21.04.1959
Neðri deild: 113. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

81. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar um nokkurn tíma, en það fjallar að meginefni til um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.

Það er vitað mál, að eftir að byggð hefur þanizt svo út sem raun ber vitni um í Hafnarfirði og óverulegar breytingar hafa verið gerðar, síðan kaupstaðurinn fékk réttindi sín samkv. lögum frá 1908, þá hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðar talið nauðsynlegt að stækka lögsagnarumdæmið. Fljótlega kom upp nokkur ágreiningur á milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og hreppsnefndar Garðahrepps um það, hver mörkin skyldu verða, en eftir að þessir aðilar höfðu komið sér saman um, hvernig þessi merki skyldu verða, hefur allshn. flutt breyt., sem sýnd er á þskj. 388, en um þær till., sem þar eru fluttar, er algert samkomulag á milli þessara tveggja aðila, sem þarna eiga hlut að máli, og því leggjum við til, að þessar breytingar séu gerðar.