27.05.1958
Neðri deild: 105. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram 2 brtt. á þskj. 548 við frv. það, sem liggur hér fyrir til umr. Það er í fyrsta lagi við 21. gr., að b-liður falli niður, þ.e. um yfirfærslugjald á sjúkragjaldeyri og á námsgjaldeyri, og í öðru lagi við 31. gr., að í stað 55% yfirfærslugjalds komi 30% yfirfærslugjald, þ.e. af sjómannagjaldeyri og flugmannagjaldeyri.

Eins og öllum hv. alþm. mun ljóst vera, er það svo, að þegar menn leita til framandi landa til þess að leita sér lækninga, þá er það gert í ýtrustu neyð. Enginn fer það til þess aðeins að fara ferðina, heldur að læknisráði og vegna þess, að menn gera sér von um að fá þann bata, sem þeir gátu ekki fengið heima fyrir. Það er því ljóst mál, að þetta er ekki skemmtiferðalag á nokkurn hátt. Og það er enn fremur öllum mönnum ljóst, að ekki eru það frekar þeir fjáðu, en þeir lítt fjáðu, sem verða fyrir því óláni að verða haldnir þeim sjúkdómum, sem menn þurfa oft og tíðum að leita sér lækninga við til framandi landa, vegna þess að hér er ekki aðstaða til þess að veita þeim þá hjálp, sem þeir óska eftir og þurfa á að halda. Við vitum, að allir menn, sem eru með heilbrigða skynsemi og andlega heilir, óska eftir að halda í lífið í lengstu lög og vilja mikið til vinna. Þess vegna er það, að það fólk, sem í þetta ræðst, hleypir sér oft í miklar skuldir til þess að reyna að fá bót meina sinna, og það er vitanlegt, að það mundi verða enn þá þyngri baggi á þeim, ef þetta gjald væri látið vera í þessu frv., sem sennilega verður samþ. hér á hinu háa Alþ. Þessi 30% þýddu mjög aukinn bagga á þessum mönnum, hvort heldur það eru karlar eða konur. Fyrir því virðist mér öll sanngirni mæla með því, að þetta gjald verði fellt niður á sjúkragjaldeyrinum, m.a. vegna þess, að þennan gjaldeyri er alls ekki hægt að misnota á nokkurn hátt. Það hlýtur að vera gert með læknisráði og með vottorði frá lækni, að þeir fara þessar ferðir, og því ekki um það að tala, að hér sé verið að fara til annars, en leita sér lækninga í ýtrustu neyð.

Mér virðist það og vera nokkuð ljóst mál, að þeir, sem hafa verið langdvölum á skólum hér, eru langskólagengnir og hafa áhuga fyrir því að leita sér frekari frama erlendis og fara það á stundum af mikilli nauðsyn og löngun til þess að mennta sig meir og vanalegast að ráði hinna vitrari manna, ættingja og vina, að þeir eru ekki allir sérlega vel fjáðir. Þeir eru víst margir hverjir búnir að hleypa sér í miklar og þungar skuldir, þegar til þess kemur, að þeir þurfi að leita út yfir hafið til þess að leita frekari menntunar, og fyrir því er, eins og einnig á hinum sjúku, þungur baggi á námsfólkinu að þurfa að greiða þetta 30% yfirfærslugjald.

Og ég er sannfærður um, að þetta gjald getur ekki numið því fyrir ríkissjóðinn, að það muni nokkru, svo að nemi fyrir ríkiskassann, en hins vegar er mikið í húfi fyrir hvern einstakling, sem fyrir þessu verður, enda hafa komið fram ströng mótmæli frá stúdentaráði gegn þessu ákvæði í frv., þar sem þeir skora eindregið á hið háa Alþingi að fella það niður og lýsa því, að þetta sé mikil kjaraskerðing fyrir þá. Og það verður að viðurkenna, að það er satt, það eru þeirra laun, þeir peningar, sem þeir hafa aflað sér með lánum og styrkjum frá foreldrum og ættingjum og bankastofnunum til þess að leita sér þessa aukna frama, og þeir eiga náttúrlega á sínum tíma að skila laununum til þjóðar sinnar aftur í aukinni þekkingu og menntun og auk þess greiða skuldina. Fyrir því finnst mér, að öll sanngirni mæli með því einnig, að þessi skattur á námsmenn verði felldur niður.

Þá kem ég að 31. gr. Þar er sagt í grg. fyrir frv., að vegna þess að tekið sé 55% yfirfærslugjald af öllum peningum, sem skipafélögin fá til viðskipta og fyrirgreiðslu erlendis, þá sé nauðsynlegt einnig að taka það af sjómönnunum á skipunum. Ég get ekki skilið, að það sé nauðsynlegt vegna þess, að yfirfærslugjaldið er 55% á öllu því, sem þarf til þarfa skipsins, því að það munu skipafélögin leggja á flutningsgjöldin aftur í hækkuðum flutningsgjöldum. Það leiðir af sjálfu sér, því að annars gætu þau ekki borið sig. Auk þess er þetta gjald, sem hér er talað um, þessi 55% á sjómennina, bein kjaraskerðing þeim til handa fram yfir aðrar stéttir þjóðfélagsins, vegna þess að þeir taka fullan þátt í þeirri auknu dýrtíð, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, hefur í för með sér fyrir alla þegna þjóðfélagsins.

Það er því óhætt að segja, að það er ekki til þess að örva menn að sækja sjóinn eða vera á sjónum að lækka laun þeirra um 161/2% fram yfir allar aðrar stéttir þjóðfélagsins, þegar auk þess er talað um að hækka laun annarra um nokkur prósent. En menn hafi í huga, að það, sem hér er lagt til að lækka niður í 30% úr 55%, er ekki vegna þess, að það sé viðurkennt af sjómönnum, að það sé réttmætt að lækka laun þeirra fram yfir laun annarra stétta þjóðfélagsins, heldur er það til þess að koma til móts við það, sem komið hefur hér fram í umræðum á hinu háa Alþingi, að í erlendum gjaldeyri gætu falizt nokkur hlunnindi fyrir þá, sem kunna með gjaldeyrinn að fara. En menn hafi það einnig í huga, þegar þeir eru að tala um þennan erlenda gjaldeyri til handa sjómönnunum, að það er ekkert annað en það, sem stendur í okkar lögum, að þeir skuli fá sín laun greidd í erlendum gjaldeyri þess lands, sem þeir eru staddir í á hverjum tíma, og á því gengi, sem peningar okkar eru skráðir. Á meðan ekki er búið að viðurkenna eða lýsa yfir fullri gengisfellingu, þá er þetta sérstök gengisfelling til handa sjómönnunum og kemur úr hörðustu átt, má segja, þegar um leið er á hinu háa Alþingi verið að flytja frv. um að lækka skatta á sjómönnum og jafnvel gera þá skattfrjálsa til þess að hæna þá að því að sækja sjóinn, svo að við getum notað okkar menn á sjónum í stað þess að þurfa að sækja til þess erlenda menn. Það væri því öllu skynsamlegra, að hér væri tekið á málinu þannig að skrá þetta yfirfærslugjald aðeins á allt annað en sjómannagjaldeyrinn, en lækka yfirfærslugjaldið á sjómannagjaldeyrinum, eins og lagt er til í þessari till., niður í 30%. Það er m.ö.o. hin útrétta hönd sjómannanna, að þeir fara ekki fram á, að það sé fellt niður algerlega. Þeir álíta sem sé, að þetta sé ekki rétt gagnvart þeim, borið saman við aðrar stéttir þjóðfélagsins. En hins vegar vilja þeir, vegna þess að þeir viðurkenna þá örðugleika, sem þjóðin á í, og vegna þess að þeir viðurkenna þann gjaldeyrisskort, sem í augnablikinu er hér hjá okkur, koma til móts við þá, sem mæla því bót, að þannig skuli vera komið fram gagnvart sjómönnunum, en ekki af því, að þeir viðurkenni réttmæti þess. Ég vil undirstrika það, að það eru lög, að þeir eiga að fá laun sín í erlendum gjaldeyri, og ég vil undirstrika það, að þeir geta krafizt þess vikulega, þeir geta krafizt allra launa sinna í erlendum gjaldeyri, ef þeir eru svo lengi í erlendri höfn. Þeir þurfa alls ekki að biðja um 30% af sínum launum í erlendum gjaldeyri og láta líta á það eins og ölmusu, eins og hér er gert enn þá í okkar þjóðfélagi af misskilningi, af því að menn hafa ekki flett upp í lögunum. En ef menn fletta upp á blaðsíðu 1836, að mig minnir, í lagasafninu, þá munu þeir komast að raun um, að hér er farið með rétt mál.

Ég vil að lokum vænta þess, að allir góðir menn á hinu háa Alþingi skilji, að hér er verið að fara með rétt mál, og skilji, að það er ekki rétt að lækka þessa einu stétt þjóðfélagsins í launum fram yfir aðrar stéttir, því að það mun vera nóg, sem allir taka á sig með þeim álögum, sem frv. felur í sér, sem hér liggur fyrir til umr. og sennilega verður samþykkt. Ég vænti þess, að allir hv. alþm. í þessari d. skilji þetta og sýni það í verkinu með því að greiða atkv. með þessum tveim till. um niðurfellingu á yfirfærslugjaldi á sjúkragjaldeyri og námsgjaldeyri og lækkun yfirfærslugjalds á gjaldeyri til handa sjómönnum og flugmönnum úr 55% í 30%.

Ég held, að ég hafi lítillega minnzt á flugmennina líka, Það er eins með flugmennina og sjómennina, að það eru laun þeirra, sem hér er um að ræða og þeir eins og sjómennirnir geta krafizt í erlendum gjaldeyri, þegar þeir eru staddir þar, og eftir því oftar sem þeir koma þar oftar í sama mánuðinum, því að það er ekki hægt að búast við því, að flugmenn eða sjómenn séu fangar, hvorki í flugvélinni né í skipinu, á meðan þeir dveljast í erlendri höfn. Það vita allir, að sjómannslífið er þannig, að það reynir stundum á þol manna, sem stunda sjóinn, og sérstaklega er það alltaf sagt, og það er mikið rétt, að það reynir mest á fiskimennina. Þegar þeir svo koma í höfn, þá er eðlilegt, að þeir þurfi á því að halda að finna land undir fótum, og það er ekki hægt að gera það erlendis nema með því að eyða peningum, og þess vegna er ekki nema sanngjarnt, að menn fái hluta af launum sínum og jafnvel helzt sem mest greitt í erlendum gjaldeyri, því að það eru lög, eins og ég hef áður sagt. Og eins er það með flugmennina, að þeir eru sams konar lögum háðir og sjómennirnir, að þeir fljúga mikið og starfa mikið, bæði nótt og dag, og það er eðlilegt, að þeir vilji sjá aðra en þá, sem ferðast með þeim í flugvélinni, misjafnlega kjarkgóða, og horfa hver á annan. Þeir þurfa að komast í land til þess að kynnast fólki og sjá borgir og sjá ýmislegt, sem fyrir augun ber, og það geta þeir ekki án peninga. Ég vil því eindregið mæla með því, að þessar brtt. á þskj. 548 verði báðar samþykktar.