15.12.1958
Efri deild: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

65. mál, virkjun Sogsins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. er frsm. n. í þessu máli. Það er eingöngu sökum þess, að hann kom hér ekki inn á fundinn fyrr en í lok ræðu hv. 8. landsk. þm., að ég kvaddi mér hljóðs.

N. hefur rætt þetta mál á tveim fundum eftir 1. umr., fyrir utan það, að hún athugaði málið og ræddi það nokkuð, þegar hún ákvað að flytja það fyrir hönd hæstv. fjmrh. Á fyrri fundinum, sem n. tók málið fyrir á, eftir að því hafði verið vísað til 2. umr., — en þar höfðu einmitt komið fram óskir um það, að n. athugaði málið nánar, — var mér falið að ræða við bankastjóra seðlabankans um 2. málsgr. 1. gr. frv. Þá þegar kom fram, að það var uppi sú skoðun í n., að ákvæði þessarar málsgr. væru óeðlileg og ekki heppileg.

Ég gerði þetta, ég átti tal við aðalbankastjóra seðlabankans. Hinn bankastjóri hans var ekki viðstaddur, hann var vestur á Ísafirði þá í erindum bankans. Það er í skemmstu máli frá því að segja, að bankastjórinn taldi, að það væri með öllu óhugsandi að selja skuldabréf nú, nema þau væru með einhverjum hætti verðtryggð. Og mér skildist á honum, að það væri fyllilega hugmynd bankans að selja almenningi svo mikið af þessum skuldabréfum sem mögulega væri hægt að koma út, og vitanlega alla þessa upphæð, ef kaupendur fengjust fyrir svo hárri fjárhæð. Þess vegna er það ekki rétt, að hér sé um að ræða lán seðlabankans til rafveitunnar, heldur frjálsa sölu skuldabréfa, sem bankinn, eins og venjulegt er að slíkar stofnanir geri, ætlar að hafa milligöngu um sölu á.

Ég sé ekki, að það komi neitt málinu við, þó að þetta fé eigi að einhverju leyti eða öllu að nota til þess að greiða áfallna tolla, því að tollar, sem Sogsvirkjunin þarf að greiða, eru kostnaður við hana, alveg eins og hvað annað, og er að því leyti alveg sama, hvort andvirði bréfanna rennur endanlega til ríkissjóðs eða eitthvað annað. Þar sé ég engan mun á.

Ég bar það undir bankastjórann, hvort það væri endilega nauðsynlegt að miða verðtrygginguna við rafmagnsverð, og sagði hann, að sér fyndist það í þessu tilfelli eðlilegast, en hann væri þó til viðræðu um að miða það við almenna vísitölu, kaupgjaldsvísitölu. Þetta fyndist honum einfaldast og eðlilegast í þessu tilfelli. Og um það, sem hér hefur komið fram, að þá hafi bæjarstjórn Reykjavíkur, að mér skilst, það á valdi sínu að hækka verð þessara bréfa með því að hækka verðlagstaxtann, þá er þess að gæta, að bæjarstjórn Reykjavíkur er fulltrúi æði margra manna, þar sem býr nú þriðjungur þjóðarinnar hér í Reykjavík eða um það bil, og auk þess er bæjarstjórn Reykjavíkur ekki sjálfráð um þetta, heldur er hér um sameign bæjarins og ríkisins að ræða, svo að það væri þá bæði ríkisstj. og bæjarstjórnin, sem ættu að hafa áhrif á það við stjórn Sogsvirkjunarinnar að fara að braska þannig. Ég held, að það sé tiltölulega lítil hætta á því, að fulltrúar almennings, sumpart allrar þjóðarinnar og sumpart þriðjungs þjóðarinnar, misnoti þannig trúnað sinn.

Að jafna þessu við það, að mjólkursamsalan fengi rétt til að gefa út tryggð skuldabréf og miða þar við verð á mjólk, það finnst mér hrein fjarstæða, því að mjólkursamsalan er aldrei annað, en félagsskapur ákveðinna aðila og alls ekki að fulltrúar hennar séu jafnframt fulltrúar allrar þjóðarinnar eða höfuðborgarinnar í heild sinni.

Það má ræða um almenna verðtryggingu á innstæðufé, öllu innstæðufé. Og ég vil segja það út af því, sem fram kom í ræðu hv. 8. landsk. þm., að ég væri fyllilega til viðræðu um það að verðtryggja allt innstæðufé, og ég sé ekki annað, en það verði að gera fyrr en síðar, ef ætlazt er til, að almenningur yfirleitt hafi lengur fé inni í bönkum og sparisjóðum og leggi þannig atvinnuvegum þjóðarinnar til starfsfé, því að það, sem er alltaf að gerast með aukinni dýrtíð, er það einkum og sérstaklega, að það er verið að ræna þá menn, sem eiga sparifé, eignum sínum. Og það fólk, sem á sparifé og leggur þannig þjóðinni til rekstrarfé, held ég að ekki séu stórlaxar þjóðfélagsins, sem stundum er talað um, — ég held, að það sé yfirleitt fólk, sem er ekki efnað, en er sparsamt og er að reyna að tryggja framtíð sína, ýmist að reyna að safna sér fé til að byggja hús eða ætlar að tryggja sig í ellinni með því að eiga nokkrar krónur í banka eða sparisjóði. En þótt það bæti árlega við þessar innstæður, þá geta þær aldrei vaxið raunverulega, svo að það er fyllilega ástæða til að fara að athuga það mál, sem hv. 8. landsk. vék að, að verðtryggja allt sparifé.

En ég hygg nú samt, þó að ég sé alveg með því, að slíkt sé gaumgæfilega athugað og framkvæmt, ef tæknilegar ástæður gera það ekki ómögulegt, þá tel ég víst, að það mál þurfi allmikinn undirbúning, áður en nákvæmar reglur verða settar um það, hvernig slíkt megi gerast. Og þess vegna held ég að það sé alveg fráleitt að láta þetta mál bíða eftir slíkum ráðstöfunum.

Ég býst við, að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. og það fyrir áramót eða með einhverjum hætti að útvega Sogsvirkjuninni þessa peninga, jafnvel þótt það væru aðallega tollar, sem þetta ætti að ganga upp í, því að ef Sogsvirkjunin greiðir ekki þessa tolla fyrir áramót, sem henni ber að gera, þá er hún komin í vanskil gagnvart ríkissjóði, sem ekki er tekið vægt á. Ég skal ekki segja nema í þessu tilfelli yrðu einhverjar ráðstafanir aðrar gerðar, en almennt er gengið ríkt eftir því, að slíkt sé greitt, svo að ég geri ráð fyrir því, að þeim aðilum, sem að þessu frv. standa, þyki mjög áríðandi, að frv. sé afgr. sem fyrst. Annars getur hv. frsm. n., hv. 6. þm. Reykv., betur upplýst það atriði en ég, hvort nauðsyn sé á skjótri afgreiðslu þessa máls.

Ég get ómögulega séð, að það hafi við rök að styðjast, sem hv. 8. landsk. þm. lét hér orð liggja að, að seðlabankinn sé að setja Alþ. skilyrði með þessu frv. Hann lætur það álit í ljós, að bréfin séu ekki seljanleg, nema þau séu verðtryggð með einhverjum hætti. Það tel ég ekki að setja Alþ. skilyrði. Auðvitað skiptir seðlabankinn sér ekkert af því, þó að Alþ. útvegi Sogsvirkjuninni 30 millj. kr. á einhvern annan hátt.

ríkisstj. geti skipað seðlabankanum að lána eitt eða annað, þá er það við því að segja, að bankalöggjöfin er ekki byggð þannig upp, að ríkisstj. geti gert slíkar fyrirskipanir, heldur eru bankarnir sjálfstæðar stofnanir. Að bíða eftir ábyrgri stjórn um afgreiðslu þessa máls, það gæti verið vit í því, ef hún kæmi á morgun eða allra næstu daga, — en veit hv. 8. landsk. þm. til þess, að þessi ábyrga stjórn sé að koma? Ef hann upplýsir það, þá væri ég fyrir mitt leyti fús til þess, að málið biði eftir því, ef t.d. mætti eiga von á þessari nýju stjórn við skulum segja á miðvikudag, fimmtudag. En óhætt fyndist mér nú samt að afgreiða málið til 3. umr., því að það mætti þá breyta því við 3. umr. að vilja þessarar ábyrgu stjórnar, ef hún verður þá fyrir hendi.