27.01.1959
Efri deild: 54. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt aftur í sögu baðana hér á landi, en aðeins dvelja við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og rekja ofur lítið gang þess máls.

Á búnaðarþingi 1947 flutti Benedikt H. Líndal, fulltrúi V-Húnv. þar, frv. til laga um sauðfjárbaðanir, og var í því sú höfuðbreyting frá því, sem áður hafði gilt, að þrifaböðun á sauðfé væri ekki lögboðin á hverju ári, eins og hún hefur verið nú um langt skeið, heldur annað hvert ár. Þetta mál var rætt á búnaðarþinginu, og á endanum var sætzt á tillögu, sem var flutt af Benedikt Grímssyni, Garðari Halldórssyni og Jóni Gíslasyni og hljóðaði um það að senda málið heim í sveitarstjórnirnar til hreppsnefndanna til umsagnar og biðja svo ríkisstj. að öðru leyti að búa málið undir næsta búnaðarþing, sem fengi það þá til meðferðar. Þessi tillaga var samþ. með 11 atkv. gegn 9 á búnaðarþinginu. Síðan tók búnaðarfélagsstjórnin við málinu, skrifaði öllum hreppsnefndum í landinu, sendi þeim frv. og spurði um álit þeirra á því. Jafnframt var landbrh. beðinn að fá menn til að athuga málið og semja nýtt frv., eins og ástæða þætti til að fengnum tillögum hreppsnefndanna.

Landbrh. varð við þessari ósk, setti þá Steingrím Steinþórsson búnaðarmálastjóra og Pál Pálsson yfirdýralækni til þess að semja nýtt frv. að fengnu áliti hreppsnefndanna. 47 hreppsnefndir sendu svör, hinar ekki, en þær eru eitthvað liðlega 200, — ég hef ekki talið þær saman alveg nýlega, það er alltaf verið að smábreyta hreppum, en ætli þær séu ekki í kringum 215–218 núna eða eitthvað svoleiðis, — og af þeim sendu 47 svör. Þeir sömdu svo frv., sem landbrh. sendi landbn. Nd. á síðasta þingi. Þar var það tekið fyrir og sent búnaðarþingi til umsagnar, og búnaðarþingið mælti með því, eins og það lá fyrir, að því þó breyttu, að það lagði til, að breytt yrði tímabilinu, sem baðað væri á. Þeir búnaðarmálastjóri og yfirdýralæknir höfðu ætlazt til, að böðun væri lokið á hverjum vetri í febrúarmánuði, en þeir lengdu það fram til 15. marz. Að öðru leyti var því ekki breytt og mælt með því með 22 atkvæðum, meðan einn sagði nei og tveir sátu hjá.

Frv. kom svo hingað til d. seint á síðasta þingi, og þá var Nd. búin að breyta þessu frv. og búin að setja inn í það, að böðun skyldi fara fram á hverjum vetri eða á hverju ári, eins og það var þar til tekið.

Þetta kom seint á þinginu, og þegar við í nefndinni þá sáum, hver ágreiningur var um málið úti á meðal bænda, þá ákváðum við að láta málið daga uppi hjá nefndinni í fyrra, en spyrja sýslunefndir landsins um álit þeirra á því, hvort réttara væri að baða annað hvert ár, að lögskipa það, en þó að það væri gert, geta allir baðað á hverju ári, — eða hvort áfram skyldi lögskipað að baða á hverju ári. Sýslunefndirnar hafa svarað, og 16 hafa talið sig vera með því að baða aðeins annað hvert ár, 4 á móti því, og hinar hafa ekki svarað, svo að maður veit ekki um álit þeirra allra enn.

Jafnframt atvikaðist það svo vegna smábreytingar, sem gerð var á búfjárræktarlögunum í fyrravetur um að ekki skyldi kjósa forðagæzlumenn í hreppunum á almennum hreppsfundi, eins og áður hafði verið, heldur skyldi hreppsnefnd kjósa þá, að til þess að tilkynna oddvitum þetta, skrifaði ég, sem hef með þessi mál að gera fyrir Búnaðarfélagsins hönd, öllum oddvitum landsins og benti þeim á þessa breytingu og sagði þeim jafnframt frá böðunarfrv. og bað þá að láta mig vita, hvert álit hreppsnefndarinnar væri á því.

Ég fékk svo í vor og sumar svar frá mörgum hreppsnefndum, og þegar ég núna fyrir fáum dögum lagði þetta frv. fram, var komið játandi svar frá 130 hreppsnefndum, sem vildu baða annað hvert ár, meðan 33 vildu hafa áfram í lögum, að baða skyldi á hverju ári.

Það gengur nú svona og svona að fá inn á réttum tíma á haustin, hvernig ástatt er með ásetninginn í landinu, og afleiðingin af því varð sú, að þegar á milli jóla og nýárs vantaði skýrslur frá gróflega mörgum ásetningsmönnum. Ég skrifaði þess vegna á ný öllum hreppsnefndum þá til að kalla eftir þessum skýrslum og minna þar á góðan ásetning og hvað hreppsnefnd bæri að gera, ef fóður vantaði, og þegar ég þá skrifaði þeim hreppsnefndum, sem ekki höfðu svarað mínu fyrra bréfi, þá minnti ég þær jafnframt á það að svara því. Ég hef síðan fengið svör frá Miðdalahreppi í Dalasýslu, sem vill baða annað hvert ár, frá Þingvallahreppi og Grafningshreppi í Árnessýslu, sem vilja baða annað hvert ár, og frá Hvolshreppi í Rangárvallasýslu, sem vill baða á hverju ári, svo að tölurnar, sem hérna eru prentaðar í grg. með frv., eru orðnar svolítið breyttar og geta líka breytzt hér eftir við það, að ég fái svör frá fleirum. En það sýnir sig samt greinilega mjög, að mikill meiri hluti hreppsnefndanna vill baða eða láta vera lögskilið að baða annað hvert ár. Hinir eru í miklum minni hluta.

Ég get lofað mönnum að sjá hjá mér, hvaða hreppar hafa svarað og hvernig hver hreppur hefur svarað, ef þeir óska þess, en ég sé ekki ástæðu til þess hér að fara að lesa það allt saman upp.

Hvað málið sjálft snertir svo, þá liggur það nú þannig fyrir, að alla leið frá því að ég var oddviti á árunum 1920–28 og átti sem oddviti að sjá um, að baðað væri í hreppnum, þá lenti ég á hverju einasta ári í kasti við einhverja, sem ekki vildu baða. Þeir höfðu engin óþrif í sínu fé og neituðu að baða. Og svo varð að vera samkomulag við þá og rifrildi, og einu sinni varð ég að láta sýslumann koma til, til þess að þeir hlýddu lögunum.

Alla leið síðan hefur þetta verið svona hingað og þangað um landið, og eftir að Gamatoxbaðlyfið kom til, sem er miklu betra baðlyf en öll önnur baðlyf, sem hér á landi hafa verið reynd, og ekki aðeins hér á landi, því að það er rannsakað og reynt, t.d. bæði í Ameríku og Englandi og notað þar orðið eitt allra baðlyfja, þá eru orðnar heilar sýslur, sem hafa ekki séð færilús í sínu fé og neita að baða, og svo langt gengur þessi vilji bændanna og þessi mótþrói móti því að baða á hverju ári, að t.d. núna, þegar yfirdýralæknirinn tók sér fram í því að reyna að láta nú vera baðað um allt land og það vel gert, þá eru til hreppar, sem hafa neitað því, og þegar þeir svo hafa verið skyldaðir til þess af sýslumanni eftir lögum, þá hafa þeir farið fram á það, að ríkissjóður greiddi þeim það, sem þeir vegna böðunarinnar yrðu að eyða meira fóðri í féð. Svo mikill er mótþróinn á móti því að baða á hverju ári, að þegar á að hlýða lögunum, — á bara að hlýða lögunum, — þá heimta þeir, að ríkissjóður greiði þann aukakostnað, sem þeir hafa af því að þurfa að baða. Þetta sýnir, hvernig ástandið er og álitið er.

Nú er það meining þeirra, sem lögin sömdu, bæði búnaðarmálastjóra og yfirdýralæknis, að með því að baða annað hvert ár og gera það rækilega, séu miklu minni líkur fyrir, að menn baði ekki, hlýði ekki lögunum, heldur en áður var, og líka meiri trygging fyrir því, eins og lögin eru nú orðuð, að baðið sé sæmilega framkvæmt. Þegar einstaka menn samt sem áður vilja halda áfram að hafa lögskipað að baða á hverju ári, þá stafar það af því, að enn er til kláði í landinu. Að vísu er það svo, að með fjárskiptunum og þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru í sambandi við þau, að reyna að útrýma kláða á Vestfjörðum, þaðan sem lömbin voru aðallega keypt, og reyna svo að baða með útrýmingarböðun lömbin fyrsta árið, sem þau voru í hinum nýju heimkynnum sínum, hefur slegið mjög á kláðann. Þó vitum við, að hann muni enn vera einhvers staðar til á Vestfjörðum, þó að ekki hafi, því miður, hafzt upp á, hvar hann er. Það er óttinn við útbreiðslu á kláðanum, sem gerir það að verkum, að enn eru nokkuð margar hreppsnefndir, 34, sem maður veit um, sem telja, að rétt sé að lögskipa þrifaböðun árlega.

Nú er ekki því að heilsa, að þetta frv. geri ekki ráð fyrir því, að kláðinn sé tekinn fastari tökum, alveg eins og var áður. Þetta frv. ætlast beint til þess, að ef kláða verður vart, þá séu þar framkvæmdar algerar útrýmingarbaðanir, og með útrýmingarböðunum er óhætt að fullyrða að hægt sé á tiltölulega mjög fáum árum að útrýma kláðanum alveg, enda þótt við vitum ekki með vissu, hvar hann sé í augnablikinu.

Þegar ég svo tók þetta frv. til flutnings, breytti ég frv., sem lá fyrir þinginu í fyrra, ofur lítið, ósköp lítið, svo lítið, að það er eiginlega varla teljandi. Þó skal ég benda á það.

Ég breytti því á þann veg, að fyrir að það átti að vera annað hvert ár, sem átti að baða, þá setti ég annan hvern vetur, og það er af því, að sumir baða fyrir áramót og aðrir eftir áramót. Það er engin eiginleg eðlisbreyting, það er til þess að það komi ljóst fram.

Þá breytti ég líka annarri gr. Það var tekið fram, að þegar þyrfti að baða útrýmingarböðun til að útrýma kláða, sem kynni að koma upp einhvers staðar, þá skyldi ríkissjóður borga annað baðlyfið: Ég breytti þessu og læt ríkissjóð borga allt baðlyfið á því svæði, sem um er að ræða og útrýmingarböðun þarf að fara fram á, og ég tel það svo mikilsvert, að kláðanum sé útrýmt, að ef og þegar hann kemur upp á einhverju svæði og þurfi þess vegna að baða þar eitthvert fé útrýmingarböðun, fleira eða færra eftir atvikum, þá sé ekki álitamál. að ríkið eigi að greiða það baðlyf og á þann hátt að reyna að stuðla að því, að það verði samvizkusamlega og vel framkvæmt og menn verði ekki óánægðir með þá framkvæmd, sem því miður hefur oft borið á.

Öðru get ég ekki sagt að ég breytti. Það var breytt orðalagi á einni grein, 8. gr., það var breytt orðalagi á henni, en það er ekki nein efnisbreyting að neinu leyti. Það var í henni áður, að heimilt væri í reglugerð að setja ákvæði um dagsektir, ef fjáreigendur hafa eigi án lögmætra forfalla lokið böðun á fé sínu fyrir tilskilinn tíma, og svo var heimilt að taka féð og baða það á kostnað eigendanna, ef þeir hefðu ekki lokið böðun innan lögskilins tíma. Það var til þess að láta ekki koma þarna hvað á eftir öðru lögskilinn tíma, sem orðalaginu á greininni var svolítið breytt þarna aftast. En annars er frv. alveg í sama formi og það var samið af búnaðarmálastjóranum og yfirdýralækninum og lagt fram á búnaðarþinginu, sem mælti með því svo til einróma, þó að einn maður stæði þar á móti og tveir sætu hjá.

Ég vona, að þetta frv. fái góðar undirtektir og að það verði samþykkt, og legg til að, að lokinni þessari umræðu sé því vísað til landbn.