14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Forseti (EOl):

Þessi útvarpsumr. fer fram á þann hátt, að það verða sem að vanda tvær umferðir. Flokkarnir tala í þessari röð: Fyrst Sjálfstfl., síðan Framsfl., svo Alþfl. og þá Alþb.

Fyrri umferðin verður 25-30 mín., síðari umferðin 15-20 mín.

Fyrstur tekur til máls fyrir hönd Sjálfstfl. fyrsti flm. frv., hv. þm. G-K., Ólafur Thors. Flm. ( Ólafur Thors): Herra forseti. Ég mun mæla hér aðeins örfá orð, m.a. vegna þess, að ég tel réttast, að það sé rödd sveitanna, sem nú hljómar í sölum Alþingis og ber bergmál sannleikans um víðan fjallasal og fram til fremstu flæða.

Þegar þrír svo óskyldir flokkar sem Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. hafa nú sameinazt um hið mikla mál, sem hér er fram borið, er það ekki eingöngu gæfumerki, heldur einnig vottur um svo augljóst réttlætismál, að sérstætt innræti þarf til þess að standa gegn því.

Efni þessa frv. um breytingu á kjördæmaskipan, sem hér er til umr., er orðið þjóðinni kunnugt. Hin nýja kjördæmaskipan, sem nú verður lögfest, mælir fyrir um, að landinu verði skipt í átta kjördæmi. Í fimm þeirra séu kosnir 5 þm., í tveimur 6 og loks í Reykjavík 12. Skulu þeir allir kosnir hlutfallskosningu. Uppbótarsæti verða 11. Þingmenn verða þannig alls 60.

Flm. frv. eru trygging fyrir því, að það verður samþykkt á þessu þingi.

Á þeim örfáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, getur enginn vænzt þess, að mér takist að tilgreina öll rök, er að máli þessu hníga, né heldur að tæta rökvillur framsóknarmanna í sundur, svo sem maklegt væri og efni standa til. En aðalatriðin skal ég drepa á.

Kjördæmaskipan sú, sem við nú búum við, er svo óréttlát, að jafnvel framsóknarmenn treystast ekki til að mæla henni bót í orði. Í verki berjast þeir þó fyrir henni með því að benda á þær einar breytingar, sem jafnvel þeir sjálfir sjá að mundu auka, en ekki minnka ranglætið, og þeir einnig vita með vissu, að enginn ljær fylgi nema þeir einir og því bera dauðann í skauti sínu.

Við stuðningsmenn þessa frv. horfumst hins vegar í augu við staðreyndirnar. Á undanförnum áratugum hafa orðið eindæma miklir fólksflutningar frá dreifbýlinu til þéttbýlisins við sunnanverðan Faxaflóa. Fólkið, sem talið hefur sér bústaðaskipti til hagsbóta, neitar að skilja kosningarréttinn eftir í heimahögunum. Í nafni lýðræðis og þingræðis krefst það þess að njóta helgustu mannréttinda þrátt fyrir bústaðaskiptin. En þetta fólk hefur flutt átthagaástina með sér. Það gleymir ekki sveitinni sinni. Fyrir því játar það, elns og raunar flestir okkar, sem í þéttbýlinu búum, að svo sem þjóðhögum okkar er háttað, sé það nauðsynlegt, að sérhvert atkvæði í dreifbýlinu vegi þyngra, en atkvæði þéttbýlisins. Þess vegna leggur það og við öll, sem að þessu frv. stöndum, til, að það þurfi allt að þrjú atkvæði þéttbýlisins til að jafngilda einu atkvæði dreifbýlisins. Við viljum að sönnu ekki láta hafa rétt okkar að háði. Þannig viljum við t.d. ekki una því lengur, að 8.201 kjósandi fái að senda á þing 10 þm., eingöngu vegna þess að Framsfl. fékk þá alla, en 7.515 kjósendur kjósi aðeins 1 þm., eingöngu af því að þeir kusu sjálfstæðismann, svo sem átti sér stað við síðustu alþingiskosningar. En við viljum með mestu ánægju draga fram hlut dreifbýlisins á kostnað okkar, sem í þéttbýlinu búum. Og þetta viljum við fyrst og fremst vegna þess, að við skiljum og metum hinn geysimikilvæga þátt dreifbýlisins og þá fyrst og fremst bændanna í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar, og skiljum þess vegna vel, að það er sameiginlegur hagur allra Íslendinga, að við þéttbýlismenn afsölum okkur svo miklum hluta valds okkar til sveitanna til þess með þeim hætti að tryggja hag þeirra og velfarnað.

Þetta eru í stórum dráttum okkar sjónarmið, einföld, auðskilin og sönn.

Það er gegn þessum málstað lýðræðis, þingræðis og réttlætis, sem Framsfl. fer nú hamförum.

En berserksgangur getur aldrei komið í stað raka. Hvaða lifandi maður getur t.d. vænzt þess að vinna á lýðræðinu með þeim fullyrðingum, að kjördæmi megi aldrei breyta um nafn og þaðan af síður stækka. Núverandi kjördæmi eru ákvörðun danskra einvalda, en enginn helgidómur. Það er aumkunarverð fátækt að hampa svona barnaskap og kalla það höfuðrök í stærsta máli þjóðarinnar. Eða hvaða framsóknarmaður dirfist í alvöru að mótmæla endurreisn lýðræðisins með þeirri rökvillu, að eigi Hermann Jónasson eða Eysteinn Jónsson, hvor um sig studdur af fjórum þeim jafngildum þingmönnum, að gæta hagsmuna kjósendahóps, sem þó ekki er stærri en svo sem 3/4 hlutar kjósenda í því kjördæmi, sem mér einum hefur verið falinn þessi trúnaður fyrir í nær hálfan fjórða áratug, þá sé andlegum og veraldlegum velfarnaði þessara kjósenda Hermanns og Eysteins stefnt í voða? Ég segi bara: Veslings Hermann og aumingja Eysteinn! Það sýnir sannarlega ekki hágengi á þessum mætu mönnum í Framsfl., ef þetta eiga að vera aðalrökin. Sannleikurinn er sá, að því fer svo víðs fjarri, að hlutur kjósenda versni af þessu, að hann einmitt stórbatnar. Veldur þar um margt og þ. á m. það, að með þessari skipan getur hver og einn kjósandi dreifbýlisins valið milli 5–6 þingmanna um allan erindisrekstur. En fyrir heill kjördæmisins og hagsmuni alla varðar það þó mestu að eiga jafnan þingmann í flestum eða öllum flokkum Alþingis og þannig ítök jafnt í stjórn sem í stjórnarandstöðu.

Fram að þessu hefur þetta tvennt: heiti og stærð kjördæmisins og að samband þingmanns og kjósenda muni rofna, átt að vera aðalrök fyrir málstað framsóknarmanna. Skyldi það ekki enda á því, að fjölgun þingmanna um átta eigi að verða stóra fallbyssan? En í hana vantar þó bæði kúluna og púðrið. Þegar Alþingi var endurreist 1845, voru Íslendingar um 58 þúsundir. Þingmenn voru þá 26, og kvartaði þó þjóðin sáran, svo að 17 bænaskrár bárust um fjölgun þingmanna, og stóð þá Jón Sigurðsson jafnan fremstur í þeirri fylkingu. Nú eru Íslendingar um 170 þúsundir. Ætti þá Alþ. í hlutfalli við fólksfjölgunina að vera skipað 76 mönnum, en ekki 60, en þjóðin þó að bera fram harðar kröfur um að fá 125 þingmenn.

Heyrzt hafa Framsóknarraddir um kostnaðaraukann, sem af fjölguninni muni leiða. Þeim til hugarléttis vil ég upplýsa, að 1942, þegar tala þingmanna var ákveðin 52, voru starfsmenn stjórnarráðsins að meðtöldum undirdeildum 70. Síðan hefur fjölgað ört í Framsóknarfjölskyldunni þar. Hópurinn hefur vaxið úr 70 í 142, þ.e.a.s. meira en tvöfaldazt.

En auk þess er rétt að benda á, að hin nýja kjördæmaskipun stóreykur líkur fyrir sterkri ríkisstjórn. Mætti vel af því leiða, að þinghald styttist um allt að helming. Það er því langsennilegast, að breytingin leiði til sparnaðar.

Staðhæfingunni um fjölgun smáflokka vegna stækkaðrar kjördæmaskipunar læt ég bæjarstjórn Reykjavíkur um að svara. Þar eru 15 fulltrúar, kjörnir hlutfallskosningu samtímis. Þar eru flokkarnir fjórir, þeir sömu og á Alþingi. Að sönnu krækti smáflokkur, sem heitir Framsóknarflokkur, sér í einn af þessum fulltrúum. En sama smáflokki áskotnuðust líka 17 af 52 þingmönnum vegna hróplegs ranglætis þeirrar kjördæmaskipunar, sem hann nú heldur dauðahaldi í.

Eru þá hroðnir allir drekar framsóknarmanna.

Það er aldrei sigurstranglegt að gerast málsvari ranglætisins. Framsóknarmenn munu sanna það í þessu máli. Mótbárur þeirra gegn till. okkar getur hvert mannsbarn tætt í sundur, og gera þó till. þeirra sjálfra hlut þeirra enn smærri og ömurlegri.

Þeir vilja það eitt að úthluta þéttbýlinu einum og einum þingmanni, en afnema jafnframt uppbótarþingmennina. Með þessu er svo hróplega gengið á rétt Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins, að jafnvel römmustu andstæðingar þeirra, eins og við sjálfstæðismenn, getum ekki orða bundizt. Þannig mundu samkvæmt tillögu Framsfl. t.d. falla ógild fleiri atkvæði þessara tveggja flokka, en samanlögð atkvæðatala Framsfl. sjálfs um gervallt Ísland var við alþingiskosningarnar 1956.

Og þegar forustumenn Alþfl. og Alþb. sýna fram á gerræðið í þeirra garð, svara framsóknarmenn með því að kalla þá „blinda foringja“ og bæta svo við, að þeir séu fullsæmdir af þessu, ef „vinstri menn sameinist“, eins og þeir orða það. Umbúðalaust þýðir þetta, að vilji þessir flokkar ganga í Framsóknarflokkinn, fái þeir þennan líka fyrirtaks kosningarrétt.

Margir kannast við söguna um landskunnan Framsóknarhöfðingja, sem í spaugi sagði, að ástæðulaust væri að fást um, þótt sérhver kjósandi framsóknarmanna hefði margfaldan rétt á við aðra kjósendur. Allir ættu þess kost að rétta hlut sinn og öðlast þennan sama rétt. Til þess þyrfti ekki annað en að ganga í Framsfl. Nú er þetta orðin alvara framsóknarmanna. Það er engu líkara, en að feigð klíkuvaldsins sé þegar búin að yfirþyrma alla dómgreind þeirra.

Framsóknarmenn hafa kallað þessa kjördæmabreytingu byltingu í þjóðlífi Íslendinga, og vissulega má til sanns vegar færa, að íslenzkt lýðræði og íslenzkt þingræði mun nú bylta af sér því fargi, sem þröngsýnir sérhagsmunamenn um langt skeið hafa lagt á eðlilega og farsæla þróun íslenzkra þjóðmála. Þessi fámenni sérhagsmunahópur, sem misnotað hefur samvinnufélögin og ekki skirrzt við að tefla hagsmunum þeirra í tvísýnu til þess að tryggja sjálfum sér vald yfir málefnum Íslendinga, langt umfram það, sem vilji kjósenda landsins hefur staðið til, finnur nú, að sú spilaborg riðar til falls. Þeim skilst, að um leið og ranglætið verður látið víkja fyrir réttlætinu, víkur líka vald þeirra sjálfra fyrir vilja og valdi þjóðarinnar.

Í ljósi þessara staðreynda verða menn að dæma æðisgengin fjörbrot framsóknarmanna gegn þessu mikla frelsismáli. En lýðræðið verður endurreist á Íslandi, hvað sem sérhagsmunamennirnir segja.

Tími minn er nú á þrotum. Lokaorð mín í kvöld verða þessi:

1) Vegna hinna miklu fólksflutninga undanfarinna áratuga eru Íslendingar ekki lengur aðallega hvað þá eingöngu bændaþjóð.

2) Þungamiðja valdsins hlýtur hér sem alls staðar annars staðar að færast til með fólkinu sjálfu.

3) Af því leiðir, að ekki er auðið að standa gegn kjördæmabreytingu.

4) Vald sitt tryggja sveitirnar þess vegna bezt og raunar aðeins með því móti að gera Sjálfstfl. og aðra þá, sem mestu ráða í þéttbýlinu, sér bæði vinveitta og háða, — og þá jafnframt að forðast eftir föngum þá, sem með úlfúð og ýfingum hafa gerzt fjandmenn þéttbýlisins, svo sem framsóknarmenn hafa gert.

Hér við bæti ég svo aðeins því, að okkur sjálfstæðismönnum skilst til hlítar:

1) Hvort heldur sem lítið er til menningareða atvinnulífs þjóðarinnar, veltur á öllu að viðhalda blómlegum búskap í landinu.

2) Það er því aðeins auðið, að fólkinu, sem þar býr, verði tryggð lífskjör, ekki verri en öðrum.

Þetta er leiðarljós okkar sjálfstæðismanna í leitinni að farsæld öllum Íslendingum til handa. Látið þið, hv. hlustendur, þá staðreynd verða ykkar leiðarstjörnu við þær kosningar, sem nú fara í hönd. — Góða nótt.