10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

40. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég má ekki bera fram neitt nýtt. Ég segi þess vegna: Ég endurtek, að ef mín sök átti að vera einhver í því að vilja fresta málinu, þá endurtek ég, að það er einnig sök hæstv. viðskmrh., því að hann frestaði málinu til 1. sept. Það er nú það fyrsta. Og úr því að hæstv. ráðh. vissi, áður en ríkisstj. tók sínar ákvarðanir, að Sjálfstfl. óskaði eftir, að grunnlínunum yrði breytt, þá endurtek ég: Hvers vegna fór hann ekki að þeirri ósk? Sjálfstfl. var alltaf mjög inni á grunnlínubreytingunum. Og aðalatriðið er það, hvernig stendur á því, að þessi hæstv. ráðh. vildi ekki færa út grunnlínurnar, úr því að hann vissi, að Sjálfstfl. stóð að því, áður en ákvarðanirnar voru teknar í ríkisstj.

Hitt er nú frekar til að brosa að, ef nú á að áfellast mig fyrir það, að ég hafi ekki sagt þessum hæstv. ráðh., hvernig hann ætti að breyta grunnlínunum. Hann hefur verið á ráðstefnu alltaf, alltaf frá því að hann varð ráðh. Áður en hann varð ráðh., þóttist hann kunna öll ráð í þessu máli. Þegar hann var ráðh., kunni hann engin ráð. Og ráðlaus kallaði hann svo saman ráðstefnur og fékk ráð og gleymdi ráðunum jafnóðum. En hann hafði þó alltaf verið á ráðstefnum til að spyrja um, hvernig ætti að breyta grunnlínunum. Og ég endurtek að lokum: Það er ekki sanngjarnt af manni, sem hefur í tvö ár verið á ráðstefnum um grunnlínurnar, að fá að vita frá mér, hvernig ætti að breyta grunnlínunum.

Nei, ég þarf hér ekkert aftur að taka, enda mun nú betur verða að láta kné fylgja kviði á sínum tíma um það, sem gert hefur verið og vangert í málinu, og er hvort tveggja jafnsaknæmt.