12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

5. mál, tollskrá o. fl

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. átti ekki mikið erindi upp í ræðustólinn áðan, en þó er það eiginlega það eina, sem við höfum heyrt um það, hvernig úthlutað hafi verið atvinnubótafé, 15 millj. kr., — um það hefur þingið held ég ekkert annað heyrt en þetta: Dettur mönnum í hug, að fjmrh. og félmrh. geri það nú, þar sem allir sjá, að auðvitað munu ekki fjmrh. og félmrh. hafa gert það í fyrrv. stjórn? — Þetta er sá eini boðskapur, sem Alþ. hefur fengið um það, hvernig núverandi hæstv. ríkisstj. úthluti 15 millj. kr. í atvinnuaukningarfé. En auðvitað sjá menn, að þetta er ekki annað, en barnalegt frumhlaup, sem hæstv, ráðh. finnur sjálfsagt eftir á að hefði verið betra, að ekki hefði átt sér stað. En það er nú ekki hægt, finnst mér, að afgreiða mál eða láta við það sitja um jafnstórvægileg mál eins og úthlutun 15 millj. kr., að ýmist sé kinkað kolli eða ekki kinkað kolli eða að engu sé svarað um það, þegar beinlínis er spurt af þm. og tilteknir ráðherrar inntir svara.

Ég spurði áðan, og hæstv, fjmrh. mátti vita, hvert fyrirspurninni var beint, og ég beini henni þá til hans nú: Er það rétt, að ríkissjóður sé þegar farinn að greiða út verulega fjármuni, sem er greitt sem atvinnuaukningarfé ársins 1958? Þetta er í annað skipti, sem ég ber fram þessa fsp., og mér finnst, að þm, eigi rétt á því, þegar hæstv. ráðherrar eru viðstaddir, að slíkum spurningum eins og þessum sé svarað.