11.12.1958
Efri deild: 36. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

65. mál, virkjun Sogsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég áttaði mig bara ekki á því, að frv. mundi ekki fara til n., og þess vegna bað ég ekki um orðið áðan. En að láta verðgildi bréfanna fara eftir því, sem bæjarstjórn Reykjavíkur þóknast að selja rafmagnið á á hverjum tíma, það nær ekki nokkurri átt. Bæjarstjórn getur einn góðan veðurdag sett svo mikið niður verðið á rafmagninu, að bréfin verði einskis virði, og þá getur hún keypt þau. Hún getur líka sett rafmagnsverð upp og með því aukið gildi bréfanna. Að miða við rafmagnsverðið og láta það þannig í hendur bæjarstjórnarmeirihlutanum, hver sem hann er á hverjum tíma, það nær ekki nokkurri átt, og þess vegna álít ég að ætti að láta nefndina athuga frv. betur.