27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

65. mál, virkjun Sogsins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. fjhn., þar sem lagt er til, að frv. það, sem hér um ræðir, verði samþ., með fyrirvara, og vildi ég aðeins gera grein fyrir þeim fyrirvara.

Það er mín skoðun, að það sé tæplega heppilegt ráð til að gera skuldabréf, eins og hér um ræðir, seljanlegri til almennings að miða þau við rafmagnstaxtana, eins og seðlabankinn hefur lagt allt kapp á. Ég er þeirrar skoðunar, að fólk almennt muni að mjög takmörkuðu leyti geta áttað sig á því, hvað í vændum sé um hækkaða rafmagnstaxta, a.m.k. eins og verið hefur, sem gefi því alveg sérstakt eða aukið tilefni til þess að kaupa slík skuldabréf. Það hefur sjálfsagt hver sína skoðun um þetta, en ég vil láta þetta koma fram. Ég tel þetta töluvert hæpnar skoðanir, sem fram komu hjá seðlabankanum um þetta atriði.

Og loksins vildi ég í sambandi við þennan fyrirvara minn víkja að því, sem seðlabankinn í bréfi sínu hefur látið í ljós, að hann mundi ábyrgjast sölu á nokkrum hluta bréfanna eða e.t.v. öllum, eftir að hafa átt samráð og samstöðu við aðra banka um það. Seðlabankinn lýsir yfir sjálfur, að hann geti ekki keypt þessi bréf, m.ö.o. lánað í þetta, en víkur að því þarna, að hann muni e.t.v., eftir að hafa átt samráð og samstöðu við aðra banka, geta hlaupið hér eitthvað undir bagga, þá væntanlega með því að hafa áhrif á þá til þess að kaupa þessi bréf. Þetta tel ég líka mjög vafasamt að gefa í skyn og það almennt, vegna þess að vitað er, að viðskiptabankarnir í landinu, sem áður lögðu af mörkum eftir samkomulagi við ríkisstj. ákveðnar fjárupphæðir til hinnar almennu rafvæðingar, hafa þurft að draga við sig þær lánveitingar nú að undanförnu, vegna þess að fjárskortur þeirra hefur verið svo mikill til þess að mæta hinni eðlilegu eða hinni stórauknu rekstrarlánsfjárþörf atvinnuveganna.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að það sé sem sagt tvennt athugavert við þetta, þótt ég styðji málið og vilji fylgja því, sem ástæða sé til að hafa fyrirvara um, að ég trúi ekki á þessa verðtryggingu sem verulegt agn til almennings, svo að hann fáist til þess að kaupa bréfin, og tel engar líkur til þess, eins og nú standa sakir, að aðrir bankar séu nokkuð fremur færir en seðlabankinn til að taka að sér sérstakar lánveitingar til þessara framkvæmda.