09.12.1958
Efri deild: 33. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

62. mál, almannatryggingar

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. hefur hreyft hér atriði í sambandi við almannatryggingarnar, sem lengi hefur valdið nokkrum erfiðleikum í sambandi við framkvæmd þeirra.

Allir þeir, sem hafa fylgzt með framkvæmd þessara l., hafa orðið þess varir, að það getur oft verið mikið óréttlæti samfara því að þurfa að svipta gamalt fólk rétti til bóta eða hluta af bótum vegna þess, að það hefur haft nokkrar tekjur umfram það, sem l. gera ráð fyrir. Ég fyrir mitt leyti hef sem umboðsmaður trygginganna í nokkuð mörg ár í því umdæmi, þar sem ég hef farið með löggæzlu, kynnzt nokkuð mörgum tilfellum, þar sem þessi regla hefur reynzt afar ósanngjörn og óeðlileg í framkvæmd. Mér er því fullkomlega ljós sú þörf, sem þarna er á athugun og ég vil taka undir það með hv. þm. Vestm., að hér er nauðsynlegt að ráða einhverja bót á. Hins vegar virðist mér þessi till. ekki eiga heima í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir. Hér er eingöngu verið að leggja til, að bætur frá almannatryggingum séu leiðréttar til samræmis við þær launahækkanir, sem orðið hafa á landinu í seinasta mánuði. Sú hugmynd, sem hv. þm. Vestm. hreyfir hér, á því í raun og veru ekki heima inni í þessu frv., enda er breyt. flóknari og vandasamari en það, að eðlilegt sé að tefja þetta frv. með athugun á þeirri breyt. út af fyrir sig.

Hins vegar vill svo til, að samkvæmt þáltill., sem samþ. var á hæstv. Alþ. í fyrra, hef ég á s.l. sumri skipað sérstaka mþn. til þess að athuga viss atriði almannatryggingalaganna og þá einmitt ákvæðin um elli- og örorkulaun.

Till. eins og sú, sem hv. þm. Vestm. hugðist hreyfa, á einmitt heima í þeirri n. til athugunar. Að því er ég bezt veit, hefur þetta atriði þegar komið til athugunar hjá n. Hún hefur ekki lokið störfum sínum enn þá, en hefur talsvert unnið að endurskoðuninni og þess er að vænta og til þess hefur verið stofnað, að n. skili sínum till. það tímanlega, áður en yfirstandandi Alþingi lýkur, að hægt verði að taka fyrir frv. til l. um breyt, á almannatryggingalögunum um þetta atriði og ljúka því fyrir þinglok.

Ég vænti því, að hv. þm. Vestm. finnist sér og hans áhugamáli í þessu sambandi fullnægt með því, að þessi hugmynd hans verði tekin til athugunar í mþn. og ég þori að fullyrða, að hún mætir þar bæði vinsemd og skilningi, án þess að hægt sé að segja nánar um það, hver niðurstaða n. verður.