06.03.1959
Efri deild: 80. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

124. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki til að tala um frv., sem ég kveð mér orðs — og þó. Ég hef ákaflega oft áður fundið að því, þegar á sama þinginu eru mörg lög til að breyta einum og sömu lögunum. Nú liggja hér fyrir tvö mál, 124, og 125., bæði um breyt. á sömu l. Annað er lagt fram í Nd., hitt í Ed. Þetta líkist ekki neinum vinnubrögðum, að verið er að koma með sex umr. um breyt. á sömu l., í staðinn fyrir að sameina þetta í eitt frv. um breyt. á l., þar sem á að breyta þeim á annað borð. Ég vil þess vegna mjög mælast til þess, annaðhvort að n. hér bíði, þangað til frv. kemur frá Nd., ellegar hæstv. ríkisstjórn sjái um það, að neðrideildarfrv. bíði í Nd., þangað til þetta kemur frá okkur, svo að það sé hægt að sameina þetta í eitt frv. og ekki þurfi að samþ. frá Alþingi nú tvö frv. um breyt. á sömu l. Það er bara eins og önnur sóun á vinnubrögðum og ekki nein hugsun í því, hvernig þingstörfin ganga, að vera að láta fara fram sex umr. í deild um tvö frv. um breyt. á sömu l., í staðinn fyrir að setja þau í eitt. — Ég vildi bara benda á þetta.