16.03.1959
Neðri deild: 93. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

117. mál, firmu og prókúruumboð

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef framsögu í þessu máli vegna þess, að formaður n., sem var í forföllum aðalþingmannsins, hefur nú horfið af þingi.

N. leitaði umsagnar hjá nokkrum aðilum um þá breyt., sem lagt er til að gerð verði á frv. Leitað var til heimspekideildar háskólans, verzlunarráðsins, Sambands ísl. samvinnufélaga og iðnrekenda. Frá heimspekideildinni kom sú till., að nokkur breyt. yrði gerð, eins og kemur fram í nál. á þskj. 319, að í stað orðanna „enda beri fyrirtækið íslenzkt nafn“

komi: „enda beri fyrirtækið nafn, sem samrýmist íslenzku málkerfi að dómi skrásetjara“. Hinir aðilarnir, sem leitað var til, mæltu með málinu, þegar þessi brtt. var fram komin. N. hefur því mælt með, að frv. verði samþykkt með þessari breyt., sem fram kemur á þskj. 319.

Margir telja, að nú beri fullmikið á því, að menn velji fyrirtækjum sínum erlend nöfn, sem að engu leyti samrýmast íslenzku máli eða málkerfi. Það væri illa farið, ef það færðist mjög í vöxt, að íslenzk fyrirtæki bæru erlend nöfn. Þess vegna voru yfirleitt þeir, sem við var talað, á einu máli um það, að æskilegt væri að stöðva þessa þróun, eftir því sem hægt væri.

Það, sem ég nú hef sagt, gildir einnig um annað mál á dagskránni, veitingasölu og gistihúshald. Í sambandi við það frv. var leitað til Sambands veitingahúsa- og gistihúsaeigenda, og mæltu þeir með frv. í þessu nýja formi, sem ég hef nú getið um.