13.02.1959
Efri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls rakti ég nokkuð feril þess. Ég sagði, að það hefði verið lagt fram á búnaðarþingi af fulltrúa frá Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu, sem vildi láta búnaðarþingið samþykkja það og koma því þaðan til Alþingis. Af því varð ekki. Búnaðarþingið var þá að vísu meðmælt frv., en samþykkti að fela stjórn Búnaðarfélags Íslands að leita álits hreppsnefndanna um málið og fá síðan stjórnarráðið til að láta semja frv. og leggja það fyrir Alþingi. Þetta var gert. Frv. var lagt fyrir Alþingi í fyrra. Það fékk meðferð í Nd. og var þar breytt, aðallega því atriði, að það var ákveðið, að böðunin skyldi vera á hverju ári, en í frv., eins og það kom inn í Alþingi og var í búnaðarþingi, var ákveðið, að baða skyldi annað hvert ár. Það frv. kom svo hingað til okkar í þessari nýju mynd í fyrra, og við létum málið daga uppi, en skrifuðum öllum sýslunefndum og báðum um álit þeirra.

Nú þegar hefur fengizt álit sýslunefndanna, og þær eru að miklum meiri hluta með því, þó ekki alveg allar, og sömuleiðis höfum við fengið álit hreppsnefndanna allflestra. Það eru komin núna álit frá í kringum 180 hreppsnefndum af 215, og mjög mikill meiri hl. af þeim er með því, að frv. sé samþykkt eins og það nú liggur fyrir, í aðalatriðum a.m.k., meðan liðugar 30 vilja ekki láta samþykkja það og vilja láta vera lögskipað að baða þrifabaðanir á hverju ári.

Eftir þennan stutta inngang almenns efnis skal ég svo víkja að frv. og reyna að gera mönnum ljóst, hver munur er á því, ef það verður samþykkt, og þeim ákvæðum og lögum, sem nú gilda um þetta efni. Það er það, sem menn þurfa að átta sig á, og þá kem ég um leið að brtt. okkar, sem eru á þskj. 247, og skal ég aðeins benda á þær um leið.

Fyrsta breyt., sem gerð er í frv. frá núgildandi l., er sú, að saman eru færð í eitt tvenn lög, sem nú gilda. Það er útrýmt tvennum lögum um baðanir á sauðfé, önnur ákveða, hvernig fara skuli með þrifaböðun á sauðfé, og hin ákveða, hvernig fara skuli með kláðaböðun á sauðfé. Þessi lög eru ekki alveg samhljóða, þó að þau séu svipuð, og þau eru færð saman í eitt með þessum lögum. Ég hygg, að enginn maður í landinu hafi neitt á móti því út af fyrir sig, þótt það sé gert.

Annað ákvæði í þessum l., frábrugðið frá því, sem nú er, er það, að lengdur er tíminn, sem mönnum er ætlað að baða á, um mánuð, hálfan mánuð framan við og hálfan mánuð lengur fram eftir vetrinum, en áður var. Það var ákveðið, að baða skyldi frá 1. nóv. til 15. jan., en þetta er lengt, bæði til þess að menn geti byrjað fyrr og seinna. Þetta er breytt frá því sem áður var, lengdur tíminn, og það er af því, að beitarskilyrði í landinu og not útbeitar í landinu eru ákaflega misjöfn í hinum ýmsu héruðum. Sumir vilja helzt baða að haustinu, áður en fé er tekið á hús. Aðrir vilja helzt ekki baða, fyrr en það er búið að standa inni nokkurn tíma, o.s.frv. og til að koma á móti mönnum og gera þeim mögulegt að baða á þeim tíma, sem þeir helzt vilja, hefur tíminn verið lengdur.

Þá er ákveðið, að það skuli baða annan hvern vetur, en eftir lögunum núna á þrifaböðun að fara fram á hverjum vetri. Ástæðan til þess, að horfið var að því að leggja þetta til, kann að vera eitthvað mismunandi hjá ýmsum mönnum, sem það gera. Svo að ég skýri frá, hvað ég tel að séu ástæðurnar fyrir því, þá er það fyrst og fremst mitt sjónarmið, og ég er ekkert viss um, hvort nm. eru þar allir með sama sjónarmið. Einn þeirra vill helzt baða á hverjum vetri, og hann mun gera grein fyrir því hér, en það geta samt legið fleiri ástæður til grundvallar.

Það fyrsta, sem gerir það, að ég vil baða annan hvern vetur, er það, að núna er ástandið orðið það í landinu og er búið að vera lengi, en er alltaf að versna ár frá ári, að þessum lögum um að baða á hverjum vetri er ekki hlýtt. Það eru heilir hreppar, ekki heil sýslufélög, en heilir hreppar og fjöldi af einstaklingum, sem dettur ekki í hug að baða á hverjum vetri, og það eru til menn nú orðið, sem vilja bara alls ekki baða. Seinasta bréfið, sem ég fékk um það frá hreppi á Austurlandi, fékk ég í gær, og þar sagði, að það ættu ekki að vera nein lög um baðanir, það ætti aldrei að baða. Þetta kemur af því annars vegar, að hin síðari ár hafa menn ekki orðið varir við færilús í fé og engin óþrif í fjöldamörgum héruðum, sem kemur af því, að baðlyfið, sem núna er notað, er svo gott, ekki bara að dómi manna hér á landi, heldur eftir vísindalegum rannsóknum, bæði í Englandi og Ameríku, að önnur baðlyf, eru þar ekki notuð. Þó að samt sem áður hafi ekki alls staðar heppnazt að útrýma óþrifum af sauðfé, þá er það hins vegar vegna þess, að það er ekki nein skylda að nota þetta baðlyf nú. Það er skylda að nota það, ef það á að vera kláðaböðun, útrýmingarkláðaböðun, þá getur stjórnarráðið ákveðið, hvaða baðlyf á að nota, en ekki í þrifaböðun, og þess vegna eru enn þá menn nokkuð margir, sem lifa í þeirri gömlu trú, að önnur baðlyf séu betri en þessi, og hún er ekki eingöngu hjá smámönnum, hún hefur verið hjá landbrh., sem hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, meira að segja hvað kláðaböðin snertir, að ákveða, að baða mætti líka úr öðrum baðlyfjum, en þessu. Og hún er ekki bara hjá hændum, sem lifa í gamalli trú, hún er líka hjá öðrum mönnum, sem ættu að vita betur. Þar af leiðandi er það, að í sumum sýslum, sem þessi trú er almennust í og minnst hafa notað af þessu baðlyfi, eða tiltölulega flestir notað annað baðlyf, þar er meira um óþrif, en annars staðar. Ég skal ekki núna a.m.k. fara neitt út í að nefna þær sýslur, en þó væri það ósköp vel hægt, ef maður vildi það við hafa.

Önnur ástæðan er sú, að ég tel, að það sé rétt að koma á móti mönnum með því að lofa þeim að sleppa við böðunina alveg annað hvert ár í von um, að þá verði hún betur framkvæmd hitt árið. Það gilda alveg sömu ákvæði, að það á að vera eftirlitsmaður með böðuninni í hverjum hreppi, baðstjóri, sem á að sjá um, að hún sé vel framkvæmd. Þetta á að vera núna. Það er kannske ekki alls staðar, en það á að vera núna eftir lögunum. En svo er sá reginmunur, að eftir lögunum, sem núna gilda, er 10 kr. lágmarkssekt fyrir að baða ekki og 500 króna hámark, ef það er ítrekað brot, en eftir frv. er það þó gert 1.000 kr. lægsta sektin og upp í 10 þús. kr. Það er önnur breyting. Þegar baðlyfið í kindina kostar svolítið á aðra krónu fyrir utan vinnu og alla fyrirhöfn við það, þá er náttúrlega bóndi, sem ekki vill baða og er t.d. fjármargur, á 300, svo að ég tali ekki um, ef hann kemst upp í þá allra fjárhæstu, sem eiga um 800 fjár og liðlega það, — þá þykir honum hann hafa fundið fé með því að borga sína 10 kr. sekt, ef hann væri látinn borga hana, og baða ekki. En ég hef ekki heyrt talað um, að sektir fyrir að baða ekki hafi verið innheimtar, — og ég þekki hreppstjóra, sem eiga að sjá um, að lögunum sé hlýtt, sem ekki baða og það ár eftir ár. Þetta er önnur ástæðan til, að ég er með þessu. Ég vil koma á móti mönnum þarna, og ég vil lofa þeim að spara sjálfum sér og landinu þann gjaldeyri, sem í baðlyfið fer annað árið, og sjálfum sér þá vinnu, umstang og fyrirhöfn, sem er samfara böðun.

Þriðja breytingin er svo sú, að eftir lögunum núna á landbrh. í sambandi við forstöðumann atvinnudeildar háskólans að ákveða, úr hvaða baðlyfi skuli baðað, ef um kláðaböðun er að ræða. Nú á landbrh. líka að ákveða það, en í sambandi við yfirdýralækni. Núna eiga hreppsnefndirnar og landbrh. að tilnefna eftirlitsmenn með böðununum og sveitarstjórnirnar baðstjóra, hver í sínum hreppi. Þetta á að gera eftir tilmælum eða till. frá viðkomandi hreppsnefndum og sýslunefndum, ef um eftirlitsmenn með böðun er að ræða, hvað fjárkláða snertir. Þessum mönnum er öllum haldið, þeir eru látnir líta eftir allri böðuninni, eins og nú, og þeir eru núna skipaðir í samráði við yfirdýralækni og viðkomandi sveitarstjórnir. Meðal annars komu dýralæknarnir þar ekki til greina áður, þeir voru ekki til, en þar sem dýralæknar eru starfandi í einhverri sýslu nú, eru þeir aðalumsjónarmennirnir og sjá um, að það séu til baðlyf og böðunarstjórarnir starfi vel og dyggilega. Þetta er líka breyting frá því, sem er í núgildandi lögum.

Þá er í lögunum um útrýmingu á fjárkláða núna ætlazt til þess, að ríkissjóður borgi annað baðlyfið. Það er gert ráð fyrir, að það sé tvíbaðað og ríkissjóður borgi annað baðlyfið. Hér er lagt til, að ríkissjóður borgi bæði baðlyfin. Þetta er líka breyt. frá því, sem nú er.

Og svo eru sektirnar hækkaðar, eins og ég áðan sagði. Þær eru hækkaðar úr 10 kr. lágmarkssektin upp í 1.000 kr. og úr 500 kr. hámarkssektin og upp í 10.000 kr. Þetta eru aðalbreytingar, sem frv. gerir á núgildandi lögum.

Við höfum svo gert við þetta nokkrar breyt., nefndin. Það eru allt saman smávægilegar breyt. og ekki neinar verulegar efnisbreytingar. Við bætum þarna einu orði inn í 2. gr. Það stendur núna: „ef fjárkláða verður vart eða mikilla óþrifa í sauðfé“. Við bættum þarna inn í „annarra“, til þess að það væri greinilegt, að þar væri ekki átt við kláðann út af fyrir sig, sem er talinn á undan.

Þá er það við 5. gr. Það var ætlazt til, að sá, sem ætti kind, sem fyndist með kláða, skyldi einangra hana og tilkynna hana réttum yfirvöldum. Við gerum ráð fyrir, að sá, sem finnur kindina, hvort sem hann er eigandi eða ekki, ef hún t.d. kemur fyrir af bæ og kemur þar að, þá á sá maður undireins að taka hana, einangra hana og tilsegja hana, í staðinn fyrir að annars var það eigandinn, og gat þá dregizt, að kindin væri tekin og einangruð og hún tilkynnt. — Nánast er það leiðrétting, að við setjum þarna lögreglustjóri í staðinn fyrir bæjarstjóra. Vitanlega á það að vera lögreglustjóri, sem á að sjá um það, að lögunum sé hlýtt og kindin einangruð o.s.frv., en ekki bæjarstjórinn á viðkomandi stað.

Þá er þarna ákvæði, sem við höfum breytt, viðvíkjandi 8. gr. Það kann að þykja nokkuð hart, en það sýnir, að okkur nefndarmönnunum öllum er það áhugamál, að sauðféð sé baðað, eins og tilskilið er í lögunum, annað hvert ár. Það er í gr., eins og hún er núna, að ef einhver vanrækir að baða, þá má setja hann í dagsektir, og svo er heimild til þess að taka féð og baða það á hans kostnað, en við segjum, að það skuli taka það og baða það á hans kostnað. Það getur vel verið, að menn vilji deila dálítið um þessa breytingu, því að ég skal viðurkenna, að það getur verið dálítið hart, en til þess eru lög að halda þau, og við eigum ekki að vera að leika okkur að því hér á Alþ. að búa til lög, sem við ætlumst til að séu brotin, og höfum því svo væg sektarákvæði, að menn sjái sér hag í að brjóta þau. Ég skal viðurkenna, að það er nú allt að því með því að setja lágmarkssektarákvæði á 1.000 kr. Ég held, að það séu 890 fjár á því heimilinu, sem er fjárflest núna, og þá kostar baðlyfið í féð rétt álíka mikið og sektin, og ég veit ekkert nema það sé kannske heldur lágt að hafa sektina ekki hærri, en hún er ákveðin í lögunum. Ég skal ekkert segja um það, en við leggjum samt ekki til, að hún sé hækkuð.

Ég vona, að þessar till. okkar í meiri hl. n., því að eins og fram kemur er hér einn nm. með sérstaka brtt., sem hann mun gera grein fyrir, fái góðar undirtektir og að, að því loknu verði frv. samþykkt. En ég vildi helzt láta fleiri deildarmenn vera við en eru nú, þegar það kemur til atkvæða, en það getur verið, að það mæti fleiri í d. síðar, forseti vor sér, hvernig verður þá setinn bekkurinn, og hegðar sér eftir því.