08.01.1959
Neðri deild: 52. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

65. mál, virkjun Sogsins

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð til þess að skýra þetta mál, vegna þess að ég var á sinni tíð riðinn við, að það var lagt fyrir hæstv. Alþingi í Ed.

Eins og menn vita, hafa verið tekin mikil lán til Sogsvirkjunarinnar erlendis, bæði til að greiða erlendan kostnað við virkjunina og sömuleiðis til að greiða nokkuð eða verulegan hluta af innlenda kostnaðinum. Á hinn bóginn hrekkur þetta fé ekki alveg fyrir kostnaðinum við virkjunina, og verður að leitast við að fá fé innanlands til viðbótar. Hefur það verið mjög til meðferðar undanfarið, hvernig með skyldi fara, og í þeim ráðagerðum hafa tekið þátt stjórn Sogsvirkjunarinnar, fjmrn. og seðlabankinn. Loks varð það að samráði þessara aðila að reyna þá leið, sem upp á er stungið í þessu frv. Hún er sú, að stjórn Sogsvirkjunarinnar gefi út skuldabréfaflokk, sem verði verðtryggður flokkur, og síðan gangist seðlabankinn fyrir því að selja þessi bréf og ríkisábyrgð verði veitt.

Þetta er áætlunin samkv. frv., sem hér liggur fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að útskýra málið nánar. Þótt það sé merkilegt, er það ekki flókið. Legg ég til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.