10.02.1959
Efri deild: 67. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

74. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég heyri það, að n. hefur ekki viljað taka tillit til minna tillagna, og ég er nú ekki tilbúinn að koma með brtt. En ég tel frv. og vil fylgja því úr hlaði með því, sem ég reyndar er búinn að segja áður, mjög svo gallað. Það, sem hér ríður langmest á, í þessum lögum, er í fyrsta lagi að koma því skipulagi á, að alls staðar sé húsfélag og stjórn, þar sem fleiri menn eiga hús sameiginlega. Það er númer eitt. Það er ekkert gert af því hér í þessum lögum. Annað, sem riður á, er að sjá um, að það liggi skýrt fyrir í veðmálabókum og annars staðar, hvað hver maður á í húsunum. Hér eru 10–20 ára gömul fjölbýlishús, sem hvergi er stafur fyrir, hvað hver maður á mikið f. Ekkert hefur verið þinglýst og liggur ekkert fyrir nema hjá eigendunum sjálfum um það, hvað hver á. Og meira að segja, ef maður leggur saman í sumum húsum húsnæðið, sem þeir telja sig eiga, hver einstakur, sem í húsinu er, þá fær maður ekki út sömu tölu að krónutali og húsið allt er talið mikils virði. Svo gallað er þetta núna. Það er ekki reynt á neinn hátt að koma á móts við að laga þetta. Ég tel, að það hefði þurft miklu meiri athugunar við, en hefur verið gert.

Svo er og alrangt, að við fasteignamatið á íbúðunum sé farið eftir teningsmetrum. Það dettur ekki neinum fasteignamatsmanni í hug að meta teningsmetra í íbúð niðri í kjallara á sama verði og íbúð á fyrstu hæð. Það er ekki til, að þetta sé metið þannig. Hitt er aftur rétt, eins og fasteignamatið yfirleitt hefur verið framkvæmt núna hérna í Reykjavík, þar sem brunabótamatið er lagt til grundvallar og tekin viss prósenta af því í fasteignamatið, þá verður þetta oft og er oft ónákvæmt. Auðvitað getið þið spurt t.d. Einar Kristjánsson, hvort honum detti í hug að meta á sama verði íbúð í kjallara og íbúð á annarri hæð, — hann er annar fasteignamatsmannanna, og honum dettur það ekki í hug. En þeir fylgja mikið brunabótamatinu, og það er á húsinu í heild oftast nær, þó er það ekki nærri ævinlega, og ef það er ekki á húsinu í heild, þá er það líka misjafnt eftir því, hvar er í húsinu, en ekki jafnt á teningsmetra, en fasteignamatsmennirnir skoða ekki alls staðar, — númer eitt er að reyna að þvinga fram, að húseigendurnir geri með sér félag, þar sem þeir eru a. m. k. fleiri en tveir, og komi sér saman um eignahlutföllin. Og þá geta lögin komið á móti og hjálpað þeim til með því, að þeir geta haft til hliðsjónar brunabótamat eða fasteiganmat. Þetta er númer eitt. Og að þetta, sem þeir koma sér saman um, verði þinglesið, það er númer tvö. Þetta er það, sem hið opinbera getur fyrst og fremst gert til að laga það ólag, sem hérna er, og hvorugt af þessu er í frv. Það er vikið að því í frv., að ef meiri hluti húseigenda sé með þessu eða hinu, t.d. viðvíkjandi bílskúr, þá er eins og allt í einu detti þeim í hug, að það sé líklega bezt að láta húseigendurna ráða þessu sjálfa, en ekki það, að stofna eigi sérstakt félag, — nei, heldur geti þeir þá bara hlaupið saman á skyndifundi til að ákveða um þá hluti. Ég tel lög um þetta efni alveg nauðsynleg. En ég er á móti frv., eins og það er nú, og tel það koma að sáralitlu gagni, þótt samþykkt verði.

Frsm. segir, að það felist í 3. gr., að öll eldri hús skuli þinglesin. Ég vil leyfa mér að draga það mjög í efa, þó að ég sé ekki neinn íslenzkumaður, að það sé rétt. Greinin hljóðar svo:

„Gera skal skiptasamning um öll fjölbýlishús. Sé um nýbyggingu að ræða, skal skiptasamningur gerður og honum þinglýst elgi síðar en, húsið er fokhelt ella innan árs frá gildistöku laga þessara.“

Þetta á við nýbyggingu, sé um nýbyggingu að ræða, en alls ekki við gömlu húsin. „Gera skal skiptasamning um öll fjölbýlishús,“ það gildir um þau öll, en ef er um nýbyggingu að ræða, þá á að þinglýsa, þegar það er fokhelt, ella innan eins árs. En um gömlu húsin er ekki einn stafur um, að það eigi að þinglýsa, eins og greinin er orðuð. Eins og ég sagði, er ég ekki íslenzkumaður, en ég hélt, að þetta ætti að skiljast á þennan veg, eins og gr. er orðuð hérna, og skil ekki, að það sé hægt að gera það á annan hátt. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti till., þar sem ég ekki hef tíma til að koma með neinar brtt. Ég bjóst við, að n. mundi taka málið til athugunar og nenna að leggja í það svolitla vinnu. En þar sem hún hefur ekki gert það, þá mun ég greiða atkv. á móti því. (Forseti: Hv. þm. óskar kannske eftir því, að umr. sé frestað til þess að gera brtt.?) Mér er alveg sama.