29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með nokkrum þm. Sjálfstfl., sem hér hafa talað, að ég tel, að ef frv. þetta á að ganga óbreytt í gegnum d. í þeirri mynd, sem það er nú, eftir að brtt. okkar hv. 5. þm. Reykv. hafa verið felldar, þá tel ég ekki líkur á því, að það komi að neinu gagni, og mun greiða atkv. gegn frv., nema því aðeins að brtt. þær, sem hv. 2. þm. Eyf. hefur flutt, verði samþ., en þær tel ég til bóta, svo langt sem þær ná. Ég tel ekki líkur á því, að störf þessarar n. komi að meira gagni, en störf hinna ótalmörgu sparnaðarnefnda, sem skipaðar hafa verið á undanförnum árum og hafa að vísu flestar verið á allgóðum launum. En enginn sýnilegur árangur, svo að mér sé kunnugt um, hefur orðið af störfum þessara nefnda, og felst ekki í þessu nein ásökun til þeirra manna, sem nefndirnar hafa skipað, því að það munu yfirleitt vera hinir mætustu menn.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var ummæli í ræðu hv. þm. V-Húnv. út af till. okkar hv. 5. þm. Reykv. um laun nefndarmanna. Við gengum út frá því sem gefnu, að ætlazt væri til það mikils starfs af þeirri nefnd, sem hér er um að ræða, að hún yrði launuð. Málið var ekki rætt á öðrum grundvelli í hv. fjhn. En við álítum, að um það væri aðeins deilt, hvort ráðuneytið ætti að ákveða þessi laun eða Alþingi, og töldum þá eðlilegra, að slíkt gerðist fyrir opnum tjöldum og laun nefndarinnar væru ákveðin af Alþingi. En nú mátti í rauninni skilja ummæli hv. þm. V-Húnv. þannig, að það hefði verið hugsun hæstv. ríkisstj. frá upphafi, að nefndin yrði ólaunuð og þetta væri nokkuð, sem komið væri inn frá okkur. Ég vil nú leyfa mér að spyrja þennan hv. þm. og aðra hv. stuðningsmenn stjórnarinnar, sem að þessu frv. standa, hvort þetta er raunverulega ætlunin. Með tilliti til þess, hvaða afgreiðslu málið hefur fengið, með tilliti til þess, að litlar líkur eru á, að störf þessarar nefndar komi að verulegu gagni, þá væri það kannske ekki óeðlilegt, að nefndin sé ólaunuð. Um það mun ég ekki gera neinn ágreining. En væri þá ekki eðlilegt, eins og venja mun, þegar ætlazt er til, að opinberar nefndir séu ólaunaðar, að það sé skýrt tekið fram í lögunum? Ég teldi þá eðlilegt, að um þetta yrði flutt brtt., áður en málið verður afgreitt, til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni. En það mun ekki standa á mér að styðja þetta, eins og líklegt er að málið verði nú afgreitt.