06.02.1959
Efri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

75. mál, sameign fjölbýlishúsa

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð vegna þessara athugasemda hv. 1. þm. N-M. Hann gat þess í upphafi, að það væri alls ekki víst, að það bæri að skoða þetta áhugaleysi þeirra aðila, sem frv. hafa fengið til umsagnar, svo, að þeir væru frv. samþykkir. Ég get að ýmsu leyti fallizt á það sjónarmið hans, að það kunni að geta verið ýmsar aðrar orsakir, sem til þess liggja, heldur en beinlínis samþykki á frv. En sá tími, sem liðinn er, síðan þessir aðilar fengu frv. til umsagnar, er nú orðinn svo langur, að það er engin afsökun frá þeirra hendi að hafa ekki nennt að lesa frv. eða þó að íslenzkri deyfð og drunga sé þar um að kenna, enda veit ég, að hv. 1. þm. N-M. er það aðgangsharður í sínum nefndum, að hann mundi ekki gefa þessum aðilum lengri tíma, en þeir eru búnir að hafa, til umsagnar um frv.

Það, sem mér fannst veigamest af hans aths. og sjálfsagt að verða við óskum hans um að taka til athugunar, eru möguleikar á því, að væntanlegir sameigendur geti skipt lóðum sínum, þannig að þeir geti öðlazt aðstöðu til þess að gera þar á framkvæmdir, sem annar vill, en hinn vill ekki, og hver á sínum lóðarbletti. Ég tel, að í frv., eins og það er, sé gert ráð fyrir því, að þetta sé mögulegt. Í 2. gr. frv. segir svo orðrétt: „Lög þessi skulu gilda um sameign manna í fjölbýlishúsum, að svo miklu leyti sem sameigendur hafa ekki samið á annan veg um þau atriði, er fjallað er um í 3. kafla laganna.“ Og í þessum 3. kafla l., í 11. gr., er m.a. talað um skipulag lóða. Þess vegna tel ég, að ef sameigendur koma sér saman um einhvern annan hátt á, en frá er greint í þessum 3. kafla, þá sé það í fullu gildi, þrátt fyrir ákvæði 3. kaflans. Það eru, eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, möguleikar fyrir húseigendur að semja sig frá ákvæðum 3. kaflans. Þess vegna held ég, að þessari athugasemd hans, — sem vissulega er þörf á og getur verið mjög viðkvæmt mál, því að mönnum sýnist sitt hvað um það, hvað gera skuli á þessum heimablettum sínum, — en ég tel, að þessu sé fullnægt með þessari undanþágu frá ákvæðum 3. kaflans og sé gert ráð fyrir því í 11. gr. þessa kafla frv.

Þá taldi hv. 1. þm. N-M., að það gæti orkað nokkuð tvímælis, hvort rétt væri að hafa rúmmetrann sem það endanlega mark, þegar meta skal verðgildi hússins eða verðgildi hverrar eignar í hinni sameiginlegu byggingu um sig. Ég er honum fyllilega sammála um það og veit, að hann er manna kunnugastur því í sambandi við sín störf í ríkisskattanefnd, að það er mjög misjafnt rúmmetraverðið eftir því, hvar staðsetning íbúðarinnar er í þessum fjölbýlishúsum, og eftir því misjafnara e.t.v., sem þessi fjölbýlishús eru stærri. En mér finnst, að meining frv.-semjenda hafi verið sú, að það væri mjög erfitt í löggjöf að skera þarna úr um, þess vegna yrði það að vera nokkuð komið undir samkomulagsvilja hinna væntanlegu sameigenda. En það er hér til athugunar, eins og hann benti á, að gera þeim að skyldu að hafa með sér slík félög, enda er, eins og fram kom í hans ræðu, víða að því vikið, að það mundi heppilegast, þótt hvergi sé það beint látið í ljós í frv. Ég er því mjög hlynntur, að n. athugi þessa ábendingu hans fyrir 3. umr.

Um þinglesningarskylduna, sem frá greinir í 3. gr., þá er þar svo ákveðið, að sé um nýbyggingu að ræða, þá skal skiptasamningur gerður og honum þinglýst eigi síðar en húsið er fokhelt, ella innan eins árs frá gildistöku þessara laga. Og undir það mundu að sjálfsögðu koma öll hin eldri hús, sem ekki eru í byggingu við gildistöku l. Ég efast um það, eins og hv. 1. þm. N-M., að það verði framkvæmt, jafnvel þótt svo sé ákveðið hér, en við í n. komum ekki auga á aðra skynsamlegri leið í þessu, um það að ná inn undir ákvæði l. þeim húsum, sem eru fjölbýlishús og eru fulltilbúin fyrir gildistöku l. En það er annað af þessum atriðum, sem ég tel að við getum vel að nýju fjallað um í n., en við komum ekki auga á aðra hentugri leið til þess að koma hinum eldri húsum undir ákvæði laganna.

Þá kvað þm., að sér kæmi það ókunnuglega fyrir sjónir, hverja nauðsyn bæri til að fella niður síðari hluta 17. gr. Það var ekki ætlun okkar, og ég tel, að orðalagið á brtt., eins og hún er á þskj. 234, gefi ekki tilefni til þess að ætla að við höfum meint það. Við erum að breyta fyrri málslið þeirrar greinar, og er þar aðeins um orðalagsbreytingu að ræða. Við ætlumst til, að síðari málsliður gr. haldi sér, og tel ég þess vegna, að þar sé fullnægt hans óskum og að það standi áfram í gr. En varðandi hin tvö atriðin, þá teldi ég, að það væri ekkert úr vegi, að n. athugaði þau fyrir 3. umr. og reynt yrði að hafa samráð um það við hv. þm., hvort þar væri hægt að gera nokkru gleggri ákvæði um.

Að öðru leyti tel ég ekki þörf á að ræða þetta. Hann benti á þessi fjögur atriði. Tveimur af þeim tel ég vera fullnægt í frv., eins og það er, en tvö af þeim þyrftu þá frekari athugunar við, og er ég reiðubúinn til þess að taka þátt í þeim umræðum í nefndinni.