29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls voru af fulltrúum Sjálfstfl. í fjhn. fluttar við það brtt., sem mjög hefðu horft til bóta, ef samþ. hefðu verið. En svo sem hv. 5. þm. Reykv. tók hér fram áðan, þá fékkst stjórnarliðið ekki til að sinna þeim till. í neinu eða gera nokkrar lagfæringar á frv. Það var þó svo við 1. umr. þessa máls, að þá vakti ég athygli á ýmsum atriðum í sambandi við málið, er íhugunar þyrftu í n., og tók hæstv. fjmrh. því þá vel, að athugað væri um einhverjar breytingar á því, sem æskilegar kynnu að reynast. En úr þessu hefur ekki orðið og ekki annað sýnna, en ætlunin sé að knýja frv. hér fram. Það liggur hins vegar í augum uppi, að eins og frv. er nú úr garði gert, þá er þetta mál einskis virði og sýnilega aðeins ætlað til þess að flagga með það, án þess að í því felust nokkur raunverulegur áhugi til að breyta til hins betra í þessum efnum, og verður sú afstaða að teljast mjög vítaverð.

Ég hafði viljað leyfa mér að geta vænzt þess og lét það í ljós við 1. umr. að, að baki þessu máli væri einhver áhugi í þá átt að spara í ríkisrekstrinum og koma á skynsamlegu eftirliti. En það er sýnilegt, eftir að málið hefur fengið meðferð í fjhn. og ekki verið sinnt ábendingum um breytingar, sem tvímælalaust hafa horft í þá átt að gera þetta eftirlit að einhverju öðru, en nafninu tómu, að málið er eingöngu flutt sem sýndarmál og til þess ætlað að geta flaggað með því eftir á sem einhverjum ráðstöfunum í sparnaðarátt, þó að í því felist ekkert, sem í þá átt horfi.

Það hefur verið sýnt fram á það hér í umræðunum, sem er ómótmælanlegt, að með þessu frv. er dregið úr því eftirliti, sem nú er með þessum rekstri, því að eins og sakir standa nú, þá hefur fjmrn. það í hendi sinni með samþykki ríkisstj., sem ætla verður að ekki standi á, að ráða því, hvort fjölgað er starfsmönnum við ríkisstofnanir eða ekki, því að það er óheimilt að ráða nokkra nýja starfsmenn nema með samþykki ráðuneytisins. Með þessu frv., eins og það er úr garði gert, er hins vegar slíkur hemill algerlega af tekinn og það lagt í vald hvers einstaks ráðherra, hvort hann fjölgar starfsliði við þær stofnanir, sem undir hann heyra, eða ekki. Þetta felst ótvírætt í frv. Skipun n. þeirrar, sem þar er um rætt, er þannig háttað og valdsviði hennar, að hún er nánast einskis virði. Í fyrsta lagi er nú gert ráð fyrir, að meiri hluti n. sé skipaður af ríkisstj. sjálfri, en n. þessi á að hafa eftirlit með aðgerðum einstakra ráðherra, þannig að ríkisstj. hefur þannig tryggt sér meiri hluta í n., sem á að hafa eftirlit með hennar störfum á þessu sviði. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir, hvílíkt skrípamál þetta er. En í annan stað, af því að þetta þykir nú ekki nægilega laust í reipunum, til þess að ráðherrarnir séu nægilega óbundnir, þá er svo ákveðið, að hver ráðherra um sig geti haft að engu álit þessarar n. og það eina, sem hann þurfi að gera, sé að senda fjvn, Alþingis eftir á rökstudda grg. um nauðsyn þess að fjölga starfsmönnum við viðkomandi stofnun. Við vitum það auðvitað öll, að þetta ákvæði er gersamlega út í loftið og hefur enga þýðingu og getur ekkert aðhald veitt, þegar um slíkt er að ræða að eiga að sækja menn til saka eftir á, um þessi efni. Það þekkjum við öll af reynslunni.

Ég vildi nú leyfa mér, enda þótt ekki hafi fengizt fram þær breytingar, sem æskilegastar væru á þessu frv., að gera tilraun til þess að fá fram á því tvær lagfæringar, og eru þær till. mínar fyrst og fremst fluttar til þess að kanna það, hvort fyrir hendi sé gersamlegt áhugaleysi hjá hv. stuðningsmönnum stjórnarinnar til þess að búa þetta mál skynsamlega úr garði, því að það er gott, að það liggi ljóst fyrir mönnum, þannig að ekki verði á móti mælt, hvort þarna er um að ræða einhvern snefil af áhuga til þess að draga úr kostnaði í ríkisrekstrinum eða hér er um algert gervimál að ræða.

Ég vildi því leyfa mér í fyrsta lagi að flytja brtt. við 3. gr. frv. um það, að í stað þess, að einn maður sé tilnefndur af fjvn. Alþingis, þá komi tveir menn tilnefndir af fjvn. Alþingis. Með þessu móti er Alþ. veitt meirihlutaaðstaða í þessari eftirlitsnefnd. Eðlilegast hefði að sjálfsögðu verið, að allir mennirnir væru kjörnir af Alþingi. Því hefur ekki fengizt hér framgengt. En það væri þó til nokkurra bóta, að mennirnir væru tveir, þ.e.a.s. að Alþ. hefði meiri hluta í þeirri n., sem þetta eftirlit á að hafa, því að hér er tvímælalaust um mál að ræða, sem eðli sínu samkvæmt, þ.e.a.s. aukning fjárveitinga til embætta, heyrir undir Alþingi, að taka endanlegar ákvarðanir um í sambandi við fjárveitingar. Sé þess vegna nokkur löngun til þess, að þessi n. verði annað en nafnið eitt, þá sé ég ekki annað, en hver og einn gæti fallizt á þá tilhögun, að tveir mannanna væru kjörnir af fjvn. Alþ. í stað eins. En það er ætlunin, að ráðuneytisstjórinn sitji þar áfram eftir minni till., en niður falli þetta ákvæði, sem er nánast næsta kyndugt, að einn maðurinn skuli tilnefndur af ríkisstj. í heild í nefndina, þannig að eftir minni till. yrði n. þannig skipuð, að það yrði ráðuneytisstjórinn í fjmrn., sem væri sjálfkjörinn, og svo tveir menn tilnefndir af fjvn. til eins árs í senn.

Þá er annað atriði, þ.e. 4. gr., þar sem segir um valdsvið nefndarinnar. Þar er svo að orði komizt, að ráðh. sé eigi bundinn við álit þessarar nefndar. Þar sem þess má tvímælalaust vænta eftir skipan n., að í rauninni hvor tilhögunin sem heldur verður þar á höfð, þá sé það tryggt, að málunum verði veitt fullkomlega vinsamleg athugun af þessari eftirlitsnefnd og reynt í alvöru að gera sér grein fyrir, hverja nauðsyn þarna er um að ræða, þá lít ég svo á, að ef þessi n. á að hafa nokkra þýðingu, þá eigi ráðh. að vera bundinn við hennar álit, ef álitið sé einróma. Og hin brtt. mín er því á þá leið, að telji ráðh. eigi fært að fara að tillögunum, er hann eigi við þær bundinn, nema n. sé sammála um álit sitt, en skal þá senda fjvn. Alþingis rökstudda grg., þ.e.a.s. í því tilfelli, ef það er aðeins meiri hl. n., sem mælir gegn ráðstöfun ráðherrans. En sé það n. einróma, sem leggur annað til, þá virðist það í alla staði óeðlilegt, miðað við þá hugsun, sem liggur á bak við þessa lagasetningu, ef um einhverja hugsun er þar að ræða, að segja, að þá sé ráðherra engu að siður algerlega óbundinn af tillögum nefndarinnar, því að það hefur a.m.k. ekki þótt á neinn hátt óeðlileg skipan, eins og verið hefur til þessa, að ef fjmrh. hefur verið andvígur fjölguninni, þá væri hún ekki gild. Og ef n., sem er sammála um þetta og er sett skv. lögum frá Alþingi og með aðild Alþingis að nefndinni, er á einu máli, þá getur það á engan hátt talizt óeðlilegt, að ráðh. sé við það bundinn. Hann getur að sjálfsögðu, þegar Alþ. kemur saman, leitað um það ákvörðunar Alþingis, eins og háttur er í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hvort fé yrði veitt til þessarar starfsemi eða ekki, en þangað til virðist algerlega ástæðulaust að veita ráðh. svo frjálsar hendur, að hann geti haft till. þessarar n. að engu, því að þá hefur þetta gersamlega enga þýðingu.

Þetta eru þær tvær brtt., sem ég vildi leyfa mér að flytja hér við þessa umr. Þær eru skriflegar og of seint fram komnar, og þarf ég því að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeim.