29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þeir hv. þm. sjálfstæðismanna virðast hafa töluverða löngun til að koma í veg fyrir, að þetta frv. um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins fái afgreiðslu á þann veg, að það verði samþykkt. Hv. 2. þm. Eyf. flytur nú skriflegar brtt, tvær. Önnur er um það, að fjvn. Alþingis skuli tilnefna tvo af eftirlitsmönnunum, í stað þess að henni er ætlað í frv. að tilnefna einn og aftur ríkisstj. í heild annan. Till. um sama efni, um það, að fjvn. skyldi tilnefna tvo eftirlitsmennina, bar einn hv. flokksbróðir hans, hv. 2. þm. Árn., fram í Ed., og sú till. var þar felld, og ég sé enga ástæðu til heldur fyrir þessa d. að fara að samþykkja þá breytingu á frv. A.m.k. mundi það ekki greiða fyrir framgangi þess að vera að setja hér inn breytingar, sem vitað er að hin d. er á móti, enda sé ég ekki, að það séu horfur á, að n. yrði neitt starfhæfari eða betur skipuð með því að gera þessa breytingu.

Önnur till. hans er um það að taka af ríkisstj, eða ráðherrum vald, sem þeir nú hafa og hafa haft, en hins vegar er það ekki lagt til í frv., og ég tel, að það sé rétt að samþykkja einnig 4. gr. óbreytta, eins og hún er í frv. Það má vitanlega alltaf athuga um breytingar síðar, þegar nokkur reynsla er fengin, og mér þykir ekki ólíklegt, að áframhaldandi athuganir á þessum málum, hvaða ráð mætti finna til þess að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins, geti leitt í ljós, að það verði ástæða til, áður en langt um líður, að gera á þessu einhverjar breytingar.

Mér þykir satt að segja dálítið einkennilegt, að hv. sjálfstæðismenn skuli nú snúast gegn þessu frv., þessari tilraun, sem hér er verið að gera, þar sem þeir hafa þó oft um það rætt og ritað að undanförnu, að eyðslan væri of mikil hjá ríkinu og finna þyrfti ráð til þess að draga úr kostnaði.

Hv. þm. A-Húnv. var að tala um, að það mundi vera tilgangur með þessu frv. fyrst og fremst að bæta við laun ráðuneytisstjóra í fjmrn. og veita einhverjum öðrum stjórnarstuðningsmönnum tekjur með því að skipa þá í þetta eftirlitsstarf. Hann vildi nú sjálfur samkvæmt frv., sem hann bar hér fram, auka lítið eitt við hýru yfirskoðunarmannanna. Það var ekki samþykkt. En ég vil út af þessari aths. hans benda á, að í frv., eins og það nú er, eru engin ákvæði um laun handa þessum eftirlitsmönnum. Hins vegar gerðu hv. sjálfstæðismenn tilraun til þess við 2. umr. málsins að fá það beint sett inn í frv., að Alþ. skyldi ákveða nefndarmönnum laun og þau ættu að greiðast úr ríkissjóði sem annar kostnaður af störfum nefndarinnar. Og þeir tóku ekki þessa till. sína aftur, þó að búið væri að fella till. þeirra um breytingu á skipun n., svo að það eru þeir, sem hafa lagt til og greitt atkv. með, að ráðuneytisstjórinn meðal annarra fái ákveðna borgun fyrir að taka þátt í þessu eftirlitsstarfi.

Ég tel eins og áður enga ástæðu til að gera á frv. breytingar og vil leggja til, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.