27.05.1958
Neðri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur ekki unnizt tími til að prenta till., sem hér er borin fram. Það er um aðeins eina gr. frv., sem fjallar um söluskatt. Hún er borin fram af mér og hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og er svo hljóðandi:

„Við 40. gr. Á eftir 1. málsl. síðari málsgr. komi:

Enn fremur er undanþegin gjaldi þessu: a) Efnivara, sem iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki selja í sambandi við iðn sína. b) Vinna og þjónusta látin í té af iðnaðarmönnum og iðnfyrirtækjum.“

Þessi till. er borin fram í tveim liðum, ef einhverjir skyldu vilja greiða öðrum liðnum atkv., en ekki hinum.

Þessi till. fjallar um mál, sem mikið hefur verið til umr. meðal iðnaðarmanna og landsmanna allra að undanförnu, Það veldur því ekki sízt hæstaréttardómur, sem féll í marzmánuði s.l., þar sem raftækjaverkstæði S.Í.S. var gert að greiða ríkissjóði 9% söluskatt og útflutningssjóðsgjald af efnivörum, er verkstæðið hafði útvegað viðskiptamönnum sínum. Með dómi þessum er slegið föstu, að innheimta beri 9% af allri efnivöru, sem iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki láta í té, ásamt vinnu og þjónustu. Hér er um slíkt óréttlæti að ræða, að vafasamt er, hvort heppilegt sé, að löggjafinn mismuni þjóðfélagsþegnunum á þennan hátt, og skal ég nú færa að því nokkur rök.

Ef viðskiptavinur leggur sjálfur til efnið og greiðir vinnulaun, þá er engin skattskylda. Ef verkstæðið útvegar efni af eigin birgðum eða frá öðrum, þótt án álagningar sé, ber að innheimta 9% gjaldið til ríkisins.

Ég vil lýsa, á hvern hátt þessi óréttmæta skattheimta er lögum samkvæmt framkvæmd við húsbyggingar almennt. Verktakar, sem taka að sér slík verk í ákvæðisvinnu, eiga að innheimta hjá viðskiptavininum, eiganda hússins, 9% af allri umsamdri upphæð verksins. Taki verkkaupinn hins vegar starfsmann eða starfsmenn verktaka í beina þjónustu sína, eins og nú er gert í stórum stíl, þá er hann samkvæmt lögum ekki skattskyldur. Hver verður svo útkoman af svona lagasetningu, og hvaða þróun er þetta svo að taka á sig almennt? Verkkaupinn verður sjálfur að vera á þönum í útvegunum, sem hann ber ekki sama skyn á og fagmaðurinn. Ef komið er með bifreið til viðgerðar, verður eigandinn sjálfur að kaupa varahlutinn í verzluninni og afhenda hann viðgerðaverkstæðinu. Húsbyggjandinn verður sjálfur að kaupa rafmagnsefnið í bygginguna, en getur ekki notað fagþekkingu rafvirkjameistarans, nema ríkið komi þar inn á milli með 9% gjald. Hér er því alger öfugþróun á ferð, sem löggjafinn hefur áreiðanlega ekki reiknað með við setningu laganna.

Það er einnig annað mjög alvarlegt, sem þessi lög hafa ýtt undir. Einstaklingar, sem vinna sjálfstæðir sams konar verk og skattskyld eru hjá fyrirtækjum, sleppa algerlega við að innheimta skattinn. Þetta hefur orðið til þess, að slíkar ófullkomnar vinnustofur hafa þotið upp í mörgum iðngreinum, fagmennirnir tvístrazt, oft frá þjóðnýtum störfum, en ríkið misst af sínum skatti.

Sama þróun hefur einnig stórlega farið að gera vart við sig í verksmiðjuiðnaðinum.

Í byrjun ársins 1957 fóru fram viðræður við fjmrn, um þessi mál, án þess að þær leiddu til niðurstöðu, og nú hefur hæstv. iðnmrh. verið skrifað um málið, en að því bréfi standa m.a. Vinnuveitendasamband Íslands, Vinnumálasamband S.Í.S. svo og ýmis sérgreinafélög innan iðnaðarins, Landssamband iðnaðarmanna o.fl.

Ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp stutt bréf, sem hefur borizt Alþ. frá Vinnuveitendasambandi Íslands nú 16. maí um þetta efni, en þar segir:

„Aðalfundur Vinnuveitendasambands Íslands, haldinn í Reykjavík dagana 12.–16. maí 1958, leyfir sér að beina þeim eindregnu tilmælum til Alþ, og ríkisstj. að fella niður söluskatt og framleiðslusjóðsgjald af vinnu, þjónustu og efnivörum, sem iðnfyrirtækin láta í té. Reynslan hefur sýnt, að skattheimta þessi skapar hið mesta misrétti og truflar alla samkeppnisaðstöðu fyrirtækjanna gagnvart þeim mörgu, sem taka orðið að sér alls konar iðnaðarstörf án þess að starfa hjá skráðum fyrirtækjum. Auk þess geta umræddir aðilar lagt til ódýrara efni beint frá efnissölum, sem ekki eru söluskattsskyldir.“

Fram komin till. er allra minnsta bót, sem hægt er að bera fram til leiðréttingar á þessu misræmi, og eins og nú er komið, má reikna með, að þessi till. feli ekki í sér nema tiltölulega smávægilega skerðingu á tekjum ríkissjóðs, þar sem landsmenn hafa nú, sérstaklega eftir fyrrgreindan hæstaréttardóm, endanlega vaknað, ekki aðeins til umhugsunar, heldur einnig til varnar þessu herfilega misrétti. Og hver greiðir 9%, ef hann þarf þess ekki samkvæmt lögum?

Ég skal sleppa því nú að ræða um söluskattinn almennt á annarri þjónustu og framleiðslu. Hann er allur herfilega óréttmætur, þótt hér keyri um þverbak. Ég þykist vita, að hæstv. fjmrh. telji sér ekki fært að mæla með algeru afnámi hans nú, enda þótt ég treysti því, að hann og aðrir hv. þm. veiti þessari till. liðsinni.