16.12.1958
Efri deild: 39. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

65. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil að mestu vitna til þess, sem hv. 1. þm. Eyf., formaður fjhn., sagði bæði nú og í gær um þetta mál. En ég vil aðeins til viðbótar taka það fram, að þegar stjórn Sogsvirkjunarinnar leitaði ráða hjá seðlabankanum um það, hvernig helzt væri unnt að fá að láni þessar 30 millj., sem vantar í Sogið, þá voru það ráð aðalbankastjóra seðlabankans að gefa út skuldabréf, sem væru verðtryggð með þessum hætti, sem greinir í frv., þ.e.a.s., að endurgreiðsla þeirra skuli miðuð við verð á rafmagni á hverjum tíma. Hann taldi, að væri e.t.v. nokkur von að selja slík bréf, í stað þess að almenn skuldabréf án nokkurrar verðtryggingar væri vonlítið eða vonlaust að selja. Af þessum ástæðum er þetta ákvæði komið inn í frv., og ég geri ráð fyrir því, að ef brtt. hv. 8. landsk. og hv. 1. þm. N-M. verður samþykkt, þá sé málið að þessu leyti úr sögunni, þannig að þau fyrirheit, sem seðlabankinn hefur veitt um fyrirgreiðslu við þessa skuldabréfasölu, eru ekki fyrir hendi. Bankinn hefur sem sagt skýrt tekið fram, að hann telji vonlítið eða vonlaust að selja skuldabréf, sem væru án slíkrar verðtryggingar.

Ég vil því eindregið beina því til hv. dm., að þeir felli þessa brtt., af því að hún er stórt atriði í þessu, en hins vegar að sjálfsögðu nauðsynlegt að reyna að afla fjár til þessa hluta af kostnaði við Sogsvirkjunina.

Eins og ég gat hér um við 1. umr. þessa máls, er kostnaðaráætlun við virkjun Efra-Sogs nú rúmlega 190 millj. kr. Það er búið að afla fjár fyrir erlenda kostnaðinum, það er enn fremur búið að afla fjár fyrir innlenda kostnaðinum að öllu leyti nema þessum 30 millj., sem hér er um að ræða.

Ég vænti þess, að hv. dm. geti fallizt á að samþykkja frv. óbreytt.