06.01.1959
Efri deild: 46. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

65. mál, virkjun Sogsins

Frsm. ( Gunnar Thoroddsen ):

Herra forseti. Við fyrri umr. þessa máls hefur verið frá því skýrt, að seðlabankinn, sem hefur heitið fyrirgreiðslu um sölu skuldabréfa Sogsins að upphæð 30 millj. kr., teldi nauðsynlegt að hafa vísitölutryggingu í þessum bréfum, ef von ætti að vera til, að þau seldust á almennum markaði. Eins og form. fjhn., sem átti viðræður við aðalbankastjóra seðlabankans, hefur skýrt þessari hv. deild frá, taldi bankastjórinn, að vonlítið eða vonlaust væri um sölu almennra skuldabréfa án vísitölutryggingar.

Eins og frv. var lagt fyrir þessa hv. deild af fjhn. að beiðni hæstv. fyrrv. fjmrh., var í því ákvæði um, að vísitölubréfin eða endurgreiðslu þeirra skyldi miða við verð á rafmagni í Reykjavík. Þessi uppástunga um að miða við rafmagnsverð mun hafa verið komin frá seðlabankanum upphaflega. Í umræðum um þetta mál hefur komið fram tvenns konar gagnrýni. Annars vegar hafa sumir talið hæpið að ákveða nokkra vísitölutryggingu í þessum bréfum, og hafa tveir hv. þm. á þskj. 130 borið fram brtt. um að fella alveg niður þetta ákvæði, þannig að hér yrði um almenn skuldabréf að ræða. Þessi brtt. var felld við 2. umr. málsins. Hins vegar hefur einnig komið fram gagnrýni á því að miða við vísitölu eða verð á rafmagni, og sumir, sem hafa verið fylgjandi málinu að meginstefnu til og einnig því að hafa skuldabréfin vísitölutryggð, hafa heldur óskað eftir því, að miðað yrði við hina almennu framfærsluvísitölu.

Ég skýrði hér frá síðast, þegar málið var til meðferðar, að fjhn. mundi taka málið til umr. að nýju, og hefur hún nú gert það. Niðurstaðan varð sú, að meiri hluti n. ákvað að flytja brtt., sem er á þskj. 143 og er á þá lund, að í stað þess að miða endurgreiðsluverð bréfanna við verð á rafmagni, þá skuli miðað við vísitölu framfærslukostnaðar. Ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á þessa breyt. Hún hefur verið rædd við seðlabankann, sem hefur ekkert við hana að athuga, og hún hefur verið tekin til meðferðar í stjórn Sogsvirkjunarinnar, og var í henni samþ. með 4:1 atkv., að Sogsstjórnin gæti vel fallizt á þessa breyt., sem meiri hl. fjhn. leggur til.

Ég vænti þess því og mæli þar fyrir munn meiri hl. fjhn., þ.e.a.s. 4 nm., — einn, hv. 8. landsk, þm., var þessu ekki samþykkur, — þá vænti ég þess og mæli fyrir hönd meiri hl. n., að þessi brtt. á þskj. 143 verði samþ. og frv. verði þannig breytt afgr. áfram.