16.05.1958
Neðri deild: 99. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. kvartaði yfir því, að svör þau, sem ég gaf við spurningum þeim, sem hann beindi til mín, hefðu verið ófullnægjandi.

Fyrsta spurningin og sú þýðingarmesta var sú, hvort ég teldi, að gengisfelling væri réttmæt við núverandi aðstæður. Hann kvað mótsögn í því, að ég hefði tekið það fram, að gengi krónunnar væri rangskráð, en samt ekki mælt með því, að gengislækkunarleiðin yrði farin.

Ég tel, að hér sé í rauninni ekki um neina mótsögn að ræða. Vitanlega hefur það sína óhagkvæmni í för með sér, að gengi íslenzkrar krónu er ekki rétt skráð. Á hinn bóginn er það þannig, að ef gengisfelling yrði framkvæmd, þá mundi af því stafa margvísleg röskun, þótt að vísu sé það að mínu áliti bábilja, að slík ráðstöfun mundi hafa í för með sér kjaraskerðingu fyrir heildina. Hins vegar hefur þetta áhrif á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, sem hægt væri að bæta úr með viðeigandi hliðarráðstöfunum. En þar sem bæði rangskráning krónunnar og einnig gengisfelling hefur hvort um sig sitt óhagræði í för með sér, þá þarf auðvitað að meta, hvorn ókostinn maður heldur tekur, og það er ekki hægt að mínu áliti, hvorki við þær aðstæður, sem eru í dag, né endranær, nema fyrir hendi séu fullkomnar upplýsingar um áhrif slíkrar ráðstöfunar, á hvern hátt væri hægt að framkvæma viðeigandi hliðarráðstafanir o.s.frv.

Hæstv. menntmrh. bauðst til þess að veita mér upplýsingar um rekstrarafkomu sjávarútvegsins, þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess, hvort þær uppbætur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., séu nægar eða ekki. Ég hef áður átalið það, að slíkar upplýsingar hafa ekki verið gefnar fyrir löngu. Nú er slíkt of seint, a.m.k. fyrir aðra en þá, sem eru sérstaklega kunnugir högum sjávarútvegsins. En væri nægur tími fyrir hendi til að kanna þau gögn, þá mundi ekki standa á mér að reyna að gera mér grein fyrir því, hvers væri þörf í þessu efni.

Hæstv. ráðh, hafði eftir mér nokkur ummæli, og þau voru í sjálfu sér rétt eftir höfð, þess efnis, að ég hefði talið nokkur einstök ákvæði þessa frv. til bóta, eins og t.d. það, að í staðinn fyrir 40 gengi o.s.frv., þá eru gengin nú gerð færri eða álagningarprósenturnar á innflutninginn færri, þannig að þetta verður einfaldara í framkvæmd; enn fremur það, að gerður er minni mismunur á uppbótunum til hinna einstöku útflutningsgreina, en verið hefur. Hins vegar verð ég að hryggja hæstv. ráðh. með því, að ég tók það einmitt fram, að hér væri um einstök atriði að ræða, þannig að það væri rangt að draga þá ályktun af þessum ummælum, að ég hafi sagt, að þetta frv. í heild væri til bóta. Það var einmitt sú gagnstæða niðurstaða, sem ég komst að. Að vísu taldi ég, að hugsanlegt væri, ef önnur atriði efnahagsmálanna yrðu hagstæð, að þá kynni það að miða í jafnvægisátt. En ég tel hins vegar ekki líkur á því, að önnur atriði efnahagsmálanna eða þróun þeirra verði hagstæð, þar má t.d. nefna kaupgjaldsmálin o.s.frv. Þar að auki bætist það við, sem er stærsta atriðið í þessu sambandi, að það liggur ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur enga stefnu í þessum málum, þannig að þar er ekki neins góðs að vænta. Það verður ekki annað séð, en þær miklu álögur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., veiti aðeins skamman gálgafrest, þannig að meira öngþveiti verði þá eftir, en áður. Það, hvort hér verður um að ræða samræmingu milli innlends og erlends verðlags, þegar frá líður, er komið undir því, hversu mikið innlenda verðlagið kemur til að hækka frá því, sem nú er, en á því tel ég vissulega mikla hættu, þó að ekki sé meira sagt.

Þá beindi hæstv. ráðh, til mín nokkrum nýjum spurningum, og sú fyrsta var þessi: Telur hv. þm. ráðstafanir eins og þessar byrðar á þjóðina í heild? — Til þess að gera sér grein fyrir því, hvort ákveðnar ráðstafanir eru byrðar á þjóðina í heild, verður auðvitað að hafa einhverja viðmiðun, og sú viðmiðun yrði þá að vera aðrar mögulegar ráðstafanir, sem til greina kæmu. Það er einmitt vöntun á meðferð þessa máls, sem ég hef átalið, að það liggur engin grg. fyrir um það, hvaða aðrar leiðir kæmu þarna til greina og hvaða áhrif slíkar ráðstafanir mundu hafa. Þessari spurningu verð ég því að vísa heim í hérað aftur eða til hæstv. ríkisstj.

Þá spurði hæstv. ráðh. mig um það, hvort ég væri því sammála, sem kom fram í ræðu hv. þm. G-K., að þær álögur, sem hér væri um að ræða, næmu 790 millj. Það er rétt að taka það fram, að hv. þm. G-K. hafði þann fyrirvara um þetta, að hér frá bæri að draga það, sem gengi inn og út úr sama vasa, en slíkt væri ekki hægt að áætla með nákvæmni. Mér eru ekki kunnar þær forsendur, sem þetta er byggt á, eða þær tölur, sem þessi útreikningur er byggður á, en svo lengi sem ekki liggur annað fyrir, hef ég ekki neina ástæðu til þess að vefengja þennan útreikning. Aðferðin mun hafa verið sú að taka heildartekjuöflunina, en auðvitað með þeim fyrirvara, að frá bæri að draga það, sem gengi inn og út úr sama vasa. Hv. þm. G-K. viðurkenndi hins vegar ekki það sjónarmið, að frá bæri að draga hækkun á uppbótunum vegna hækkunar á rekstrarvörum útvegsins, af því að þar er um að ræða tekjutilfærslu á milli útvegsmanna. Ég hygg, að það sé mjög algengt að nota svipaða aðferð, og t.d. hvað snertir þessar uppbætur vegna hækkunar á rekstrarvörunum, þá sýnist mér a.m.k., að hluti af þeim sé hliðstæður við það, að t.d. gjöld af útflutningi, þótt þeim sé ráðstafað í þágu sjávarútvegsins, eru almennt talin til skatta, sömuleiðis er benzínskattur t.d., sem ráðstafað er til vegaviðhalds, venjulega talinn til skatta, þó að segja megi, að hann komi þeim til góða, sem þessa skatta greiða. Annars eru auðvitað margvíslegar aðferðir við það að reikna út skattbyrðina, bæði þær skattbyrðar, sem af þessu leiðir, og aðrar skattbyrðar í heild. Sú, sem almennast er notuð, er að taka tekjuöflunina í heild og deila henni niður á þá, sem skattana greiða. Aðrar aðferðir hafa verið ræddar meðal hagfræðinga í þessu efni, eins og það að miða skattbyrðina við ríkisútgjöldin, en ekki við ríkistekjurnar. Sumir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, sem lætur kannske einkennilega í eyrum, að skattbyrðin sé í rauninni núll, því að borgararnir fái verðmæti á móti þeim sköttum, sem þeir greiða, Það er ekki til nein aðferð í þessu efni, sem hægt er að segja að sé hin eina rétta, a.m.k. kenni ég nemendum mínum í háskólanum það og hef ekki ástæðu til þess að segja annað hér. Slíkt verður alltaf persónulegt matsatriði. Ég fer ekki fleiri orðum um þetta.

Þriðja spurning hæstv. ráðh. var sú, hvort ég teldi þessar ráðstafanir vera spor í átt til aukins jafnvægis í þjóðarbúskapnum eða ekki. Ég hef þegar gert þessari spurningu nokkur skil. Ef maður tekur út úr einstök atriði frv., þá eru þau til bóta og spor í þessa átt, enda væri það satt að segja hart, ef ekkert nýtilegt gæti komið út úr þeim langvarandi athugunum, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálunum með aðstoð hinna færustu sérfræðinga, og sérstaklega með tilliti til þess, hvert hrákasmiði jólagjöfin var á sínum tíma. Það væri mjög hart, ef alls ekkert jákvætt gæti út úr því komið. Við stjórnarandstæðingar höfum yfirleitt fylgt þeirri reglu að viðurkenna það fáa nýtilega, sem frá þessari ríkisstj. hefur komið. Með þessu er auðvitað ekki sagt, þegar öll áhrif þessara aðgerða koma fram, að það verði til aukins jafnvægis, en því máli hef ég áður gert skil.

Þá vil ég aðeins víkja nokkuð að ummælum hæstv. félmrh. Hann taldi okkur sjálfstæðismönnum og sérstaklega mér ekki neina vorkunn á því, að við hefðum áttað okkur svo á þessum málum, að við gætum gert rökstuddar heildartillögur í þessum efnum, og hvað mig snertir, þá minnti hann sérstaklega á það, að ég hefði unnið að undirbúningi þeirra víðtæku ráðstafana í efnahagsmálunum, sem framkvæmdar voru af Sjálfstfl. á sínum tíma, fyrir 8 árum. Það er nú bara þetta, að aðstæður í efnahagsmálum hafa breytzt mjög verulega á þessum 8 árum, Það er ekki hægt að byggja á þeim athugunum og staðreyndum, sem þá voru fyrir hendi, og mér finnst það satt að segja kastað úr glerhúsi af þessum hæstv. ráðh. og ríkisstj., þegar heimtað er af okkur sjálfstæðismönnum, að við gerum ákveðnar till. í efnahagsmálum, þó að öllum upplýsingum um þessi mál hafi verið haldið svo vandlega leyndum sem raun er á, þó að við höfum hvað eftir annað skorað á ríkisstj. að birta þessar upplýsingar bæði á s.l. vetri og nú.

Hæstv. ráðh. vék svo aftur að gengislækkuninni 1949–50 og kom með þá fullyrðingu, sem oft hefur heyrzt úr herbúðum hans manna, að það; að bátagjaldeyriskerfið var tekið upp 1951, hafi ýtt undir það, að þessar ráðstafanir hafi að engu verið gerðar með því. Í minni fyrri ræðu skýrði ég ástæðuna fyrir þessu. Það var vegna þess, að ytri atvik, sem ómögulegt var að sjá fyrir á þeim tíma, þegar þessar ráðstafanir voru undirbúnar, ollu því, að verðlagsþróunin varð óhagstæðari, en við höfðum gert ráð fyrir á sínum tíma, og ollu þar mestu um áhrif Kóreustyrjaldarinnar 1950. Mér fannst ekki vera hægt að heimta það af okkur dr. Benjamín Eiríkssyni, að okkur væri kunnugt um fyrirætlanir kommúnista um að ráðast á Suður-Kóreumenn sumarið 1950. Til þess að mæta þeim auknu örðugleikum, sem af þessu leiddi, var svo bátagjaldeyrisfyrirkomulagið tekið upp, eins og kunnugt er. Það hefði auðvitað verið æskilegt að komast hjá slíku. En í þessu efni vil ég þó leyfa mér að vitna til ræðu hæstv. forsrh. Hann talaði einmitt um það, að meðan uppbæturnar væru í hófi og næðu aðeins til lítils hluta af útflutningnum, þá gæti slíkt samrýmzt sæmilegu jafnvægi, og það var líka svo, að þrátt fyrir bátagjaldeyriskerfið, eins og ég tók fram í minni ræðu, náðist á tímabilinu frá seinni hluta árs 1952 og til vors 1955 það mesta jafnvægi, sem ríkt hefur í efnahagsmálum Íslendinga allt frá því 1929. Þann árangur tel ég mikinn.

Hitt er svo annað mál, og það skal fúslega viðurkennt, að þegar talað er um frambúðarlausn í efnahagsmálunum eða lausn, sem geti haft einhvern varanleika, þá er náttúrlega þar með ekki átt við neina eilífðarlausn. Það eru auðvitað ekki nokkur úrræði til, sem leysa efnahagsvandamálin í eitt skipti fyrir öll, en það er önnur hlið á því máli.