14.05.1958
Neðri deild: 95. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir matarhlé átti þingheimur þess kost að hlýða á ræðu formanns stjórnarandstöðuflokksins í um það bil tvær klukkustundir. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að hann hafi þurft langan tíma til þess að ræða það mál, sem hér er á dagskrá, því að hér er á ferðinni langstærsta málið, sem þetta Alþ. hefur fengið til meðferðar. Það undrar mig því sízt af öllu, að formaður stjórnarandstöðunnar skuli hafa þurft alllangan tíma til þess að ræða málið. Hitt undrar mig meira, að í ræðu hans skyldu ekki vera fleiri jákvæð atriði, en raun bar vitni um.

Ég vil strax vekja athygli á einu þó. Hv. þm. bar aldrei í hinni löngu og ýtarlegu ræðu sinni brigður á, að nú væri þörf þess að gera gagngerar ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hann andmælti því aldrei einu orði, að ástand í atvinnumálum og fjármálum þjóðarinnar nú væri þannig, að til þess væri fyllsta ástæða að gera gagngerar ráðstafanir. Þetta getur ekki verið einungis tilviljun. Í þessu hlýtur að felast viðurkenning á því, að brýn nauðsyn sé til gagngerra ráðstafana. En hvaða efnisathugasemdir gerði hann við þær till. til ráðstafana, sem felast í frv. ríkisstj., sem hér er nú til umr.? Um það var hv. þm. næsta fáorður. Þó sagði hann, að útflutningsuppbótakerfið væri gert miklum mun einfaldara, en það hefði verið undanfarin ár, m.a. í hans stjórnartíð, og sagði það út af fyrir sig vera kost. Hins vegar sagði hann ekkert um, hvort bæturnar, sem gert er ráð fyrir, væru að hans dómi of háar eða of lágar eða hæfilegar. Hann vitnaði í bréf, sem þm. barst síðdegis í dag frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar sem þess er óskað af ríkisstj. að bæturnar séu hækkaðar frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Hann lýsti bréfinu og lýsti óskum útvegsmanna, en hann sagði ekki eitt orð um það, hvort hann tæki undir óskirnar eða ekki, ekki eitt orð um það, hvort hann teldi óskirnar réttmætar eða óréttmætar, hvort hann vildi verða við þeim eða ekki. Á því virtist ræðumaðurinn enga skoðun hafa, og mun ég síðar víkja nánar að því. Hins vegar sagði hann, að í tekjuöflunarákvæðum frv, væru fólgin ýmis nýmæli, og dómur hans um ráðstafanirnar í heild var, að hér væri um grímuklædda gengisfellingu að ræða. Það virtist hann telja höfuðannmarka þessara till., að í raun og veru fælist í þeim gengisfelling, en grímuklædd þó. Þetta hlýtur ýmsum að koma nokkuð spánskt fyrir sjónir. Þessi hv. þm. hafði fyrir nokkrum árum allt aðra skoðun á gengislækkun, en kemur fram í þessum ummælum. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að þessi hv. þm. var einn af höfuðforvígismönnum þeirrar gengisbreytingar, sem gerð var vorið 1950. Þá hélt hann ekki svo fáar ræður um það, að sú ráðstöfun, sú gengisbreyting hafi verið sjálfsögð og nauðsynleg og til mikilla bóta í þeim efnahagsvandamálum, sem að steðjuðu þá. Hvernig má það nú vera, að þessi sami þm. skuli telja það höfuðókost þessara ráðstafana, að þær séu of líkar gengisfellingu? Hvað er það, sem hefur gerbreytzt svo frá vandanum, sem steðjaði að 1950, til þess vanda, sem nú steðjar að, að gengisbreyting hafi verið sjálfsögð, ágæt og réttlætanleg þá, en sé forkastanleg, það sé höfuðgalli ráðstafananna nú, að þær líkist gengisbreytingu? Hann minntist þess og, að það væri alvarlegur ágalli þessara ráðstafana, að nú ættu kaffi og sykur og rekstrarvörur útvegsins að hækka, þessar ráðstafanir hefðu hækkun þessara vörutegunda í för með sér. Ég minni aftur á, hvað gerðist, þegar gengisbreytingin var gerð 1950. Hækkaði þá kannske ekki kaffi og sykur, hækkuðu þá ekki rekstrarvörur sjávarútvegsins? Það, sem gerist nú ólikt því, sem gerðist 1950, er það, að einmitt kaffi, sykur og ýmsar aðrar nauðsynjavörur til fæðis og klæðis hækka minna, en svarar þeirri almennu verðhækkun, sem leiða mun af þessum ráðstöfunum. Það er einn höfuðmunurinn á þeim ráðstöfunum, sem nú er lagt til að gerðar verði, og gengisbreytingunni 1950, að gert er ráð fyrir því, að nokkur munur verði á þeirri verðlagsbreytingu, sem verða mun á innfluttum vörum. Ef gengisbreytingarleiðin hefði verið farin á sama hátt og hún var farin 1950, þá hefði orðið hlutfallslega jafnmikil breyting á öllum innfluttum vörum.

Hv. þm. fjölyrti talsvert um það, að illa væri búið að stjórnarandstöðunni um öflun upplýsinga varðandi málið í heild, og hafði það sem höfuðröksemd fyrir því, að hann og flokksbræður hans gætu ekki gert till. í málinu, að þeir hefðu ekki átt nægilega greiðan aðgang að sérfræðilegum upplýsingum um málið.

Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á, hvernig búið hefur verið að stjórnarandstöðunni undanfarin ár, einmitt þau árin, sem þessi hv. þm. var í stjórnarforsæti. Ég minnist þess, að miklar ráðstafanir voru gerðar í efnahagsmálum í tvö skipti undanfarin ár. Í síðara skiptið, 1955, minnist ég þess glögglega, að það frv., sem þá var lagt fram, var ekki sýnt stjórnarandstöðunni fyrr, en hún kom á þingfund, er málið kom til umr. Það var meira að segja þannig, að ég, sem var þá í forsvari fyrir minn flokk í stjórnarandstöðunni, þurfti að lesa veigamikla kafla frv. hér í ræðustólnum. Það hafði ekki gefizt tími til að lesa einstakar gr. frv. og skýringar við þær, áður en málið var tekið til umr. og áður en röðin kom að okkur í stjórnarandstöðunni að ræða um málið. Við urðum svo að segja að lesa frv. um leið og við ræddum það hér í þessum ræðustól. Að sjálfsögðu gagnrýndum við þetta mjög. Á þá gagnrýni var ekki hlustað. Við vissum það þá, að til undirbúnings þeim ráðstöfunum höfðu sérfræðingar verið látnir gera miklar athuganir og semja stóra skýrslu. Við vissum, að hún var til, höfðum frétt það, að vísu eftir krókaleiðum. Við spurðum, hvar sú skýrsla væri, hvort við gætum fengið aðgang að þessum upplýsingum. Því var svarað neitandi. Það var ekki borið á móti því, að það væru til sérstakir útreikningar, sérfræðileg skýrsla, en okkur var algerlega meinað að fá að sjá hana, fengum aldrei að sjá hana, hvorki fyrir þann tíma, að málið var tekið fyrir, meðan á umræðunum stóð, né heldur eftir að umr. var lokið. Þessi skýrsla er ekki heldur til í stjórnarráðinu. Það munu hafa verið gerð af henni nokkur eintök til afnota fyrir þm. þáverandi stjórnarflokka, en í stjórnarráðinu fyrirfinnst ekki eitt eintak af henni. Í henni virðast hafa verið fólgin einhver þau atriði, sem þáverandi ríkisstj. taldi bráðnauðsynlegt að halda leyndum fyrir þeirri ríkisstj., sem á eftir kæmi.

Miðað við það, hvernig búið var að stjórnarandstöðunni, er nú ólíku saman að jafna. Stjórnarandstaðan fékk það frv., sem hér er um að ræða, um síðustu helgi og hefur átt þess kost að ræða við helztu ráðunauta eða sérfræðinga ríkisstj, í efnahagsmálum og spyrja þá spjörunum úr. Það hefur að sjálfsögðu verið gert ráð fyrir því, að sérfræðingarnir leystu úr öllum spurningum, sem stjórnarandstaðan kynni að hafa fram að bera, enda er það sjálfsagt. Stjórnarandstaðan hefur því haft 3–4 daga til gaumgæfilegrar athugunar á málinu og átt aðgang að öllum helztu reikningsniðurstöðum þeirra sérfræðinga, sem um málið hafa fjallað. Stjórnarandstaðan getur því ekki borið því við, að hana skorti upplýsingar til þess að gera till. í þessu máli, og mun ég síðar víkja svolítið nánar að því. Ég vil aftur vekja alveg sérstaka athygli á því, að í hinni löngu ræðu hv. þm. G-K. dró hann aldrei í efa, að nauðsyn væri nú á sérstökum ráðstöfunum í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er ekki heldur hægt að draga í efa, að í raun og veru er um að ræða þrjár meginleiðir til lausnar á þeim vanda, sem að steðjar. Hin fyrsta hefði verið sú að halda óbreyttu því kerfi útflutningsbóta og innflutningsgjalda, sem verið hefur í gildi undanfarin ár, og að afla nýrra tekna til þess að jafna þann halla, sem fyrirsjáanlega hefði orðið á þessu ári á bæði útflutningssjóði og ríkissjóði. Önnur leiðin hefði verið sú að breyta gengi krónunnar. En þriðja leiðin, sú sem stjórnin leggur til að farin verði, er sú að taka upp nýtt kerfi bóta á gjaldeyrisöflun og gjalda af gjaldeyrisnotkun.

Ég skal fara fáeinum orðum um hverja um sig af þessum þrem einu leiðum, sem fræðilega séð koma til greina. Við það eru margir ókostir að fara leið algerlega óbreytts kerfis útflutningsbóta og innflutningsgjalda frá því, sem verið hefur. Megingallarnir á því kerfi, sem verið hefur í gildi undanfarin ár, eru þeir, að atvinnurekstrinum hefur verið mismunað óhæfilega mikið með ólíkri hæð útflutningsbótanna, auk þess sem útflutningsbótakerfið hefur verið óheppilega flókið. Uppbæturnar hafa sumpart ekki verið neinar og náð allt upp í 120% af fobverðmæti útflutningsins, og bótaflokkarnir hafa verið hvorki meira né minna en um 20 talsins. Þetta, hversu bæturnar hafa verið ólíkar að hæð, hefur raunverulega valdið því, að sumar atvinnugreinar í landinu hafa verið allt að því löggiltar sem arðbærar atvinnugreinar, en aðrar dæmdar til þess að verulegu eða öllu leyti að geta ekki skilað arði. Það alvarlegasta við slíkt ástand, svo gerólíkar upphæðir útflutningsbóta, er það, að þá fer upphæð bótanna í raun og veru að ákveða, hvað er framleitt í landinu og hvað ekki, en ekki verðlag á erlendum markaði.

Hættan við slíkt kerfi er fyrst og fremst þetta, að þá er útflutningsframleiðslan losuð úr tengslum við hið erlenda verðlag, við verðlagið á hinum erlenda markaði, og það er orðið háð ákvörðunum innanlands, pólitískum ákvörðunum, hvaða framleiðslugreinar bera sig og hvaða framleiðslugreinar bera sig ekki. Sumar eru dæmdar til þess að vera arðbærar, sumar dæmdar til þess að vera óarðbærar á grundvelli pólitískra ákvarðana innanlands, í raun og veru alveg óháð því, hvert verðlagið er á erlendum markaði. Slík þróun hlýtur að teljast varhugaverð.

Þá er annar megingalli þess konar uppbótakerfis, sem við höfum búið við undanfarin ár, að verðlag erlendrar vöru verður mjög misjafnt og í miklu ósamræmi við verðlagið innanlands. Sumar erlendar vörur verða miklu ódýrari, en svarar til innlenda verðlagsins, sumar aftur á móti miklu dýrari. Það verður mikil hætta á því, að þær erlendar vörur, sem eru miklu ódýrari, en svarar til verðlagsins innanlands, séu notaðar í miklu óhófi og sú ofnotkun valdi óeðlilegri gjaldeyrisnotkun, hins vegar takmarkist eftirspurn eftir þeim vörum, sem verða óeðlilega dýrar, og ef kerfið byggist að meira eða minna leyti á tekjuöflun með gjöldum af þessum vörum, er hætt við, að innflutningur á þeim bregðist og þá um leið tekjuöflunarkerfið. Þegar farið er að greiða uppbætur á útflutning, er söluverð gjaldeyrisins ekki lengur raunverulegt, og þá verður auðvitað að leggja gjald á innflutninginn eða gjaldeyrissöluna, sem að meðaltali svarar til þeirra uppbóta, sem greiddar eru á útflutninginn.

Innfluttar vörur, sem fluttar eru inn með lægra innflutnings- eða yfirfærslugjaldi, en meðaltal útflutningsuppbótanna, eru raunverulega styrktar. Þær innfluttar vörur, sem fluttar eru inn með hærra innflutnings- eða yfirfærslugjaldi, en svarar til meðaltalsuppbótanna, eru raunverulega skattlagðar. Hættan við að hafa verulegan hluta innflutningsins með lægri innflutnings- eða yfirfærslugjöldum, en svarar til meðaltalsupphæðar útflutningsuppbótanna er fólgin í því, að gjaldeyririnn er þá seldur notendum hans við lægra verði en hann kostar þjóðarbúið í heild. Sá, sem notar gjaldeyrinn, fær hann fyrir lægra verð, en það kostar þjóðarbúið í heild að afla hans. Þetta getur beint framleiðslunni inn á rangar brautir. Þetta getur þýtt ranga stefnu í fjárfestingarmálum og framkvæmdum. Þetta getur þýtt þjóðhagslega óskynsamlega eða óhagkvæma neyzlu. Og siðast en ekki sízt, þetta hlýtur að þýða ofnotkun erlends gjaldeyris, óeðlilegan þrýsting á gjaldeyrisforðann eða gjaldeyristekjurnar, sem leiðir til þess, sem við köllum gjaldeyrisskort.

Þegar uppbótakerfi í þeirri mynd, sem það hefur verið framkvæmt hér undanfarin ár, er orðið jafnvíðtækt og það er orðið og mismunurinn á yfirfærslugjöldunum eða innflutningsgjöldunum er orðinn jafnmikill og hann var hér orðinn, er orðin mikil hætta á því, að þessir gallar segi verulega til sín og hafi í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar. Um þetta mætti nefna mörg dæmi. Ég skal ekki gera það, að þeim er m.a. vikið í grg. frv. Ég skal aðeins minna á þá þjóðhagslega séð óhóflegu notkun á fóðurbæti, sem átt hefur sér stað einmitt af þessum sökum um mörg undanfarin ár, þá óeðlilegu notkun á ýmsum erlendum veiðarfærum, sem átt hefur sér stað, jafnvel á erlendu byggingarefni í allverulegum mæli, á erlendum umbúðum, á ýmsum erlendum tækjum, og þannig mætti lengi telja.

Það er enginn vafi á því, að uppbótakerfi framkvæmt á þann hátt, sem það hefur verið framkvæmt hér, hefur átt verulegan þátt í því, að fjárfesting hefur verið hér óeðlilega mikil frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð og þrýstingur til aukningar á henni hefur verið jafnlítt viðráðanlegur um mörg undanfarin ár og raun hefur veríð á. En einmitt vegna þess, að þetta kerfi ýtir undir þjóðhagslega séð óhagkvæma fjárfestingu, er mjög hætt við, að sá innflutningur ýti til hliðar innflutningi annarra vörutegunda, sem kerfið þó byggir á að skili tekjum í útflutningssjóðinn eða ríkissjóðinn. Það var einmitt þetta, sem gerðist 1957 eða á s.l. ári, auk þess sem afli brást á því ári, og það var þetta tvennt, sem fyrst og fremst gerði að verkum, að tekjur þær, sem gert hafði verið ráð fyrir að útflutningsbótakerfið mundi fá, brugðust, þannig að útflutningssjóð skorti tekjur til þess að standa við þær skuldbindingar, sem það hafði tekizt á hendur, og ríkissjóð skorti tekjur til þess að annast nauðsynlegar og eðlilegar greiðslur sínar.

Ef haldið hefði verið áfram á sömu braut og undanfarið, aðeins bætt við þau gjöld, sem fyrir voru, ákveðnum hundraðshluta til dæmis, þá hefði verið mjög hætt við því, að allir þessir gallar hefðu ekki aðeins komið fram í sama mæli á þessu ári og hinu næsta, heldur í auknum mæli. Það eru þessi atriði fyrst og fremst, þessir almennu ókostir útflutningsuppbótakerfis, eins og það hefur verið framkvæmt, sem gera að verkum, að sú leið var og er ekki lengur fær og áreiðanlega ekki skynsamleg.

Um gengisbreytingarleiðina skal ég vera mjög fáorður og ekki ræða kosti og galla hennar að þessu sinni, heldur láta það eitt duga að vísa til þess, að verkalýðshreyfingin, þ.e. síðasta þing Alþýðusambands Íslands, sem haldið var haustið 1956, lýsti sig algerlega andvíga gengisbreytingu. Það mátti því vita, að gengisbreyting mundi ekki aðeins ekki geta fengið stuðning verkalýðshreyfingarinnar, heldur hlyti einnig að mæta fullkominni andstöðu hennar, slíkri ráðstöfun mundi verði svarað af verkalýðshreyfingunni sem heild með kröfum um víðtækar hækkanir á kaupgjaldi og án efa með vinnudeilum og verkföllum.

Í nútíma þjóðfélagi, eins og það er hér á Íslandi, er vald launþegasamtakanna svo mikið, að skynsamlegri stefnu í efnahagsmálum verður varla fylgt, nema hún hafi beinan eða óbeinan stuðning launþegasamtakanna. Launþegasamtökin þurfa annaðhvort að styðja þessa stefnu eða a.m.k. eira henni, ef hún á að hafa von til þess að geta borið góðan árangur. Það er varla hægt að stjórna til lengdar í fullkominni andstöðu við öll launþegasamtök landsins, nema þá gera það með ofbeldi.

Það hefði því ekki verið skynsamlegt að beita sér fyrir almennri gengisbreytingu við núverandi aðstæður, þegar vitað væri, að það hlyti að mæta fullkominni andstöðu verkalýðshreyfingarinnar sem heildar. Þess vegna varð að finna nýja leið, sem hefði ekki megingalla óbreytts kerfis útflutningsbóta og innflutningsgjalda til að bera og væri ekki heldur gengislækkun, þ.e. hefði ekki þau megineinkenni gengislækkunar, að verðlag allrar innfluttrar vöru hækkaði hlutfallslega jafnt vegna ráðstafananna, en það er að sjálfsögðu megineinkenni gengisbreytingar, að hún hefur hlutfallslega jöfn áhrif á verðlag allrar innfluttrar vöru og allrar útfluttrar vöru, Það er þetta, sem reynt er að gera, það er þetta bil beggja, sem reynt er að fara í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er reynt að sníða megingallana af því bótakerfi, sem í gildi hefur verið undanfarin ár, og það er reynt að sneiða hjá því megin einkenni gengisbreytingar, að það verði hlutfallsleg breyting á verðlagi allrar innfluttrar vöru og allra útfluttra afurða og þjónustu.

Kostir þeirra ráðstafana, sem gerðar eru tillögur um í þessu frv., eru fyrst og fremst tveir: Í fyrsta lagi er rekstur og afkoma atvinnuveganna tryggð og þar með áframhaldandi full atvinna í landinu. Að gera þetta er megintilgangur frv., og gagnrýni á frv. hefur ekki við rök að styðjast, nema því aðeins að sýnt sé fram á, að frv. nái ekki þessum megintilgangi: að tryggja rekstur og afkomu allra atvinnugreina í landinu og þar með áframhald fullrar atvinnu.

En annar meginkostur og annar megintilgangur þessara ráðstafana er að jafna aðstöðu einstakra atvinnugreina í landinu, jafna þá aðstöðu, sem einmitt var orðin óeðlilega, ég vil segja hættulega ójöfn. Aðstaða bátaútvegsins og landbúnaðarins er í stórum dráttum óbreytt frá því, sem verið hefur, nema hvað nú er gert ráð fyrir við ákvörðun útflutningsbótanna, að fyrirtækjunum sé kleift að afskrifa atvinnutæki sín miðað við endurnýjunarverð, en ekki hið gamla kostnaðarverð. Sú breyting, sem verður, er fyrst og fremst á aðstöðu togaranna og síldarútvegsins, auk þess sem ýmsar atvinnugreinar, sem áður höfðu engar bætur og ýmist börðust því í bökkum eða voru dæmdar til dauða fyrr eða síðar, fá nú bætur og þar með ný lífsskilyrði, ný þroskaskilyrði. Þetta á fyrst og fremst við ýmsar greinar innlends iðnaðar, járniðnað og fleiri greinar iðnaðarins, sem áður nutu engra bóta, íslenzkar siglingar á sjó og í lofti og fleiri mikilvægar atvinnugreinar, sem ef til þessara ráðstafana hefði ekki verið gripið, hefðu átt við að etja mikla erfiðleika þegar á þessu ári, hvað þá þegar frá liði.

Meginupphæð útflutningsbótanna er 80% af fob-verði. Nú mun 78% útflutningsins fá sömu bætur, þ.e. um það bil 4/5 hlutar útflutningsins. Meginhluti hans mun nú njóta sömu útflutningsbóta eða 80%. Um það bil 17% útflutningsins mun njóta 50% bóta, en aðeins 41/2%, 70% bótanna. Af þessum tölum sést greinilega, að meginhluti útflutningsins situr nú, ef þessar ráðstafanir verða að lögum, við sama borð, þ.e. bátaútvegurinn, togararnir og landbúnaðurinn.

Ef útflutnings- og yfirfærslubótum þeim, sem gert er ráð fyrir í frv., er jafnað á útflutninginn og duldu tekjurnar, kemur í ljós, að meðalbæturnar á alla gjaldeyrisöflunina eru 55%. Gjaldeyrisbankarnir greiða því þeim, sem gjaldeyrisins afla, að meðaltali 55% meira, en skráð gengi. Það er þetta skráða gengi plús 55%, sem gjaldeyrisöflunin kostar þjóðina að meðaltali. En munurinn á þeim ráðstöfunum, sem hér er gert ráð fyrir, og því, að gengisbreyting hefði verið framkvæmd, er sá, að ef genginu hefði verið breytt, þá hefðu allir, sem afla gjaldeyris, fengið 55% bætur, en nú eru bæturnar á meginhluta útflutningsins 80%, þær eru 70% á nokkurn hluta hans, 50% á nokkurn hluta hans, þær eru 55% á duldar tekjur, en engar á nokkurn hluta gjaldeyristeknanna, og meðaltalið af öllu þessu er 55% útflutnings- eða yfirfærslubætur. Þess vegna þarf engan að furða á því, að hið almenna yfirfærslugjald við gjaldeyrissöluna sé 55%. Hið almenna yfirfærslugjald, sem heimt verður af þeim, sem kaupa gjaldeyri, er svo að segja nákvæmlega jafnhátt og meðaltal þeirra bóta, sem gjaldeyrisbankarnir greiða þeim, sem afla gjaldeyrisins.

Viss tegund gjaldeyrisins eða gjaldeyrir fyrir vissum vörum, er þó seldur undir þessu verði, þ.e. með yfirfærslugjaldi, sem er lægra en 55%, eða aðeins 30%. Með því er í raun og veru verið að styrkja eða greiða með þeim innflutningi eða þeim greiðslum, þ.e. náms- og sjúkrakostnaði. Það er í raun og veru alveg rangt að tala um 30% gjald á innflutning nauðsynjavörunnar eða náms- og sjúkrakostnað. Réttara samkvæmt öllu eðli málsins er að benda á, að gjaldeyrir fyrir þessum vörum og þessari þjónustu er 25% ódýrari, en svarar til hins almenna yfirfærslugjalds, sem er jafnhátt þeim bótum, sem útflutningurinn fær að meðaltali. Það, sem það kostar að hafa gjaldið á nauðsynjavörurnar og náms- og sjúkrakostnaðinn þessum 25% lægra, en svarar til meðaltals útflutningsuppbótanna, er greitt með því að leggja sérstakt hágjald á vissar vörur, sem taldar eru þola slíkt gjald, þær vörur, sem um mörg undanfarin ár hefur verið talið rétt að láta bera slíkt gjald.

Það, sem fyrst og fremst hefur verið bent á sem galla við þessar ráðstafanir, er, að þær muni óhjákvæmilega og óneitanlega hafa í för með sér hækkun á verðlagi í landinu. Það hefur verið áætlað, að verðlagshækkunin muni verða 14–16 stig og að fram til 1. sept. n.k. megi gera ráð fyrir hækkun á framfærsluvísitölunni, sem nemi 8–9 stigum. En það er einmitt vegna þessarar væntanlegu hækkunar á vísitölunni næstu mánuði, sem frv. hefur ákvæðið um það, að allt kaupgjald skuli strax 1. júní n.k. hækka um 5–7%, þ.e. hækka strax um þá hlutfallstölu, sem svarar nokkurn veginn til þeirrar hækkunar á vísitölunni, sem gera má ráð fyrir að verði komin fram 1. sept. n. k. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir, að á þessu tímabili verði skerðing á raunverulegum kaupmætti launafólks í landinu.

Hitt er svo einnig rétt, að sá vandi bíður, hvernig mæta eigi þeirri frekari verðhækkun, sem búast má við á síðari mánuðum ársins, eða frá september til ársloka. En það er ómótmælanlegt, enda hefur því í sjálfu sér ekki verið andmælt og það vildi ég undirstrika, að á tímabilinu til 1. sept. n.k. verður ekki um að ræða rýrnum á kaupmætti launa launafólks í landinu.

En ég vil þó vekja sérstaka athygli á einu atriði í sambandi við þær verðhækkanir, sem gert er ráð fyrir að muni sigla í kjölfar þessara ráðstafana. Það er í raun og veru grundvallarmisskilningur, að þessar verðhækkanir séu bein afleiðing þessara ráðstafana. Þetta væri því aðeins rétt, — og það vildi ég undirstrika, að hægt hefði verið að gera aðrar ráðstafanir, sem hefðu ekki haft í för með sér neinar verðhækkanir eða minni verðhækkanir, en leiðir af þessum ráðstöfunum. Þeir, sem vilja leggja áherzlu á, að beinlínis samþykkt þessa frv. leiði til svo og svo mikilla verðhækkana, verða að sýna fram á, að þeir hefðu getað lagt eitthvað annað til, sem hefði haft í för með sér minni verðhækkanir eða alls engar verðhækkanir. Geti þeir það ekki, þá hefðu verðhækkanirnar komið, hvað svo sem gert hefði verið, og því ekki hægt að segja: það er beinlínis afleiðing af því, sem nú er gert eða lagt til að gera með þessu frv.

Við skulum virða fyrir okkur í stuttu máli, hvað hefði skeð, ef ekkert hefði verið gert, ef stjórnin hefði bókstaflega ekki aðhafzt neitt, látið reka á reiðanum. Hvað hefði gerzt þá? Það, sem þá hefði gerzt, er, að framleiðslan hefði stöðvazt, útflutningsatvinnuvegirnir hefðu stöðvazt og það hefði orðið mikið atvinnuleysi. Það hefði orðið greiðsluþrot hjá ríkissjóði, hann hefði ekki getað staðið við sínar skuldbindingar, ekki greitt starfsmönnum sínum sitt kaup, Í fyrstu lotu mætti segja og hefði mátt búast við því, að verðlag hækkaði ekki, ef svona hefði farið. En mundu menn vilja kaupa það, að verðlag hækkaði ekki, því, að hér hefði orðið mikið atvinnuleysi, gífurlegt atvinnuleysi og að ríkissjóður hefði lent í algerum greiðsluþrotum? Það hefði verið eina leiðin til þess að láta verðhækkun ekki eiga sér stað, a.m.k. ekki í bráð. Ég hef ekki trú á því, að neinn, sem í alvöru hugsar um þessi mál, mundi vilja mæla með því að gera ekki neitt, af því að afleiðingin hefði augljóslega orðið sú, sem ég nú var að lýsa, stöðvun framleiðslunnar og gífurlegt atvinnuleysi. Það kom m.a,. fram í því, sem ég gat um í upphafi, að hv. þm. G-K. (ÓTh) gat þess aldrei í ræðu sinni, að í raun og veru hefði ekki verið þörf neinna ráðstafana.

Um það eru áreiðanlega allir sammála, að það varð að gera eitthvað til að halda framleiðslunni gangandi og gera ríkissjóði kleift að standa við sínar skuldbindingar. Ef Alþingi hefði látið undir höfuð leggjast að gera lagaráðstafanir til þessa, þá hefði ríkisstj, þurft að gera ráðstafanir í þessu skyni, og hvað hefði hún getað gert? Hvað hefði hvaða ríkisstj. sem er gert, undir þeim kringumstæðum? Hún hefði ekki getað gert annað, en jafna hallann á útflutningssjóði, þ.e. jafna halla útflutningsatvinnuveganna og jafna halla ríkissjóðs. Hvernig gerist það? Hvernig gerir ríkisstj. það, ef Alþingi gerir ekki sérstakar tekjuöflunarráðstafanir? Það gerist einfaldlega á þann hátt, að peningarnir eru sóttir í seðlabankann til þess að greiða halla útflutningsatvinnuveganna og til þess að jafna halla ríkissjóðs. Hver hefði orðið afleiðingin af því, ef seðlabankinn hefði verið látinn greiða halla útflutningsatvinnuveganna og útflutningssjóðs og ríkissjóðs? Afleiðingin af því hefði orðið verðbólga. Afleiðingin af því hefði orðið sú, að það hefðu komizt meiri peningar í umferð en svarað hefði til vöruframleiðslunnar í landinu og vöruinnflutningsins. Það hefði orðið gjaldeyrisskortur í fyrstu lotu, það hefði orðið vöruskortur, það hefði síðan orðið svartur markaður, og þegar þessi þróun væri komin á nógu hátt stig, hefði orðið verðhækkun, nákvæmlega jafnmikil verðhækkun í heild og verður, ef þessar ráðstafanir verða samþykktar, en hefði bara orðið með öðrum hætti. Það hefði orðið ringulreið, það hefði orðið svartamarkaðsverðhækkun, það hefði orðið þess konar verðhækkun, sem afleiðing vöruskorts og gjaldeyrisskorts, sem alltaf bitnar mest og þyngst á hinum efnaminnstu í þjóðfélaginu, á þeim, sem hafa minnst útispjótin, minnst skilyrðin til þess að sjá sér farborða, þegar harðvítugur gjaldeyrisskortur ríkir, þegar harðvítugur vöruskortur ríkir, þegar svartamarkaðurinn setur svip sinn á viðskiptalífið. Þetta má ekki verða. Þetta væri sú þróun, sem væri verst, næst á eftir atvinnuleysisástandinu. Og það er einmitt til þess að koma í veg fyrir slíka verðbólguþróun, það er einmitt til þess að koma í veg fyrir slíkar verðbólguverðhækkanir, slíkar svartamarkaðsverðhækkanir, sem það er nauðsynlegt að gera skipulegar ráðstafanir til þess að jafna halla útflutningsatvinnuveganna og jafna halla ríkissjóðs með skipulögðum tekjuöflunarráðstöfunum, einmitt til þess að koma í veg fyrir verðbólguþróun.

Það er rétt, að verðhækkanir verða ekki umflúnar, og þær munu koma, það væri hættuleg sjálfsblekking að gera sér ekki grein fyrir því, En það er líka hættuleg sjálfsblekking að gera sér ekki grein fyrir hinu, að þessar verðhækkanir eru óumflýjanlegar, þær eru afleiðing þess, að það er sannanlegur halli á útflutningssjóði, á útflutningsatvinnuvegunum og sannanlegur halli á ríkissjóði. Undir slíkum kringumstæðum verða verðhækkanir ekki umflúnar. Það er einungis spurningin: Í hvaða formi vilja menn taka þær? Vilja menn vera herra verðhækkananna, ráða því, hvar þær koma niður, eða vilja menn láta þær gerast skipulagslaust, vilja þeir láta þær gerast í ringulreið, vilja menn láta þær gerast eftir svartamarkaðsaðferðum? Það er það, sem verið er að koma í veg fyrir með þessum ráðstöfunum.

Þá hefur mikið verið um það talað í blöðum stjórnarandstöðunnar í gær og dag, að hér sé um miklar álögur á þjóðina að ræða, og einn meginkaflinn í ræðu hv. þm. G-K, fjallaði einmitt um það, að hér sé um gífurlegar álögur á þjóðina í heild að ræða. Hv. þm. sagði, að sér teldist til, að þessar álögur næmu hvorki meira né minna en um 790 millj. kr. Ég er þeim tölum, sem hér liggja til grundvallar, það kunnugur, að ég sé í hendi minni, hvernig þessi tala er fengin. Hún er fengin með því að leggja saman þá aukningu, með því að taka allar tölur, sem hægt er að taka brúttó, ef svo mætti segja, þ.e. leggja saman þá heildaraukningu, sem verður á öllum bótum til útflutningsatvinnuveganna og öllum bótum á allar duldar greiðslur, án tillits til þess, að verulegur hluti þessarar bótahækkunar til útflutningsatvinnuveganna sé aðeins endurgreiðsla á auknum kostnaði, sem leiðir af þeirri kerfisbreytingu, að á rekstrarvörurnar á nú að leggjast 55% yfirfærslugjald, og enn fremur án tillits til þess, að þær duldu greiðslur, sem við er miðað í þeim útreikningum, sem liggja til grundvallar þessu öllu saman, eru að mjög verulegu leyti tölur, sem ganga inn og út hjá sömu fyrirtækjunum meira að segja og eru því í raun og veru uppblásnar tölur, sem aldrei koma fram sem gjaldeyriskaup og gjaldeyrissala í bönkunum. En þetta er í raun og veru allt aukaatriði. Hitt er meginatriðið, að sú uppstilling að tala um 790 millj. kr. sem álögur á þjóðina í heild er í raun og veru hrein hugsanavilla. Ef þessi reikningsaðferð væri rétt, hefði með alveg nákvæmlega sams konar rökum og sams konar aðferðum mátt reikna út byrðar á þjóðina í heild af gengisbreytingunni 1950. Þá var gengisbreytingin 73% hækkun á verði erlends gjaldeyris. Nú nemur hið almenna yfirfærslugjald þó ekki nema 55%, Þá var gengi erlends gjaldeyris hækkað um 73%. Ef maður reiknar eins og hv. þm. reiknaði áðan, lægi beinast við að taka verkanir gengislækkunarinnar 1950 þannig að taka innflutninginn og duldu greiðslurnar eins og þær voru, hækka þær með 73%, breyta því svo yfir í núgildandi krónuverð, og þá yrði niðurstaðan, — ég sló þessu upp á blað lauslega áðan, — um 900 millj. kr. M.ö.o.: með nákvæmlega sömu reikningsaðferð þýddi gengisbreytingin 1950 um 900 millj. kr. álögur á þjóðina, reiknað í sama krónuverðmæti og nú.

Ég man ekki eftir því, að neinn maður í stjórnarandstöðunni hér á hinu háa Alþ. 1950 hafi látið sér detta í hug svona fálkalegan útreikning. Ég minnist þess ekki. Það datt engum manni þá í hug að reikna út álögur af gengisbreytingunni 1950 á þennan hátt, eins og stjórnarandstaðan núna virðist ætla að leyfa sér að gera. Ef það hefði verið gert, hefði niðurstaðan orðið sem ég segi. En það hefði auðvitað verið fráleitt, enda datt mönnum það aldrei í hug. En hafi það verið fráleitt þá, er sama reikningsaðferð auðvitað jafnfráleit núna. Hún er, ja, ég vil ekki segja blekking, heldur fyrst og fremst hugsunarvilla. Það er nefnilega alger hugsunarvilla að telja, að Alþ. leggi með slíkum ráðstöfunum eins og þessum, eða með gengisbreytingunni 1950, sem þó var mjög verulega annars eðlis, — að Alþ. leggi með slíkum ráðstöfunum byrðar á þjóðina í heild. Það væri jafnfráleitt að segja, að þjóðin í heild leggi byrðar á sjálfa sig með því að endurskipta tekjum sínum af framleiðslu sinni. Þjóðin getur aldrei lagt byrðar á sjálfa sig. Það er fráleitt. Lífskjör þjóðarinnar ákvarðast auðvitað af tvennu: Annars vegar af þjóðarframleiðslunni og hins vegar af skiptingu þjóðarframleiðslunnar milli neyzlu og fjárfestingar. Lífskjör þjóðarinnar rýrna því aðeins, að þjóðarframleiðslan minnki, og batna því aðeins, að þjóðarframleiðslan vaxi, eða lífskjör þjóðarinnar rýrna því aðeins, að fjárfestingin vaxi, sem þýðir, að neyzlan minnkar, og þau batna því aðeins, að fjárfestingin minnki, þ.e. neyzlan vaxi. Það er því aðeins hægt að segja þessar ráðstafanir vera byrðar á þjóðina í heild, að það sé hægt að færa skynsamleg rök fyrir því, að afleiðingin verði minnkun þjóðarframleiðslunnar eða aukning fjárfestingarinnar. Það er meiningarleysa að tala um afleiðingar þessa sem byrðar á þjóðina í heild, nema því aðeins að sýna megi fram á, að það leiði til minnkunar á þjóðarframleiðslu eða aukinnar fjárfestingar, enda gefur auga leið, hvílík fjarstæða slíkt tal er að tala um 800 millj. kr. byrðar í sambandi við þetta. Verðmæti þjóðarframleiðslunnar í ár mun verða einhvers staðar á milli 4.500 og 5.000 millj. kr., svo að þessi tala, 800 millj., er hvorki meira né minna en 1/6 hluti þjóðarframleiðslunnar. Ætlast menn til, að þeir séu teknir alvarlega, er þeir halda því fram, að þessar ráðstafanir kosti þjóðina í heild 1/6 hluta þjóðarframleiðslunnar? Hvað á slíkt tal að þýða? Dettur mönnum í hug, að raunverulegar tekjur manna muni minnka um 1/6 hluta? Það er sú ályktun, sem menn hljóta að draga af því, ef menn taka alvarlega talið um 800 millj. kr. álögur á þjóðina. Það dettur þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, áreiðanlega ekki í hug, slík og þvílík fjarstæða er slíkt. Sannleikurinn er sá, að það má miklu frekar leiða rök að því, að afleiðing þessara ráðstafana verði sú að auka þjóðarframleiðsluna, þegar fram í sækir, vegna þess að nú eru sköpuð ný skilyrði fyrir ýmsar atvinnugreinar, sem áður bjuggu við rýr kjör, léleg skilyrði. Og það er enn fremur alveg öruggt, að áhrif þessara ráðstafana á skiptingu þjóðarframleiðslunnar milli neyzlu og fjárfestingar verða þau að draga úr fjárfestingunni, þ.e. auka skilyrðin til neyzlunnar. Þess vegna má frekar segja, ef talað er um áhrifin á þjóðina í heild, að áhrif þessara ráðstafana muni verða til þess að bæta hag þjóðarinnar, sérstaklega þegar frá líður og fram í sækir.

Það, sem stjórnarandstaðan kallar álögur á þjóðina, er í raun og veru millifærsla tekna milli atvinnugreina og þjóðfélagsstétta. Þessar ráðstafanir hafa engin bein og tafarlaus áhrif á hæð þjóðarteknanna, ekki einu sinni bein og tafarlaus áhrif á hæð útflutningsins, þó að hún muni hafa áhrif þegar frá líður og fram í sækir. Og þess vegna er augljóst, að þetta eru ekki byrðar á þjóðina í heild, heldur er verið að endurskipta tekjum þjóðarinnar af útflutningi og innlendri framleiðslu.

Allir menn í þjóðfélaginu eru annars vegar framleiðendur, þ.e. þátttakendur í þjóðarframleiðslunni, og hins vegar neytendur. Allir menn í þjóðfélaginu selja eitthvað, selja annaðhvort vinnu sína eða vöru, og þeir kaupa eitthvað í staðinn. Höfuðmarkmið þessara ráðstafana er ekki að hafa áhrif á það, sem þjóðin í heild kaupir og selur innanlands, en þær munu breyta verðhlutfallinu milli þess, sem einstakar atvinnugreinar og einstakar atvinnustéttir hafa að kaupa og selja. Þessi breyting á verðhlutföllum milli þess, sem einstakar atvinnugreinar, einstakar stéttir hafa að kaupa og selja, mun hafa hagstæð áhrif fyrir suma, en óhagstæð fyrir aðra, það er rétt. Og fyrir enn aðra hefur þessi breyting enga raunverulega þýðingu, Þeir, sem munu fá meira í sinn hlut af þjóðarframleiðslunni, eru fyrst og fremst þeir, sem starfa í sambandi við togaraútveginn og síldarútveginn og ýmsar atvinnugreinar, sem engar bætur hafa fengið til þessa, þ.e. ýmsar greinar innlends iðnaðar, siglingar, flug o.s.frv. Þessir aðilar munu fá meira í sinn hlut af óbreyttri þjóðarframleiðslu. En þessar ráðstafanir hafa ekki áhrif á raunveruleg kjör mjög verulegs hluta landsmanna. Það mun ekki hafa nein áhrif á raunveruleg kjör þeirra launþega, sem vísitalan er sæmilega réttur mælikvarði á neyzlunni hjá, en það eru launþegar með allt að 60–65 þús. kr. árstekjur. Kauphækkunin, sem lögfest er með frv., tryggir því, að þetta fólk njóti áfram óbreyttra raunverulegra tekna, þannig að þessar ráðstafanir í heild hafa ekki áhrif á hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum. En þá spyrja menn náttúrlega: Hverjir bera byrðarnar af því, sem hagur þeirra, sem ég nefndi áðan, batnar um? Hverjir bera þær byrðar? Það eru einu byrðarnar, sem þarf að bera. Það eru fyrst og fremst þeir neytendur, sem hafa tekjur yfir meðallag, sem hafa tekjur yfir 60–65 þús. kr. Það eru þeir, sem bera byrðarnar af því, að hlutur þeirra batnar, sem vinna við togaraútgerðina, þeirra, sem vinna við járniðnaðinn og aðrar greinar innlends iðnaðar, við siglingarnar o.s.frv. Og mér er spurn: Var eðlilegra, að nokkrir aðrir í þjóðfélaginu bæru þessar byrðar, en einmitt þessir aðilar? Það, að þeir bera byrðarnar, kemur þannig fram, að verðlag þeirrar vöru, sem þeir kaupa, hækkar meir, en tekjur þeirra. Þeir missa í raunverulegum tekjum það, sem hinir fá í raunverulega tekjubát. Þetta er kjarni málsins rétt skoðaður. Allt annað, sem um þetta mál er sagt, er blekkingar eða hrein hugsunarvilla.

Það vakti sérstaka athygli í ræðu formanns stjórnarandstöðunnar fyrir matarhlé, að afstaða hans var algerlega neikvæð. Hann fann þessum ráðstöfunum margt til foráttu, en hann benti aldrei einu orði á það, hvað væri skoðun hans eða hans flokks því viðvíkjandi, til hvaða ráðstafana hefði átt að grípa, fyrst hann játaði það með þögninni, að grípa hefði þurft til ráðstafana.

Ég sá það, þegar fundinum lauk fyrir kvöldmat, að hv. 9. landsk. þm., Ólafur prófessor Björnsson, er kominn á mælendaskrána og mun því tala hér síðar í kvöld. Hann var annar aðalráðunautur ríkisstj, 1950, þegar gengisbreytingin var gerð, og samdi þá merka álitsgerð um efnahagsmál, sem var grundvöllur undir þeim ráðstöfunum, sem þá var gripið til. Hv. 9. landsk. þm. er sérfróður maður í þessum efnum, sem hér er um að ræða, og auk þess sá maður í stjórnarandstöðunni, sem ég að öllum öðrum ólöstuðum helzt treysti til þess að taka algerlega efnislega afstöðu til þess máls, sem hér er um að ræða. Þess vegna vildi ég gjarnan beina því til hans, þegar hann nú kemur upp í ræðustólinn á eftir eða síðar í kvöld, að hann svari með einföldum orðum, sem allra einföldustum, fyrst og fremst þessari spurningu: Telur hann rétt að breyta skráðu gengi krónunnar, eins og nú horfir í íslenzkum efnahagsmálum? Telur hann rétt að fara þá leið að breyta genginu? Ég spyr hann ekki, hversu mikið hefði átt að gera það. Því get ég ekki ætlazt til að menn svari þegar í stað án rækilegrar athugunar. En á hinu hlýtur maður eins og hann, helzti sérfræðingur Sjálfstfl. í efnahagsmálum, að hafa alveg fastmótaða skoðun. Átti núna að breyta genginu, eða átti ekki að gera það? Við þessu þarf í raun og veru aðeins að segja já eða nei, og það vildi ég gjarnan að hv. 9, landsk. þm. gerði.

Ég vildi og gjarnan, að hann segði alveg skýrt og skorinort, við því er einfalt svar: Ef hann teldi ekki rétt að breyta genginu, heldur vildi hafa kerfi útflutningsuppbóta, telur hann þá þær útflutningsuppbætur, sem hér er gert ráð fyrir, of háar eða ekki? Við því er líka ofur einfalt svar og þarf lítinn tíma að taka. Hann hefur átt aðgang að upplýsingum, sem eiga að geta gert jafnsérfróðum og jafnfróðum og hæfum manni og hv. 9. landsk. þm. er kleift að mynda sér skoðun á þessu. Jafnframt liggur beint við að bæta við: Ef útflutningsuppbæturnar eru annaðhvort of háar eða of lágar, hvers konar breytingu hefði þá átt að gera á því kerfi innflutningsgjalda, sem stungið er upp á að lögleiða til þess að standa undir greiðslu útflutningsuppbótanna? Ég geri ekki ráð fyrir, að hann mundi mæla með, að á kerfinu yrði halli. Þetta eru allt saman ofur einföld atriði, sem ég trúi ekki öðru, en helzti sérfræðingur Sjálfstfl. í efnahagsmálum hafi þegar þrauthugsað og hafi í huga sér alveg ákveðin svör við. Spurningin er aðeins, hvort hann treystir sér til þess að láta þingheim og þá um leið þjóðina alla heyra svör sín við þessum spurningum. Ég á ekki von á því, að hv. þm. G-K. svari slíkum spurningum. Hann víkur sér undan þeim með einhverjum hætti og kann eflaust að gera það fimlega. En hv. 9. landsk. þm. er í annarri aðstöðu. Hann er í þeirri aðstöðu að hafa sjálfur verið hagfræðilegur ráðunautur ríkisstj., fleiri en einnar, sem hafa verið í mjög líkum kringumstæðum og núv. ríkisstj, er í. Á honum hvílir því sérstök skylda. Ég veit, að hann hefur hugsað um málið og myndað sér skoðun á því, en á honum hvílir sérstök skylda með tilliti til fortíðar hans að segja þingheimi og þjóðinni frá skoðun sinni á þessu máli og gera það afdráttarlaust.

Að síðustu þetta: Menn spyrja eðlilega: Eru þessar ráðstafanir til frambúðar eða ekki? Það er aldrei hægt að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, sem hægt sé að fullyrða um að séu til frambúðar. Það ætti þeim flokki, sem hafði forustu um gengisbreytinguna 1950, að vera a.m.k. jafnljóst og öðrum, því að sú ráðstöfun, sem átti þó að vera allra meina bót vorið 1950, var ekki til meiri frambúðar en það, að grípa þurfti til gagngerðra ráðstafana á ný ári síðar, eða vorið 1951. Hvort þessar ráðstafanir verða til frambúðar eða til hversu mikillar frambúðar þær verða, er fyrst og fremst komið undir þrennu: Það er komið undir afkomu ársins í ár, það er komið undir þróuninni, sem verður á kaupgjaldsmálunum, og það er í þriðja lagi komið undir þeirri stefnu, sem fylgt verður í fjárfestingarmálum og bankamálum.

Ég vil alls ekki fullyrða, að þetta kerfi geti staðið óbreytt um árabil. Hitt vil ég staðhæfa, að í því felast stór og stórmerk framfaraspor til eflingar íslenzku efnahagslífi, til tryggingar stöðugri atvinnu alls vinnandi fólks og til stuðnings vaxandi þjóðarframleiðslu og þar með batnandi lífskjara, þegar frá líður.