08.01.1959
Neðri deild: 52. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

65. mál, virkjun Sogsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða í sambandi við þetta frv, að athuga nokkuð um þá aðstöðu, sem Sogsvirkjunin er í, sem veldur því, að hún verður að leita láns, sem henni er sett að taka með þeim kjörum, sem greinir í þessu frv.

Ég á sjálfur sæti í stjórn Sogsvirkjunarinnar, og ég var á móti því, að farið yrði inn á þá leið að taka þetta lán með þeim kjörum, sem hér greinir í frv., að það eigi að endurgreiða það með vísitölu. Upphaflega hafði verið sett það skilyrði af aðalbankastjóra seðlabankans, að endurgreiða skyldi með vísitölu samkv. rafmagnsverði í Reykjavík, en eins og frv. var breytt í hv. Ed., er það svo nú, að greiða skuli samkv. framfærsluvísitölunni.

Ég held, að það sé nauðsynlegt í sambandi við þau skilyrði, sem Sogsvirkjuninni eru skömmtuð með þessu frv., eins og það nú er orðað, að athuga með nokkrum orðum almennt um þann aðbúnað, sem þessu mikilvæga fyrirtæki er búinn af hálfu ríkisvaldsins, og bera það nokkuð saman við þann ágóða, sem önnur hliðstæð fyrirtæki hafa í landinu. Ég held, að þeir erfiðleikar, sem valda því að stjórn Sogsvirkjunarinnar verður nú að leita eftir svona skuldabréfaláni, stafi af skorti á skilningi á mikilvægi Sogsvirkjunarinnar frá upphafi hjá ríkisvaldinu.

Þegar lokið var við Írafossvirkjunina 1953, lagði ég til fyrir mitt leyti hér á Alþ., að þá þegar yrði heimilað að taka lán, til þess að hægt væri að halda áfram, þannig að það yrði búið 1957, í síðasta lagi 1958, að virkja virkjunina við Úlfljótsvatn, sem ekki hefur fengið ákveðið nafn enn þá, og ég rökstuddi þetta með því, að það mundu vera orðin svo mikil vandræði hér á suðvesturhluta landsins, þegar kæmi fram á þennan tíma, að það veitti ekki af, að hægt væri að halda áfram þá, og hins vegar væri að öllu leyti langheppilegast, að það væri hægt að nota það sama vinnulið, sem starfaði við Írafoss, og þau tæki, sem þá voru til þar, til þess að halda áfram þá. Þessu var ekki sinnt.

Það var vitanlegt, að Sogsvirkjunin var fyrirtæki, sem mundi borga sig. Og það var vitanlegt, að Sogsvirkjunin var fyrirtæki, sem var alveg lífsnauðsynlegt fyrir önnur fyrirtæki hér, — fyrirtæki, sem ýmist voru þá þegar að komast í rekstur, eins og áburðarverksmiðjan, eða fyrirtæki, sem voru fyrirhuguð og verið var að undirbúa og áttu að vera komin upp um þetta leyti, eins og sementsverksmiðjan. Það mun hafa verið fyrirsjáanlegt, að árið 1958 mundu þegar vera orðin vandræði fyrir þessi stórfyrirtæki og fyrir neytendur almennt, ef ekki væri ráðizt í tæka tíð í að undirbúa þessa þriðju virkjun Sogsins.

Ég álít, þó að það sé nauðsynlegt að taka mikið tillit til þeirra þæginda, sem þarf að veita landsfólkinu og máske borga sig ekki frá fjárhagslegu sjónarmiði, þó að þau séu nauðsynleg, þá beri a.m.k. ekki að láta það sitja hjá, eins og í þessu tilfelli Sogsvirkjunina, sem bæði borgar sig og er lífsnauðsyn fyrir atvinnureksturinn, eins og bezt sést m.a. á því, að áburðarverksmiðjan verður nú þegar að minnka sína framleiðslu og sementsverksmiðjan að stöðvast yfir þessa tvo mánuði, desember og janúar.

Þessu var ekki sinnt þá. Það var í staðinn farið út í tíu ára áætlunina svonefndu, farið út í þær þrjár virkjanir, sem verið er að virkja víða úti um land, og leggja þær miklu línur um landið, sem nauðsynlegastar voru til þess að dreifa rafmagninu bæði frá þeim og öðrum.

Ég skal ekki lasta það, að lagt sé út í slíkt verk. Það er nauðsynleg aukning á þægindum fyrir það fólk, sem þar býr. En það þarf að gæta nokkurs hófs og taka tillit til tveggja hluta, þegar verið er að ráðast í þetta. Það er meiri hluti landsbúa, sem býr hér á svæði Sogsvirkjunarinnar, og sá meiri hluti borgar fullt verð fyrir það rafmagn og lætur þær stöðvar, sem þarna eru byggðar, standa undir sér. Og hann á kröfu á því, að ekki séu settar hjá hans þarfir eða settar til hliðar í þessu efni og þjóðarhagsmunir af þeim atvinnurekstri, sem byggist á þessari raforku. Þegar lagt er þess vegna í framkvæmd áætlunar eins og tíu ára áætlunarinnar, má það ekki vera á kostnað þess, að áætlun eins og við Sogsvirkjunina, sem var nauðsynleg, bar sig og hafði gífurlega þýðingu fyrir meiri hluta landsbúa, væri sett til hliðar.

Það eru yfir 20.000 kw., sem á að virkja í Sogsvirkjuninni, sem nú er verið að ljúka og þarf að fá þetta viðbótarlán til, en það voru hins vegar um 6.000 kw., sem átti að virkja í þeim virkjunum, sem ráðizt var í og nú hafa verið framkvæmdar samkv. tíu ára áætluninni. Kostnaðurinn af þeim virkjunum og dreifiveitunum í sambandi við þær er þegar yfir 300 millj. kr., og mikið af því eru dreifiveiturnar sjálfar, sem munu áreiðanlega kosta yfir 60 millj. kr., og meiri hlutann af því verður ríkið að afskrifa, þannig að um fyrirtæki er að ræða, sem illa standa undir sér og gefa taprekstur. Við það er út af fyrir sig ekki að athuga. Það getur verið oft nauðsynlegt vegna þeirra þæginda, sem menn vilja veita fólkinu í landinu, að leggja í slíkt. En það má ekki vera á kostnað þess, að á sama tíma sé sett til hliðar og látið bíða það, sem er lífsnauðsyn fyrir meiri hluta landsbúa, og það, sem er lífsnauðsyn fyrir önnur eins stóriðjufyrirtæki og þarna eiga í hlut.

Svo loks, eftir að ríkisstj. var mynduð 1956, er farið út í það að reyna að útvega lán til þessarar Sogsvirkjunar. Og þá eru tvennir möguleikar fyrir hendi að opnast, þegar farið er að athuga þetta. Það eru annars vegar þá möguleikar á að taka lán í Bandaríkjunum og hins vegar á lánum í Sovétríkjunum. Og það er alveg rétt að gera sér ljóst, þegar við erum að ræða um lánsútveganir í sambandi við hluti eins og t.d. í þessu tilfelli Sogsvirkjunina, hvað við þurfum að hugsa frá landsins sjónarmiði, þegar við erum að taka ákvarðanir um lán. Þau lán, sem eftir allmikla umleitun var mögulegt að fá í Bandaríkjunum, voru í fyrsta lagi ófullnægjandi frá upphafi. Það var vitanlegt, að við mundum ekki fá þar lán fyrir öllu því, sem við þurftum. Það kom í ljós, þegar farið var að athuga um þetta, og sérstaklega var það sá hluti, sem mundi þurfa að greiða til ríkisins sjálfs sem tolla og annað slíkt, sem var óhugsandi að fá lán fyrir þar. Það var þess vegna vitanlegt, og það lagði ég sérstaka áherzlu á í þeim umræðum, sem fóru fram í stjórn Sogsvirkjunarinnar um þessi lán, að það sýndi sig, að það væru ekki næg lán, sem hægt væri að fá þar. Í öðru lagi kom það greinilega í ljós, að þessi lán, sem þar var hægt að fá, voru þjóðhagslega dýrari en þau, sem hægt var að fá í Sovétríkjunum, þegar við yrðum að greiða þessi lán til baka, væri það í dollurum, a.m.k. svo framarlega sem Bandaríkjastjórn krefðist þess. Það voru að vísu nokkuð flóknir samningar, sem ég get farið í, ef nauðsyn er, en þar sem þó, þegar öllu er á botninn hvolft, er sú ákvörðun, að ef Bandaríkjastjórn og lánveitandi krefst þess, þá er hægt að skylda okkur til að greiða það í dollurum.

Við vitum, hvernig er með það, sem við eigum að greiða í dollurum eða öðrum frjálsum gjaldeyri. Það er mjög óhægt fyrir okkur, og greiðslugeta okkar er erfið í því sambandi. Við höfum alltaf of lítinn frjálsan gjaldeyri. Jafnvel þótt það sé þannig, að við höfum yfirleitt of lítinn gjaldeyri, þá er þó alltaf svo, að við höfum of lítinn frjálsan gjaldeyri. Og hvað snertir greiðslujöfnuðinn við Bandaríkin, hefur það verið svo, a.m.k. ýmis undanfarin ár, að það hefur jafnvel munað svo miklu, að okkur hefur vantað kannske 100 millj. kr. upp á að hafa nægilegt til þess að hafa viðskipta- og greiðslujöfnuð. Að því leyti var ópraktískt fyrir okkur að taka slíkt lán í Bandaríkjunum, að við urðum að greiða það með gjaldeyri, sem við áttum alltaf erfiðara með að útvega okkur, sem þýddi, að við urðum að taka þessar greiðslur frá þeim takmarkaða frjálsa gjaldeyri, sem við höfðum. Enn fremur var greinilegt, að þetta var dýrara. Að vísu voru þau lán, sem að lokum fengust í Bandaríkjunum, með tiltölulega vægari vöxtum, en ýmislegt annað, sem við höfum fengið þar og annars staðar í þeim vestræna heimi. Þau voru með 3%, ef átti að greiða í dollurum, og 4%, ef átti að greiða í íslenzkum krónum, þannig að það væru sæmileg kjör hvað slíkt snertir, þó að þau væru ekki eins góð og þau, sem við gátum fengið í Sovétríkjunum. Jafnhliða var svo sett raunverulega það skilyrði, þó að það kæmi ekki alveg beint fram þannig, heldur væri smeygt inn í, að í sambandi við þetta yrði að leggja í sérstaka rafmagnsleiðslu til Keflavíkurflugvallar eftir 1960.

Ég hafði lagt það til í stjórn Sogsvirkjunarinnar og líka eftir að vinstri ríkisstj. tók við völdum, að það yrði, jafnhliða því sem leitað yrði eftir lánum í Bandaríkjunum, leitazt við að fá lán í Sovétríkjunum og það yrði athugað um möguleika í Sovétríkjunum og Tékkóslóvakíu um lán í þessu skyni og kaup á raforkutækjum þaðan. Þessi till. mín hlaut aldrei stuðning hjá neinum í stjórn Sogsvirkjunarinnar eða hjá meiri hluta ríkisstj. og það var aldrei rannsakað til fulls, hvað þarna væri um að ræða. Það hefur hins vegar komið greinilega í ljós, ef einhverjir kynnu að hafa borið brigður á, að þeir möguleikar væru fyrir hendi, það er nú þegar sannað með staðreyndunum, að þeir möguleikar voru fyrir hendi að fá lán eins og nægði til þess að virkja Sogið, ekki ófullnægjandi lán, heldur lán eins og nægði í Sovétríkjunum með 21/2% vöxtum. Og ég held, að það sé vert fyrir okkur að muna það nú, þegar við stöndum hér á Alþ. frammi fyrir því að verða að taka ákvarðanir um þetta lán, að frá upphafi hafi þeir möguleikar verið til að fá fullnægjandi lán til þess að virkja Sogið með 21/2% vöxtum og hafa möguleika á að greiða það til baka í okkar útflutningsvörum, í fiski.

Ég veit, að hvað vaxtaspursmálið snertir, þá gætir oft nokkurs sinnuleysis af hálfu þeirra manna, sem eru að taka lán á Íslandi, um hvað vextirnir séu. Og ég er hræddur um, að það sé eitt af því, sem verðbólguþróun undanfarinna áratuga hefur sljóvgað hug manna fyrir, hvert gildi hafi, vaxtaupphæðin. Það er vitanlegt, að hér á Íslandi, þegar tekin eru lán innanlands, þá er það nú, að mönnum finnst það engu máli skipta, hvort lán er tekið upp á 3%, 4%, 7% eða 8%. Og sannleikurinn er, að það skiptir náttúrlega ekki miklu máli, þegar verðgildi peninganna rýrnar um 50% á átta árum. Þá getur maður náttúrlega sagt, að það hafi í raun og veru ekkert að segja, þó að menn taki lán, hvort það er 7 eða 8% eða jafnvel 10 eða 12%, ef menn bara geta fengið það til nægilega langs tíma, til þess að lánið raunverulega afskrifist sjálft vegna verðgildisrýrnunar peninganna.

Þetta á ekki við, þegar við tökum lán erlendis. Þau verðum við að borga, ekki í íslenzkum krónum, heldur í erlendri mynt, þannig að þar hafa vextirnir alltaf sitt gildi. Og þegar um er að ræða lán til raforkufyrirtækja, þá verður alveg sérstaklega að vekja athygli á því, að það er bókstaflega grundvöllurinn fyrir allri framtíðarraforkuframleiðslu Íslands, að það sé skilningur af hálfu þeirra manna, sem taka ákvarðanir um þessa hluti, að lágir vextir eru aðalatriðið í sambandi við raforkuframkvæmdir, — bókstaflega aðalatriðið.

Ég skal taka fram t.d. hvað Sogsvirkjunina snertir, að í normalári, ég á við árið, þegar gengi eða verðgildi okkar peninga stendur tiltölulega fast, þá eru vextirnir raunverulega tæpur helmingur af öllum kostnaði við raforkuver. Ég veit, að þeir eru minni á reikningum okkar hjá Sogsvirkjuninni núna, t.d. síðast, þeir fara kannske niður í þriðjung, þegar þróunin í þjóðfélaginu er þannig, að verðbólgan vex tiltölulega ört, vegna þess að þá vex kostnaðurinn við viðhald, laun og annað slíkt það örar, að vaxtaupphæðin, a.m.k. þegar um er að ræða innanlandslán, minnkar þá hlutfallslega. En þegar um er að ræða eðlilega þróun í þjóðfélaginu, þá eru vextirnir þarna aðalatriði. Og þar sem það er á næstu áratugum höfuðatriði fyrir Ísland að geta lagt í stór raforkuver og geta fengið til þess ódýrt fjármagn, þá er vaxtaupphæðin í þessu sambandi það, sem ræður úrslitum, og ef við eigum að leggja í stór raforkuver hér á Íslandi, sem eiga að standa undir sér og eiga að standa undir stóriðju, sem á að keppa á alþjóðavettvangi, þá er það að taka lán upp á 21/2% eða þar um kring úrslitaatriði í því, hvort við getum byggt upp sérstaklega stóriðju til útflutningsframleiðslu á grundvelli okkar raforku. Mér þykir þess vegna hafa verið illa farið, að það skyldu ekki hafa verið notaðir þeir möguleikar, þótt bara væri í sambandi við þessa litlu Sogsvirkjun okkar, sem fyrir hendi hafa verið til þess að slá því föstu, hvað þýddi fyrir okkur að fá lán til okkar raforkuframkvæmda með svo lágum vöxtum.

Ég hafði allan vara á viðvíkjandi minni afstöðu í þessu og lét bóka eftir mér á þeim fundum í stjórn Sogsvirkjunarinnar, þegar ákvarðanir voru teknar um þetta, mína afstöðu, og skal ekki fara nánar út í það hér, nema tilefni gefist til. En vegna þess að ekki var farið að mínum till. í upphafi um þetta, er nú svo komið, að það var tekið ófullnægjandi lán til Sogsvirkjunarinnar, dýrara lán en fáanlegt var og þjóðhagslega séð óhagstæðara. Og þess vegna stöndum við nú í dag í vandræðum, og þess vegna kemur þetta mál nú fyrir Alþ., okkur vantar þessar 30 millj. kr., sem hér er farið fram á að taka.

Og þá skulum við athuga, hvernig stendur á því, að það eru nú sérstaklega þessar 30 millj. kr., sem hér er talað um, og hvaða peningar það eru, sem Sogsvirkjunina vantar.

Þessar 30 millj. kr., sem hér er farið fram á að stjórn Sogsvirkjunarinnar sé heimilt að taka skuldabréfalán fyrir, eru eingöngu vegna tollgreiðslna til ríkisins. Þetta lán, sem hér er farið fram á að taka, er einvörðungu til þess að greiða tolla og önnur slík gjöld af vélum og fyrirtækjum við Sogsvirkjunina til ríkisins í sambandi við þessa virkjun. Það er aðeins skatturinn til ríkisins, sem þarna er um að ræða og hér er farið fram á.

Stjórn Sogsvirkjunarinnar hefur leitað til aðalbankastjóra seðlabankans í þessu sambandi og spurt hann um hans álit á þessum efnum, og það mun hafa verið hans till., að það yrði farið fram á að gefa út skuldabréf með rafmagnsvísitölu, sem ættu að greiðast sem sé með vísitölu, sem væri í hlutfalli við rafmagnsverðið í Reykjavík þann tíma, sem ætti að greiða bréfin. Ég vil hins vegar upplýsa það, að þetta mál hefur aldrei verið lagt fyrir stjórn seðlabankans. Bankastjórn seðlabankans hefur aldrei fjallað um þetta mál og aldrei tekið neina ákvörðun um það, og þessi vísitöluákvörðun hefur aldrei verið tekin á fundi í stjórn seðlabankans. Það er eingöngu aðalbankastjórinn, sem rætt hefur verið við um þetta. Og sú krafa, sem nú er komin fram af hálfu aðalbankastjóra seðlabankans um, að þetta lán megi ekki taka öðruvísi, en með því að greiða vísitölu af því, er þess vegna eingöngu frá sjálfum aðalbankastjóranum og ekki neinum öðrum aðila. Og það, að stjórn Sogsvirkjunarinnar, meiri hluti hennar, hefur samþykkt að fara fram á þetta við Alþ., er eingöngu vegna þess, að meiri hluti stjórnar Sogsvirkjunarinnar stendur í þeirri meiningu, að Sogsvirkjunin fái ekki lánið nema ganga að þessu skilyrði. Þetta er ekki ósk meiri hluta stjórnar Sogsvirkjunarinnar, heldur nauðungaraðstaða, sem hún er sett í, en ég fyrir mitt leyti greiddi atkv. á móti að hún beygðist undir. Og nú skal ég gera nokkra grein fyrir, hvernig á því stendur, að ég var á móti því, að stjórn Sogsvirkjunarinnar eða Sogsvirkjunin ætti að sæta þessum kjörum.

Ég álít, að ríkið eigi að koma eins fram við alla þá aðila, sem það hefur með að gera í þessum efnum, menn eigi að hafa þar nokkurn veginn sama rétt, hvort það sé Sogsvirkjun, sem um er að ræða, eða t.d. Laxárvirkjun eða Rafmagnsveitur ríkisins viðvíkjandi rafmagnsveitum í dreifbýlinu. Og nú skulum við athuga, hvort þetta er gert, hvort allir þessir aðilar eru látnir sitja við sama borð.

Eins og ég minntist á áðan, hafa rafmagnsveitur ríkisins verið núna undanfarin fimm ár að leggja rafveitur út um land í sambandi við 10 ára áætlunina. Það eru 330 millj. kr. til ársloka 1958, sem farið hafa í þetta, frá því að byrjað var 1954, af 616 millj. kr., sem áætlað er, miðað við verðið í júlí 1958, að 10 ára áætlunin eigi að kosta. Það, sem búið er að skapa nú þegar af orkuverum, gefur 5.600 kw. Þær dreifiveitur, sem þarna hefur verið lagt í fram til ársloka 1958, eru upp á 62 millj. kr. (Gripið fram í.) Það, sem ríkið hefur afskrifað nú þegar af þeim. Þær kosta um 102 millj. af þessum 330 millj, kr., sem þegar hefur verið lagt í, og 62 millj. kr. er ýmist ríkið eða bændurnir sjálfir búnir af afskrifa af þessu. Þrátt fyrir það eru þær reknar með greiðsluhalla.

Hvernig var nú farið að til þess að útvega þessar 300 millj. kr., sem þarna var um að ræða, fé, sem er varið að vísu í gott málefni, þó að það málefni borgi sig ekki, þó að það standi ekki undir sér og þó að ríkið verði að afskrifa þetta, — hvernig er farið að því að lána þetta? Jú, bankar ríkisins eru látnir lána þetta og ríkið látið leggja fram fé til þess. Það er farið til Landsbankans, Útvegsbankans og Búnaðarbankans, ef ég man rétt, og lagt hart að þessum bönkum, að þeir láni hver um sig svo og svo margar millj. kr. á ári til þessa. Er þá af hálfu þessara banka gerð krafa um vísitölugreiðslu, þegar greitt sé til baka? Nei, það er ekki gerð nein krafa um neina vísitöluskuldbindingu, hvorki í rafmagnsverði né öðru. Hvernig er svo með Sogsvirkjunina hins vegar, fyrirtæki, sem ber sig, fyrirtæki, sem ríkið þarf ekki á fjárlögum að veita ákveðinn styrk á ári til þess að láta afskrifa tapið á því, fyrirtæki, sem er lífsnauðsyn fyrir meiri hluta landsbúa að sé rekið og eðlilega stækkað og fyrir einhver stærstu iðjuver landsins að gangi með fullum krafti, — hvernig er búið að Sogsvirkjuninni á sama tíma? Hún fær ekki að halda áfram með þá virkjun, sem nauðsynleg varð strax eftir 1953, og ég hef þegar lýst því tjóni, sem af því hlýzt. Sementsverksmiðjan stendur kyrr nú, áburðarverksmiðjan minnkar sína framleiðslu, og jafnvel verður að kaupa útlendan áburð fyrir útlent fé í staðinn. Þegar Sogsvirkjunin svo fær loksins að fara af stað með ófullnægjandi lánum, hvað er þá sagt við hana, þegar hana vantar 30 millj. kr. til þess að greiða skatta til ríkisins? Það er sagt við Sogsvirkjunina: Þú færð ekki að taka þessi lán, nema þú borgir þau til baka með vísitölu, borgir þau til baka með allt öðrum skilmálum, en öll önnur rafmagnsfyrirtæki ríkisins.

Þetta er í fyrsta lagi óréttlátt. Ríkið á að láta alla aðila þarna, alla opinbera aðila á þessu sama sviði, sitja við sömu kjör. Bankar ríkisins eiga að veita þessum aðilum sömu aðstoð og þá njóta sama réttar. En alveg sérstaklega verð ég að segja, að það fer að verða hálfhjákátlegt, þegar ástandið er orðið þannig, að til þess að borga ríkinu skatta er einu opinberu fyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurbæjar, Sogsvirkjuninni, neitað um lán af öðru ríkisfyrirtæki, seðlabankanum, nema með því að það greiði þetta til baka með vísitölu, með allt öðrum kjörum, en allir aðrir lánþiggjendur þurfa að gera. Sogsvirkjunin er nú að hálfu leyti fyrirtæki ríkisins, að hálfu leyti fyrirtæki Reykjavíkurbæjar, m.ö.o. alveg opinbert fyrirtæki, og að því leyti til getur maður sagt, að það er ríkið, sem að meira eða minna leyti knýr Sogsvirkjunina til þess t.d. að láta ódýrt rafmagn til eins fyrirtækis eins og áburðarverksmiðjunnar. Þá er þetta sem sé orðið þannig, að á vissan hátt er ríkið að setja sjálfu sér í formi Sogsvirkjunarinnar okurkjör til þess að greiða sjálfu sér skatta. Það er eins og hver höndin í sjálfum þeim opinberu framkvæmdum hér á Íslandi sé að reyta af annarrí, kúga hver aðra, eitt ríkisfyrirtæki eins og seðlabankinn sé að reyna að kúga þarna Sogsvirkjunina, annað ríkisfyrirtækið, til þess að greiða þriðja ríkisfyrirtækinu skatta, og er að taka okurlán til þess að geta greitt þá.

En látum nú vera það hlægilega í þessu og þá óstjórn, sem kemur í ljós í sjálfum ríkisfyrirtækjunum hjá okkur, þegar svona er með þau. Það, sem mér finnst hart þarna, er, að það sé verið að gera upp á milli þeirra rafmagnsfyrirtækja, sem ríkið og það opinbera á. Ég vil spyrja: Á máske sérstaklega að refsa Sogsvirkjuninni fyrir það, að Reykjavíkurbær skuli eiga hlut í henni, eða er það máske þess vegna, sem á að skammta Sogsvirkjuninni verri aðstöðu, en öðrum rafmagnsfyrirtækjum í landinu, öðrum opinberum rafmagnsfyrirtækjum? Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það, hvort menn álíta, að það sé nauðsynlegt, og hvort menn álíta, að ef Reykjavíkurbær á helming þarna á móti ríkinu, þá beri alveg sérstaklega að gera ráðstafanir til þess að okra á því fyrirtæki, á sama tíma sem öðrum rafmagnsfyrirtækjum, sem ríkið á sjálft, er raunverulega á ýmsan hátt stórhjálpað af ríkinu með fjárframlögum og af bönkunum með eðlilegum lánum. Sogsvirkjunin þarf ekki að fá styrk frá ríkinu. Það þarf ekki að borga neinar framkvæmdir hennar með ríkisfé að þriðjungi eða helmingi. Sogsvirkjunin sem fyrirtæki okrar ekki heldur á almenningi. Hún fær aðeins að leggja 5% á framleiðslukostnaðinn af sinni raforku. Allir þeir, sem kaupa af henni, geta lagt á, eftir því sem þeir vilja og fá leyfi til af verðlagsyfirvöldum, en Sogsvirkjunin fær aðeins að leggja 5% þarna á. Hún er þess vegna alltaf háð ríkinu um útvegun fjár til þess að geta haldið áfram sínum virkjunum. Sogsvirkjunin er af ríkinu og af útlendum bönkum, sem ríkið hefur ofurselt hana á vissum tíma, knúin til þess að selja þriðjunginn til helminginn af allri þeirri raforku, sem hún framleiðir, til eins fyrirtækis ríkisins, áburðarverksmiðjunnar, á verði, sem er hlægilega lágt, en á því lága verði, sem áburðarverksmiðjan fær rafmagnið frá Sogsvirkjuninni, byggist það yfirleitt, að áburðarverksmiðjan skuli vera rekin og skuli vera hægt að reka hana og hægt að reka hana þannig, að áburðurinn sé ekki dýrari, en erlendis.

Sogsvirkjunin er þess vegna að miklu leyti rekin í þágu eins einasta ríkisfyrirtækis, áburðarverksmiðjunnar, sem ekki væri hægt að reka án Sogsvirkjunarinnar, og öll iðjufyrirtæki t.d. hér í Reykjavík og hér á suðvesturhluta landsins verða að sæta allt öðrum skilmálum, en þetta ríkisfyrirtæki, áburðarverksmiðjan, þannig að maður gæti ekki ætlað, að ríkið hefði neina sérstaka ástæðu eða bankar til þess að ofsækja Sogsvirkjunina eða skammta henni verri kjör, en öðrum fyrirtækjum í landinu. Ég álít þess vegna, að það sé ósvinna að ætla að skammta Sogsvirkjuninni lakari kjör, en öðrum fyrirtækjum ríkisins á sviði raforkunnar hvað snertir lán frá bönkum ríkisins. Ég er ekki að fara fram á styrk til hennar, niðurborgun á rafmagni, afskriftir á kostnað ríkisins eða neitt annað slíkt. Þetta er fyrirtæki, sem algerlega stendur undir sér og er gott fyrirtæki, sem þjónar hagsmunum almennings og stóriðnaði í landinu og fær ekki, þótt við getum gjarnan sagt máske: á ekki einu sinni að græða sjálft, — en á þarna um leið undir ríkinu, að því sé sýnd full sanngirni, að það sé ekki sett við allt annað borð og sett skör lægra, en allir aðrir í landinu á sama sviði.

Ég álít, að það eigi að afnema úr þessu frv. það ákvæði, sem skuldbindur stjórn Sogsvirkjunarinnar til þess að greiða þetta til baka í hlutfalli við breytingu á vísitölu framfærslukostnaðar. Máske vilja einhverjir hv. þdm. segja, að þetta sé nú ekki á okkar valdi, það sé aðalbankastjóri seðlabankans, sem hafi sagt þetta, og þá sé ekkert að segja, Alþingi hafi ekkert að segja. Ef ég man rétt, var verið að tala um það hér nýlega af einum háttsettum manni í voru þingi, að það ætti ekki að láta hin og þessi öfl utan þingsins ráða. Ég vil nú spyrja hv. þdm.: Er meiningin, að einhverjir og einhverjir embættismenn ríkisins geti sagt Alþingi fyrir verkum í þessum efnum, embættismenn, sem eru settir samkvæmt lögum á þessu þingi og samkvæmt ákvörðunum þess, er meiningin, að slíkir embættismenn eigi að fara að geta skipað okkur, hvernig þessir hlutir eigi að vera? Það er sitthvað, hvernig Alþingi kann að álíta rétt og ríkisstj. þess að semja við samtök manna í landinu, verkamanna, bænda, atvinnurekenda eða annarra slíkra, en sína eigin embættismenn á Alþingi ekki að láta skipa sér fyrir, hvað eigi að gera. Og hér er um það að ræða, eins og ég hef upplýst, að stjórn seðlabankans hefur aldrei um þetta mál fjallað. Aðalbankastjóri seðlabankans hefur hins vegar látið þetta álit í ljós. Meiri hluti stjórnar Sogsvirkjunarinnar hefur beitt sér fyrir því, og því er þetta frv. komið þetta langt. Ég álít, að svo megi ekki fara að. Ég álít, að Sogsvirkjunin eigi að fá lán með venjulegum kjörum, og svo fremi sem það skyldi koma í ljós, þegar stjórn seðlabankans fjallar um þetta mál, að meiri hluti hennar væri á móti slíku, þá er Alþingi sú stofnun, sem getur lagt fyrir stjórn seðlabankans að lána með þeim kjörum, sem Alþingi ákvarðar. Það er þó a.m.k. Alþingi, sem er húsbóndi í heimilum ríkisins og ríkisstofnana landsins, sem eru til fyrir þess tilverknað og stjórnað eftir þess ákvæðum. Þeim getur Alþingi sagt fyrir verkum, og ég held það sé þá bezt, að Alþingi sýni, að það sé húsbóndi á sínu heimili hvað þetta snertir, og sé stjórn seðlabankans ekki reiðubúin til þess, þegar hún loks fær að fjalla um þetta mál, að breyta þessu ákvæði, þá leggi Alþingi svo fyrir, að seðlabankinn skuli lána a.m.k. helming þessa sjálfur, kaupa helminginn af þessum skuldabréfum sjálfur. Ég vil minna á það einu sinni enn: Til hvers er stjórn Sogsvirkjunarinnar að taka þetta lán? Til þess að borga ríkinu, til þess að borga fjmrh. Og mér væri nú næst að spyrja, ef nokkur ráðherranna væri við, hvað bankamálaráðherrann segði um það, hvort honum fyndist ekki sanngjarnt, hæstv. bankamálaráðherra, að seðlabanki ríkisins lánaði með eðlilegum kjörum fyrirtæki, sem heyrir undir hæstv. rafmagnsmálaráðherra, lánaði því með eðlilegum kjörum fé til þess að greiða hæstv. fjmrh. Því miður eru nú þessir þrír hæstv. ráðh., sem um þetta ættu að fjalla, ekki við sem stendur, en gott hefði verið, að þeir hefðu nú fjallað um þetta, hæstv. bankamálaráðherra og hæstv. rafmagnsmálaráðherra og hæstv. fjmrh., ekki sízt fyrst þeir eru nú allir saman úr sama flokki, hvort þeir gætu ekki komið sér saman um, á hvern hátt þessar 30 millj. kr. væru teknar úr einu fyrirtæki ríkisins, greiddar í gegnum annað fyrirtæki ríkisins og til þriðja fyrirtækis ríkisins. Maður getur stundum skilið, að það sé kannske dálítið erfitt að koma svona málum fyrir, þegar ráðh., sem hafa með þetta að gera, eru sinn úr hvorum flokki og halda fast hver í sinn enda kannske. Þegar þeir eru nú allir saman úr sama flokknum, ættu þeir nú a.m.k. að geta komið sér saman um þetta.

Ég held þess vegna, að það sé full nauðsyn á, að þetta frv., sem lagt hefur verið til að fari til fjhn., sem ég er fyllilega samþykkur, fái þá athugun í þessari nefnd, að það sé gengið úr skugga um það í fyrsta lagi, hvort stjórn seðlabankans setji það sem skilyrði fyrir lánum, þegar eitt ríkisfyrirtæki á að fá lán til þess að greiða ríkissjóði, að það eigi að greiðast til baka með vísitöluálagi, og svo fremi sem það kynni að sýna sig, þegar stjórn seðlabankans loksins fengi að fjalla um þetta mál, að slík krafa væri gerð, þá held ég, að það væri tími til kominn, að Alþingi tæki þá til athugunar, hvort það tekur ekki til sinna ráða og leggur fyrir stjórn seðlabankans, með hvaða hætti eigi að veita slík lán. Og ég vil segja það, að taki stjórn seðlabankans þannig á svona málum, þegar hún færi að fjalla um þetta, að það sé farið að setja einu fyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurbæjar, sem vinnur á þann hátt, sem ég hef nú lýst, í almenningshag, skilyrði, sem engum öðrum eru sett, þá er fyllilega tími til kominn, að Alþingi taki seðlabankann og lögin um hann til endurskoðunar. Ég gerði mínar athugasemdir við þann banka og þau lög, þegar þau voru sett hér á þinginu, og ég held, að það væri þá fyllilega tími til kominn, að Alþingi tæki til athugunar, hvernig stjórnin á þeim banka hefði verið og er, og við fjölluðum þá betur um þetta mál, máske í sambandi við frv., sem kæmi þá fram viðvíkjandi stjórn seðlabankans. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess við þá nefnd, sem þetta mál nú fer til, að hún taki þetta mál til rækilegrar athugunar. Ég þykist hafa sýnt fram á, að það sé ekkí sanngjarnt að taka stjórn Sogsvirkjunarinnar og Sogsvirkjunina sérstaklega út úr af öllum fyrirtækjum landsins til þess að láta það búa við lakari kjör en öll önnur, — að það sé sízt af öllu sanngjarnt að gera þetta, þegar um það sé að ræða að taka lán upp á 30 millj. kr. einvörðungu til þess að greiða skatta og skyldur til ríkisins, einvörðungu til þess að greiða tolla og gjöld til ríkisins af vélum og efni til þessarar Sogsvirkjunar, sem við nú stöndum í. Og ég vil ekki sízt leggja áherzlu á þetta vegna þess, eins og ég hef sýnt fram á, að það, að stjórn Sogsvirkjunarinnar verður að sækja um lán til þess að geta lokið Sogsvirkjuninni hvað þetta snertir, er vegna þess, að það var ekki hægt að fá það í gegn að nota þá möguleika, sem fyrir hendi voru, til þess að taka alveg fullnægjandi lán til Sogsvirkjunarinnar, þannig að aldrei hefði til þess komið, að hún hefði þurft að fara fram á það meira að segja við aðalbankastjóra seðlabankans að taka þessi lán, þessar 30 millj. kr., með þeim hætti, sem hér er áskilinn.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þetta frv. verði endurskoðað þannig í þessari hv. d., að Sogsvirkjunin fái að sitja þar við sömu kjör og önnur rafmagnsfyrirtæki ríkisins, og heimta ég þó ekki, að þetta sé framkvæmt nema hvað snertir vaxta- og greiðsluskilmála hjá bönkum ríkisins, því að ég er ekki að fara fram á, að Sogsvirkjunin fái sömu hlunnindi og ýmis önnur fyrirtæki ríkisins hvað afskriftir og eftirgjafir snertir.

Ég vil leyfa mér að vona, að hv. fjhn. endurskoði þess vegna þetta frv. vel og rækilega og breyti því og gangi úr skugga um það, máske líka með því að kalla stjórn seðlabankans á sinn fund, hvernig hér er málum háttað og hvort nauðsyn er á því og að nokkru leyti rétt að láta þetta mál halda áfram í þeim búningi, sem það nú er, hvort ekki sé hægt að kippa vísitöluákvæðinu alveg út úr því við meðferðina við 2. umr. í þessari hv. deild.