16.05.1958
Neðri deild: 99. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég tek til máls við þessa 1. umr. um málið, er sú, að hv. þm. G-K. gerði mjög að umtalsefni í sinni ræðu hér í fyrradag samskipti ríkisstj. og verkalýðssamtakanna í sambandi við undirbúning þessa máls. Mun ég því í ræðu minni aðallega fjalla um þann þátt málsins og skýra frá þeim þætti í senn frá sjónarmiði ríkisstj. og frá sjónarmiði Alþýðusambandsins.

Ég vil þá fyrst víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu og efni þess. Ég hygg, að allir muni viðurkenna það sem grundvallarskyldu hverrar ríkisstj. að gera á hverjum tíma ráðstafanir nauðsynlegar ráðstafanir skulum við segja — til að tryggja í fyrsta lagi rekstrargrundvöll framleiðsluatvinnuveganna og í annan stað hallalausan ríkisbúskap. Ef einhver ríkisstj. á Íslandi vanrækti að tryggja framleiðsluatvinnuvegunum rekstrargrundvöll, þá yrði áreiðanlega stutt í hennar valdasetu. Þegar atvinnuvegirnir væru stöðvaðir, væri í það óefni komið, að engri ríkisstj. væri sætt yfir stöðvuðum atvinnuvegum. Á sama hátt mundi það vera, ef frá ári til árs væri látið reka á reiðanum um ríkisbúskapinn og hann rekinn með halla. Það er áreiðanlegt, að það færi fljótt í strand ríkisskútan með slíku háttalagi, og mætti einmitt þm. G-K. kannske einna helzt og öllum öðrum mönnum fremur reka minni til þess.

En þessar efnahagsmálatill., sem hér eru fyrir Alþ., eru einmitt að öllu leyti um þetta tvennt. Þær eru fram bornar til þess að tryggja rekstrargrundvöll framleiðsluatvinnuveganna og jafnframt tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs. Þetta er meginefni till. Til þessa er verið að afla fjár og á engan hátt farið út yfir þessa þörf, sem allir hljóta að viðurkenna og mundu hafa fyllstu ástæðu til að ráðast á hverja þá ríkisstj., sem leyfir sér að vanrækja að gera ráðstafanir í þessa átt.

Þegar menn líta á þetta tvennt sem meginefni málsins, þá hygg ég, að það sé eðlilegt að byrja að athuga, hvaða aðstoð sé nauðsynleg til þess að tryggja stöðvunarlausan rekstur útflutningsatvinnuveganna. Hér í þessu frv. er lagt til, að aðstoðin verði veitt á þann hátt frá 14. maí 1958, að á allan fisk og fiskafurðir að undanteknum síldarafurðunum verði greiddar 80% útflutningsuppbætur. Ég er alveg sannfærður um það, að hv. þm. G-K., sem nokkuð langan hluta ævi sinnar hefur verið framkvæmdastjóri togaraútgerðarfélags og fylgist eitthvað með þeim málum enn þá, þótt hann sé reyndar búinn að breyta flestum sínum fyrirtækjum nú í heildsölufyrirtæki, — ég get varla ímyndað mér, að hann hafi týnt öllu niður viðvíkjandi togaraútgerð. — Þarna er verið að gera ráðstafanir til þess að tryggja rekstrargrundvöll vélbátaútvegs og togaraútgerðar. Og í leiðinni er veitt aðstoð landbúnaðinum, að því er snertir þær útflutningsvörur, sem hann flytur á erlenda markaði. Þarna eru honum veittar 80% útflutningsbætur á afurðirnar. Í þessu felst það, að togaraútgerðin fær verulega aðstoð umfram það, sem henni hefur verið veitt til þessa, og mun af flestum skynbærum mönnum, sem þessi mál þekkja, vera talið, að þessa sé full þörf. En ég hef engan heyrt tala um það, að þarna mundi verða samt gert of vel við togaraútgerðina, að hún safnaði auði, hún þarf vissulega nú nokkuð að grynna á skuldum til að byrja með. Látum vera þá, að það sé ekki mikið um það deilt, að þetta sé nauðsynlegt. En í þetta fer einmitt drjúgur hluti af þeirri fjáröflun, sem þetta lagafrv. gerir ráð fyrir.

Þá er í annan stað í þessu frv. gert ráð fyrir því, að á afurðir af sumarveiddri norður- og austurlandssíld verði greiddar 50% bætur. Ég man, að hv. þm. G-K. sagði, að þetta væri allt of lágt, það lægi fyrir bréf um það, að þessi grein útgerðarinnar mundi stöðvast, ef þetta yrði ekki hækkað, þetta þyrfti að vera 85% á alla síld. Það var því ekki á honum að heyra, þessum fyrrverandi framkvæmdastjóra togaraútgerðar og þaulkunnugum líka síldarútveginum, að þarna væri of mikil fjáröflun á ferðinni, heldur að hans áliti allt of lítil.

Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir, að á afurðir úr annarri síld, Faxasíld, smásíld og loðnu, verði greiddar 70% útflutningsbætur. Enginn hefur talað um það heldur, að þarna sé um of mikla tekjuöflun að ræða til styrktar þessari grein framleiðsluatvinnuveganna.

Ég vil því slá því föstu eftir að hafa hlýtt á umr. stjórnarandstöðunnar um málið, að þeir eru ekki þeirrar skoðunar, að hér hafi verið stigíð of stórt spor, hér sé verið að afla fjár að óþörfu, heldur geng ég út frá því og dreg þá ályktun af þeirra ræðum, að fjáröflunin sé svo hófsamleg sem verið geti og megi vera og þó knapplega nægilega rífleg. Þetta er auðvitað gert til þess að halda framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar gangandi. Kemur það verkalýð landsins nokkuð við? Er hægt að gera sér vonir um það, að verkalýður landsins vilji nokkuð á sig leggja til þess, að atvinnuvegir þjóðarinnar gangi stöðvunarlaust? Ég er afar hræddur um það, að hver einasti verkamaður og hver einasta verkakona, sem hafa verið spurð, segði: Ja, hagsmunir hins vinnandi fólks í landinu eru ofnir tveimur meginþáttum: í fyrsta lagi, að það sé næg atvinna fyrir hendi, og í annan stað, að það sé greitt sómasamlegt kaupgjald, og höfuðatriðið vitanlega, að það sé að nægri atvinnu að ganga, — Það munu allir játa, að ef engar ráðstafanir væru nú gerðar, mundi hvorki bátaútvegur, togaraútgerð né síldarútvegurinn verða rekinn með blóma, heldur allar líkur til þess, að þessar atvinnugreinar mundu stöðvast. Hver væru þá lífskjör verkalýðsins í landinu? Þetta sýnir ósköp einfaldlega það, að fjáröflunin er nauðsyn og engri ríkisstj. væri stætt á því að víkja sér undan þeirri skyldu. Ef einhver ríkisstj. léti sér detta það í hug, þá væri komið atvinnuleysi, og það væru þau höfuðsvik, sem væru drýgð við vinnandi lýð landsins, að hafa ekki tryggt grundvöll atvinnulífsins.

En ef menn játa, að þessi tekjuöflun, sem gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. um útflutningssjóð, sé ekki of mikil og sé lífsnauðsyn, til þess að framleiðsluatvinnuvegirnir haldist í gangi, þá gæti komið annað deiluatriði samt til, og það er þetta: Er teknanna aflað á þann hátt, að skynsamlegt verði að teljast? Og ég vil þá sérstaklega líta á það: Er teknanna aflað á þann hátt, sem verkalýður landsins og vinnandi stéttir gætu sætt sig við? Þeirra er aflað á þann hátt, að það er lagt um það bil 30% gjald ú hinar algengustu nauðsynjavörur, sem landslýðurinn kaupir. Á þessar vörur var áður lagt 16% yfirfærslugjald og 8–11% gjöld önnur, þannig að það er ákaflega lítið íþyngt nú með þessu frv. þeim vörum, sem teljast verða hinar brýnustu lífsnauðsynjar almennings. Í þessum vöruflokki, sem ber nú þetta álag, eru 70 millj. kr. vísitöluvörurnar allar, þær nema ekki meiri upphæð en það, og um 50 millj. kr. af öðrum vörum, líka brýnum lífsnauðsynjum fólksins til fæðis og klæðis. Það er því í þessu frv. gert ráð fyrir að fara vægilega í sakir með að afla þess fjár, sem framleiðsluatvinnuvegirnir nauðsynlega þurfa, með álagi á nauðsynjavörurnar í landinu, — fara eins vægilega í sakirnar með það og unnt er. En hvar er þá gripið þyngra ofan í vasann til þess að afla fjárins? Það er á annan innflutning til landsins og langmest á þær vörur, sem við hingað til höfum kallað lúxusvörur. Á þeim er álagið fimmfalt á móts við það álag, sem er lagt á hinar brýnustu lífsnauðsynjar almennings, fimmfalt eða um 150%.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þegar málið er rætt, komast þeir menn stutt, sem vilja ófrægja í fyrsta lagi þá aðstoð, sem framleiðsluatvinnuvegunum er veitt, og í annan stað vilja gera fjáröflunina tortryggilega í augum almennings. Það er farið þá leið, að það komi meiri þungi fjáröflunarinnar á herðar þeirra manna, sem verja meiru af tekjum sínum til þess að kaupa lúxusvörur, en tekið eins lítið og hægt er af þeim vörum, sem tekjulægra fólk ver meginhluta tekna sinna til að kaupa.

Það má vel vera, að hv. stjórnarandstaða sé andvíg þessari tekjuöflun og sé þeirrar skoðunar, að það hefði verið betra að taka tekjuöflunina með jöfnu álagi á hinar brýnustu lífsnauðsynjar almennings og á óhófsvörurnar og hefði engan mismun viljað þar á gera. Það má vel vera, að það sé þeirra leið, en þá ættu þeir líka að gera grein fyrir því hér í umr., svo að almenningur færi ekki villur vega um það.

Ég skal nú ekki fara öllu frekar út í þetta mál. Þetta finnst mér vera meginkjarni málsins, og á þennan hátt finnst mér vera hægt að setja málið fram mjög einfaldlega og áreiðanlega ástæðulaust fyrir hv. stjórnarandstöðu að gera eins mikið úr því og hún hefur gert í umr., hversu málið sé flókið. Það þarf enginn að segja mér, að þetta mál, hvorki tekjuöflunin til aðstoðar við framleiðsluatvinnuvegina né það, hvernig teknanna er aflað, sé í þoku fyrir manni eins og hv. þm. G-K. eða þeim mönnum öðrum, sem nákunnugir eru atvinnulífi þjóðarinnar. Því síður tek ég það trúanlegt, að þetta mál liggi ekki alveg ljóst fyrir manni eins og hv. 9. landsk., Ólafi Björnssyni prófessor, sem hefur sem hagfræðingur og sérfræðingur unnið tvisvar sinnum, ef ekki oftar, að því að undirbúa svipaðar fjáröflunaraðferðir í efnahagsmálum og hér liggja fyrir og hafa legið fyrir nálega um hver áramót nú um margra ára skeið og er þaulkunnugur öllum einstökum atriðum slíkra mála. En nú er hann og þeir sjálfstæðismenn búnir að hafa málið í sínum höndum frá því s.l. laugardag, og nú er fimmtudagur, þ.e.a.s.: það fer að líða að viku. Og enn eru þeir samt að kvarta um það, að málið sé svo flókið og þeir hafi haft svo nauman tíma, að þeir skilji það ekki í einstökum atriðum og geti því ekki gert neinar till. til breytinga á því. Þetta er vitanlega ekki svona. Þeir vita öll skil á málinu, góð skil á því. Og það þarf heldur enginn mér að segja, að Sjálfstfl. og hans þm. allir hafi setið með hendur í skauti og horft í gaupnir sér og hugsandi ekkert til þess, hvaða aðgerðir væri nú líklegt að kæmu og hvað þyrfti að gera fyrir sjávarútveginn, til þess að hann gæti haldið rekstri sínum áfram, þangað til þeir sáu þetta stjórnarfrv. Ef þeir hefðu hagað sér svo, þá væri það meira en lítið fáránlegt og meira en lítið sinnuleysi af þeirra hendi. Nei, vitanlega hafa þeir verið að hugsa um þetta mál sem ábyrgir þegnar og ábyrgir alþm. undanfarnar vikur og mánuði, miklu fremur en borgarar landsins, sem allir hafa þó verið að hugsa um þessi mál. Það er því alveg áreiðanlegt, að meginatriði þessa máls hafa ekki komið þeim mjög svo ókunnuglega fyrir, og það getur því ekki verið sannleikanum samkvæmt, að þeir hafi verið með öllu óviðbúnir að hugsa sitt ráð, því að þeir hafa áreiðanlega verið byrjaðir að hugsa það, áður en frv. kom þeim í hendur. Það verður því áreiðanlega að hlátursefni hjá þjóðinni, þegar þessum umr. lýkur og lýkur á þann veg, að stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar segir: Ja, þetta kom okkur svo á óvart, og við höfum haft svo slæma aðstöðu til að kynna okkur þetta mál, að við getum engar till. gert.

Ég fullyrði, að það var niðurstaðan hjá form. Sjálfstfl., hv. þm. G-K., hann sagði: „Við getum engar till. gert, við erum óviðbúnir.“ — Ég hafði þó miklu meira gaman af, hvað hv. þm. Á-Húnv. bar sig hér reisulega í dag í ræðustólnum. Hann var ekki að bera því við, að þeir hefðu ekki haft tíma og væru ekki búnir að hugsa málið og hefðu ekki góðar till. Nel, hann sagði, sá góði bóndi: Nei, okkar till. eru svo góðar, að við viljum ekki vera að kasta þeim fyrir svona ráðleysingja eins og núverandi ríkisstj. Við lumum á þeim; en þær eru svo góðar, að við viljum ekki vera að kasta þeim fyrir svona ráðleysingja, — Þetta var þó að bera sig búralega og búmannlega, og það fer honum vel. Form. Sjálfstfl. segir: Við getum engar brtt. gert, en við getum alveg fundið það út, að þessar till. eru allar saman einber endemis vitleysa. Þeir hafa þekkingu á því að dæma það sem vitleysu, en hafa ekki þekkingu á að gera neinar till. En svo kemur upplýsingin seinna um það, að þeir hafi bara skolli góðar till., en þeir lumi á þeim og þeir vilji ekki láta þær, það á að vera leyndarmál, þangað til þeim verði fengin völdin í hendur, en þá getur nú verið farið að slá í þessar góðu till. Það er vissara að salta þær svolítið, því að það getur orðið bið með það.

Ég tók eftir því, að í hinni löngu ræðu hv. þm. G-K. gerði hann eina játningu, og hún var þessi: Ég veit vel, að fullkomin gengislækkun hefði komið þyngra við almenning. — Og af hverju var maðurinn að segja þetta? Vitanlega af því, að formaður Sjálfstfl. hefur fyrst og fremst í hug algera eða — eins og hann kallaði það — fullkomna gengislækkun sem úrræði í efnahagsmálunum og hefur lengi haft, og hann sagði frá því í sinni ræðu, að hann væri tvívegis á sínum stjórnmálaferli búinn að hafa forstöðu fyrir því að framkvæma gengislækkun, sjálfsagt fullkomna gengislækkun. Og hann játaði, að slík úrræði mundu koma þyngra við almenning. Meira þurfum við ekki að fá að vita um það. Almenningur a.m.k. hefur fengið þarna viðmiðun milli þessa og þess, sem formaður Sjálfstfl, hefur í erminni, ef hann færi með völd í þessu landi.

Þá kom það líka fram í ræðu hv. þm. G-K., sem hefur svo verið endurtekið af sumum öðrum ræðumönnum stjórnarandstöðunnar, að hér væri um að ræða, að það væri farið áfram á millifærsluleiðinni, millifærsluleiðinni væri haldið með þessum till., en þetta væri líka gengislækkun. Það er ekki annaðhvort eða — millifærsluleið eða gengislækkunarleið, nei, nú vilja sjálfstæðismenn láta það heita bæði millifærsluleið og gengislækkun. Ég hygg, að þeir verði að endurskoða þetta, þó að það sé sagt, að kærum börnum séu oft gefin mörg nöfn, að þeir verði að kalla þetta annaðhvort, herða sig upp í það að kalla þetta annaðhvort gengislækkun eða millifærslu, svo að hægt sé að ræða málið við þá.

Þá kem ég að þeim þætti í ræðu hv. þm. G-K., sem fjallaði um vinnubrögðin við undirbúning þessa máls og flutning. Hann furðaði sig á því í fyrsta lagi, hve mikill seinagangur hefði verið á þessu, þetta væri búið að taka tvö ár. Hann hefði sjálfsagt viljað, að þetta mál væri fyrr komið fram, nokkurrar óþreyju gætti hjá honum. Hann vildi, að þetta mál hefði verið komið fyrr, og lýsti óánægju yfir því, hve það kæmi seint. Það virðist benda til þess, að honum þyki málið allgott. En svo vék hann að því, hvernig ríkisstj. hefði borið sig við það að ná samstarfi við verkalýðshreyfinguna í sambandi við þetta mál.

Í blöðum stjórnarandstöðunnar, sérstaklega í Morgunblaðinu og Vísi, hefur nú undanfarnar vikur verið talað um, að það væri svívirðilega farið með verkalýðshreyfinguna, það væri gengið fram hjá henni, hún fengi ekkert að vita um málið, því væri haldið leyndu fyrir henni, hún væri lítilsvirt með þessu. Þetta sá maður nálega á hverjum degi í blöðum Sjálfstfl. „Það er skömm að því, að það skuli ekki vera enn þá búið að kalla 19 manna nefndina saman. Við töluðum í gær við Eðvarð Sigurðsson,“ sagði Morgunblaðið einu sinni, „og hann sagði okkur, að það væri satt, að það væri ekki enn þá búið að kalla 19 manna nefndina saman“. Og Morgunblaðið og sjálfstæðisblöðin hin voru alveg hneyksluð ofan í tær yfir þessu, hve seint væri leitað til verkalýðssamtakanna til þess að kynna þeim málið.

En hvað sagði svo formaður Sjálfstfl. nú hér í umr.? Hann sagði: Það er svívirðilegt, að það skuli vera viðhöfð önnur eins vinnubrögð og hér hafa verið viðhöfð, að flytja þjóðarvaldið út fyrir veggi Alþingis og afhenda stéttasamtökum undir stjórn kommúnista vald, sem forseta og Alþingi einu ber að hafa. — Þarna var ekki alveg verið að barma sér yfir því, að það hefði verið gengið fram hjá verkalýðssamtökunum. Nei, sá svívirðilegi atburður hafði gerzt, að verkalýðshreyfingin hafði verið virt viðtals. Það hafði verið rætt um málið við verkalýðssamtökin og fulltrúa þeirra, áður en málið var lagt fyrir Alþingi.

Ég skil nú að vísu ekki, hvað hv. þm. G-K. átti við, þegar hann sagði, að það væri búið að afhenda stéttasamtökunum undir forustu kommúnista vald, sem forseta bæri. Ég held, að það sé bara einhver meinloka, Ég fæ ekki heldur séð, að það sé neitt óeðlilegt við það, þó að stórt og vandasamt mál sé borið undir ýmsa aðila, meðan verið er að undirbúa það og ganga frá því, eins og þetta mál er, en það hefur verið rætt vissulega við verkalýðssamtökin, og það hefur verið rætt við fulltrúa útgerðarmanna líka. Af hverju við þessa aðila? Af því að meginþættir málsins snertu þessar stéttir mjög, útgerðarmennina og atvinnurekendurna, sem er verið að styrkja með þeirri fjáröflun, sem í þessu frv. felst, og svo vinnandi fólkið í landinu, sem á allt sitt undir gengi atvinnuveganna.

Ég trúi því ekki, að Alþingi fyrtist neitt eða taki á nokkurn hátt undir þau ummæli form. Sjálfstfl., að hér sé verið að stiga á strá Alþingis, sýna því fyrirlitningu og taka völd, sem því ber, úr höndum þess með því að ræða við þessa aðila. Ég held, að þarna sé alveg rétt að farið, og formaður Sjálfstfl. hefði gjarnan miklu fyrr mátt uppgötva, að það hefði engu spillt á hans stjórnarárum, þó að hann hefði stunduð borið slík mál sem þessi undir fulltrúa hinna vinnandi stétta. Það hefðu engir gullhringar af honum dottið, þótt hann hefði gert það.

Svo sagði hann: Hvað gerðist svo fyrir þessum hæstarétti, þ.e.a.s. á fundum verkalýðssamtakanna, sem voru haldnir um málið? — Og hans niðurstaða var sú, að verkalýðssamtökin hefðu eiginlega snúizt öndverð gegn þessum till. í efnahagsmálunum. En þar veður hann alveg reyk. Það er alveg greinilegt og skýrt um verkalýðssamtökin, þó að ýmsir fulltrúar þeirra litu mismunandi á málið, að þá er niðurstaða þeirra alveg jákvæð og á engan hátt hæpin.

Það er ekkert leyndarmál, að miðstjórn Alþýðusambandsins og efnahagsmálanefndin og nokkrir fulltrúar úr Alþýðusambandsstjórn úti um land sátu marga fundi, ræddu málin, og þeir voru kallaðir til á sömu stundu og till. ríkisstj. lágu fyrir í heild. Það er því alveg úr lausu lofti gripið, að það hafi verið dregið að ræða við verkalýðssamtökin, svo að maður haldi sér fyrst við það að svara fyrri ásökununum, sem komu fram í blöðum Sjálfstfl., að verkalýðssamtökunum væri sýnd lítilsvirðing og höfð leynd á málum, sem löngu væru tilbúin. Það er alrangt. Málin voru rædd þarna hispurslaust og hreinskilnislega, undireins og till. höfðu fengið fast form og lágu fyrir í heild. Fulltrúum verkalýðssamtakanna var gefinn kostur á að ræða við Jónas Haralz hagfræðing, eins og Sjálfstfl. var siðar gefinn kostur á því, áður en málið kom fyrir þingið, að ræða við þennan hagfræðing og Klemenz Tryggvason líka, að ég hygg, til þess að gefnar væru fræðilegar upplýsingar um hina fræðilegu hlið málsins. Á líkum grundvelli var svo málið rætt við fulltrúa útgerðarmanna af hæstv. sjútvmrh. og þannig höfð samráð við þær stéttir og fulltrúa þeirra, sem þetta mál kemur auðvitað mest til að varða, fyrir utan ríkisheildina sjálfa.

En út af þeim röngu upplýsingum, sem hv. þm. G-K. gaf svo um niðurstöðu málsins á vegum verkalýðssamtakanna, vil ég segja þetta:

Þegar umr. var að ljúka, lágu fyrir fjórar till. um afgreiðslu málsins. Ein var borin fram af sex mönnum, sem skipaðir höfðu verið í n., þeim Eðvarð Sigurðssyni, Eggert Þorsteinssyni, Snorra Jónssyni og Óskari Hallgrímssyni, og var það frumtillagan, sú, sem hv. þm. G-K. virtist vera mjög hrifinn af að ýmsu leyti og las upp úr Alþýðublaðinu eða Þjóðviljanum, hvað í henni fælist, þ.e.a.s. það, sem var nánast heldur neikvætt í þeirri till. Það jákvæða í till. var ekki lesið hér, því var sleppt, og er það ekki alveg nægilega heiðarlegur málflutningur af forustumanni stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar.

En við þessar till. komu fram þrjár brtt. Ein brtt. var um að víkja við niðurlagi till. á þann hátt, að verkalýðssamtökin mótmæltu aðgerðum ríkisstj. Önnur brtt. var um það að breyta meginmáli till., öllu eiginlega nema upphafsorðunum, og á þann veg, að till. væri að slíkri breytingu samþykktri, jákvæðar undirtektir undir efnahagsmálaaðgerðir ríkisstj. Þriðja brtt. var svo um það að breyta einni af þessum till. á þann hátt, að sérstaklega væri undirstrikað, að aðgerðirnar í efnahagsmálunum væru í mótsögn við samþykktir síðasta Alþýðusambandsþings.

Eftir túlkun hv. þm. G-K. mætti ætla, að það væru einmitt þessar tvær till., sem hefðu verið samþ., sú, sem vildi breyta aðaltill. Eðvarðs Sigurðssonar o.fl. í bein mótmæli verkalýðssamtakanna gegn efnahagsmálaaðgerðunum, og svo hin, sem stefndi að því að undirstrika, að efnahagsmálaaðgerðir stjórnarinnar væru í andstöðu við samþykktir síðasta Alþýðusambandsþings, En hvernig fór um þessar till.? Brtt. við till. Eðvarðs Sigurðssonar o.fl. um að snúa þeirri till. upp í ákveðin mótmæli gegn efnahagsmálatillögunum, hvað fékk hún mörg atkvæði á 29 manna fundi? Eitt, tillögumannsins. Það var aðeins einn á fundinum, tillögumaðurinn sjálfur, sem vildi, að lokin á ályktun 19 manna nefndar og miðstjórnar væru mótmæli gegn efnahagsmálaaðgerðunum. Hún var felld að viðhöfðu nafnakalli, svo að ekkert fer á milli mála, með 28:1 atkv. Till., sem var um að lýsa yfir því, að efnahagsmálaaðgerðirnar væru í mótsögn við samþykktir Alþýðusambandsþings, hvernig fór hún? Hvað hafði hún mikið fylgi? Hún fékk 2 atkvæði. Allur þorri fundarmanna greiddi henni mótatkvæði, og nokkrir sátu hjá. Hún var kolfelld. — Sú, sem vildi breyta samþykktinni í mótmæli gegn aðgerðum ríkisstj., fékk eitt atkvæði. Hin, sem vildi sérstaklega staðfesta þá skoðun fundarmanna, að aðgerðirnar væru í hreinni andstöðu við samþykktir síðasta Alþýðusambandsþings, fékk tvö atkvæði.

Það er alrangt, að samþykktin, sem svo var afgr. að lokum, hafi verið samþ. með eins atkvæðis mun. Það eru líka ósannindi. (Gripið fram í: Það hefur enginn sagt.) Hefur enginn sagt? Það mun nú formaður Sjálfstfl. hafa sagt samt. — Endanlega atkvgr. og þar með samþykktin á þeirri ályktun, sem gerð var, var 16 atkvæði gegn 1 og 12 sátu hjá. Þessir 12, sem sátu hjá, voru tillögumennirnir að upphaflegu till., sem formaður Sjálfstfl. var svo ánægður með, og nokkrir aðrir, en sú till. kom þar af leiðandi aldrei til atkv. En það var samt ýmislegt jákvætt í þeirri till. Það var t.d. þar slegið föstu, að það virtist tryggt, að efnahagsmálaaðgerðir ríkisstj. hefðu ekki í för með sér almenna skerðingu á kaupmætti vinnulauna næstu mánuði. Þetta var ekki lesið af formanni Sjálfstfl. Þetta var of jákvætt. En þetta fólst líka í till., sem samþ. var. Og svo var sem sé einn maður óánægður með niðurlagið. Það var gengið úr skugga um það, hvort menn vildu hafa það sem mótmæli, en fékk bara aðeins eins atkvæðis fylgi. M.ö.o.: allir aðrir vildu ekki, að það væri litið á þetta sem mótmæli.

Ég held, að það sé rétt, að ég lesi — með leyfi hæstv. forseta — niðurlagið á þeirri samþykkt, sem gerð var viðvíkjandi efnahagsmálunum, og hún var á þessa leið, — það er svo sem guðvelkomið, að ég lesi alla till., en ég tel, að afstaðan felist í þessum niðurlagsorðum:

„Enn fremur telur fundurinn mikils virði, að ákveðið er að setja löggjöf um lífeyrissjóð togarasjómanna og gerðar nokkrar breytingar á skattalögunum láglaunafólki í hag. Að þessu athuguðu og jafnframt vegna annarra mikilvægra mála fyrir afkomu og lífskjör íslenzkrar alþýðu í framtíðinni, sem úrlausnar krefjast nú, leggur n. og stjórn Alþýðusambands Íslands til, að verkalýðshreyfingin vinni ekki á móti eða torveldi framgang tillagnanna.“

Þetta gerðist með 16 atkvæðum gegn 1, en 12 sátu hjá, af því að þeir höfðu viljað fylgja annarri till., sem þeir sáu fram á að ekki kæmi til atkv., ef þessi yrði samþ. Því sátu þeir hjá.

Hér er alveg greinilega frá því skýrt, að verkalýðshreyfingin ætlar ekki að vinna á móti framgangi þessara efnahagsmálaaðgerða ríkisstj. og ekki heldur torvelda framgang þeirra á neinn hátt. Ég er alveg viss um, að hafi sjálfstæðismenn gert sér vonir um það, að verkalýðshreyfingin risi öndverð gegn framgangi þessa máls, þá hafa þeir þegar gert sér ljóst, að þeir hafa þar orðið fyrir vonbrigðum, og þeir munu enn þá betur verða það á næstu vikum og mánuðum.

Það var vitað, löngu áður en þessar efnahagsmálaaðgerðir fóru að taka form, að nokkur verkalýðsfélög hér í Reykjavík ætluðu sér að segja upp samningum á þessu vori og sögðu, að sínir samningar væru orðnir þriggja ára gamlir, í þeim þyrfti að breyta ýmiss konar orðalagi, það hefði ýmislegt breytzt á vinnumarkaðinum á þessu tímabili og það þyrfti að breyta ýmsum samningsákvæðum, alveg án tillits til þess, hvort þau hugsuðu sér að breyta kaupgjaldsliðum eða ekki. Sum félög töldu, að hlutfallið milli kaupgjalds hjá sér og öðrum starfsgreinum hefði raskazt við kauphækkanir, sem önnur félög hefðu fengið á liðnu og liðnum árum, og þetta þyrftu þau að jafna, þau þyrftu að segja upp til samræmingar. Þetta gildir t.d. bæði að því er snertir járniðnaðarmannafélagið hér í Reykjavík og rafvirkjafélagið og e.t.v. nokkur fleiri. Það, að þessi félög hafa því sagt upp og Dagsbrún hefur sagt upp, það er mér veil kunnugt um, er ekki fyrst og fremst af því, að stjórn Dagsbrúnar hafi ætlað sér að fara fram á stórfellda kauphækkun, heldur af því, að það eru nokkrir tiltölulega fámennir starfshópar innan Dagsbrúnar, sem telja, að sitt kaup sé nú komið í ósamræmi við það kaup, sem nú sé greitt við hliðstæð störf hjá Reykjavíkurbæ. En Dagsbrún hefur á undanförnum árum oft farið fram á það við Vinnuveitendasambandið, að það væri hægt að hafa þessa samninga aðgreinda, þannig að ekki þyrfti að segja upp heildarsamningum fyrir 3.000 manns á vinnumarkaðnum, þó að leiðrétta þyrfti kaup 20–30 manna. En það hefur Vinnuveitendasambandið af einhverjum ástæðum ekki viljað fallast á, og þess vegna er þetta allt í einum samningi og verður að segja upp samningnum í heild til þess að lagfæra jafnvel kaup 20 manna. Þetta er ekki heppilegt að mínu áliti, og ég skil ekki, að það sé heilbrigt atvinnurekendasjónarmið að vilja ekki gera stéttarfélagi mögulegt að segja einungis upp fyrir þá menn, sem þarf að breyta kaupinu fyrir. Ég hefði haldið, að heilbrigð atvinnurekendasjónarmið væru þau að kjósa sem minnstar hreyfingar á vinnumarkaðnum og sem minnstar uppsagnir stéttarfélaga á samningum og því ætti frá atvinnurekendasjónarmiði einmitt að gera það mögulegt að segja upp nákvæmlega fyrir þá, sem hugsað er að breyta kaupgjaldinu hjá, og aðra ekki.

Ég er því alveg viss um varðandi það, að verkalýðsfélög hafa sagt upp samningum núna, að það er misskilningur, ef menn halda, að það sýni, að það sé mikil ólga hjá verkalýðsfélögunum og almennur vilji til þess að segja upp samningum til stórfelldra kauphækkana. Það held ég að sé ekki. Ég veit, að það er stefna verkalýðsfélaganna að kjósa sér sem minnstar kaupgjaldsbreytingar, sem minnstar verðlagshreyfingar í landinu, sem mest jafnvægi, og verkalýðshreyfingin telur, að það skapi mestar líkur fyrir stöðugt og öruggt atvinnulíf.

Ég tel ástæðulaust að leiðrétta það, — það var sagt hér í dag og hefur reyndar örlað á því áður í þessum umr., — að það hafi oltið á mínu atkv. við afgreiðslu þessa máls, Það er algerlega rangt. Það er auðséð af atkvæðatölunni 16, sem till., sem að lokum var afgr., hlaut, að þar valt ekkert á mínu atkvæði og heldur ekki þess sambandsstjórnarmanns, sem einnig greiddi atkvæði. Og þegar menn fetta fingur út í það, að einn sambandsstjórnarmaður utan af landi hafi greitt atkvæði, þá er það af ókunnugleika manna, sem með þetta fara. Það er skýrt í sambandslögunum, að sambandsstjórnarmenn utan Reykjavíkur hafa ávallt aðgang að fundum miðstjórnarinnar og hafa þar sama rétt og í fullskipaðri sambandsstjórn. Þeir hafa því allir, ef þeir væru hér staddir, atkvæðisrétt, sambandsstjórnarmennirnir. Það var einn af þeim hér staddur og sat alla fundina, og það var borið sérstaklega undir alla fundarmenn, þá sem fylgdu hinum ýmsu till., áður en atkvgr. hófst, hvort það væru ekki allir sammála um það, að samkvæmt sambandslögunum bæri þessum manni atkvæðisréttur, og það var sérstaklega viðurkennt af tillögumönnunum fjórum, að það kæmi ekki annað til mála, en hann ætti að greiða atkvæði líka.

Það er rétt, úr því að menn eru að hampa því, að hér hafi verið um ólöglega aðgerð að ræða á samþykkt og ofbeldi haft í frammi við atkvgr., að taka þetta fram, því að um þetta var enginn ágreiningur, og þetta liggur skýrt fyrir, að þarna voru einungis þeir menn að greiða atkvæði, sem til þess höfðu rétt, og um það var hið fyllsta samkomulag allra.

En efnahagsmálanefnd Alþýðusambandsins lét ýmislegt fleira í ljós, eftir að hún hafði setið marga daga og stundum langt fram á nætur á fundum til þess að kynna sér efnahagsmálin og þær till., sem ríkisstj. hugðist að bera fram, og hún lætur í ljós afstöðu sína til ríkisstj. og ýmissa mála, sem hún hefur leyst í þessum till., í viðbót við þá ályktun, sem ég las nú niðurlagið af. M.a. gerði fundurinn þessa ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn lýsir ánægju sinni yfir því, að sérsköttun hjóna verður nú lögfest og kaup kvenna og annarra þeirra, sem lægst eru launaðir, hækkar samkvæmt frv. ríkisstj. um allt að því 7%. Er þannig stuðlað að því að minnka bilið milli karla- og kvennakaups, og væntir verkalýðshreyfingin góðrar samvinnu við ríkisvaldið um aðgerðir til fulls launajafnaðar karla og kvenna.“

Hérna er vikið að tveimur málum, sem aflað er fjár til í efnahagsmálatillögum ríkisstj. Það er í fyrsta lagi vikið að því, að þegar hið almenna kaup í landinu hækkar um 5%, þá er jafnframt búið svo um hnútana, að þeir, sem hafa lægra kaup, en Dagsbrúnarkaup innan verkalýðshreyfingarinnar, þar með verkakonur, fái allt að 7% launahækkun. Og að öðru leyti er vikið að tveimur málum þarna viðvíkjandi skattalækkunum, þ.e. lækkun skatta á lágtekjum og sérsköttun hjóna, sem nú felst í frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu ásamt þessu máli, — mál, sem kvennasamtökin í landinu, Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands og verkakvennafélögin innan Alþýðusambandsins, hafa um mörg ár barizt fyrir. Fjáröflun er hér, sem m.a. gerir ráð fyrir því, að það sé varið allt að 6 millj. kr. til þess að standa straum af lagabreytingunni um sérsköttun hjóna.

Lokatillagan, sem svo var samþykkt á þessum fundum efnahagsmálanefndar og miðstjórnar, segir kannske skýrast til um það, hver hugur var og er í forustumönnum verkalýðssamtakanna gagnvart ríkisstj., einmitt þá dagana, þegar þessir forustumenn höfðu verið að gera sér grein fyrir innihaldinu í efnahagsmálatillögum ríkisstj., og sú ályktun er svo hljóðandi:

„Fundur efnahagsmálanefndar og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, haldinn 8. maí 1958, lýsir ánægju sinni yfir, að lögfestur hefur verið réttur tíma- og vikukaupsmanna til óskerts kaups í allt að 14 daga í veikinda- og slysaforföllum og til eins mánaðar uppsagnarfrests frá störfum.

Fundurinn fagnar einnig, að tryggður er á Alþingi framgangur frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna.

Framkvæmd þessara mála er ávöxtur af samstarfi verkalýðshreyfingarinnar við núverandi ríkisstj., og svo er einnig um ýmis önnur hagsmunamál alþýðustéttanna, svo sem verulega hækkun á kaupi fiskimanna, lækkun tekjuskatts á láglaunafólki, þingsályktun um hækkun elli- og örorkulífeyris og aukið fé til íbúðarhúsabygginga á s.l. ári.

Fundurinn lætur í ljós þá von, að framhald megi verða á vinsamlegu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar og núverandi ríkisstj. um framgang hagsmunamála alþýðunnar og þeirra mikilvægu málefna, sem nú bíða úrlausnar.“

Hvernig var nú um atkvgr. um þessa till.? Marðist hún rétt í gegn? Nei, hún var samþykkt með öllum atkvæðum. Það var ekki eitt einasta á móti, og þar með létu þessir forustumenn, þegar þeir stóðu upp frá sínu fundarhaldi, í ljós óskir um það, að áframhald mætti verða á vinsamlegu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar og núverandi ríkisstj. um framgang hagsmunamála alþýðustéttanna.

Þetta er það, sem við vitum sannast og réttast um viðhorf verkalýðshreyfingarinnar til þessara umdeildu mála, skulum við segja, sem eru þess eðlis þó sannarlega, að það var alls ekki hægt að búast við því, að ríkisstj. gæti bætt hag verkafólksins í sambandi við þessar aðgerðir, nema þá á þann hátt, að stoðir atvinnulífsins væru orðnar traustari.

Ég vil nú leyfa mér að fara örfáum orðum, áður en ég lýk máli mínu, um undirtektir hv. stjórnarandstöðu undir málið og drepa þar niður fingri á stöku stað viðvíkjandi ummælum hinna ýmsu ræðumanna stjórnarandstöðunnar.

Ég veitti því athygli, að í fyrstu ræðu sinni vék hv. 1. þm. Rang. (IngJ) að því, að Sjálfstfl. hefði einu sinni borið fram till. um stöðvun dýrtíðar, till., sem hefðu kostað lítið. Mér datt í hug, að það væri undarlegt að liggja á þessum till., ef þær eru þess eðlis, sem hann segir. Þær eru ódýrar og stöðva dýrtíð, alltaf tímabærar till. Ég held, að það væri alveg sjálfsagt, þegar flokkurinn er ekki við því búinn að bera fram neinar brtt. við þetta mál, að koma nú með ódýru úrlausnina, og hún verður sjálfsagt vel þegin, ef hún er eins góð og þm. vill vera láta. En ég man það, að þessar till. voru bornar fram 1956, meðan fyrrverandi ríkisstj. sat að völdum, meðan hv. 1. þm. Rang. var í ríkisstj., og fengu lítinn byr, þótt ódýrar væru, og hafa aldrei verið nefndar síðan, svo að ég viti, af neinum nema honum, og það mælir ekkert með þeim, sannast að segja.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að ræðu hv. 2. þm. Eyf. (MJ). Hann var hógvær í sínum ræðuflutningi, eins og hann er jafnan, og það var ekki auðheyrt, hvort hann væri stjórnarsinni eða stjórnarandstæðingur, þegar hann var að tala um þetta mál. Menn þurftu að hlusta nokkuð vel til þess að átta sig á því, því að hann sagði: Það er án efa ýmislegt til bóta í þessu frv. — Og hann sagði enn fremur: Það er kannske tryggð heppilegri framkvæmd á ýmsum atriðum í þessu frv. heldur en, verið hefur. — Hann sagði enn fremur: Það má vera, að það sé rétt að leggja á rekstrarvörurnar. — Hann vildi ekkert taka af um það, en það er ein meginbreytingin í þessu frv. frá aðgerðunum haustið 1956, að það er einmitt lagt á rekstrarvörurnar og atvinnuvegirnir fá síðan það, sem það álag gerir tilkostnaðinn við atvinnureksturinn fjárfrekari, upp bætt í útflutningsbótunum og sleppa þannig skaðlausir, og eru að mínu álíti gildar ástæður til að gera þetta til þess að koma í veg fyrir magnað ósamræmi, sem hefur valdið miklum gjaldeyrisleka hjá okkur að undanförnu, og gjaldeyrinn þurfum við að passa og jafnvel betur, en við höfum gert.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það mætti vel vera, að það væri rétt að leggja á rekstrarvörurnar. Hann hélt sér að vísu við þá röngu tölu, 790 millj., sem þarna væri verið að taka. En hann gat þess, hann hafði ekki brjóstheilindi til þess að nefna þessa tölu án þess að segja: Það er að vísu satt, að af sumum er þetta tekið, en aðrir njóta þess líka. — Það er sannleikur, að mikið af þessum tölum gengur út og inn, svo að einföld samlagning verður lygi. Niðurstaða af einfaldri samlagningu á öllum tölum, sem þarna koma fyrir, verður auðvitað ósönn. Það er verið að ljúga með tölum, þegar menn nefna 790 millj., og það hafa hv. sjálfstæðismenn gert vitandi vits, að þeir hafa verið að ljúga með tölum, þegar þeir hafa verið að nefna 790 millj. Magnús Jónsson vildi ekki láta hanka sig á þessu og sagði: Það eru ýmsir þarna, sem greiða þetta, en það eru líka aðrir, sem njóta þess, — og fór svo ekki frekar út í það. En hann viðurkennir, að það hafi verið þarna mínusar og þeir stórir, sem þurfa að koma til greina, til þess að hin rétta tala komi í ljós.

Þá sagði hann enn fremur: Ég þori ekki að fullyrða, að hægt væri að losa þjóðina við þessar álögur. — Ég þori ekki að fullyrða, að hægt væri að losa þjóðina við þessa tekjuöflun, væri nú réttara. Hann vill ekki fullyrða, að þessi tekjuöflun sé óþörf, og það er áreiðanlegt, að það þarf kaldrifjaða menn til þess að halda því fram, að það sé verið bara af ótuktarskap eða illvilja að hrella menn með þessari tekjuöflun, sem er til styrktar atvinnulífinu, sem þjóðin öll lifir á.

Þá sagði hann og: Það er rétt, að vísitölukerfið getur verið hættulegt, — og nefndi í því sambandi svikamyllu víxlhækkananna. Og það var út af því, sem stendur í frv., að það sé ekki nú gengið til verks um það, hvað verði með vísitölukerfið í því formi, sem það hefur verið, heldur muni það mál sérstaklega verða tekið til athugunar og umr. á þingum þeirra stéttasamtaka, sem taka öll þessi efnahagsmál áreiðanlega til umr. á komandi hausti, Alþýðusambands Íslands, Stéttarsambands bænda og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Og hafi mönnum hingað til sýnzt sitt hverjum um það vísitölukerfi, sem við nú höfum, þá er enginn vafi á því, að það eru ýmsir skoðanabræður hv. þm. A-Húnv., sem líta á vísitöluna sem sinn innilegasta fjandmann, — vísitalan er hans aðalfjandmaður ásamt Eysteini og Framsókn, en hann hatar ekkert í þessari veröld eins og vísitöluna, þar næst er Eysteinn og Framsókn, en það eru fornar ástir til Framsóknar, af því að hann var einu sinni framsóknarmaður, sem brjótast núna út í hatri.

Magnús Jónsson sagði líka, að það væri sín skoðun, að dýrtíðarþróun væri til tjóns fyrir verkalýðinn. Ég er viss um, að sú skoðun á allmarga talsmenn innan verkalýðshreyfingarinnar, það er ekki nokkur vafi á því. Verkalýðshreyfingin vill jafnvægi vegna gengis atvinnuveganna, sem minnstar breytingar í kaupgjaldi og verðlagi, og veit, að vísitalan hefur ekki dugað til þess að tryggja kaupmátt launanna. Þrátt fyrir vísitölukerfið frá 1940 hefur orðið að heyja verkföll, af því að það hefur farið úrskeiðis með kaupmátt launanna, vísitalan hefur hækkað landbúnaðarvörur, vísitalan hefur hækkað rekstrarkostnað atvinnuveganna, svo hefur orðið að veita atvinnuvegunum aðstoð á ný, og aftur hefur þurft að hækka kaup til þess að jafna þessi met. Það er alveg áreiðanlegt, að það eru mjög skiptar skoðanir um það, hvort það sé rétt að halda þessu vísitölukerfi óbreyttu áfram, og ég veit ekkert, hvor fylkingin verður sterkari á næsta Alþýðusambandsþingi, sú, sem hefur trú á vísitölukerfinu eins og það er, eða hin, sem ekki hefur trú á því. Ég er þeirrar trúar, að vísitölukerfið gefi mörgum öðrum í þjóðfélaginu meira í sinn hlut, en verkamanni með venjulegar verkamannstekjur.

Það var einmitt í ræðu í dag, sem var flutt af mikilli góðvild, minnt á það, að ég væri orðinn hátekjumaður. Það er alveg satt. Ég hef núna á annað hundrað þúsund króna í tekjur. Verkamennirnir hafa 50–70 þús. kr. í tekjur. En það er staðreynd, að þegar verið er að bæta þeim einhverja dýrtíðarhækkunina með vísitöluuppbót, þá fær verkamaðurinn, sem hefur 50 þús. kr. laun, hálfa upphæðina, sem ég fæ. Mér væri engin þörf á því að fá tvöfalt á við verkamanninn. Mér væri engin þörf á að fá ofan á launin mín sömu upphæð og verkamaðurinn fær, en ég fæ tvöfalt. Hálaunamenn þjóðfélagsins fá tvo fiska á móti hverjum einum, sem verkamanninum er úthlutað gegnum þetta vísitölukerfi. Þetta skilur verkalýðurinn, og það er ekki verkalýðnum að kenna, að þetta vísitölukerfi er komið á. Það er af allt öðrum ástæðum. Það er líklegast af því, að hátekjumenn hafa séð, að með þessu hækkuðu laun þeirra tvöfalt við það, sem láglaunamennirnir fengju í launahækkun til sin, þaðan hlýtur þetta að vera runnið. Og það er ánægjulegt til þess að vita, að þar verður ekki Sjálfstfl. öllum sem heild að mæta, ef verður gengið af vísitölukerfinu núverandi dauðu. Þar verður a.m.k. hv. þm. A-Húnv. góður liðsmaður til þess að aflífa þetta vísitölukerfi, ef það verður gert, og væri sjálfsagt, að hann gengi fyrstur og héldi undir framhornið á líkbörunum, ef vísitölukerfið verður borið til grafar, að veita honum þann heiður ásamt ýmsum fulltrúum úr verkalýðshreyfingunni.

Ég beið eftir því með nokkurri eftirvæntingu að heyra, hvernig hv. 9. landsk., prófessor Ólafur Björnsson, mundi ræða um þetta mál, og ég hlustaði á hans ræðu með athygli. Ég heyrði, að hann fór ekki í spor sinna samherja, sem hafa verið með ýmsar fáránlegar fullyrðingar hér í sambandi við málið. Hann nefndi engar 790 millj. í tekjuöflun. Hann veit, að samlagning hv. þm. G–K. er ekki sú stærðfræði, sem túlkar sannleikann. En hann forðaðist að nefna nokkrar tölur, hann vildi ekki gera sína flokksmenn að ósannindamönnum, og það var einasta ástæðan til þess, að hann nefndi ekki tölur, það er alveg bert. Ég veit, að þessum ágæta manni er annara um fræðimannsheiður sinn, en svo, að hann fari að taka hér bara vegna flokksþjónkunar með sínum flokksbræðrum undir þau reginósannindi, sem felast í þessari tölu þeirra, og þeir vita það sjálfir, hinir, að þeir eru að skrökva með tölum, þegar þeir nefna 790 millj. sem nýja tekjuöflun í þessu frv.

Hann viðurkenndi líka, hv. 9. landsk., að gengisfelling mundi kosta mest í bili, sagði hann, og hann sagði, að hann teldi ekki rétt að fara þá leið nú í bili. Hins vegar duldist það ekki, og það er engum leyndarmál, að hann er gengislækkunarmaður, hann trúir á það, að gengislækkun sé eina varanlega leiðin. Hann notaði mikið líkingu. Hann sagði, að veggur, sem væri hrófatildur, mundi kosta minna, en vandaður veggur af sömu stærð, og hann vildi segja: Það kostar minnst að fara líkar leiðir í efnahagsmálunum og gert var haustið 1956. — Það vildi hann kalla hrófatildur. Hann taldi, að það kostaði minna, aðgerðir eins og þetta, en það mundi kosta mest í bili að fara gengislækkunarleiðina, sagði hann. Og þar með vildi hann komast að þeirri niðurstöðu, að það væri hinn varanlegi veggur, sem ekki mundi hrynja. En nú má ég til með að vera svo ótuktarlegur að minna á, að það var framkvæmd gengislækkun 1950 og það var grafið fyrir undirstöðunum að þessum vandaða vegg af hv. 9,.landsk. og öðrum fræðimanni, Benjamín Eiríkssyni, og gott ef þeir tóku ekki þátt í að byggja vegginn. Stendur hann ekki enn í dag? Hann kostaði mikið, það er áreiðanlegt. Þetta átti að vera vandað verk, en þeir voru varla komnir frá honum, byggingarmeistararnir, þegar veggurinn hrundi. Bátagjaldeyriskerfið kom rétt á hælana á þeim. Og út af þessu kemur mér í hug sagan um karlinn og kerlinguna, sem voru einmitt að hlaða vegg, og svo kemur konan, þegar karlinn er að enda við vegginn, og segir: Ja, þetta er fallegur veggur, þessi veggur stendur þína tíð og mína tíð og okkar barna tíð. — Já, ætli hann hafi ekki staðið það? Nei, þá kom karlinn til að bjarga kerlu sinni og sagði: Varaðu þig, kerling, veggurinn er að hrynja. — Það fór nefnilega alveg eins í þessari sögu og þegar hv. 9. landsk. hlóð. Gengislækkunarveggurinn 1950 hrundi fljótt, bátagjaldeyriskerfið var hleðslan í skarðið, og þeir máttu sannarlega vara sig, byggingarmennirnir, að verða ekki undir honum, og ég vona, að einhver hafi aðvarað þá, að nú væri veggurinn að hrynja. Um varanleik gengislækkunar má hv. þm. líta til reynslunnar. Gengislækkunin 1950 varð ekki varanleg ráðstöfun. Það voru ekki liðnir nema 9 mánuðir, þegar gengislækkunin dugði ekki lengur sem efnahagsleg aðgerð og bátagjaldeyriskerfið varð að koma í viðbót. En hann var einn af þeim mönnum, hv. 9. landsk., sem tóku undir það, að vísitölukerfi í þeirri mynd, sem við eigum nú við að búa, samrýmdist ekki jafnvægi í efnahagsmálum. Og það er alveg rétt. Vísitölukerfið, eins og það er núna, sem tínir upp hverja smábreytingu, sem verður á verðlagi erlendrar vöru, og endurkastast svo aftur í verði landbúnaðarvara og í tilkostnaðinum við framleiðslulífið og heimtar svo nýjar tekjur til þess að standast kostnaðinn af því, það er auðvitað langt frá því, að slíkt fyrirkomulag skapi jafnvægi, það rýfur allt jafnvægi, það setur allt á hreyfingu.

Og eitt er í þessu atriði, sem verkalýður landsins er búinn að skilja til fulls, að það er ekki beint í samræmi við okkar efnahagskerfi, að ef það verður uppskerubrestur á kaffi suður í Brazilíu, svo að kaffið hækkar í verði, þá á það að hafa áhrif á vísitöluna hér til hækkunar. En þetta getur borið að á sama tíma sem aflabrestur er á Íslandi og þjóðartekjurnar hafa minnkað og íslenzkur þjóðarbúskapur þyrfti helzt á því að halda, að laun lækkuðu, ef ekki ætti að skapast halli. Það sér hver maður, að það er ekkert samræmi í þessu, að geta orðið fyrir stórfelldum verðhækkunum og þar með útmældri hækkun á kaupi, ekki bara láglaunamanna, heldur allra upp úr, upp í topp, á sama tíma sem það, sem á að standa undir launagreiðslum í þjóðfélaginu, hefur kannske minnkað.

En svona getur þetta gengið, svona gekk þetta s.l. ár, en þá var Sjálfstfl., flokksbræður hv. 9. landsk., ólmur í að hækka kaup einmitt hjá hálaunafólki, þá fundu þeir mikla þörf í að hækka laun hjá skipstjórum á farskipunum, og einmitt einn af skipstjórunum á farskipunum var hér að barma sér yfir því, að ólukku ríkisstj. hefði komið í veg fyrir það, að þeir hæst launuðu á skipunum fengju hækkað kaup. Það var engin þörf á því. En það var sýnd sú sanngirni að hækka kaup hjá láglaunamönnum á skipunum, það var rétt. Og flugmennirnir knúðu fram kauphækkun. Þeir voru með hæst launuðu mönnum þjóðfélagsins fyrir, þrátt fyrir það að aflabrestur hefði orðið og það, sem þjóðfélagið hafði til að standa undir launagreiðslum, hefði minnkað. En a.m.k. er fjarstætt að hækka kaup hjá öllum upp úr, jafnt þeim hæst launaða sem þeim lægst launaða, þegar t.d. aflabrestur verður.

Og þá leiðist hugur manna að því, hvort ekki væri réttmætt, að þjóðarteknavísitala eða útflutningsvísitala væri grundvöllur undir almennum kauphækkunum, a.m.k. hálaunamanna. Látum það vera, þó að einhvers konar framleiðsluvísitala væri höfð sem eins konar lágmarkstrygging í þjóðfélaginu fyrir láglaunafólkið. En það ætti eingöngu að skapast réttur fyrir hálaunafólkið í þjóðfélaginu, þegar þjóðartekjurnar hefðu aukizt, það er mín skoðun.

Hv. þm. A-Húnv. sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum af þessu frv., þegar hann sá það, að vísitalan væri ekki skorin niður alveg og úr sögunni með þessu frv. En hann hafði þó séð eitt, og það var það, að allir launamenn landsins taka ekki kaup næstu mánuði samkv. vísitölu. Þeirra kaup stendur nú eins og það er, það hefur verið bætt við það 5%, það samsvarar því, að þeir eru skaðlausir, þangað til vísitalan — hún verður útreiknuð áfram — hefur hækkað um a.m.k.

9 stig. En gefur þetta ekki vísbendingu um það, að þarna sé verið að færa málið inn á nýtt spor? Gefur það ekki einmitt vísbendingu um það, að hans málstaður sé ekki fjarlægur þeim, sem standa að frv., hans sjónarmið í þessu efni? Ég hygg, að hann megi fyllilega íhuga það, og það ætti a.m.k. að draga nokkuð úr óánægju hans. En svo er sagt: Málið verður rætt á þingum stéttasambandanna í landinu. — Og það er mjög lýðræðislegt, að þau fjalli um það mál. Það er þeirra að segja til um það, hvort þau telja sínum hag borgið með þessu kerfi óbreyttu eða meira eða minna breyttu eða jafnvel með því að leggja það alveg til hliðar. Og það væri ekki lýðræðislegt af núverandi ríkisstj. að gera slíka stökkbreytingu í íslenzkum efnahagsmálum án samráðs við samtök stéttanna, sem hún hefur heitið að hafa samráð við í hinum þýðingarmestu efnahagsmálum, sem ég hygg að sé einungis til góðs.

Ég skal láta máli mínu lokið með þessu. Ég vildi með því, sem ég hef nú sagt, hafa leiðrétt misskilning um það, hver afstaða verkalýðssamtakanna sé til þessara efnahagsmálaaðgerða. Það liggur fyrir, að forustumenn verkalýðssamtakanna hafa ákveðið að vinna ekki gegn þessum efnahagsmálaaðgerðum og torvelda framkvæmd þeirra á engan hátt. Það nægir fyllilega ríkisstj., og hún hafði aldrei hugsað sér að fara fram á annað eða meira í þessu sambandi. Hún hafði hins vegar búið svo um hnúta, að verkalýðurinn væri skaðlaus af þessum aðgerðum fyrstu mánuðina og það lengi a.m.k., að hagur vinnustéttanna væri ekkert farinn að skerðast, þegar þau kalla saman sín þing og hafa möguleika til þess að taka afstöðu til þessara mála og taka ákvarðanir um, hvort þau vilja þar gera till. um verulegar breytingar í okkar efnahagsmálum, og þær till. gætu verið þess efnis, að þær hefðu verulega þýðingu, og það hefur komið fram í þessum umr., að menn viðurkenna það, ekki aðeins úr stjórnarliðinu, heldur úr stjórnarandstöðuliðinu líka, að þeir atburðir geta gerzt á þessum þingum stéttasamtakanna, sem skapi mikla möguleika til þess, að meira jafnvægi náist í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en við höfum hingað til búið við.

Ég er viss um það, að ef við hefðum haft íhaldsríkisstj. núna, þá hefði hún ekki byrjað á því að lögfesta 5% kauphækkun, til þess að verkalýðurinn væri alveg öruggur með að verða ekki fyrir kjaraskerðingu á næstu vikum og mánuðum. Nei, íhaldsstjórn hefði núna sagt: Við vitum ósköp vel, að dýrtíðin kemur til með að vaxa um 17–18 stig, en verkalýðssamtökin eru fyllilega fær um það að ná sínum hlut með verkföllum, eftir að kjararýrnunin er skollin á, og þau skulu fyllilega þurfa að kaupa það eins dýru verði og hægt er. — Þetta voru vinnubrögðin áður, og hér er orðinn á meginmunur. Þetta skilur verkalýðshreyfingin vel, og það er þess vegna, sem hún fyllilega þakkar ríkisstj. það, sem hún hefur vel gert að löggjafarleiðum, að leysa hvert stórmálið fyrir verkalýðshreyfinguna á fætur öðru, sem hefur verið barizt um, barizt fyrir í áratugi án árangurs, og því ber að fagna. Þetta hefur gerzt, síðan núverandi ríkisstj. tók við. Og í annan stað eru allt önnur vinnubrögð höfð á, að því er snertir hin þýðingarmestu efnahagsmál hinna vinnandi stétta. Þar er haft samráð við forustumennina, og á því er hneykslazt, og það er talað um, að þetta svipti Alþ. völdum. Þetta er allt saman hégiljur. Það er réttmætt að hafa bæði atvinnurekendur og verkalýð með í ráðum, þegar svona aðgerðir eru gerðar, og ég gæti hugsað mér, að þær verði ekki margar ríkisstj. hér eftir, sem vilja ganga fram hjá þessum aðilum, þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.

Ég er sannfærður um það, að verkalýður landsins skilur, að með þeirri fjáröflun, sem ráð er fyrir gert í þessu frv., er einungis verið að gera grundvöll atvinnulífsins í landinu traustari. Það er hin bezta kjarabót fyrir verkalýð landsins. Í því er lífsöryggi hins vinnandi fólks í landinu fólgið, og hver sá, sem reynir að villa um fyrir verkalýð landsins að því er þetta snertir, hann fer bónleiður til búðar, og hann fær ekki fylgi verkalýðsins.