17.04.1959
Efri deild: 103. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

89. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú búið að vera tvö þing til meðferðar. Í fyrra var, eins og menn muna, það lagt fram í Nd. og þar samþ. að fyrirskipa sauðfjárbaðanir árlega sem skylduböðun. Þá strandaði málið hér í Ed.

Í millitíðinni voru sýslunefndir spurðar um sitt álit svo og allar hreppsnefndir, og svör hafa borizt frá þeim nokkuð mörgum. Það eru komnar yfir 150 hreppsnefndir, sem vilja láta baða annað hvert ár, og liðugar 30, sem vilja láta baða á hverju ári, en hinar hafa ekki svarað, þær eru liðlega 20.

Við gengum svo inn á það hér í d. og vorum sammála um það að hafa ekki lögskipaðar baðanir á hverju ári, nema þar sem óþrif í fé kæmu upp eða kláði, en annars skyldi böðun höfð annað hvert ár, og reyndum að búa svo um í lögunum, að því væri fylgt eftir, bæði með því að skipa ákveðna baðstjóra, sem reyndar áttu að vera áður, en hefur verið vanrækt að hafa hingað og þangað, og eins með því að hækka sektir, sem voru lágar áður og einskis virði í þessu sambandi.

Þannig fór málið til Nd., og Nd. hefur nú aftur sent okkur það og er nú komin inn á þá samkomulagsleið að láta næstu tvo veturna baða á hverju ári, en úr því annað hvert ár. Aðra breytingu gerði hún eiginlega ekki á frv. Hún breytti að vísu einni annarri gr. Við höfðum sett inn í, að það skyldi vera heimilt að láta fara fram skoðun og aukaböðun, ef mikilla óþrifa yrði vart í sauðfé, en þeir fella þetta „mikilla“ í burtu. Það hefur enga þýðingu í því sambandi. Þetta er eina breytingin.

Nú höfum við nm. ekki haldið fund, en ég hef talað við þá flesta, ég held alla nema einn, og okkur kemur saman um og ég mæli með því, að við samþ. frv. eins og það kemur frá Nd. Það verður þá að lögum, og þá verður þó eftir tvö ár komin á böðun annað hvert ár. Ég skal að vísu viðurkenna það, að ég er dálítið hræddur við það í þessu sambandi, við höfum hækkað sektirnar dálítið, ekki neitt óskaplega, — og ég er hræddur um, að þessi tvö ár, sem þeir eru skyldir til að baða, þá verði einhverjir, sem brjóti og þyki sektirnar nokkuð háar í því sambandi, en það verður ekki við öllu séð, og sem sagt, ég legg til, að frv. verði samþ. eins og það kemur frá Nd.