14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti, háttvirtu áheyrendur. Það er gömul saga og ný, þegar heit deilumál eru til meðferðar, að framsóknarmenn finna upp einhver slagorð og hamra á þeim alla daga, eins og þar væri sannleikurinn allur. Nú eru þau einkum tvö og á þessa leið: Það á að leggja niður öll kjördæmi landsins nema Reykjavík, og þetta á að gera, svo að hægt sé að minnka framkvæmdirnar í dreifbýlinu. — Hvort tveggja er ósatt. Það á að leggja niður aðeins eitt kjördæmi, Seyðisfjörð, þetta 400 kjósenda kjördæmi. Hvergi annars staðar á landinu verða þingfulltrúar færri, en er og víða fleiri. Ef framkvæmdir um land allt verða minni á næstunni, en verið hefur síðustu árin, þá er það ekki vegna kjördæmabreytingarinnar, heldur vegna viðskilnaðar vinstri stjórnarinnar. Sú stjórn hækkaði tolla og skatta á þjóðinni frá því, sem áður var, um 1.200 millj. kr. og tók samtímis lán erlendis meira en 600 millj. kr., sem þýðir 1.000 millj. skuldabagga með 55% viðbótargjaldinu. Það var því ekki þakkarvert, þó að hægt væri að hafa miklar framkvæmdir og næga atvinnu, á meðan þetta var að eyðast. En allir vita, að slíkri vitfirringu er ekki hægt að halda áfram. Þess vegna hrökklaðist vinstri stjórnin frá völdum 4. des. s.l. og þess vegna er hætt við, að framkvæmdir verði að minnka án alls tillits til þess, hvort kjördæmin verða stækkuð eða ekki.

Það er alkunnugt, að Framsfl. hefur alla sína tíð hagnazt einn allra flokka á núverandi kjördæmaskipulagi. Honum bar því sérstök skylda til að vernda það. En hann gerði annað. Hann gekk fram fyrir skjöldu í síðustu kosningum til að brjóta það niður. Þegar svo var komið, hlutu allir að sjá, að þá hlyti þetta gallaða skipulag að hverfa.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur lengi verið ósammála um kjördæmamálið. Nú hefur hann þjappazt saman. Það er Framsfl. að þakka, og ég vil vona, að eins fari um alla kjósendur Sjálfstfl. í landinu. Ég veit, að þeirra hugarfar er þannig, að þeir vilja ekki láta bjóða sér það oft, að þrjá sjálfstæðiskjósendur þurfi gegn einum framsóknarkjósanda, eins og nærri stappaði að meðaltali í síðustu kosningum.

Það, sem gera á með þessu frv., er að lögleiða það, að héruðin hafi samvinnu í kosningum og um þingmenn eftir föstu skipulagi og miðað við eðlilega landshætti. En samvinna er ekki sama og dauði, heldur aukinn styrkur, og það eru meinleg örlög, að þeir, sem mest útmála ást sína á samvinnu, skuli nú hatast við það, að 3–4 sýslufélög kjósi þm. sameiginlega og í eðlilegum hlutföllum, þ.e. verði í samvinnu á áhrifamikinn hátt. Þetta eru varnarráðstafanir, en ekki hefnd. Hefndina annast örlögin sjálf. Og þetta er vel mögulegt nú orðið, af því að samgöngur og samgöngutæki hafa batnað svo á síðari árum, að nú er miklu þægilegra víðast hvar að ferðast um hin stóru kjördæmi, en var um þau, sem nú eru, fyrir 20–25 árum.

Það er óhætt að segja, að fólkið í sjálfstæðiskjördæmunum og tvímenningskjördæmunum, sem hafa sinn þm. af hvorum flokki, þekkir ekki nema beztu hliðina á núverandi skipulagi. Fyrir því er greitt eftir föngum. En það er öðru máli að gegna með minni hlutann í sumum framsóknarkjördæmunum, og það er engin tilviljun, að sú rödd kemur af Austurlandi, sem birtist í hinni ágætu grein Páls hreppstjóra á Gilsárstekk fyrir skömmu. Þar talar maður, sem þekkir kúgunarvaldið, og því er ekki að leyna, að sumir sjálfstæðismenn í framsóknarkjördæmunum hafa sagt við mig: „Við vildum heldur, að okkar sýsla hefði engan þm. en þennan, sem er.“ Nú má ætla eftir breytinguna, að hvert kjördæmi hafi þingmenn úr tveimur eða þremur flokkum og hver kjósandi geti valið um fimm eða sex þm. síns kjördæmis til að greiða fyrir sínum málum. Það þýðir aukið frelsi, aukinn styrk.

Ég hef í 26 ár haft greinda og heiðarlega kjósendur, og svo er enn. Þeir hafa alltaf skilið mig rétt og staðið með mér hiklaust í baráttunni fyrir réttum málstað. En ég hefði haft enn sterkari aðstöðu, ef ég hefði haft að baki mér kjósendur í þremur sýslum heldur en einni. Þetta munu fleiri geta sagt, og svo mun verða. Það munu líka fáir trúa því, að ég væri nokkuð verri fulltrúi fyrir mína kæru Húnvetninga, þó að ég væri líka kosinn af vinum mínum í Vestur-Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu og Siglufirði. Því rugli trúir heldur enginn greindur maður, að heiðarlegir alþingismenn sinni síður vandamálum sinna kjósenda, þó að þeir séu kosnir hlutfallskosningu. Dæmin úr tvímenningskjördæmunum eru þar til sönnunar.

Af smáu kjördæmunum er ekki heldur glæsileg reynsla. Má þar til sönnunar nefna 9 fámenn kjördæmi úr síðustu kosningum, þar sem þó er eitt tvímenningskjördæmi. Í þeim öllum til saman komu fram 7.520 gild atkvæði. Fékk Framsfl, af þeim 4.100 atkvæði og alla þm., 10 að tölu. Sjálfstfl. fékk 2.500 í þessum kjördæmum og engan þm. kosinn, en að minnsta kosti 400 af atkvæðum Framsfl. í þessum kjördæmum voru lánuð frá Alþfl. Mundi nú ekki þessum 2.500 kjósendum Sjálfstfl. í þessum kjördæmum finnast eðlilegra, að þeir fengju einhverja þm., þó að dreifðir séu?

En framsóknarmenn vilja svo gott sem taka atkvæðisréttinn af minni hlutanum. Þeir vilja skipta landinu í einmenningskjördæmi, þar sem þeir hafa von um fylgi, en hafa hlutfallskosningu, þar sem þeir hafa minnst traust, og uppbótarþm. vilja þeir enga til að forðast jöfnuðinn. En er það nú víst, að þessum mönnum sé eins mikil alvara og þeir láta? Ég er ekki viss um það. Öll þeirra æsing og læti í þessu máli er skiljanleg. Það er eðlilegt manneðli að grípa hvert hálmstrá, þegar voði er fram undan. Allur hamagangurinn gegn kjördæmabreytingunni er til þess gerður að leiða athygli fyrri kjósenda Framsfl. frá því allsherjar gjaldþroti og einangrun, sem flokkurinn hefur steypt sér í síðustu þrjú árin. E.t.v. tekst þetta að einhverju leyti. En mikil undur mega teljast, ef þessi flokkur getur haldið saman öllu sínu fyrra fylgi eftir allt, sem saga hans sýnir á þessum tíma. En nú hafa framsóknarmenn tækifæri til að flytja till. um sína meirihlutakosningaaðferð.

Landinu verður skipt í átta kjördæmi. Að hafa meirihlutakosningar í þeim öllum væri sannarlega áhættuminna, en að hafa meirihlutakosningu uppbótalausa í t.d. 52 einmenningskjördæmum. Setjum svo, að þetta hefði gerzt í síðustu kosningum. Þá hefði Framsfl. fengið alla þm. í tveimur þessara kjördæma, en Sjálfstfl. í sex. Það er sama reglan um fulltrúakjör, sem gildir í verkalýðsfélögum og flestum kaupfélögum hér á landi, og sama reglan, sem gildir í miklu stærri kjördæmum í Bandaríkjunum við undirbúning forsetakjörs. En þessu hefði fylgt það, að tveir núverandi þingflokkar, Alþfl. og Alþb., hefðu engan þingmann fengið. Þessir flokkar fengu þó full 31 þús. atkv. alls. Framsóknarmenn vilja e.t.v. hafa þetta svo, en við sjálfstæðismenn erum ekki svona drápsgjarnir. Við teljum meirihlutakosningu uppbótarlausa ekki sanngjarna. Við viljum vinna okkar sigra á málefnislegum grundvelli eins og hingað til.

Í þeim löngu viðræðum þeirra flokka, sem að stjórnarskrárfrv. standa, hefur enginn ágreiningur verið um hlutfallskosninguna og ekki heldur um kjördæmaskiptinguna, en það eru tvö aðalatriði þessa máls. Það, sem tafið hefur, er eðlilega deila um þingmannatölu, uppbótarsæti, úthlutun uppbótarsæta og ýmis smærri atriði. Þegar margir ólíkir aðilar þurfa að semja um svo viðkvæmt vandamál sem kjördæmamálið er, þá er engin furða, þótt ekki séu allir ánægðir með hvert atriði. Það ættu þeir bezt að skilja, sem aldrei koma sér saman um neina frambærilega tillögu og þess vegna hafa alveg einangrað sig. En málið verður að afgreiða. Það má ekki lengur standa í vegi fyrir heilbrigðu stjórnarfari, og nú er líka ætlazt til, að þetta mikla vandamál sé afgreitt til langrar framtíðar. Má telja mikils vert, ef sú deila er úr sögunni á næstu áratugum.

Menn tala sumir um það, að með hinu nýja skipulagi verði val frambjóðenda alveg á valdi flokksstjórna, þeir verði allir kaupstaðarmenn o.s.frv. Ég sé ekki, að þetta þurfi að vera frekar, en er. Allt það tal er vantraust á sveitirnar og hæfileika bændastéttarinnar, því að auðvitað hafa þeir mesta möguleika til framboðs, sem hafa almennast traust á hverju svæði. Ekki fer þetta tal heldur vel í munni framsóknarmanna, þó að oft séu þeir að lýsa sinni bændavináttu. Af 17 þingmönnum þeirra eru 6 búsettir Reykvíkingar, 7 í öðrum kaupstöðum og kauptúnum, en aðeins 4 í sveitum. Sumir þessir menn hafa reynzt vel, aðrir illa, eins og gengur. Hitt er víst, að enginn flokkur á Íslandi hefur gengið eins langt og Framsfl. í yfirgangi yfir kjósendum með framboð og fleira. Meðal margs annars hafa þeir fyrirskipað sínum kjósendum í heilum héruðum að kjósa frambjóðanda annars flokks og fengið það samþykkt, löngu áður en kjósendurnir vissu, hver frambjóðandinn yrði. Þegar svo slíkir menn eru að ógna með flokksvaldi annarra, þá er það skoplegra, en flest annað. Og það er samt víst, að um valdbeitingu flokksstjórnar mun Sjálfstfl. aldrei ganga slíkar Tímamannagötur, á meðan núverandi leiðtogar þess flokks eru lifandi.

Hv. þm. N-Þ. var með ýmsar ásakanir til sjálfstæðismanna, einkum til formanns flokksins, Ólafs Thors, og varaformannsins, Bjarna Benediktssonar, fyrir skoðanabreytingu og fleira. Því er til að svara, sem ég hef áður nefnt, að við sjálfstæðismenn höfum hreyft ýmsum leiðum til úrlausnar þessu vandamáli, en framsóknarmenn verið á móti öllum breytingum. Þó að þeir séu að ásaka stjórnarskrárnefnd og einkum formann hennar, Bjarna Benediktsson, hafa þeir allra manna sízt ástæðu til þess, því að það voru einkum þeir, sem þvældust fyrir starfi þeirrar nefndar. Og ég vil spyrja: Hvers vegna hafa þeir aldrei beðið um fund í þessari nefnd á margra ára tímabili? Sennilega er þetta af því, að þessir menn töldu þessa nefnd svo gott sem úr sögunni, og það er það, sem þeir vildu. Ásakanir hv. þm. N-Þ. eru því tilefnislausar. Skoðanir manna breytast á skemmri tíma en 15–20 árum. Og þegar um fleiri kosti er að velja, taka menn ævinlega þann bezta og þann, sem er þó framkvæmanlegur.

Varðandi sjálfan mig er það að segja, að afstöðu mína þarf enginn að undrast, því að fyrir rúmum 6 árum, þann 3. marz 1953, birti ég í Ísafold grein um kjördæmamálið og lagði til þá sömu kjördæmaskiptingu sem nú er ákveðin, að öðru leyti en því, að ég lagði til, að Reykjavík væri skipt í þrjú kjördæmi. Ég varð þess ekki var í kosningunum fáum vikum síðar, vorið 1953, að nokkurrar óánægju gætti í mínu kjördæmi vegna skoðana minna í þessu vandamáli.

Þetta vandasama stórmál verður nú afgreitt hér á Alþingi, eins og vera ber, annaðhvort eins og það liggur fyrir eða lítið breytt. Að því standa, eins og komið hefur í ljós, þrír fjölmennustu stjórnmálaflokkar landsins. Þeir fengu samtals í síðustu kosningum yfir 66 þús. atkvæði. Málið verður því raunverulega afgert á þessu þingi. Kosningarnar í vor verða, eins og áður hefur verið, um flokka, stefnur og menn. Afgreiðslu þessa máls geta þær ekki breytt. Það er af því, að svo margir af frambjóðendum þriggja flokkanna eru öruggir í þessum kosningum, að úrslit kosninganna í vafakjördæmunum geta engu breytt um afgreiðslu þessa máls. Í haust verður svo kosið aftur og þá eftir hinu nýja skipulagi. Þá fær hver flokkur þingmenn í réttum hlutföllum. Við skulum vona, að það gefist þjóðinni vel. — Góða nótt.