27.05.1958
Neðri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni í dag, hef ég flutt hér 2 brtt. við frv. til laga um útflutningssjóð, sem hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

1) Við 3. gr. Aftan við gr. komi ný málsgr., svo hljóðandi:

Útflutningssjóður greiði vinnslustöðvum og þeim aðilum öðrum, sem hafa með höndum verkun og útflutning afurða, sannanlega hækkun við að fullverka og koma í skip útflutningsafurðum, sem framleiddar hafa verið á tímabilinu frá 1. jan. til 14. maí 1958, umfram það, sem slíkur kostnaður hefði numið fyrir 14. maí þ. á.

2) Við 8. gr. Greinin orðist svo:

Frá 1. jan. til 31. des. 1958 skal greiða vátryggingariðgjöld fiskibáta úr útflutningssjóði. Þó skal sjóðurinn aldrei greiða hærri upphæð en svarar því nettó-iðgjaldi, sem bátseiganda ber að greiða, eftir að „ristorno“ hefur verið dregin frá brúttó-iðgjaldi.

Eins og ég tók fram í ræðu minni í dag, þá tel ég hvað fyrri till. áhrærir svo sjálfsagt að verða við henni, að ég trúi ekki öðru en hv. alþm. geti fallizt á hana. Það er sem sé verið að leiðrétta það, að hækkun á vörum, sem framleiddar eru á tímabilinu frá 1. jan. til 14. maí og hafa margvíslegan kostnað enn þá, bæði pökkun og umbúðir o.fl., sem hækkun sú, sem frv. hefur í för með sér, hlýtur að mæða á, verði bætt úr útflutningssjóði. Ég held, að allir hv. þm. sjái, að hér sé um algert sanngirnismál að ræða, enda er mér kunnugt um, að þetta atriði hefur verið rætt við þá hagfræðinga, sem hafa verið til aðstoðar hæstv. ríkisstj. um þetta frv., og mun álit þeirra vera það, að hér sé um fyllstu sanngirni að ræða.

Önnur brtt., við 18. gr., er um það, að ákveðið sé í löggjöfinni, að vátryggingariðgjöld fiskiskipanna skuli greidd úr útflutningssjóði fyrir allt árið 1958. Ég tel rétt, að það sé ákveðið í lögunum. Það er raunar búið að samþykkja hér í hv. deild heimild fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja fyrir útflutningssjóð að greiða iðgjaldið, einnig fyrir tímabilið frá 14. maí til ársloka, svo að ég geri ráð fyrir, að það muni hafa gildi og hæstv. ríkisstj. muni nota þá heimild. Ég tel þó réttara, að þetta sé tekið ákveðið fram í löggjöfinni, eins og gert var í lögum um útflutningssjóð fyrir árið 1957.

Ég vona, að hv. alþm. geti verið mér sammála um þessar 2 till. og gefi þeim atkv. sitt.