17.02.1959
Efri deild: 71. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. ( Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Mér var bent á það í gær af þm. Barð., sem er einn maðurinn í n., að í þessum lögum er ekkert ákvæði um það, hvenær þau eigi að öðlast gildi. Ég tel nú í sjálfu sér, að þetta sé a.m.k. ekki gleymska hjá mér, heldur var það gert af því að ég taldi það óþarft. Ef ekkert er um það í l. sjálfum, þá öðlast þau gildi þrem mánuðum eftir að þau eru staðfest í ríkisráði. En eftir l. á þrifaböðun fyrst að fara fram á vetrinum 1960–1961, frá 15. nóv. 1960 til 15. febr. 1961, svo að það út af fyrir sig gerir ekki nauðsynlegt, að í lögin séu sett ákvæði um, hvenær þau öðlist gildi, þau verða alltaf komin í gildi áður. Hins vegar er eitt atriði í l., sem gæti haft áhrif á, hvort sett væri slíkt ákvæði í l. eða ekki. Og það er það, að sú breyting er gerð á með þessu frv., ef að lögum verður, að þegar á að baða vegna kláða, þá á að tvíbaða kindina, bæði eftir þessum og eldri lögunum, en í eldri l. áttí þá ríkið að borga annað baðlyfið, en í þessu frv., sem nú liggur fyrir, er mælt svo fyrir, að ríkið borgi baðlyfin, bæði við fyrri og síðari böðunina. Og ef það kæmi upp kláði og þyrfti að útrýma honum einhvers staðar á þeim þrem mánuðum, sem líða frá því, að l. eru samþykkt í ríkisráði, og þangað til þau koma til framkvæmda, þá yrði þarna að fara eftir eldri l. og ekki þess vegna borgað af ríkinu nema baðlyfið í aðra böðunina. Ég held þess vegna, að það sé kannske réttara að setja í frv. ákvæði um, að lögin öðlist þegar gildi, og þá virðist mér, að það muni fara bezt að setja það framan við 10. gr. og láta hana hljóða þannig:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, og eru jafnframt numin úr gildi lög nr. 90“ o.s.frv.

Ég held, að það sé rétt, að ég leggi þessa brtt. fram. Hún er skrifleg og þarf tvöföld afbrigði náttúrlega, en annars skiptir, að mér finnst, litlu máli, hvort hún er samþykkt eða ekki, því að ég held, að kláði komi varla á því tímabili, er um ræðir, þó að náttúrlega gæti það komið fyrir.