til þess að leiðrétta prentvillur, sem eru í frumvörpunum. Allar aðrar till. okkar nm. Sjálfstfl. í fjhn. voru felldar, og tel ég því frv., eins og það er núna, bæði gagnslaust og þýðingarlaust eða þýðingarlítið.

Það hafði að vísu hvarflað að mér að leggja til við þessa umr., að frv. væri vísað til ríkisstj., og hefði að vissu leyti verið eðlilegast, að þau hefðu þá bæði farið þangað, þetta frv. og frv. hv. þm. A-Húnv. um skylt efni. En það getur að sjálfsögðu, ef einhver vilji er þar fyrir hendi, orðið jafnmikill árangur af nánari athugun þess máls þar, þó að þessu máli yrði ekki vísað til stjórnarinnar, og með hliðsjón af þeirri afgreiðslu, sem málið hlaut hér við 2. umr., þá mun ég greiða atkv, á móti frv. nú.