16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Í nálega fimm mánuði að undanförnu hefur þing og þjóð gert ráð fyrir því að fá í hendur tillögur um einhverjar veigamiklar ráðstafanir í efnahagsmálum, eins og kallað er, sem eru sama og fjármál þjóðarinnar. Eftir þeim burði hæstv. ríkisstj. hefur verið beðið svo lengi. Nú loks, þegar fóstrið er komið löngu eftir eðlilegan tíma, höfum við það í höndum undir nafninu frv. til laga um útflutningssjóð o.fl. Þessi stjórnarkálfur er einhver ófélegasti vanskapningur, sem sézt hefur á Íslandi. Aðalatriðið er dulbúið gengisfall íslenzkra peninga, sem kemur fram í mynd hækkaðra tolla á aðfluttar vörur, er nema munu 790 millj. kr., miðað við heilt ár. Þetta verkar sem tilsvarandi hækkun á öllu vöruverði, en í leiðinni lögboðin hækkun á öllum launum og kaupgjaldi um nokkra tugi millj. kr.

Núverandi hæstv. ríkisstj. vann það afrek í desembermánuði 1956 að hækka tolla og skatta um rúmar 400 millj. kr., miðað við heilt ár og samkvæmt áætlun. Var þó fjórði hluti þeirrar upphæðar áður til í öðru formi og hét bátagjaldeyrir. Með þeim 790 millj., sem nú á að bæta við ofan á allt hitt, er hækkunin öll orðin 1100–1200 millj. kr. eða meira, en einn milljarður — og það um tveimur mánuðum, áður en þessi hæstv. stjórn getur haldið sitt tveggja ára afmæli. Með þessu er fengin full skýring á því dularfulla fyrirbæri, þegar núverandi og fyrrverandi fjmrh. beitti sér fyrir því fyrir meira, en tveimur árum, þegar hann var í fyrrv. ríkisstj., að fá 400 manna flokksþing framsóknarmanna til að samþ., að ómögulegt væri að ráða fram úr efnahagsmálum þjóðarinnar í samstarfi við sjálfstæðismenn. Maðurinn skildi það og vissi réttilega, að ómögulegt mundi reynast að fá sjálfstæðismenn til þess að ákveða þvílíka hækkun á tollum og sköttum, þar yrði að fá aðra menn til. Og nú eiga þeir að halda áfram að gegna þjónshlutverkinu í þessum efnum, fulltrúar Alþfl. og Alþb., þeirra flokka, sem árum saman höfðu áður hrópað sig hása innan þings og utan út af því, hve skattar og tollar væru óhóflega háir og drepandi. Má því með miklum rétti segja, að þarna hæfi hvað öðru, fjármálaforustan og liðsmennirnir.

Það er nú látið í veðri vaka af hæstv. ríkisstj. og fulltrúum hennar, að þessar ráðstafanir eigi að bjarga framleiðslu okkar lands, þ.e.a.s. sjávarútvegi og landbúnaði. Og vissulega þurfa þeir atvinnuvegir hjálpar við. Við skulum líta ofurlítið á það mál.

Hvað mundi það nú vera, sem einkum þjakar þessa atvinnuvegi? Við vitum, hvað það er. Það er fyrst og fremst of mikill rekstrarkostnaður, of háir skattar, of hátt vöruverð og of hátt kaupgjald. Allt þetta myndar til samans of háan rekstrarkostnað. Að undanförnu hefur vísitöluskrúfan verið látin sjá fyrir því, að þetta hefur skrúfað hvað annað upp á víxl. Það er vöruverðið, skattarnir, tollarnir og launin. Allt þetta, er svo að sliga framleiðsluna. En nú er það snjallræði hæstv. ríkisstj. að hækka þetta allt svo stórkostlega, sem þegar hefur verið lýst, og það á að vera framleiðslunni til bjargar. Í þessu kemur fram á greinilegan hátt sú lífsregla, sem kennd hefur verið við Gretti Ásmundarson og hljóðar á þessa leið: Svo skal böl bæta að bíða annað meira.

Hv. þm. G-K., formaður Sjálfstfl., hefur gert grein fyrir aðalatriðum þessa máls og sömuleiðis aðrir þeir flokksmenn mínir, sem hér hafa talað. Við þetta þykir mér þó ástæða til að bæta fáeinum athugasemdum umfram það, sem þegar er sagt. Vil ég byrja á því að víkja nokkru nánar að þeim, sem þetta á að bjarga. Er þar fyrst að nefna sjávarútveginn, sem talið er að fái hæstar uppbætur af tekjum útflutningssjóðs. Sú breyting er gerð frá fyrri lögum varðandi þennan atvinnuveg, að nú á að leggja 55% yfirfærslugjald á flestar eða allar rekstrarvörur hans, sem áður voru undanþegnar. Er talið, að sú upphæð nemi um 202 millj. kr., sem þannig er lagt á útveginn, til þess að greiða honum aftur í uppbætur á afurðir. Þessi aðferð svarar til þess að taka fé úr einum vasa og láta í annan á buxum eða jakka sömu manna eða sömu stéttar. Þetta er undarleg aðferð og harla tilgangslítil. Þessar 202 millj. kr. mætti því að skaðlausu strika út úr spilinu, undanþiggja rekstrarvörur útvegsins þessum háu gjöldum eins og s.l. ár og borga atvinnuveginum að sama skapi minni uppbætur. En hæstv. ríkisstj. virðist hafa það takmark að hafa útgjöldin sem allra hæst og uppbæturnar sem hæstar. Það er rétt eins og henni sé það metnaðarmál að sýna sem allra hæstar tölur, þó að engin þörf kalli þar að.

Svipað þessu má segja um landbúnaðinn, Allar helztu rekstrarvörur hans eru nú hátollaðar með þessu frv., en voru undanþegnar í fyrra. Þannig er um áburð, fóðurbæti, landbúnaðarvélar, varahluta og áhöld, benzín, olíu og svo byggingarefnin, sem bændur þurfa mikið að nota. Á þessar vörur er lagt 55% yfirfærslugjald, sem svo á að nota til að greiða útflutningsbætur á útfluttar afurðir og borga niður afurðir á innlendum markaði til þess að halda niðri vísitölu framfærslukostnaðar.

Í þessu verður lítið vart við rökrétta hugsun, nema því aðeins að málið allt sé upphaflega hugsað sem hreint gengisfall, en síðan snúið upp í það að flétta saman gengisfalli og gífurlegum skattaálögum. Er skýringuna á þessari hringavitleysu líklega helzt þar að finna.

Sama er að segja um þá hliðina, sem snýr að ríkissjóði sjálfum og stofnunum ríkisins. Með þessum lögum á að lögleiða hækkun á öllum launum og öllum kostnaði við ríkisreksturinn í smáu og stóru. Þetta gildir varla, minna en 80 millj. kr. á ári. Síðan á að hækka söluskatt og verðtoll, ekki einasta til þess að borga þessa hækkun, heldur miklu meira, svo að unnt verði að fá marga tugi millj. kr. í aðra eyðslu. Mér hefði nú fundizt, að það væri á því meiri þörf að spara eyðslu ríkisins og stofnana þess um t.d. 80 millj. kr., sem vel er hægt, og létta með því á skattabyrði þjóðarinnar. Að draga úr þenslunni er það, sem er nauðsynlegra, en annað, en það virðist sú eina leið, sem ekki má nefna. Meiri þensla, meiri dýrtíð, hærri laun, hærri skattar, hærra vöruverð, það er nú sem fyrr, aðferð núverandi og fyrrverandi fjmrh. Þetta frv. er sem stendur toppurinn á þeim óheillaturni. Héldu þó margir, að hann væri orðinn nægilega hár áður, eftir hina frægu jólagjöf 1956.

Ég skal þá koma nokkuð að því, sem lengi hefur verið eitt höfuðvandamál í okkar fjármálakerfi, en það er vísitöluskrúfan, sem sett var í gang árið 1940 og alltaf síðan hefur verið höfuðbölvaldur í öllum okkar fjármálum. Nokkrir af hinum skynsamari alþm. í stuðningsliði ríkisstj. höfðu fyrir nokkru sagt mér, að nú ætti að skera á hnútinn og afnema vísitöluskrúfuna fyrir fullt og allt. Lét ég um það þau orð falla, að ef þetta yrði gert, þá mætti margar syndir fyrirgefa. Og það er alvara, því að frá upphafi hefur mér verið ljóst, að vísitöluskrúfan væri sú höfuðvilla, sem ekkert þjóðfélag og sízt okkar hið fátæka og smáa gæti staðizt, nema um stundarsakir. Þess vegna hef ég beðið eftir þessu frv. með nokkurri óþreyju. Ég vonaði að þessu leyti góðs, vissi líka, að hið eina rétta, sem þessi ríkisstj. hefur gert, er það, þegar hún stöðvaði kaupgjald og verðlag sumarið 1956. Sá Adam var þó ekki lengi í paradís. Hann lifði ekki nema 4 mánuði og kom þess vegna að litlu eða engu haldi. En hvað sem um það er, þá urðu mín vonbrigði mikil, þegar ég hafði lesið þetta frv. Í því er ekkert að finna um afnám vísitöluskrúfunnar annað en það, að í grg. er mjög lauslega að því vikið, hver nauðsyn sé á að breyta til og það muni verða tekið eitthvað til athugunar síðar á árinu. Rannsókn erlendra og innlendra sérfræðinga og margra mánaða starf þeirra hefur þá ekki dugað til þess að gera þessa grundvallarathugun, ekki heldur nærri tveggja ára starf þessarar ríkisstj., sem hefur lofað því hátíðlega að lækna allt okkar fjármálakerfi með varanlegum ráðstöfunum. Það má því geta nærri, hve mikið er að marka þær lauslegu aths., sem um þetta er að finna í grg. þessa frv. á bls. 15.

Frv. sjálft gefur til kynna, að vísitöluskrúfan á að halda áfram og skriðan og veltan og vitleysan, sem því fylgir, alveg brotalaust. Sú aðferð er að vísu ákveðin til að byrja með að borga 9 vísitölustig af 17, sem gert er ráð fyrir að frv. orsaki, með 5–7% almennri lögákveðinni grunnlaunahækkun í stað þess að greiða þessi 9 vísitölustig niður, sem vísast er að mundi kosta 54–60 millj. kr. Samtímis á að sletta því í þá bændur, sem framleiða mjólk til sölu, að hún megi hækka um 5% frá 1. júní. Hinir bændurnir eiga ekkert að fá til jafnvægis hinum háu gjöldum til 15. sept., og þá þykir mér sennilegast eftir fenginni reynslu, að framsóknarmennirnir, sem ráða hinu svonefnda Stéttarsambandi bænda, verði knúðir til að samþykkja fyrir allt saman hækkun á verðgrundvelli um 1.8% eða eitthvað því líkt.

Við launamenn, sem gera kröfur, er aldrei orðuð minni hækkun, en 5–10%, en þegar bændur eiga í hlut, kemur annað hljóð í strokkinn. Þeim er talið allt boðlegt, enda búið að koma forustumönnum þeirra í þá úlfakreppu, að með eðlilegri og sanngjarnri verðhækkun afurða er vafasamt, að hægt sé að tryggja samsvarandi eðlilega og réttláta tekjuhækkun heim á heimilin. En samkvæmt þessu frv. á vísitöluskrúfan að halda áfram og þar með vaxandi öfgar og fjármálavitleysa.

Í frv. er ekkert bann við hækkun grunnlauna eða vísitölu. Það má þó með miklum rétti segja, hvað sem öðru líður, að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur haft til þess sterka aðstöðu að afnema vísitöluskrúfuna og stöðva algerlega þá víxlhækkun útgjaldanna, sem er að því komin að eyðileggja allt okkar fjármálakerfi og þar með fjárhagslegt sjálfstæði okkar þjóðar. Á meðan þetta er ekki gert, er það marklaust slúður og einskis nýtt að tala um varanleg úrræði til að bæta úr þeim meinsemdum, sem þjaka fjármál okkar lands. Það er eins um hverja félagsheild og líka heilt þjóðfélag eins og einstaklinginn, að það er enga meinsemd hægt að lækna nema með því að ná í burtu orsökunum, og orsakirnar til meinsemdanna í okkar fjármálum eru vísitöluskrúfan og fylgifiskar hennar ofeyðslan, ábyrgðarleysið og sá mikli skortur á fyrirhyggju, sem einkennir okkar stjórnarfar og aldrei hefur gengið svipað eins langt og nú.

Ég skal taka það fram, að ummæli hæstv. forsrh. í framsöguræðu hans hér í fyrradag sýndu, að hann gerir sér nú orðið ljóst, hvílíkur voði vísitöluskrúfan er. Hann lýsti því, að slíkt þekktist ekki í nokkru öðru landi í svipaðri mynd og hér, og hann lýsti því, að þetta væri heimatilbúið böl. En þessi hæstv. ráðh. var í sömu stöðu og nú, þegar þessi villa var lögfest fyrst, og síðan eru meir en 18 ár. Nú hefur hann verið stjórnarforseti nærri tvö ár, og aldrei hefur sokkið nærri því eins djúpt og á þeim tíma, og enn sést ekkert bóla á því, að þetta undirstöðuatriði bjargráðanna verði leyst, annað en góð orð þessa hæstv. ráðh. um athugun þess í haust. Ég efa nú ekkert góðan vilja þessa hæstv. ráðh. í þessu efni, og ég reikna ákveðið með því, að hann hafi lýst sínum skoðunum af einlægni. Og mér er það ánægjuefni, að hann virðist nú hafa sömu skoðun á þessu sem ég hef haft í 18 ár og aldrei farið dult með. En þótt svo sé, er engin vissa fyrir neinum framkvæmdum í rétta átt um þetta mál frekar á næstunni en undanfarið, og það gera þeir samstarfsmenn, sem hæstv. forsrh. hefur með sér. Þeir eru fáir líklegir til að fylgja honum á þeirri leið. Þess vegna eru ekki miklar líkur fyrir réttri afgreiðslu. Það er líka stórum verra í alla staði að ná réttu marki, ef það fráleita frv. verður áður samþykkt, sem hér er til umr.

Varðandi vísitöluskrúfuna er sérstaklega nauðsynlegt að sjá, ef til er, álit þeirra sérfræðinga erlendra og innlendra, sem til hafa verið kallaðir, og heimta nefndir Alþingis væntanlega að fá að sjá þau skjöl.

Hér reis upp í fyrrakvöld hæstv. fjmrh. og talaði, eins og stundum áður, af miklum þjósti og yfirlæti. Þóttist þessi herra nú þess umkominn að siða formann Sjálfstfl., hv. þm. G-K. (ÓTh), og lézt þá tala í umboði þjóðarinnar. Ég vil segja honum og öðrum það, að í nafni þjóðarinnar getur hann ekki talað, því að með allri sinni glæframennsku hefur hann glatað trausti almennings. Mun þó þetta frv. reka þar endahnútinn á, því að allt ber það svip og einkenni þessa ráðh., enda leyndu sér ekki móðurtilfinningarnar í þeirri ræðu, sem hann var hér að enda við að flytja. Það var líka hann, sem sveikst aftan að sínum samstarfsmönnum, sem eru honum að öllu leyti miklu fremri, á meðan hann var í fyrrverandi ríkisstj., og fór á harða hlaupi yfir til andstæðinga þeirrar stjórnar. Erindið var að fá þessa andstæðinga til að hjálpa þessum herra til að koma sínum öfgaráðum í framkvæmd og það gegn sjálfstæðismönnum, bæði þeim ráðum, sem nú eru á prjónunum, og öðrum, sem áður eru þekkt. Áður þóttist þessi pólitíski braskari vera mjög andvígur kommúnistum, en síðan þetta gerðist, hefur hann verið fastbundinn við þeirra samvinnu og m.a. unnið gegn sínum samstarfsmönnum í Alþfl., eins og nú er orðið alkunnugt.

Margir aðilar í núverandi stjórnarflokkum hafa unnið að því á undanförnum árum að eyðileggja fjármál okkar lands, beint og óbeint. Þó hefur enginn einn maður átt í því eins mikinn hlut og hæstv. fjmrh. að leiða þjóðina út á gjaldþrotabrautina. Virðist líka augljóst, að núverandi stjórn hætti ekki fyrr, en gjaldþrotið blasir við allra augum, því að hún vinnur að því öllum árum að koma þeim á höfuðið, sem upp úr hafa staðið.

Ég vil nú til viðbótar því, sem hv. þm. G-K. sagði í fyrradag, segja það, að okkur sjálfstæðismönnum finnst það ekki til mikils að senda till. um okkar úrræði í hendur þeirra ráðleysingja, sem nú fara með völd, því að oftast veltur á miklu, hvernig með framkvæmdina er farið. Þegar við sjáum leiðir til að framkvæma sjálfir okkar úrræði, þá mun ekki standa á þeim, og þegar okkur verður afhent þrotabú vinstri stjórnarinnar, þá mun okkar flokkur taka til sinna ráða, eins og góðum skiptaráðanda hæfir. En það veit þjóðin öll, að í meðferð gjaldþrotabúa, er aldrei góðra kosta völ.

Nú hef ég að nokkru leyti lýst því, hvað ég tel helzt þurfa að gera og hvað helzt beri að varast, en í aðalatriðum gengur þetta frv. þar í öfuga átt.

Ég skal ekki fara mikið út í það að svara þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. var hér að enda við að halda, en í henni var það augljóst, að það er hann, sem er aðalhöfundurinn að þessu frv., eins og búast mátti við, því að hann er eini ráðh., sem hér hefur talað, sem hefur lýst þessu sem einhverju hinu mesta ágætismáli og nauðsynlegu á allan hátt. Ég geri ráð fyrir því, að mínir flokksmenn muni svara þessari ræðu nokkuð. Hún var ekki flutt af eins miklum þjósti eins og ræðan í fyrrakvöld, og margt í henni á þá leið að reyna að útskýra, hvað það væri, sem fyrir manninum vakti. En það var auðheyrt, að hann taldi það sérstaklega nauðsynlegt, hæstv. ráðh., að koma þessu fram, bæta við fúlguna, sem áður er byrði á þjóðinni, þessum 790 millj. kr., og það væri auðvitað öllum til góðs, það væri til þess að létta undir með framleiðslunni og allri þjóðinni, og ef þetta væri ekki gert, þá væri hér allt í voða, allt mundi þá sökkva, allir atvinnuvegir stöðvast, atvinnuleysi skapast o.s.frv.

Það eru þó örfá atriði í þessari kjarabótaræðu hæstv. ráðh., sem ég vildi aðeins víkja að, og mætti margt um það segja, að það séu sérstakar kjarabætur t.d. fyrir landbúnaðinn að hækka tilbúinn áburð og fóðurbæti og vélar með 55% yfirfærslugjaldi. En rökin fyrir því, að þetta væri ágætt fyrir landbúnaðinn, voru þau, að heyöflunin væri orðin svo dýr, að það væri ekkert vit í því að leyfa bændum að kaupa ódýran tilbúinn áburð og fóðurbæti, því að það gerði þeim framleiðsluna ódýrari, en ella, og svipuð voru rökin yfirleitt hjá hæstv. ráðh, varðandi atvinnuvegina. Þó fannst mér hann taka alveg steininn úr, þegar hann fór að tala um, hvað þetta væri ákaflega nauðsynlegt fyrir iðnaðinn. Mér hafa sagt kunnugir iðnaðarmenn, að þetta frv. muni gera það að verkum, að margar verksmiðjur og fyrirtæki, sem hér eru starfandi, verði að loka og hætta sinni starfsemi, ef þessi vitleysa verður lögfest.

Þá fór hæstv. ráðh, að taka undir það, sem hæstv. menntmrh. flutti hér um kvöldið, þegar hann var að segja frá því, að ef reiknað væri eftir þessum sömu reglum eins og gert er með útgjöldin af þessu frv., þá mundi gengisfallið 1950 hafa kostað þjóðina 900 millj. Það er nú eiginlega furðulegt, að það skuli vera prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem kemur með svona vitleysu fram fyrir Alþingi. En það er auðséð, að hann er orðinn smitaður af sínum sessunaut og þess vegna gengur þetta svona langt.

Nú hef ég hér í höndunum verzlunarskýrslur fyrir árið 1956, Í þeim sést, að allur útflutningur á árinu 1949 var 425 millj. kr., og það er hér í þessum verzlunarskýrslum reiknað beinlínis út, hvað þetta hefði orðið mikið, ef það er umreiknað eftir því gengi, sem tók gildi þann 20. marz 1950,. Þá hefði verð þessa innflutnings alls orðið 710 millj. kr., alls innflutningsins, m.ö.o. hækkunin er 285 millj. kr., og frá því má þá vissulega draga það, að felldar voru niður niðurgreiðslur, sem voru áður á vörum, þegar gengisfallið var gert, og þá nam 70 millj. kr.

Eftir þessari skýrslu hefur þess vegna gengisfallið, að frádregnum þessum 70 millj. kr., kostað eftir sama reikningi og við reiknum þetta frv. 215 millj. kr. Auðvitað hefur það hækkað svo áframhaldandi, og því hefur verið haldið fram og réttilega, að þetta gengisfall hafi verið allt of lítið, þess vegna hafi þurft að gripa til bátagjaldeyrisaðferðarinnar. Þetta er rétt. Það þurfti, og menn verða að gera sér grein fyrir því, að það er allt öðru máli að gegna nú. 1949 er 425 millj. kr. innflutningur alls. Nú er samkvæmt þessari skýrslu innflutningurinn alls kominn upp í 1.469 millj. kr. árið 1956. Þess vegna er það, að breytingin að þessu leyti er svo gífurleg frá því, sem var 1949–50.

Að öðru leyti geri ég ráð fyrir því, að mínir flokksmenn, sem hér hafa áður talað, svari einhverju af því, sem hæstv. fjmrh. var hér með áðan og var byggt á miklum hugsunarvillum og blekkingum, eins og oft á sér stað hjá þessum hæstv. ráðh.

Þetta stóra og afdrifaríka frv. fer nú til hv. fjhn. þessarar d., sem er einhver merkasta n. Alþingis. Ég var í þessari n. um 15 ára skeið, en þegar núverandi stjórn tók við, þá mæltist ég undan því í mínum flokki að vera þar áfram. Mér leizt þannig á forustuna, að eigi væri mikil von um góða samvinnu. Í minn stað er líka kominn í n. vel lærður hagfræðingur, hv. 9. landsk. En þessi hv. n. tók til sinna ráða fyrir 15. árum, eða á Alþingi 1943, þegar fyrir hana var lagt stjórnarfrv. um dýrtíðarmál eins og nú. Hún vakti nokkrar nætur og lagði við dagana, umturnaði gersamlega frv. og færði það í viðunandi horf. Þáverandi ríkisstj. undi illa við, en ekki sagði nema einn ráðh. af sér. Fjhn. fékk fylgi meiri hluta Alþingis og bar fullan sigur af hólmi. Er þetta einn af merkari atburðum þingsögunnar í innanríkismálum síðari áratuga.

Ég vildi nú óska hv. fjhn. að þessu sinni þeirrar gæfu, að henni megi auðnast að feta í okkar fótspor frá 1943 og umturna þessu frv. þannig, að það komist í viðunandi horf.

Tvennt er það, sem styður að því, að ætla mætti, að þetta gæti tekizt. Í fyrsta lagi það, að þetta frv. er miklu háskalegra og gallaðra í alla staði, en stjórnarfrv. 1943, sem við í fjhn. þessarar d. hentum niður fyrir bakkann. Í öðru lagi það, að í fjhn. nú eru tveir sömu menn sem 1943 og báðir í liði hæstv. ríkisstj. Hv. þm. V-Húnv. (SkG) er að vísu búinn að hlaupa svo lengi á villigötum Eysteinskunnar, að honum kann að verða örðugt að grípa til viturlegra hliðarstökkva. En aldrei er vonlaust um sæmilega greinda menn, að þeir geti áttað síg og komizt á rétta leið. Hv. 3. þm. Reykv. (EOI) hefur nú lýst sig andvígan þessu frv., svo sem eðlilegt er. Hann hefur, ef ég man rétt, haldið fleiri ræður, harðari og lengri, en nokkur annar, á móti hinum svonefnda bátagjaldeyri. Hann var líka afnuminn á síðasta þingi og sjálfsagt að ráðum þessa hv. þm. En nú ber aftur nýrra við. Þetta frv. er, eins og ég hef áður sagt og sannað hefur verið, sambland af gengislækkun og hátollun á allar aðfluttar vörur. Það er næstum allt á bátagjaldeyrislínunni, ekki einfaldri, eins og áður var, heldur sjö- eða áttfaldri. Áður voru á bátagjaldeyri nokkrar ónauðsynlegar vörur, nú eiga að vera þar allar vörur, jafnt brýnustu lífsnauðsynjar og ómissandi rekstrarvörur framleiðslunnar eins og skran og hvers konar óþarfi. Enginn maður ætti að vera ólíklegri til að fylgja slíku en sá, er áður barðist mest gegn öllum bátagjaldeyrisaðferðum. En hvað sem liður þessum tveimur þm., sem voru í fjhn. 1943 og einnig nú, þá veit ég, að hinir þrir eru það greindir menn og velviljaðir, að þeim er vei til þess trúandi að leggja á sig mikla vinnu til að gera gagn. Þótt lengja þyrfti þingtímann um eina viku enn, þá eru það smámunir hjá hinu, ef hv. fjhn. gæti tekizt að vernda sæmd Alþingis með því að koma í veg fyrir, að þessi merkasta stofnun Íslendinga, sjálft Alþingi, kalli yfir sig þá nagandi smán, sem af því mundi leiða að afgreiða sem lög þann furðulega óskapnað, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi.

Ég skora á hv. fjhn. okkar d. að gera tilraun til að bjarga málinu. Það væri Alþingi til sóma. Í von um, að þetta geti tekizt á næstu dögum, ætla ég nú að láta máli mínu lokið.