10.03.1959
Neðri deild: 91. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

126. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Gunnlaugur Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar barst fyrir nokkru frá dómsmrn. frv til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Í þessu frv. var lagt til, að 26 erlendum ríkisborgurum yrði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, en um leið sendi dómsmrn. nefndinni — ásamt umsóknum fyrrnefndra 26 manna — umsóknir 5 manna um ríkisborgararétt hér á landi. Sú aðferð var höfð, eins og fram kemur í grg. fyrir frv., að nefndin kaus úr sínum hópi tvo menn, mig og hv. 2 þm. Reykv., sem ásamt tveim mönnum úr allshn. Ed. og skrifstofustjóra Alþingis fórum yfir umsóknir, bæði þær, sem teknar höfðu verið upp í frv. dómsmrn., og aðrar, og er niðurstaða þeirrar athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir frá allshn. og er að efni til óbreytt eins og dómsmrn. hafði gengið frá því.

Í frv. þessu er fylgt þeim reglum, sem nokkur hefð hefur verið að myndast um að undanförnu, og er gerð ýtarleg grein fyrir þeim í grg. fyrir frv., og vísast til þess.

Í frv. er, eins og fyrr segir, gert ráð fyrir, að 26 manns fái ríkisborgararétt, og má gera eftirfarandi sundurliðun varðandi umsækjendur:

1) Einn maður er Íslendingur, sem gerzt hefur erlendur ríkisborgari, nr. 14 í frv.

2) Nr. 5 og 8 eru af íslenzku og dönsku bergi brotnir.

3) Nr. 9 og 10 eru af íslenzku og þýzku bergi brotnir.

4) Nr. 1, 6, 7, 12, 16, 22 og 24 hafa gifzt íslenzkum mönnum. Nr. 2 hefur verið gift íslenzkum manni í rúmt ár, en dvalizt hér í 10 ár. Nr. 3, 13, 15, 25 og 26 hafa kvænzt íslenzkum konum. Nr. 21 er danskur ríkisborgari.

5) Nr. 4, 17, 18, 19, 20 og 23 eru þýzkir ríkisborgarar.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. þetta og legg til, að því verði vísað til 2. umr.