06.01.1959
Efri deild: 46. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

75. mál, sameign fjölbýlishúsa

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 147 flytur heilbr.- og félmn. d. frv. til l. um sameign fjölbýlishúsa samkv. beiðni fyrrv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar, en hann hafði samkv. þáltill., samþykktri 13. marz 1957, falið þeim Inga R. Helgasyni héraðsdómslögmanni og Jóni S. Ólafssyni stjórnarráðsfulltrúa að semja frv. á grundvelli fyrrnefndrar þál., er ég var á sínum tíma flm. að. Frv. þetta er ávöxtur af starfi þessara manna.

Ástæðan til þess, að fyrrgreind þáltill. var flutt á sínum tíma, var fyrst og fremst sá mikli vandi, sem þá var óðum að skapast um félagslega sambúð fólks í fjölbýlishúsum, sem þá ruddu sér mjög til rúms og hafa síðan verið byggð í enn ríkara mæli. Eins og fram kemur í grg. frv.-smiðanna, höfðu íbúar margra fjölbýlishúsa gert sér sameignarsamninga og sett ýmsar reglur um umgengni og nýtingu sameignar sinnar. Hins vegar hefur mjög á það skort, að nauðsynlegs samræmis hafi gætt við setningu þessara reglna. Þetta ósamræmi, sem stafar af því, að fyrirmynd eða rammi fyrir slíkar reglugerðir hefur ekki verið fyrir hendi, hefur svo aftur leitt af sér mikil deilumál milli þessa fólks innbyrðis, deilumál um rétt eigenda til þessara eða hinna afnota húsnæðisins, sérstaklega þó um þann hluta húsanna, sem er og verður að vera sameign allra þeirra, er í húsinu búa. Þessi deilumál enduðu oft í málaferlum með þeim afleiðingum, að óbætanleg sár urðu á sambúð fólks, án þess að vitað væri, að nokkuð hefði borið í milli áður.

Þegar þess er gætt, að slíkar byggingar sem fjölbýlishús eru af fróðustu mönnum í þessum efnum taldar miklum mun hagkvæmari fyrir bæjarfélögin, en einstöku húsin eða einbýlishúsin og útheimta minni aðra fjárfestingu, en felst í sjálfri byggingunni, og ætla má, að í framtíðinni verði mikið byggt af slíkum húsum, þá vona ég, að ágreiningur sé ekki um nauðsyn þess, að einmitt slík lög verði sett, ef þau mættu að einhverju leyti koma í veg fyrir ósamkomulag og ósætt á helgustu stöðum íslenzkra þjóðfélagsþegna og gætu varðveitt heimilisfriðinn. Ég segi, að Íslendingum sé sérstök nauðsyn á friði við og á heimilum sínum, vegna þess að engin þjóð í nágrenni okkar og þótt yðar væri leitað eyðir jafnmiklum tíma á heimilum sínum og við Íslendingar gerum. Tel ég það kost, en ekki löst í fari þjóðarinnar.

Læt ég svo útrætt um ástæðurnar, sem til flutnings þessa frv. liggja:

Semjendur frv. telja, að lítið hafi verið hægt að styðjast við erlend gögn við samningu frv. sjálfs, en þau muni hins vegar koma að góðu haldi við samningu nauðsynlegra reglugerða, eftir að málið hefur hlotið endanlega afgreiðslu héðan frá hæstv. Alþ.

Við fljótlega athugun á frv. virðast semjendur þess gera ráð fyrir, að öll hin smærri atriði eða minni háttar, sem þó geta orðið viðkvæm, yrðu sett í reglugerðir. Þegar um slíka frumsmíð er að ræða eins og hér er, verður það að teljast kostur, því að reynslan ein verður að teljast raunbezta undirstaða laganna í framtíðinni.

Ég hef lítillega orðið var við, að ýmsir hafa borið nokkurn ugg í brjósti í sambandi við lagasetningu þessa og að hún gæti komið við viðkvæman eignarrétt manna, en það gæti myndað óþarfa andstöðu við málið. Ég tel, að í frv. þessu sé ekkert það atriði, sem gefi ástæðu til slíks ótta. Frv. gerir langtum fremur ráð fyrir, að skýrari línur séu dregnar um eignarrétt hvers einstaks íbúðareiganda, rétt hans og skyldur um óhjákvæmilega sameignarhluta viðkomandi húss.

Hugmyndir þær, er að baki fyrrnefndri þáltill. lágu, virðast með örfáum undantekningum vera túlkaðar í till. þeim, er í frv. felast. Persónulega kann ég því fyrrv. félmrh. og semjendum frv. beztu þakkir fyrir þeirra störf að málinu. — Eins og fram kemur í upphafi grg., hafa allir nm. óbundnar hendur um afgreiðslu málsins, eða til einstakra brtt., er fram kunna að koma.

Þar sem málið er flutt af n., tel ég óþarft að óska eftir því, að því verði til hennar vísað, en vil fyrir hennar hönd lýsa því yfir, að n. mun fyrir 2. umr. málsins athuga málið nánar og afla umsagna um það. Slíka athugun var ekki unnt að framkvæma fyrir flutning þess, þar sem frv. barst n. ekki fyrr en örfáum dögum fyrir jól með ósk um, að það yrði flutt þá þegar.

Ég vænti þess því, að hæstv. forseti taki málið ekki til 2. umr., fyrr en n. hefur gefizt kostur á að láta fyrrgreinda athugun fara fram.