14.05.1958
Neðri deild: 95. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. (EOI), sem var að ljúka máli sínu, byrjaði ræðu sína hér í kvöld með því að lýsa því yfir, að hann væri andvígur því frv., sem hér er til umr., og verð ég að segja, að það eru allmerkileg tíðindi, þegar einn aðalforustumaður stærsta stjórnarflokksins lýsir sig andvígan þeim aðgerðum, sem hæstv. ríkisstj. hyggst gera í efnahagsmálunum. Hv. 3. þm. Reykv. tók það fram í ræðu sinni, að þetta frv. væri tæplega gálgafrestur til haustsins, þá mundi vera komið enn verra ástand en nú, og að þetta mundi hrinda af stað verðbólgu og skriðu til hækkunar, bæði á launum og verðlagi. Þetta er áreiðanlega rétt hjá hv. þm., þetta frv. mun leiða til dýrtíðar og hækkunar á nauðsynjum almennings í landinu.

Hæstv. menntmrh. sagði hér í kvöld, að það væri alveg rangt að tala um, að það væri verið að leggja byrðar á þjóðina með þessu frv., þetta væri aðeins tilfærsla, en engar byrðar á þjóðina. En ég er hræddur um, að almenningur í þessu landi sé ekki samþykkur hæstv. ráðh. Hvað mun verkamaðurinn segja, sem hefur ~ þús. kr. mánaðarlaun? Hann á samkvæmt þessu frv. að fá 5% kauphækkun eða 200 kr. á mánuði. Við vitum, að 4 þús. kr. mánaðarlaun eru aðeins þurftartekjur, og verður að halda mjög spart á, til þess að þær dugi. Það þýðir, að þessar tekjur verður verkamaðurinn að nota til þess að kaupa nauðsynjar til heimilisins mánaðarlega fyrir 3000–3500 kr. Nú liggur það fyrir samkvæmt þessu frv., að hækkun nauðsynjavara, sem verkamaðurinn þarf að kaupa, mun vera 20–30%. Ef við förum millileiðina og segjum 25% og verkamaðurinn þarf að verzla mánaðarlega fyrir 3.000 kr., þá er hækkunin í hans búi 750 kr. á mánuði, en hann fær kauphækkun, sem svarar 200 kr. á mánuði. Mun ekki verkamaðurinn segja, að það séu lagðar byrðar á hann, þegar hann af sínum lágu launum verður að greiða 500–550 kr. aukalega til ríkisins vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar?

Ég tek hér láglaunamann sem dæmi, en þetta gildir um aðrar stéttir þjóðfélagsins, og mun ég koma að því síðar, og þá ekki síður bændastéttina og aðrar stéttir láglaunamanna, að þetta mun leggjast sem þung mara á fjölskyldur landsins, sem fram til þessa hafa orðið að vinna hörðum höndum til þess að hafa vel til hnífs og skeiðar. Og þegar hæstv. menntmrh., prófessor í hagfræði, leyfir sér að segja hér í áheyrn hv. þm., að þetta séu ekki byrðar á almenning í landinu, þá munu ýmsir segja, að slík reikningskúnst sé ekki takandi gild, og það er of langt gengið í blekkingarstarfseminni, þegar hæstv. ráðh. leyfir sér að viðhafa slíkan málflutning.

En það er ljóst, hver árangurinn er af vinstristjórnarsamstarfinu í tæp tvö ár. Árangurinn er þetta frv., sem við höfum fyrir framan okkur og nú er verið að ræða um. Árangurinn er stærri álögur og skattar, en nokkru sinni fyrr. Árangurinn er 7–8 hundruð millj. kr. nýjar álögur á þjóðina. Árangurinn af þessu samstarfi vinstri flokkanna er jólagjöfin fræga, 300 millj., 150 millj. kr. hækkun á fjárl. 1957 og svo nú 7–8 hundruð millj., eða 11–12 hundruð millj. kr. hækkun á tveggja ára tímabili. Og menn munu spyrja: Hvernig stendur á því, að vinstri stjórnin þarf svona mikla peninga í sína hít? Hvernig stendur á því, að sú stjórn, sem telur sig stjórn vinnandi fólks í þessu landi, stjórn verkamanna, bænda og lágtekjufólks, skuli gripa til slíkra aðgerða sem nú með því að leggja hinar þungu byrðar á allan almenning í landinu?

Hv. alþm. muna, hvernig var um það leyti, sem þetta vinstristjórnarsamstarf var undirbúið. Þá var talað með miklu yfirlæti um það, að efnahagsmálin hjá fyrrverandi stjórn væru komin í öngþveiti og það þyrfti að brjóta blað í sögunni og stofna til samstarfs á öðrum grundvelli, en þá var. Hv. alþm. muna, að í ársbyrjun 1956 lögðu sjálfstæðismenn fram till. til þess að stöðva dýrtíðina og koma í veg fyrir, að það þyrfti að leggja byrðar á þjóðina vegna dýrtíðar og vaxandi meðgjafar með atvinnuvegunum. En í stað þess að sameinast um þær till., sem kostaði lítið fé, kaus Framsfl. að rjúfa samstarfið, efna til kosninga og stofna til hinnar svokölluðu vinstri stjórnar. Þetta var gert, að Framsfl. sagði, vegna þess að ekki væri unnt að leysa efnahagsmálin með Sjálfstfl. Ég býst við, að landsfólkið sé á annarri skoðun nú heldur en Framsfl. og að almenningur í þessu landi hafi nú sannfærzt um, að efnahagsmál þessarar þjóðar verða ekki leyst án samstarfs eða þátttöku við Sjálfstfl. Ég býst við, að þjóðin hafi nú fengið þá reynslu, sem hún hefur lært af. Eftir að núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, var því lofað, að þjóðarbúið skyldi tekið út fyrir opnum tjöldum og þjóðin fengi að sjá, í hvaða öngþveiti atvinnuvegirnir og þjóðarbúskapurinn var, þegar hún tók við. Til þess voru fengnir sérfræðingar frá Bandaríkjunum. Þeir störfuðu hér og tóku þjóðarbúið út, en alþm. hafa ekki fengið að sjá þessa úttekt og því síður alþjóð. Því hefur stundum verið lofað, að þessi úttekt skyldi birt. Hæstv. forsrh. sagði hér í dag, að einhver hæfur maður ætti að vinna úr þessum skýrslum og það yrði síðan birt eitthvað úr þeim. En hv. alþm. og þjóðin öll óskar eftir að fá að sjá þessa úttekt, ekki eitthvað af henni, heldur eins og hún er. En það er kannske eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. veigri sér við því að birta úttektina, ekki sízt ef það skyldi nú vera svo, að úttektin og niðurstöður hennar staðfestu, að stjórnarflokkarnir við síðustu kosningar hafi haft algerlega rangt fyrir sér um það, að efnahagsmálin væru komin í strand og öngþveiti, um það leyti sem fyrrverandi ríkisstj. fór frá.

Það var svo, að þegar bændur komu að jörðum, vildu þeir láta taka þær út til þess að fá það staðfest, í hvaða ástandi þær væru, til þess að það væri vist, að þegar þeir skiluðu þeim af sér, þá væri það bókað, hvernig ástandið var, því að ef þeir bættu jörðina, þá vildu þeir fá eitthvað fyrir það, þegar þeir fóru í burtu. Þannig var eðlilegt, að núverandi hæstv. ríkisstj, vildi láta taka þjóðarbúið út, ef það skyldi vera í mjög slæmu ástandi, þegar hún tók við. En úttektin staðfesti, að ástandið í þjóðmálum Íslendinga var ekki slæmt á miðju ári 1956. Úttektin staðfesti, að á undanförnum árum hafði verið meiri uppbygging í íslenzku þjóðlífi og atvinnulífi, en nokkru sinni áður án þess að taka erlend lán. Það hafði verið unnið með innlendu fjármagni og undirstaða lögð að bættum efnahag fyrir alþjóð. Það er þess vegna eðlilegt, þótt þessir sérfræðingar hafi séð einhver merki veikleika í okkar þjóðarbúskap og sagt sem svo, að það væri vottur af sjúkdómseinkennum í þjóðarlíkamanum, að hæstv. ríkisstj. vilji ekki birta það, hvernig úttektin er, því að vitað er, að þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn skilar af sér, verður samanburður ekki hagstæður.

Úttekt þjóðarbúsins hefur farið fram, og ef til vill gefst hv. alþm. og alþjóð tækifæri að sjá hana síðar, þótt hæstv. ríkisstj, vilji halda þessum málum leyndum af skiljanlegum ástæðum.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að hæstv. ríkisstj, væri þegar að glata trausti verkalýðs og vinnandi fólks í þessu landi, og það er áreiðanlega rétt, og má taka sterkara til orða og fullyrða, að hæstv. ríkisstj. hefur nú þegar glatað því trausti, sem hún hafði, þegar hún settist að völdum, og það af skiljanlegum ástæðum, af þeim ástæðum einum, að hæstv. ríkisstj. lofaði gulli og grænum skógum, hún lofaði að koma efnahag þjóðarinnar í það horf, sem allir vildu kjósa, og hún lofaði varanlegum aðgerðum, sem búa mætti að til frambúðar. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki staðið við neitt af sínum loforðum, og þess vegna hefur hún glatað trausti þeirra manna, sem vonuðust eftir góðu af henni, þegar hún settist að völdum. Hún hefur glatað trausti sinna eigin flokksmanna, og það er þess vegna, sem hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir gera allt til þess að hanga saman, enda þótt forsendurnar undir samstarfinu séu með öllu brostnar.

Þegar hæstv. ríkisstj. leggur fram frv. eins og þetta, sem er álögur á þjóðina upp á 700–800 millj. kr., þá er eðlilegt, þótt að því sé spurt: Er þetta nauðsynlegt þrátt fyrir þá þróun, sem verið hefur undanfarna mánuði? Og sérstaklega er eðlilegt, að um þetta sé spurt, þar sem ekki er langt síðan ýmsir áhrifamenn úr stjórnarflokkunum hafa talað um allt aðrar upphæðir en þær, sem eru í þessu frv. Menn minnast þess, að hæstv. sjútvmrh. upplýsti við síðustu áramót, að sá samningur, sem ríkisstj. gerði við útgerðarmenn, kostaði aðeins 25 millj. kr. Og menn minnast þess, að sami hæstv. ráðh. skrifaði í Þjóðviljann í febrúar eða marzmánuði í vetur, þar sem hann gerði grein fyrir fjárþörf ríkissjóðs og fjárþörf útflutningssjóðs, og hann talaði um, að það þyrfti aðeins 90 millj. kr. Þá gleymdi hann að vísu 20 millj, til niðurgreiðslu á ýmsum vörum, sem hann vildi ekki viðurkenna þá, en eru væntanlega komnar inn í frv. nú, og hefði þá átt eftir hans útreikningum að nægja, eftir að búið var að taka tillit til 20 milljónanna, 110 millj. Svo nokkru seinna talar Alþýðublaðið um, að það vanti a. m. k. 200 millj. Einnig hv. 1. þm. Eyf. talaði um það hér í vor, að það vantaði a. m. k. 200 millj., en sá eftir því seinna að hafa nefnt svo háa upphæð og óskaði eftir að þurfa ekki að standa algerlega við það. Þegar áhrifamenn úr stjórnarflokkunum hafa fyrir svo skömmum tíma talað um upphæðir eins og þessar, er eðlilegt, að við sjálfstæðismenn, sem höfum fengið frv. fyrir þremur dögum, spyrjum að því, hvort þörf sé á að taka 700–800 millj. í staðinn fyrir 110 millj., eins og hæstv. viðskmrh. nefndi, eða 200 millj., eins og Alþýðublaðið eða hæstv. menntmrh. hefur áætlað, og 200 millj., eins og hv. 1. þm. Eyf. talaði um hér í þessari hv. deild. Ég fyrir mitt leyti ætla ekki að leggja dóm á, hvort þarf allt þetta fé, mig vantar kunnugleika á því. Það má vel vera, að með því að setja dýrtíðarskrúfuna í gang á svo augljósan hátt eins og gert er með þessu frv., þá þurfi þessa fjárfúlgu. Þegar horfið er algerlega frá verðstöðvunarstefnunni og dýrtíðar- og verðbólgustefna tekin upp þess í stað, þá er í sjálfu sér eðlilegt, að það þurfi mikla peninga.

Hæstv. menntmrh. fór mörgum orðum um það hér í kvöld, að það væri kostur við þetta frv., að nú væri lagður skattur á innfluttar rekstrarvörur, rekstrarvörur til landbúnaðar og rekstrarvörur til útgerðar o.s.frv. Það er gert ráð fyrir að endurgreiða útgerðinni 202 millj. af því, sem hún greiðir í skatta af rekstrarvörunum. Bændurnir eiga væntanlega að fá endurgreidda gegnum verðlag á landbúnaðarvörunum þá skatta, sem þeir eiga að greiða af sínum rekstrarvörum. En ég býst við, að það gangi erfiðlegar fyrir bændur að fá það endurgreitt heldur en þó það, sem útgerðinni er beinlínis ætlað samkv. þessu frv. Að vísu er sagt í þessu frv., að það megi hækka mjólk 1. júní n.k. um 5%, og það er ætlað, að bændur fái það, en ég minnist nú þess, að mjólkin átti að hækka um 7 aura 1. sept. 1957, og ég hygg, að bændur séu sammála um, að þeir hafi lítið eða ekkert fengið af þeirri hækkun enn þá, sem stafar af því, að þessi hækkun hefur farið í aukinn kostnað, en ekki í vasa bændanna. Það er hætt við því, — ég ætla ekki að taka sterkar að orði, — að jafnvel þótt bændum verði leyft að hækka mjólkina eitthvað, sérstaklega vegna áætlaðs rekstrarkostnaðar, þá er hætt við því, að þessi 5%, sem þeim er nú leyft að hækka um, fari ekki öll og kannske ekkert í þeirra vasa. Það er hinn aukni rekstrarkostnaður, sem gleypir allt, en bændum er ætlaður sinn skammtur af þeim álögum, sem hér er um að ræða, og skal ég koma að því nánar.

Ég get t.d. nefnt hér nokkur dæmi, sem snerta landbúnaðinn. Við getum t.d. minnzt á fóðurbætinn. Hann hækkar um 43%, og ég heyrði það á hæstv. menntmrh., að hann taldi þetta alveg sérstaklega hyggilega ráðstöfun, m.a. vegna þess, að bændur hefðu séð sér hag í því að nýta ekki grasið vegna þess, hve fóðurbætirinn var ódýr. Hér er talað af miklum ókunnugleika, því að vitanlega hafa bændur nýtt grasið eins og þeir hafa getað. Það vitnar um ræktun síðustu ára og stöðugt vaxandi áburðarnotkun. Menn kaupa ekki áburð, nema þeir nýti það gras, sem sprettur vegna áburðarins, og þetta er vitanlega mikill misskilningur. En vitanlega leiðir þessi mikla hækkun á fóðurbætinum til þess, að landbúnaðarvörurnar hljóta að hækka í verðlagsgrundvellinum, hækka til neytendanna, hvort sem bóndinn nýtur góðs af því eða ekki.

Ég get nefnt aðra vöru, sem er mjög þung í þessu efni einnig, og það er áburðurinn, innfluttur áburður. Hann hækkar samkv. þessu frv. um hvorki meira né minna en 50%. Enda þótt við höfum áburðarverksmiðju, þá verðum við að flytja inn mikið af áburði, steinefnaáburði, vegna þess að áburðarverksmiðjan framleiðir aðeins köfnunarefni. Ég býst við, að þessi hækkun komi lítið til framkvæmda í þetta sinn vegna þess, hve þetta frv. er seint á ferðinni. En verði þau lög í gildi næsta ár, þá munu bændur finna, hvað áburðurinn kostar, og þá mun það einnig hafa viðtæk áhrif á afurðaverðið til neytenda, hvort sem tekst að láta bændur njóta þar góðs af.

Þá get ég einnig nefnt annað, sem er mjög þýðingarmikið í búrekstri bænda, ekki sízt vegna þess, að bóndinn og bóndakonan verða nú vegna fólkseklu að vinna með börnum og unglingum að framleiðslunni, og þetta er aðeins mögulegt, ef bóndinn hefur vélar til þess að nota. En það er svo, að það hefur verið algert innflutningsbann á heyvinnuvélum og landbúnaðarvélum að þessu sinni og er enn, nema dráttarvélum, sem koma ekki nema að takmörkuðum notum, ef engar vélar fást aftan í traktorana til þess að nota. En ef við tökum t.d. dráttarvélarnar þá hækka þær samkv. þessu frv. um 32–33%, varahlutir í dráttarvélar um 31%, heyvinnuvélar og varahlutir til þeirra um 30%, mjaltavélar um 31%. Þetta hlýtur einnig að koma inn í verðgrundvöllinn, þegar reiknað er út afurðaverð bænda, og það kemur áreiðanlega fram í sölunni til neytendanna, þótt erfitt verði að fá það í vasa bændanna, m.a. vegna þess, að eins og nú er í pottinn búið, er augljóst, að kaupgeta almennings við sjóinn fer þverrandi og minnkandi, og það hefur hin skaðvænlegustu áhrif fyrir bændastéttina, ef dregur úr sölu mjólkur og kjöts á innlendum markaði. Það er þess vegna ekki einhlítt að hækka vöruna í verði á markaðnum hér, ef kaupgetan er ekki fyrir hendi og varan ekki selst. Bændur hafa ekki gott af því, og þess vegna segi ég það: Þetta kemur að einhverju leyti inn í verðgrundvöllinn, það kemur fram í útsöluverðinu, en það er engan veginn tryggt, að bændur fái þessa hækkun eða njóti góðs af henni, þegar þannig er á málunum haldið, að allt virðist eiga að dragast saman, kaupgetan minnkar, atvinnan minnkar, einnig vegna þeirra ráðstafana, sem hér er verið að leggja til.

Ég hef hér minnzt á nokkuð, sem snertir landbúnaðinn sérstaklega. En það má einnig minnast á hér a.m.k. eina vörutegund enn, sem snertir landbúnaðinn, það er benzínið. Það hækkar nú aðeins um 62 aura, fer að mér sýnist upp í 2.90 kr. lítrinn úr 2.27 kr., sem það er í dag. En það ætti að vera, að mér hefur skilizt, kr. 2.09, en ekki kr. 2.27, ef verðlagið hefði verið lækkað, eins og mögulegt hefði verið, en ríkisstj. hefur ekki viljað gera. Þetta hefur vitanlega ákaflega mikil áhrif fyrir landbúnaðinn, sem notar mikið benzínvélar, dráttarvélar, bifreiðar og fleiri vélknúin tæki. Og ekki hefur síður áhrif, hversu vörubifreiðar og varahlutir til þeirra hækka mikið. Vörubifreiðar hækka, ef þær fást, um 25%, og varahlutir í bifreiðar hækka um 25%, bifreiðagúmmí 20%. Skyldi þetta lækka dreifingarkostnaðinn á mjólkinni t.d.? Skyldi þetta lækka flutningskostnaðinn á afurðunum? Það er fróðlegt að athuga, hvernig núverandi hæstv. ríkisstj. hefur nú farið með þessi þörfu flutningatæki og einu samgöngutæki, síðan hún tók við. Það hefur verið hækkað bæði með jólagjöfinni og svo aftur núna, hækkun núna rösklega 25%, en hækkun síðan núverandi hæstv. ríkisstj. tók við á vörubifreiðum er 43%. Vörubifreið, sem kostaði 1947 144 þús. — það er meðalstór dísilvörubifreið — kostar núna 180 þús. Þá má einnig minna á jeppana, sem hafa verið fluttir inn frá Rússlandi. Þeir hækka samkv, þessu frv. um 20%, en hafa hækkað, frá því að núverandi ríkisstj. tók við, um 55%. Þetta eru þó tæki, sem bændur eru að klifa þrítugan hamarinn til þess að eignast til þess að vinna bug á strjálbýlinu og til þess að spara sér tíma í fólksleysinu, en hæstv. ríkisstj. hefur verið ákaflega dugleg í því efni að hækka þetta.

Ég vil þess vegna segja, að þetta frv. kemur ekki sízt þungt niður á landbúnaðinum. Það eru lagðir skattar á rekstrarvörur landbúnaðarins, án þess að það sé tryggt, að landbúnaðurinn fái þetta bætt aftur. Ég veit, að það verður sagt, að útfluttar landbúnaðarafurðir njóti sama réttar og beztu kjara, miðað við aðrar útfluttar vörur. En þær landbúnaðarvörur, sem þarf að flytja út, seljast á það lágu verði, að þessar uppbætur nægja alls ekki til þess að ná verðgrundvellinum, sem bændum ber að fá samkv. útreikningum verðlagsnefndarinnar. Ef ofan á það bætist, að kaupgetan við sjóinn minnkar og salan dregst saman á hinum óunnu vörum, þá er hag bændastéttarinnar beinlínis stefnt í voða með þessu. Það er lagður þungur skattur á rekstrarvörur útgerðarinnar. En það er með þessu frv. gert ráð fyrir því að endurgreiða útgerðinni þær álögur, með því að hér er talað um endurgreiðslu til útgerðarinnar, 242 millj., á móti þeim sköttum, sem rekstrarvörur útgerðarinnar bera.

En það er fleira, en rekstrarvörur til útgerðar og landbúnaðar, sem hækkar samkv. þessu frv., enda þótt það sé alveg nýmæli í efnahagsráðstöfunum, að hækkunin er mest á nauðsynjavörum. Hækkunin er mest á nauðsynjavörunum samkv. þessu frv., bæði á rekstrarvörum landbúnaðar og útgerðar, og vil ég þá nefna t.d. olíu, sem bæði útgerðin og almenningur, hvar sem hann býr í þessu landi, notar mikið. Húsaolía t.d. hækkar um 30%. Það mun nú vera svo, að meðalíbúð noti 6–8 tonn af olíu á ári, og 8 tonn kosta 6.400 kr. með núgildandi verði, en við það bætast 32%, sem er hátt á annað þús. kr. Það er liður, sem ég ekki nefndi áðan í útreikningum um aukin útgjöld hjá láglaunafólki, hátt á annað þús. kr. eða nærri 200 kr. á mánuði, sem liðurinn til upphitunar á meðalíbúð hækkar samkv. þessu frv.

Smurningsolía, sem notuð er á allar vélar, hækkar um 30%.

Þá er komið við byggingarefnið, og hefur það fram að þessu verið talin nauðsynjavara. Ég ætla, að það verði að telja byggingarefnið enn í þessu landi nauðsynjavöru, enda þótt allir ræðumenn stjórnarflokkanna tali mikið um það, hversu fjárfestingin sé of mikil í þessu landi. Þeir tala um það, að allt böl í efnahagsmálunum sé of mikilli fjárfestingu að kenna. Það má vel vera rétt, að fjárfestingin sé of mikil á vissum sviðum, en samkv. upplýsingum, sem voru gefnar hér í dag, hefur fjárfesting við íbúðabyggingar hér í Reykjavík aukizt um 12% á árinu 1957 frá því, sem var 1956. En hvernig stendur á því, úr því að allir stjórnarflokkarnir eru sammála um það, að þessi mikla fjárfesting sé böl, að þeir skuli þá ekki hafa dregið úr fjárfestingunni? Hvernig stendur á því? Þeir höfðu þó vissulega valdið til þess að gera það. En fjárfestingin hefur aukizt á vissum sviðum og þá helzt á þeim sviðum, sem ekki eru til þess að auka framleiðsluna, síðan núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, þegar hann var að tala um fjárfestinguna í sjávarútveginum, að 1955 hefði fjárfesting í sjávarútvegi verið 91 millj., en þetta hefði breytzt, eftir að núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá hefði fjárfestingin við sjávarútveginn 1956 orðið 140 millj. En skyldi það nú hafa verið þessari hæstv. ríkisstj. að þakka? Fjárfestingin í sjávarútveginum 1956 varð 140 millj. vegna þess, að fyrrverandi ríkisstj. lagði grundvöllinn að því. Núverandi ríkisstj. tók við völdum í júlí lok 1956 og gat ekki, þótt hún hefði haft vilja til, haft áhrif á aukna fjárfestingu í sjávarútvegi á árinu 1956. Fjárfestingin í sjávarútvegi óx 1956 vegna þess, að fyrrverandi stjórn lagði grundvöllinn að því. Það var hún, sem gerði ráðstafanir til þess að panta fiskibáta til landsins. Það var hún, sem lagði grundvöllinn að uppbyggingu sjávarútvegsins í sinni stjórnartíð, enda þótt ekki væru keyptir togarar. Það voru keyptir og byggðir í landinu stórir og margir vélbátar, og ég ætla, að þeir bátar hafi komið að miklum notum síðan.

1957 er fjárfestingin í sjávarútvegi 147 millj., eða aðeins 7 millj. hærri, en 1956. Fjárfestingin í sjávarútvegi 1957 er einnig að miklu leyti því að þakka, að fyrrverandi ríkisstj. lagði grundvöllinn að því. Þeir komu ekki fyrr, en á árinu 1957, bátar, sem eru pantaðir af fyrrverandi ríkisstj. á árunum 1955 og 1956. Það er þess vegna þessi stoð og þetta, sem hv. 3. þm. Reykv. vildi telja núverandi hæstv. ríkisstj. helzt til gildis, sem hrynur og ekki heldur, og verð ég að segja þetta, enda þótt ég hefði unnt hv. 3. þm. Reykv. að hafa þetta sem blóm í hnappagatinu til stuðnings við þá ríkisstj., sem hann hefur nú misst allt traust á.

Ég get nefnt verðhækkanir á fleiri vörum, t.d. á byggingarefninu, sem á að koma í veg fyrir of mikla fjárfestingu. Við skulum taka timbrið, það hækkar um 25–29% eftir því, hvaða tegund timburs það er, sementið um 30%, þakjárnið um 20%, steypujárn um 20%, rúðugler um 22%. Þetta á m.a. að koma í veg fyrir of mikla fjárfestingu, koma í veg fyrir það, að menn geti byggt, koma í veg fyrir það, að atvinnan sé of mikil í landinu, tryggja hæfilegt atvinnuleysi, eins og stundum hefur verið talað um.

Þegar jafnglöggur maður og hv. 3. þm. Reykv. les þetta frv. og sér, hvaða afleiðingar það hefur, þá undrar mig ekki, þótt hann í byrjun ræðu sinnar lýsi því yfir, að hann sé andvígur þessum ráðstöfunum.

Þá eru það kornvörur, kaffi og sykur, —vörur, sem almenningur keypti á hinum mestu kreppuárum og getur ekki neitað sér um. Þessar vörur hækka um 15%, og hæstv. menntmrh. ætlaði að nota sína reikningskunnáttu áðan og reikningslist og sannfæra hv. þm. um það, hversu hæstv. ríkisstj. væri nú velviljuð almenningi í landinu að hækka ekki þessar vörur meira, því að raunverulega gæfi hæstv. ríkisstj. 25% með þessum vörum, þar sem yfirfærslugjaldið á þeim væri aðeins 30%, en á öðrum vörum 55%. Ég hygg nú, að hæstv. menntmrh. takist ekki að ávinna sér traust og þakklæti almennings í landinu fyrir þessa gjöf, og almenningur í landinu tekur ekki þessa reikningskennslu gilda. Hann skilur, að hér er verið að hækka brýnustu nauðsynjar, sem fólkið neitar sér ekki um og verður að kaupa.

Þá eru það búsáhöld, þau einföldustu og ódýrustu, sem heldur er ekki hægt að komast hjá að kaupa, þau hækka um 26%, hreinlætisvörur, sem allur almenningur verður að nota, 26%, hreinlætistæki, sem allir verða að nota, 25%, skófatnaður, sem enginn getur komizt af án, 27%, metravara, sem allir verða að kaupa, frá 8 til 45%, nælonsokkar 26%, en sumir vilja kannske halda því fram, að þeir séu óþarfir. Ég býst við, að það sé erfitt, og ég held næstum því, að hæstv. menntmrh. mundi varla voga sér að segja, að þetta væri alveg óþarfur varningur.

Ég hef nú talið hér upp ýmsar brýnustu nauðsynjar, og ég hygg, að þegar þetta er athugað ofan í kjölinn, verði menn sammála um, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft það fyrst og fremst í huga að hlífa öllum almenningi við álögunum og að þetta eru þær þyngstu og mestu álögur, sem lagðar hafa verið á fólk. Það er þess vegna rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þetta frv. veldur nýrri dýrtíðarskrúfu, — dýrtíðarskriðu, sem ekki er hægt að sjá fyrir hvaða afleiðingar kann að hafa fyrir okkar efnahag og þjóðlífið í heild sinni.

Það væri eðlilegt, að menn spyrðu að því, hvernig stendur á því, að svo er komið sem komið er, að það skuli vera til umræðu frv. eins og þetta, að ríkisstj., sem var mynduð með jafnmiklum loforðum og miklu yfirlæti, skuli eftir 18 mánaða setu ekki hafa annað til málanna að leggja í okkar efnahagsmálum en þetta, sem traustustu og sterkustu stuðningsmenn hennar fram til þessa tíma segja að sé aðeins tjaldað til einnar nætur eða svo og að í haust verði ástandið mun verra, en það er nú, þótt þetta frv. verði samþ. Skýringin á því, að svona er komið, er eingöngu sú, að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur ekki valdið verkefnunum. Hún hefur lofað fólkinu öllu góðu, en hún hefur ekki staðið við neitt.

Hæstv. forsrh, talaði til þjóðarinnar í útvarp haustið 1956 og sagði þar, að ríkisstj. hefði náð samstöðu við stéttarfélögin í landinu með verðstöðvun, með aðgerðir í efnahagsmálunum. Þegar forustumenn stéttarfélaganna hlustuðu á þessar fullyrðingar hæstv. ráðh., könnuðust þeir ekki við, að slíkir samningar hefðu tekizt. Varð það til þess að koma illu blóði inn hjá mörgum forustumönnum stéttarfélaganna, sem leiddi til hinna tíðu og mörgu verkfalla á árinu 1957, og smátt og smátt hefur þessi hæstv. ríkisstj. verið að glata því trausti, sem hún hafði, þar til nú að svo er komið, að hún hefur ekki traust nema örfárra manna, og stjórn, sem þannig hefur farið að, er illa á vegi stödd og getur ekki leyst verkefni. Það er eins ástatt fyrir henni og einstakling, sem ekki nýtur trausts. Það er sama, þótt hann vildi vel, hann nýtur sín ekki. Hann getur ekki komið í framkvæmd góðum málum eða leyst erfið verkefni. Ég býst við því, að ýmsir vilji halda því fram, að núverandi hæstv. ríkisstj. eigi það ekki skilið að hafa einskis manns traust. Við skulum lofa mönnum að deila um það. Við skulum ekki leggja dóm á það. En við skulum eigi að síður játa staðreyndirnar, að þannig er þetta í dag, og þess vegna þarf ekki að búast við því, að núv. hæstv. ríkisstj. leysi nokkurn vanda. Það þarf ekki að reikna með því, og það, sem gera þarf, er þess vegna það að stokka spilin upp. Það þarf að gefa þjóðinni tækifæri til þess að leggja sinn dóm á það, sem gert hefur verið á undanförnum mánuðum, og til þess að leysa þann vanda, sem okkar þjóðfélag nú býr við, verður að fá stjórn, sem nýtur trausts fólksins, sem gerir samninga við fólkið og segir fólkinu sannleikann og leggur spilin á borðið, — stjórn, sem ekki aðeins lofar, heldur stjórn, sem segir þjóðinni, hvernig ástandið er og hvað þarf að gera. Þá er ég sannfærður um, ef þannig er að farið, að þá má leysa þann vanda, sem okkar þjóðfélag nú er í, vegna þess að þetta þjóðfélag hefur mikla möguleika, — það hefur mikla möguleika til þess að halda áfram uppbyggingu og til þess að halda uppi góðum lífskjörum í landinu. Við sjálfstæðismenn munum ekki skorast undan skyldunni til þess að taka þátt í uppbyggingarstarfinu, því að þótt núverandi stjórnarflokkar hafi með miklu yfirlæti sagt, að hæstv. ríkisstj. muni leysa vandamálin án samstarfs við Sjálfstfl., þá veit þjóðin það í dag, að vandamálin verða ekki leyst nema kalla Sjálfstfl. til ráða og starfs.