27.05.1958
Neðri deild: 105. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Menn hafa með nokkurri undrun fylgzt með ræðu hv. 3. þm. Reyky. (EOl), um leið og hann leggur fram vantrauststíll. á þá stjórn, sem hann styður, í formi þeirrar rökstuddu dagskrártill., sem hann hefur nú lagt hér fyrir deildina. Almennt var talið, að hann mundi venda sínu kvæði í kross, eftir að sambræðsla tókst milli stjórnarflokkanna í landhelgismálinu, eins og kunnugt er, en eins og allir vita, þá er hann formaður stærsta stuðningsflokks ríkisstj. Ef till. hans verður samþ., verður ekki annað séð, en að stjórnin verði að biðjast lausnar. En þá sýnist líka hafa verið heldur að tilefnislausu, sem flokkur þessa hv. þm. hélt hæstv. ríkisstj. á pínubekknum í heila viku, svo að hún tekur ekki á heilli sér enn.

Hversu mjög sem menn kunna að deila um það, hverjum hin öra verðbólguþróun síðustu ára sé að kenna, og hversu skiptar skoðanir sem við höfum um gagnsemi þess frv., sem hér liggur fyrir, verður þó aldrei gengið fram hjá þeirri staðreynd, að einhverjar ráðstafanir þurfi að gera til þess að leiðrétta það gífurlega ójafnvægi, sem nú er orðið í allri efnahagsstarfsemi landsins. Um þetta eru að vísu allir flokkar sammála, um þetta atriði, þótt þeir hafi mjög mismunandi og misjafnlega raunhæfar skoðanir á því, hvernig eigi að leysa þetta mikla vandamál.

Öllum er vafalaust ljóst, hvort sem þeir vilja viðurkenna það eða ekki, að misvægið í efnahagskerfinu verður aldrei leiðrétt sársaukalaust, hversu háfleyg og lærð rök sem ýmsir ráðh. færa fram fyrir því, að þjóðin þurfi engu að fórna á altari þessara leiðréttinga, það sé ekki verið að leggja neinar byrðar á þjóðina, það sé aðeins tilfærsla tekna milli þegnanna. Þetta kostar engar fórnir, eftir því sem einn hæstv. ráðh. hefur sagt við þessar umr.

Leiðréttingin hlýtur að fela í sér mikinn sársauka um stundarsakir fyrir mestalla þjóðina. En því lengur sem dregst að gera réttar og viðeigandi ráðstafanir, því meiri verður sársaukinn við leiðréttinguna. En að líkindum verður sársaukinn mestur og skaðinn mestur við það að halda þjóðinni á skurðarborðinu í marga mánuði með brauki og bramli, með löngum og umdeildum undirbúningi og gera svo sársaukafulla aðgerð, sem aðeins endist til næsta dags.

Við, sem erum fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn., höfum ekki talið okkur fært að mæla með frv. Til þess eru á því of margir gallar. Frv., eins og það er, og þær ráðstafanir, sem það felur í sér, eru eingöngu og ekkert annað, en ávöxturinn af sambúð stjórnarflokkanna. Frv. ber þeirra svip, það túlkar þeirra grundvallarskoðanir sameiginlega, og það er mótað í þeirri pólitísku deiglu stjórnarinnar, sem þjóðlífið að mörgu leyti ber nú mót af. Engum var leyft að koma nærri samningu frv., engum, sem gat haft nokkra aðra skoðun á málinu, en ríkisstjórnin hafði sameiginlega. Og enginn var jafnvendilega útilokaður frá að hafa nokkur áhrif á gang þessa máls, þessa mikla vandamáls, og Sjálfstfl. Hann var útilokaður til síðustu stundar. Síðast af öllum fékk stjórnarandstaðan að vita, hvernig átti að lagfæra þetta mesta vandamál þjóðarinnar. Það hefur að öllum líkindum verið gert vegna þess, að stjórnarflokkarnir hafa ekki kært sig um, að Sjálfstfl. hefði nokkurn heiður af vandlega útreiknuðum ráðstöfunum, sem flokkarnir leggja nú fram. Stjórnin vildi ein hafa heiðurinn og sómann, máttinn og dýrðina, og í raun og veru segir hún við Sjálfstfl.: Við óskum, að þið komið hér hvergi nærri. Þess vegna látum við ekki í ykkar hendur neinar upplýsingar um málið. Við erum einfærir um að leysa það. Það er okkar mál, en ekki ykkar. — Þetta er einmitt það, sem stjórnin hefur sagt við Sjálfstfl. frá öndverðu og allan þann tíma, sem hún hefur haft þetta mál í undirbúningi.

Það er því ekki aðeins frekleg móðgun við dómgreind og vitsmuni þeirra manna í stjórnarflokkunum, sem enn hafa heilbrigða skynsemi, að heimta, að Sjálfstfl. með nokkurra daga fyrirvara leggi fram heilsteyptar og undirbúnar till. í þessu flókna máli, heldur er það einnig sorgleg staðfesting á þeim barnalegu, skammsýnu og gersamlega óraunhæfu vinnubrögðum, sem mótað hafa allt starf stjórnarinnar í sambandi við þetta frv.

Það má segja þrátt fyrir alla galla frv., að það er byggt upp í ákveðnu kerfi, eins og hv. frsm. 2. minni hl. lýsti í sinni ræðu. Og grundvöllurinn fyrir þessu er óteljandi skýrslur og útreikningar, þar sem tekjur og gjöld eru að mestu leyti látin standast á. Ef einum mikilvægum lið frv. er kippt í burtu, hrynur byggingin til grunna. Þá er kerfið orðið að rúst, spilaborgin getur ekki staðið. Þess vegna hlýtur þeim, sem kerfið hafa byggt upp, að vera allra manna ljósast, að ef sjálfstæðismenn vilja gera breytingar á frv., þá væru till. um slíkar breytingar algerlega rökvana, nema gerð sé gerbylting á því kerfi, sem frv. byggist á. En bylting á frv. væri óhugsanleg nema með tímafrekum og flóknum útreikningum og skýrslugerðum, ef hún ætti að koma þjóðinni að gagni. En við 1. umr, málsins rísa svo hæstv. ráðh. upp hver af öðrum og heimta, að Sjálfstfl., sem þá fékk að sjá fyrst frv. fyrir þrem dögum, leggi fram kerfisbundnar og tilbúnar till. í þessu máli. Er ekki þetta sama og að ganga gersamlega í berhögg við allt skynsamlegt vit?

Við, sem af hendi Sjálfstfl. höfum fjallað um frv. í fjhn., höfum því með hliðsjón af þeim rökum, sem ég hef nú lýst, talið með öllu tilgangslaust og ekki í samræmi við hugmyndir okkar um ábyrga og skynsamlega meðferð þingmála að bera fram brtt. við einstaka liði frv., eins og t.d. um hækkun á bótum fyrir síld og fisk, sem útflutningsframleiðslan hefur talið, eftir að frv. kom fram, lífsnauðsyn fyrir útveginn að fá hækkaðar, til þess að hann geti starfað. Slík breyting gerð út af fyrir sig mundi þýða útgjaldahækkun um milljónatugi, án þess að tekjuliðum væri breytt á móti. Hins vegar er möguleiki á því að gera minni háttar breytingar á frv. og í öðrum atriðum, án þess að það hafi sömu verkanir.

Við höfum því tekið þann kostinn að benda á misfellur frv., sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, án þess að bera fram till. um breytingu á því, sem við annars mundum telja nauðsynlegt. Við lítum svo á eins og sjálf ríkisstj., að þetta sé hennar afkvæmi, hún eigi á því ein að bera ábyrgð og ein veg og vanda að hafa. Í því birtist máttur hennar og dýrð, sem við höfum enga hvöt til að taka frá henni.

Hitt er svo annað mál, að þessi afstaða okkar gerir það ekki óeðlilegt, um leið og við bendum á stærstu gallana, að við berum fram nokkrar minni háttar brtt.

Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur skrifað þinginu og bent á, að nauðsynlegt sé, að uppbæturnar séu 85% fyrir allar fiskafurðir, bæði síldar- og þorskafurðir, í staðinn fyrir 80%. Nú eru bætur á Norðurlandssíld 50%, en Faxasíld 70%. Verður því ekki annað sagt, en að hér beri mikið á milli frv. stjórnarinnar og þess álits, sem forustumenn íslenzkra útvegsmála hafa á því, hversu mikið útvegurinn þarf að fá í uppbætur til þess að geta starfað.

Mér er nú spurn: Hvor af þessum staðhæfingum er rétt um nauðsyn uppbótanna? Ef staðhæfing útvegsins er rétt, þá er það sýnilegt, að frv. er að meginuppistöðu til byggt á óraunhæfum grundvelli. Ef rétt er, að svo mikið beri á milli þess, sem stjórnin segir að útvegurinn þurfi, og hins, sem útvegurinn sjálfur segir að hann þurfi til þess að geta starfað, ef þetta er rétt hjá útveginum, sem ég hef ekki neina ástæðu til að bera brigður á, þá má segja, að tölur stjórnarinnar í þessu efni séu hrein ágizkun, og þetta er sá liður frv., sem ber það uppi. Fiskafurðirnar eru uppistaðan í útflutningi landsmanna, og það eru einmitt þær afurðir, sem þetta frv. er sérstaklega gert fyrir, til þess að útvegurinn geti haldið áfram að starfa.

Útflutningssjóði er ætlað að greiða uppbætur fyrir framleiðslu til 14. maí með sérstökum hætti. Nú er vitanlegt, að nokkuð af fiskframleiðslunni — og á ég þá sérstaklega við saltfisk og harðfisk — er verkað að verulegu leyti eftir 14. maí. En það er fullyrt af útvegsmönnum, að þetta frv. geri ekki ráð fyrir neinum uppbótum á þann verkunarkostnað. M.ö.o.: annaðhvort er það fellt niður vísvitandi eða af athugunarleysi, að útvegsmenn fái uppbætur á þær afurðir, sem lengur eru í verkun en til 14. maí.

Ég vil því enn spyrja: Hvers vegna hefur þetta gleymzt? Hvers vegna hefur svona mikilsvert atriði gleymzt? Er það ekki einmitt eitt dæmi enn um það, hvernig frv. er upp byggt?

Eftir að þetta frv. er orðið að lögum, er öllum ljóst, að allir atvinnuvegir landsins þarfnast miklu meira veltufjár, en þeir hafa í dag. Þess vegna er það fyrsta, sem bæði útvegsmenn og allar aðrar iðngreinar í landinu spyrja á þessum tímamótum: Verður leyst úr þessu vandamáli með veltuféð þannig, að atvinnuvegirnir geti starfað? Það er víst alveg óhætt að fullyrða, að atvinnuvegirnir geta ekki starfað á næstunni með því veltufé, sem þeir hafa í dag.

Mér er ljóst, að það er ekki hægt að setja í lög, að atvinnurekstur landsins skuli hafa nægilegt fjármagn. Það byggist á skilningi þeirra, sem hafa fjármagnið í höndum sér. En ég vil í sambandi við þetta mál minna á þá alvarlegu staðreynd, að ef ekki verður úr veltufjárþörfinni leyst, eftir að þetta frv. hefur tekið gildi, þá getur hugsazt, að við bindum okkur ekki minni erfiðleika, en við ætlum okkur nú að leysa.

Eitt atriði, sem kemur fram í þessu máli, er sú skattlagning, sem bankarnir eiga að þola skv. frv. Bankarnir eru nú skattfrjálsir samkvæmt lögum, þeim ber ekki að greiða skatta, og með þessu lagaákvæði hefur verið haldið yfir þeim verndarhendi allt til þessa dags af þeirri einföldu ástæðu, að þetta er mjög hættuleg leið að fara. Ríkið á bankana, ríkið rekur bankana í því augnamiði að halda gangandi efnahagskerfi landsins. Bankarnir reka að mörgu leyti áhættusama atvinnu af því, hversu mjög áhættusamur okkar aðalatvinnuvegur er. Þess vegna er það röng leið, sem nú er lagt inn á, þó að ríkisstjórnin þykist hafa mikla þörf fyrir tekjuöflun, að byrja á því að skatta þessar stofnanir, því að enginn veit, hvar sú sköttun endar. Við sköttum atvinnuvegina nú á þann veg, að þeir bogna undir byrðunum. Ef við sköttum bankana þannig, að þeir hætti að geta haft fé til ráðstöfunar, þá getur orðið þröngt fyrir dyrum.

Söluskatturinn er einn af aðaltekjuliðum frv., og hann er m.a. lagður á iðju og iðnað. Nú liggur hér fyrir bréf frá iðnaðarmönnum, þar sem þeir óska eftir því, að skattinum sé létt af vegna þess, hvað hann komi geysilega óréttlátt niður. Skatturinn, eins og hann er lagður á nú, verkar ekki á eðlilegan hátt. Ef menn fara í verzlun og kaupa efni og fara með það til iðnaðarmanns til þess að vinna úr, þarf kaupandinn ekki að greiða söluskatt af efninu, — ef hann kaupir það sjálfur og færir iðnaðarmanninum. En ef iðnaðarmaðurinn fer í sömu verzlun, kaupir sama efnið og býr úr því sama hlut fyrir þennan mann, þá verður hann að borga söluskattinn. Það er náttúrlega hægt að halda áfram að láta svona lög gilda og hafa sínar verkanir, en það er aldrei hægt að komast hjá því, að þau hafi ranglátar verkanir og mjög óheppilegar verkanir fyrir atvinnulífið. Þessi söluskattur hindrar, að verk séu unnin í ákvæðisvinnu. Ef einhver maður þarf að láta iðnaðarmann vinna fyrir sig, við skulum segja byggja hús, og ef hann lætur verkið í ákvæðisvinnu, þá skuldar verktakinn hann fyrir söluskattinum af allri upphæðinni. En láti maðurinn sama iðnaðarmann vinna fyrir sig í tímavinnu og borgar sjálfur út kaupið, þarf hann engan söluskatt að greiða. Á þennan hátt verkar söluskatturinn mjög ranglátlega og óheppilega, vil ég segja, og þess vegna er réttmætt að taka till. iðnaðarmanna til greina.

Við 1. umr. þessa máls var nokkuð minnzt á vísitöluna. Þeir ráðh., sem minntust á vísitöluna, — ég held, að það hafi aðallega verið hæstv. atvmrh., — sögðu, að hún mundi hækka eitthvað milli 15 og 17 stig. Ég minntist lítillega á það við fyrri umr. málsins, að samkvæmt áætlun, sem hagstofan hefur gert um vísitöluhækkunina í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar verða með frv., þá er um þrjár leiðir að ræða: Í fyrsta lagi, að vísitalan hækkar um 14 stig, ef álagning á vörur er óbreytt að krónutali. Það vill segja, að menn mega ekki leggja á þá hækkun, sem verður með þessum breytingum. Í öðru lagi hækkar hún um 15.9 stig, ef álagning er óbreytt að krónutali, á allar vörur aðrar en landbúnaðarvörur, en á þær lagt í prósentutali. Og í þriðja lagi hækkar hún um 19 stig, ef álagningarprósentur eru óbreyttar á öllum vörum, einnig landbúnaðarvörum. Nú vil ég spyrja: Hverja leiðina af þessum þremur ætlar stjórnin sér að fara? — vegna þess að það virðist hafa talsvert mikið að segja um hækkun vísitölunnar. Við vitum hins vegar, að hækkun vísitölunnar er talsvert alvarlegt atriði, sem ekki verður hrist af sér mjög auðveldlega. Á að láta álagninguna vera eins og hún er í dag, eða á að lækka hana um 20–30 %?

Í þessu sambandi mætti nú spyrja, hvort álagningin í landinu, sem er talsvert mikilvægur liður í fjárhagskerfi þjóðarinnar, sé reist á heilbrigðum grunni.

Þegar núverandi verðlagseftirlit tók til starfa, fór það inn á þá braut að lækka alla álagningu þannig, að verzlunin getur ekki staðið undir rekstrinum með heilbrigðu móti. Í dag er víst ekki ofsögum sagt, að mestur hluti verzlana í landinu, bæði kaupmenn og kaupfélög, er annaðhvort rekinn með tapi eða stendur í járnum með reksturinn. Þetta er skammsýn stefna, sem truflar mjög efnahagslífið, og þar að auki sviptir það hið opinbera þeim tekjum, sem framkvæmdir þess að miklu leyti byggjast á. Við skulum líta á eitt stærsta kaupfélag landsins, sem er KRON. Það er nærtækasta og skýrasta dæmið um, að verðlagið er byggt á óraunhæfum og óskynsamlegum forsendum. Þetta félag seldi s.l. ár vörur fyrir 42 millj. og tapaði einni milljón, M.ö.o.: kaupfélagið hefur tapað 21/2% á hverri krónu, sem það hefur selt vörur fyrir á árinu, og félagsstjórnin segir sjálf og er ekkert feimin við að halda því fram, að þetta hafi orsakazt af of lágri álagningu. Ef reksturinn hefði verið á heilbrigðum grunni, þá hefði félagið átt að geta lagt í sjóði sína 2–3%, þó að það hefði ekki getað greitt félagsmönnum afslátt. En það sýnir þá, að félaginu hefur verið nauðsynlegt að hafa 5% hærri álagningu á vörunni, ef það hefði átt að hafa heilbrigðan rekstur. Það má spyrja um bæði þetta félög og önnur: hversu lengi verður verðlagseftirlitið á þennan hátt að leggja þau að velli? Það má líka minnast hér á elzta kaupfélag landsins, félag, sem er mjög vel rekið. Velta þess s.l. ár var 51 millj. kr., og reikningslegur hagnaður þess, þegar fyrningar eru frá dregnar, er 425 þús. eða 0.9% af öllum vörum, sem það hefur selt. Ef félagið væri nú skylt að leggja í varasjóð, sem er ekki lengur til að dreifa, þá hefði allur hagnaðurinn farið í varasjóð, það hefði ekkert getað lagt í stofnsjóð og ekkert getað greitt félögunum í arð. Ég vona, að það sé ekki hæstv. félmrh. og ráðh. verðlagsmála, sem lætur gera svona óraunhæfar ráðstafanir í þessum málum.

Ég get þó ekki skilið við þetta, úr því að ég er byrjaður að tala um verðgæzluna, án þess að minnast á fyrirmæli, sem líklega eiga enga hliðstæðu annars staðar. Hér er það verðlagseftirlitið, sem bannar mönnum að senda vörur með flugvélum. Ég held, að þetta þekkist hvergi nokkurs staðar í heiminum nema hérna, að sérstakt leyfi verðlagseftirlitsins þarf til þess að senda vörur með flugvélum hingað til lands. Og það er byggt á þeirri ákvörðun, að enginn megi greiða hærri fragt, en gildir með millilandaskipum. Þetta hefur verið hátíðlega birt í Lögbirtingablaðinu, svo að ekki er um að villast. Það virðist ekki vera unnið að þróun flugmálanna hér á landi, þegar slíkar reglur eru settar, sem engri annarri þjóð mundi koma til hugar að framkvæma. Þessar reglur minna mig dálitið á það, hvernig var, þegar fyrsti járnbrautarvagninn kom fram í Englandi. Það var talið svo alvarlegt atriði, að samin voru sérstök lög um það, hvernig hann ætti að haga sér. Honum var ekki bannað að aka, en honum var leyft það því aðeins, að maður með rauðan fánu gengi á undan honum. Mér finnst þetta dálítið svipað, sem gert er hér, er menn verða að sækja um leyfi verðlagsyfirvaldanna til þess að mega nota loftflutninga.

Það verður varla annað sagt, en að frv. í heild er á óheilindum byggt að meira eða minna leyti, svo að ekki er von á góðu. Ég rakst hér af tilviljun á grein, sem hæstv. menntmrh. ritaði í nóvember s.l. um efnahagsmálin. Þessi grein er að mörgu leyti fróðleg. En í henni kemur fram sá sami tvískinnungur, sem hefur markað alla meðferð þessa máls og allan málaflutning ríkisstj. í því sambandi, Hann segir í þessari grein, að það sé enginn eðlismunur á uppbótum og réttri gjaldeyrisskráningu. Hann segir: „Á þessu tvennu er í sjálfu sér enginn eðlismunur. Aðferð útflutningsbótanna og innflutningsgjaldanna felur þó í sér meiri skilyrði til þess að hafa áhrif á tekjuskiptinguna.“ En svo segir hæstv. ráðh.: „En einmitt í þessu einkenni er fólgin hætta við þessa aðferð. Ef erlendar vörur og erlend þjónusta verður að meðaltali mun ódýrari, en sams konar vörur og þjónusta framleidd í landinu sjálfu, er líklegt, að eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri verði svo mikil, að til stöðugs gjaldeyrisskorts komi.“ Hann segir, að það sé alveg sama, hvora leiðina við förum, en ef við förum uppbótaleiðina, þá eigum við á hættu, að við verðum í stöðugum gjaldeyrisskorti. Svo segir hann seinna í greininni: „Þeir flokkar, sem mynduðu núverandi ríkisstjórn á s.l. sumri, gerðu sér og gera sér ljóst, að verðbólguhjólið verður ekki stöðvað nema með náinni samvinnu ríkisvalds og stéttasamtaka. Það var og er kjarninn í þeim samningi, sem gerður var við myndun ríkisstj.“ Og svo segir hann að lokum um það, hvað stjórnarflokkarnir þurfi að forðast til þess að koma sínum skynsamlegu ráðstöfunum fram, og það, sem þeir þurfa að forðast, er að sjálfsögðu Sjálfstfl.: „Ef hið opinbera fylgir þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem Sjálfstfl. berst fyrir, má ganga út frá því sem vísu, að samtök launþega beiti sér gegn henni, svo sem átti sér stað á árunum 1950–56. Baráttan gegn verðbólgunni verður ekki háð undir merkjum Sjálfstfl. Sigur á henni verður ekki unninn með aðild hans.“ En nú skuluð þið taka eftir: „Í stefnu hinna þingflokkanna þriggja í efnahagsmálum er hins vegar svo mikið sameiginlegt, og hún er í grundvallaratriðum í svo nánu samræmi við það, sem stéttasamtökin telja hagsmuni sína, að samvinna þeirra um baráttu gegn verðbólgunni ætti að geta orðið árangursrík.“

Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. kallar „nána samvinnu“ við vinnustéttirnar. En það eitt er víst, að það ástand, sem nú er að skapast, bendir ekki til þess, að vinnustéttirnar séu á sömu skoðun og ríkisstj. Nú hefur stjórnin lagt fram þetta frv., sem hæstv. ráðh. telur í nánu samræmi við vilja stéttanna. En hvað gerist, eftir að frv. er lagt fram og um það leyti sem verið er að leggja það fram? Þá rís hver stéttin upp á fætur annarri, ýmist til að mótmæla ákvæðum frv. eða til að segja upp samningunum. Ég vil nú spyrja: Bendir þetta til, að till. stjórnarinnar séu í nánu samræmi við vilja og hagsmuni stéttarfélaganna? Bendir ekki þetta heldur til, að afstaða stjórnarinnar í heild í þessum málum og eins og frv. ber með sér er gersamlega óraunhæf?