14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forsetl. Jón Pálmason lýsti því hér yfir, að framkvæmdir verði að minnka. Hann kom með þá kyndugu blekkingu, að það væri vegna viðskilnaðar vinstri stjórnarinnar. Hvernig má slíkt ske, þar sem sú stjórn skilaði greiðsluafgangi? En það er gott, að þessi yfirlýsing kemur svona skýrt fram, og kemur hún heim við það, sem við höfum upplýst að til standi.

Nú heyrum við, að það þurfi að gerbreyta kjördæmaskipuninni vegna réttlætisins. Það þarf að breyta henni, en ekki gerbylta. Sjálfstæðismenn ættu ekki að vera að hæða sjálfa sig með því að minnast á réttlæti í sambandi við kjördæmamálið. Eftir 1953, þegar nærri lá, að Sjálfstfl. fengi hreinan meiri hl. með 37% atkvæða eða svo, var flokkurinn ánægður með kjördæmaskipunina, og ekkert vantaði á fullsælu og algert réttlæti annað, en að örfáir menn í örfáum kjördæmum snerust með íhaldinu. En það bara gerðist ekki. Aftur á móti lá við borð næst, að Alþfl. og Framsfl. fengju hreinan meiri hluta, og þá kom annað hljóð í strokkinn, og það heyrum við núna. Sama er um Alþfl., hann ætti ekki að vera að tala um réttlætismál í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir. Færi ég ekki frekari ástæður að því, það er öllum landsmönnum ljóst.

Þeir, sem hér hafa talað um kjördæmamálið, tala eins og þeir séu að biðjast afsökunar á sjálfum sér og afsökunar á því máli, sem þeir nú leggja fyrir. Þeir tala eins og þetta sé eins konar neyðarkostur, af því að Framsfl. hafi verið staður í kjördæmamálinu. Það er tónninn. En Framsfl. hefur viljað fallast á breytingar á kjördæmaskipuninni, elns og skýrt hefur verið lýst yfir, og það var öllum flokkunum ljóst, — þær breytingar að fjölga kjördæmakjörnum þingmönnum, þar sem fólkinu hafði fjölgað mest, og halda uppbótarsætunum, ef það mætti verða til þess að bjarga gömlu kjördæmunum. Þessir flokkar hafa því enga afsökun fyrir því tilræði, sem þeir eru nú að gera í kjördæmamálinu. Og Einar Olgeirsson, sem talaði hér áðan um það, að Framsfl. hefði verið stirður í samningum í vinstri stjórninni um kjördæmamálið, hann, sá sami maður, kom í veg fyrir það, að samstarfsnefnd flokkanna í málinu gæti starfað, — kom í veg fyrir það í meira en hálft ár, af því að hann vildi ekki semja við Framsfl. í kjördæmamálinu, hann vildi vinstri stjórnina feiga, eins og allir landsmenn vita. Og hann vildi allt aðra lausn í kjördæmamálinu en þá, sem Framsfl. gat á fallizt.

En afsökunartónninn í þessum umræðum sýnir, að það er beygur í þessu liði. Það segir sína sögu, að nærri stappar, að Sjálfstfl. feli foringja sína í kvöld, sem raunverulega ráða þó því, sem nú er ætlunin að gera í þessu efni, en báðir eiga þeir þó sæti hér í deildinni. Annar er hafður heima, og er það þó hinn víðfrægi formaður stjórnarskrárnefndarinnar. Hinn talar eins lítið og minnst er hægt að skammta. Það segir líka sína sögu, að þeir, sem tala og eiga að vitna um, að mönnum sé óhætt að leggja niður kjördæmi sín, eru annars vegar maðurinn, sem alltaf hefur gert allt fyrir flokkinn sinn og það þó að hann hafi þurft að gera það nauðugur — og hví þá ekki líka að draga lokur frá hurðum héraðanna. Og það segir líka þá sögu, að hinn talsmaðurinn er sá, sem hrifnastur var af ofsóknarráðstöfunum nýsköpunarstjórnarinnar í garð bændastéttarinnar.

Hv. 2. þm. Skagf. lét sér það sæma að viðhafa hér dulbúnar hótanir í þeirra garð, sem ekki vildu beygja sig í kjördæmamálinu, ef þeir einangruðu sig, eins og hann kallaði það. Ef menn ekki einangruðu sig, gæti þeim vel farnazt, annars mætti við ýmsu búast. Menn þekkja þessar hótanir. Þetta er tónninn frá árunum 1944–46. En það er mesti misskilningur að halda, að menn glúpni fyrir hótunum og dylgjum af þessu tagl.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því að leggja niður öll núverandi kjördæmi nema Reykjavík, lögleiða 8 kjördæmi og hafa hlutfallskosningar alls staðar og fjölga þingmönnum í 60. Get ég ekki í örstuttu máli rætt alla þætti málsins, en mun ræða þann þýðingarmesta, sem sé þá uppástungu að leggja niður öll kjördæmin nema eitt. Það gæti verið ástæða til að minnast á þann snoppung, sem Austfirðingum er réttur svona alveg aukalega fyrir utan stóra höggið með þessum tillögum, en ég hef ekki tíma til að ræða það í kvöld.

Frv. þessu er ætlað að verða upphaf að lokasókn í löngu stríði, sem staðið hefur undanfarna áratugi og stefnt hefur að því að leggja kjördæmin niður. Árið 1931 höfðu Alþfl. og Sjálfstfl. gert með sér samning um að innleiða fá, stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Framsfl. hafði þingrofsvaldið þá, rauf þingið og skaut málinu til þjóðarinnar, og einmitt í dag er afmæli þessa þingrofs. Fólkið tók í taumana og stöðvaði framgang þessarar fyrirætlunar, og Alþfl. og Sjálfstfl. neyddust til að ganga inn á málamiðlun.

Hefðu þessir flokkar strax 1931 fengið vilja sinn fram um að leggja niður kjördæmin, hefði margt lítið öðruvísi út á Íslandi í dag, en raun er á. Upp úr þessum átökum voru lögleidd uppbótarþingsætin, sem voru spor í áttina til þess, sem Alþfl. og Sjálfstfl. vildu, og 1942 var knúin fram hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum. Frá sjónarmiði þeirra, sem standa fyrir þeirri kjördæmabreytingu, sem nú á að knýja fram, og stóðu fyrir þessum breytingum þá, var þar um að ræða áfanga á leiðinni að því að leggja gömlu kjördæmin niður og innleiða hlutfallskosningar í fáum, stórum kjördæmum. Því var trúað, að uppbótarmennirnir og minnihlutamennirnir úr tvímenningskjördæmunum mundu verða liðtækir við að draga lokur frá hurðum, þegar tímabært þætti að hefja lokasóknina að héraðakjördæmunum. Og þetta ætlar að rætast.

Þetta var sagt fyrir þá, en mótmælt af þeim, sem fyrir því stóðu. En nú sést bezt á því frv., sem hér liggur fyrir og þrír flokkar hafa samið um, hversu mikið var að marka yfirlýsingarnar um, að ekki væri stefnt að því að leggja niður kjördæmin. Þau einu rök eru færð fyrir þeirri gerbyltingu, sem nú á að gera á kjördæmaskipun landsins og þar með á stjórnskipun þess, að jafna þurfi kosningarréttinn, þetta sé eina leiðin til þess, og jafnframt er sagt, að menn missi einskis í við að leggja kjördæmin niður og innleiða í staðinn örfá, stór kjördæmi með hlutfallskjöri. Athugum þetta svolítið. En ég vil biðja menn að taka eftir því, að þetta eru einu rökin, sem fram hafa komið fyrir þessu tilræði við héruðin.

Það er hægt að jafna kosningarréttinn frá því, sem hann er í dag orðinn vegna fólksflutninga í landinu, án þess að gerbylta kjördæmaskipuninni og leggja niður héraðakjördæmin. Það er hægt að fjölga kjördæmakjörnum þingmönnum, þar sem fólkinu hefur fjölgað mest. Þetta er till. framsóknarmanna, og fjölmargir aðrir munu á hana fallast. Þetta er hægt að gera án þess að taka réttindin af fólkinu í núverandi kjördæmum til þess að senda sérstaka fulltrúa á Alþing. Sumir segja, að þá sé eftir ósamræmi á milli gömlu kjördæmanna og að öllu þurfi um að bylta til þess að leysa það mál eftir reikningsstokksleiðinni. En því er til að svara, að hvergi á byggðu lýðræðisbóli munu þess dæmi, að öll kjördæmi séu jöfn að íbúatölu, og alls ekki að því keppt. Flestir virðast sjá nema þeir, sem standa að þessu frv., að það er ekki aðeins nauðsynlegt að taka tillit til fólksfjölda við skipun kjördæmanna, heldur einnig staðhátta. Skýrast verður, hvílík falsrök þetta eru fyrir nauðsyn þess að leggja niður héraðakjördæmin, þegar athugað er, að enginn hefur orðið var við, að meðal íbúa hinna stærri héraða væri hreyfing uppi um, að kjördæmin verði lögð niður, vegna þess að nágrannakjördæmið hafi of mikla íhlutun um skipan Alþingis. Eða hvenær hafa slíkar kröfur verið bornar fram af almenningi í Suður-Þingeyjarsýslu eða Árnessýslu, svo að dæmi séu nefnd? Það er því augljóst, að það fær alls ekki staðizt, að nauðsynlegt sé að leggja kjördæmin niður til þess að jafna kosningarréttinn, enda tryggja hlutfallskosningar engan veginn tölulegt samræmi í kosningum, fyrir utan aðra stórgalla, sem á þeim eru og gerðir hafa verið að umtalsefni. Áratugum saman hafa sjálfstæðismenn t.d. haft meiri hluta í bæjarstjórn Reykjavíkur, en minni hluta kjósenda að baki.

En hér liggur einnig allt annað á bak við. Í fyrsta lagi, að þeir, sem fyrir þessu standa, telja, að ef þeir fá því fram komið að slíta kjördæmaskipunina algerlega úr sambandi við héraðaskipunina, þá geti þeir úr því valtað og skaltað með þessi mál eins og þeim þóknast og eigi opna örugga leið úr því til að útþynna áhrifavald byggðanna eins og þeim sýnist, gera landið í reynd að einu kjördæmi, þegar þeim gott þykir, hvort sem það yrði að forminu til látið heita svo eða ekki. Og ég minni á margendurteknar yfirlýsingar forsrh. hér áðan um, að þetta væri aðeins áfangi, hér væri aðeins um áfanga að ræða, — og það er gaman fyrir Jón á Reynistað og aðra slíka að heyra það. Í þessu stjórnarskrárfrv. er stigið skref, sem ásamt öðru bendir til þess, sem þeir ætla sér að lokum. Það er ákvæðið um, að uppbótarsætum skuli úthlutað öllum, þótt ekki sé þörf á því að jafna á milli þingflokka. En hingað til hefur sú jöfnun á milli flokka verið það eina, sem notað hefur verið til rökstuðnings uppbótarsætum. Nú á samkv. þessu að úthluta þeim samt, og er það byrjunin á því að kjósa í einu lagi þingmenn fyrir allt landið.

Þá er önnur og aðalástæðan fyrir því ofurkappi, sem lagt er á að leggja héraðakjördæmin niður. Það er sú stefna að losa Alþingi við kapphlaupið um kjördæmin, eins og það heitir á máli þeirra hreinskilnu í þessu líði. Kemur þá um leið að þeirri fáránlegu fullyrðingu þeirra, að íbúar héraðakjördæmanna missi einskis í, þótt þau verði lögð niður. Í þessum kjördæmum þekkja þingmenn alla staðhætti út í æsar og flest vandamál til hlítar. Sambandið á milli fólksins og þingmannsins verður yfirleitt auðvelt og öruggt. Fólkið veit, hvert það á að snúa sér með málefni héraðanna, og þau málefni eru ekki bara þeirra mál, sem hafa greitt þingmanninum atkv., heldur sameiginleg mál fólksins í byggðarlögunum, hvaða flokk sem það fyllir. Og þingmaðurinn veit, að það veltur á honum og hann getur ekki skotið sér undan ábyrgð. Það er ekki við aðra að metast. Reikningsskilin eru glögg við hverjar kosningar. Þetta örugga samband við þingmanninn og þau sterku tengsli, sem það veitir fólkinu úti um land við Alþingi og aðrar stofnanir ríkisins, er kjarni málsins, fjöregg þess fólks, sem býr utan höfuðborgarinnar við sjó og í sveit og hefur ekki aðstöðu til að fylgjast daglega með málum á löggjafarsamkomunni eða í stjórnarstofnunum. Það er þetta samband og það aðhald, sem það veitir, og sú þekking á staðháttum og kjörum manna, er á því byggist, sem á að tryggja það, að þingmenn byggðanna láti hag og velferð þeirra, sem hafa kosið þá á þing, raunverulega ráða gerðum sínum, en ekki annarleg sjónarmið. Ef leggja á héraðakjördæmin niður og setja í þess stað upp hin stóru kjördæmi, hlýtur þetta nána samband þingmannanna við héruðin að vera úr sögunni. Það er óhugsandi, að þingmenn geti þá lengur þekkt staðhætti út í æsar og vandamálin til hlítar. Það er óhugsandi, að sambandið milli fólksins og þingmannsins verði framar öruggt og auðvelt. Í stað hinna glöggu reikningsskila, sem nú eru möguleg, mun hver við annan metast og bak við annan skjóta sér. Þetta hlýtur hver einasti athugull maður að sjá og finna, sem hugleiðir þetta mál og lítur á reynslu síns byggðarlags, og svo hvernig fara hlýtur, þegar búið væri að steypa saman.

Þeir, sem fyrir þessu standa, gera sér mjög vel ljóst, hvað þeir eru að fara. 1942 héldum við framsóknarmenn því eindregið fram, að stjórnarskrárbreyt. þá um hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum væri beint miðuð við að ryðja brautina að því að gera landið að einu kjördæmi eða innleiða fá og stór kjördæmi. Formaður Sjálfstfl. mótmælti þessu og gaf út hátíðlega yfirlýsingu í útvarpsumræðunum frá Alþingi, svo hljóðandi: „Eða vill Framsfl., að kjördæmin séu fá og stór?“ spurði formaðurinn. „Ég veit ekki um einn einasta þm. Sjálfstfl. að undanteknum hv. 4. þm. Reykv., Sigurði Kristjánssyni, sem það vill, og Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri skipan.“

Formaður Sjálfstfl. var ekki myrkur í máli. Hann sagði, að Sjálfstfl. gengi aldrei inn á að lögfesta fá og stór kjördæmi. Ég rifja þetta ekki upp til þess að undrast yfir því, að þessi hátíðlega yfirlýsing reyndist markleysa, það er í fullu samræmi við yfirlýsingar og efndir húsráðendanna á þessum bæ. Ég rifja þetta hins vegar upp til þess að sýna með því ótvírætt, hvernig sjálfstæðisforustan sjálf lítur á fá og stór kjördæmi í stað þeirra, sem nú eru. Eða hvers vegna sagði formaðurinn „aldrei“? Þurfti hann að leggja svona mikið við, ef lögfesting fárra og stórra kjördæma í stað þeirra, sem nú eru, var að hans dómi og flokks hans meinlaus ráðstöfun eða jafnvel réttarbót frá því að hafa héraðakjördæmi? Sannarlega ekki. Formaðurinn hefði ekki þurft að sverja þetta af sér eins og hvert annað ódæði, ef hér hefði verið eða væri raunverulega um réttarbót eða meinlausa ráðstöfun að ræða. En sá er bara munurinn, að 1942 þorði Sjálfstfl. ekki að leggja í þetta og taldi það ekki tímabært. Hann vann þá þess í stað að því að stíga aðeins eitt skref að þessu marki, en sagði ósatt um tilganginn.

Hinn aðalforustumaður Sjálfstfl., Bjarni Benediktsson, hefur einnig fyrir nokkrum árum látið uppi álit sitt á aðstöðu fólks í einmenningskjördæmum annars vegar og stórum hins vegar. Hann sagði um þetta mál í ræðu, sem birt var í Mbl. 24. jan., og ræddi þá um möguleika á einmenningskjördæmum í Reykjavík, sem sumir teldu ekki æskilegt, — út af því sagði hann: „Þvert á móti mundi skipting Reykjavíkur í t.d. 16 eða 17 kjördæmi hafa í för með sér miklu nánara samband þingmanns og kjósenda, en verið hefur. Þingmaður mundi miklu betur vita, hvað kjósendum liði, og eiga þess kost að greiða fyrir mörgum áhugamálum þeirra og veita einstaklingunum sams konar fyrirgreiðslu og þingmenn utan af landi verða að veita sínum kjósendum. Þetta yrði aukin vinna og umstang fyrir þingmennina, en ég þori að fullyrða að, að því yrði mikill ávinningur fyrir kjósendur,“ sagði þessi forustumaður Sjálfstfl.

Þarna hafa menn skýrt og skorinort álit þessa leiðtoga á því, hvað þríflokkarnir, sem standa að kjördæmabreytingunni, eru raunverulega að gera. Sé það réttarbót að hafa einmenningskjördæmi jafnvel í Reykjavík, þar sem menn búa á tiltölulega litlum bletti og geta ætíð náð til þingmannanna, þar sem menn hafa daglegan aðgang að ríkisstofnunum og geta gegnum félög sín margs konar fylgzt svo að segja daglega með störfum Alþingis og beitt áhrifum sínum þar, hvað má þá segja um þá þýðingu, sem héraðakjördæmin hafa fyrir það fólk, sem úti um landið býr? Og hvað á að segja um þann málflutning að gera þessa grein fyrir kostum einmenningskjördæma umfram aðra skipan, en halda því svo allt í einu fram, að það sé réttarbót fyrir fólk að leggja héraðakjördæmin niður og setja upp í stað þess kjördæmi, sem ná t.d. frá Langanesi vestur á Skeiðarársand og frá Skeiðarársandi að Hellisheiði og út í Vestmannaeyjar, svo að aðeins dæmi séu nefnd um fjarstæðurnar.

Það væri synd að segja, að þeir, sem fyrir þessu standa, hefðu ekki gert sér grein fyrir því, hvað þeir eru að gera. En þetta gerir mönnum líka auðveldara að sjá í gegnum það yfirklór, sem nú er reynt að beita og ræða hv. 2. þm. Skagf. hér í kvöld var gott dæmi um.

En hér liggur líka meira að baki, skoðanamunur, sem skiptir í rauninni alveg vötnum í íslenzkri pólitík. Annars vegar er meginkjarninn eða þau ráðandi öfl í öllum hinum þremur flokkunum. Hins vegar er Framsfl. og mjög margt einstaklinga, sem hafa fylgt hinum flokkunum að málum fram að þessu, þótt þeir í þessu meginefni eigi samstöðu með Framsfl. einum flokkanna. Annars vegar eru þeir, sem vilja raunverulega viðhalda jafnvægi í byggð landsins og haga uppbyggingu atvinnulífsins með það fyrir augum, þeir, sem trúa því, að Íslendingum geti ekki farnazt vel í landinu, nema þeir hafi byggð víðs vegar um landið. Hins vegar eru þeir, sem inn á sér líta á uppbygginguna víðs vegar um landið í samgöngumálum, atvinnumálum til sveita og við sjó sem eins konar ómegð á þjóðarbúskapnum, líta á það, sem gert hefur verið í þessum efnum, sem illa nauðsyn vegna kjörfylgis og eru óþreytandi að tala um spillingu í skjóli ranglátrar kjördæmaskipunar sem undirrót þessara framfara. Þessir menn líta þannig á, að það muni vera hægt að leysa efnahagsmál Íslendinga með því að draga úr framlögum til þessarar uppbyggingar. Á máli þessara manna heitir þetta ýmist að taka upp nýja fjárfestingarstefnu, taka upp skipulegan þjóðarbúskap eða gera mun á efnahagslegri og pólitískri fjárfestingu, allt eftir því, fyrir hvern af þessum þremur flokkum þeir tala.

Frá sjónarmiði okkar í Framsfl. og fjöldamargra annarra, sem ekki hafa fram að þessu fylgt okkar flokki að málum, eru ráðstafanir þær, sem gerðar hafa verið til að koma á jafnvægi í byggð landsins á undanförnum árum, ekki aðeins þýðingarmiklar fyrir velgengni þess fólks, sem í byggðarlögunum býr, hvort sem er í sveit eða við sjó, heldur engu síður lífsnauðsyn þjóðinni í heild og engu þýðingarminni fyrir það fólk, sem byggir höfuðborgina og þéttbýlishéruðin við Faxaflóa. Örugg atvinna og almenn velmegun í Reykjavík og á þéttbýlissvæðunum hér syðra síðustu árin byggist einmitt á því ekki sízt, að fólksstraumurinn að þessum héruðum hefur minnkað, og vottar fyrir algerum straumhvörfum. Þessu hefur verið áorkað með markvissri sókn ár eftir ár, en því fer alls fjarri, að nokkru lokamarki hafi verið náð.

Héraðakjördæmin og það aðhald, sem þau veita, er grundvöllurinn að þeim ráðstöfunum til jafnvægis í byggð landsins, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum.

Það mun verða lagt ekki lítið í að leyna því, hvað raunverulega liggur á bak við það ofurkapp, sem lagt er á að breyta kjördæmaskipuninni einmitt þannig að leggja niður héraðakjördæmin, en alls staðar sjást merki, sem ekki leynast. Alþb. krafðist þess í fyrrverandi ríkisstj., að stórfelldur niðurskurður yrði gerður á fjárlögum og þá fyrst og fremst á verklegum framkvæmdum og að innleiddur yrði þar að auki sérstakur fjárfestingarskattur, m. a. á vegagerðir, hafnargerðir, frystihúsabyggingar o.s.frv., o.s.frv. Alþfl. hefur tekið það upp sem eitt sitt helzta baráttumál að skera niður þessi framlög, og hann og Sjálfstfl. hafa í sameiningu núna á 3 mánuðum aukið niðurgreiðslur, sem svarar til alls þess fjár, sem fram er lagt til nýrra þjóðvega, hafnargerða, brúargerða, raforkuframkvæmda, atvinnuaukningar, framkvæmda í flugmálum og sjúkrahúsbygginga. Og hvar ætla þeir að taka þetta fé eftir kosningarnar? Það er ekki vandasamt að sjá. Þessir flokkar hafa nú þegar lagt fram tillögur um niðurskurð verklegra framkvæmda í fjvn., þ. á m. stórkostlegan niðurskurð á framlögum til raforkuframkvæmda, og eru þessar tillögur þó bara lítið sýnishorn af því, sem koma skal, ef þeim tekst tilræðið við héraðakjördæmin, eins og Jón Pálmason var að boða mönnum hér áðan.

Sjálfstfl. hefur aldrei gengið lengra varðandi framlög til uppbyggingar víðs vegar um landið, en hann hefur talið sig knúinn til vegna baráttu Framsfl. og aðhalds frá honum. Kjarni Sjálfstfl. er reiðubúinn, hvenær sem hann þorir og getur, að ráðast gegn framlögum til uppbyggingarinnar, en stórsókninni í því verður þó frestað, þangað til búið er að kjósa tvisvar og breyta kjördæmaskipuninni, ef það þá tekst.

Þá er ekki mikill vandi að sjá, hvað snýr að landbúnaðinum hjá þríflokkunum. Sífelldar kröfur Alþb. í fyrrverandi ríkisstj. um að lækka landbúnaðarverðið einhliða og misrétti það, sem flokkarnir þrír hafa nú strax lögfest í garð bændastéttarinnar, tala sínu máli. Enn þá er enginn búinn að gleyma, hvernig þessir flokkar ofsóttu landbúnaðinn, þegar þeir fóru með stjórn landsins 1944–46 án íhlutunar Framsfl. En skýrasta yfirlýsingin um tilganginn hefur þó komið frá formanni Sósíalistafl., Einar Olgeirssyni. En hann lýsti því í löngu máli, hve miklu væri varið til fjárfestingar, sem bæri ekki fullan arð, og ekki varð um villzt, að hann átti við uppbygginguna víðs vegar í sjávarþorpum og sveitum, og sagði svo: „Má vera, að það lagist eitthvað, ef kjördæmunum verður breytt.“

Framsfl. mun leggja til, að kosningarréttur verði jafnaður með því að fjölga kjördæmakjörnum þingmönnum, þar sem fólki hefur fjölgað mest. Till. hans verða tilraun til málamiðlunar. Samkvæmt till. Framsfl. mundi fólkið úti um land halda réttindum sínum til þess að kjósa sérstaka fulltrúa fyrir héruðin. Það mundi tryggja áfram framkvæmd öflugrar framkvæmdastefnu fyrir landið allt. En nái það tilræði fram að ganga, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, réttindi héraðanna stórlega skert og á því byggð hin nýja fjárfestingarstefna, mun það verða til stórtjóns fyrir þjóðina í heild. Fólksstraumurinn utan af landi mun hefjast á nýjan leik og atvinnuleysið halda innreið sína í Reykjavík. Það mun verða eyðilagt, sem upp hefur verið byggt nú undanfarið. Er skemmst að minnast, hvernig ástandið var hér syðra, áður en uppbyggingarstarfið úti um land fór að bera verulegan árangur. Þetta frumhlaup verður að stöðva, og fólk hefur það á valdi sínu, þótt forgöngumenn málsins virðist líta svo á, að örfáir menn úr hverjum flokki geti sett landinu nýja stjórnarskrá.

Dag eftir dag er þjóðinni kunngert, að þrír flokkar hafi ákveðið að breyta kjördæmaskipuninni. Þar hafa menn það: Vér höfum talað. Eitt stjórnarblaðið segir, að það sé útilokað að stöðva málið úr þessu. Það héldu nú flokkarnir líka 1931. Sama blað segir: „Í stað þess að deila á þingi um einstök atriði og stofna málinu í heild í hættu hefur nú verið samið um afgreiðslu þess.“ Blygðunarleysið er svo algert, að það er hælzt yfir því, að hvert einstakt atriði sé ákveðið og fastsett, áður en málið kemur til umræðu á Alþingi hvað þá meir, að ekki sé nú talað um stjórnarskrárnefndina, sem Alþingi hefur kosið til þess að fjalla um málið. Það er beinlínis hælzt yfir þessu.

Tugir manna, sem hafa að öðru leyti ólíkar pólitískar skoðanir, hafa skrifað mjög vel rökstuddar greinar gegn því undanfarið, að héraðakjördæmin verði lögð niður og allsherjar hlutfallskjör sett í staðinn. Þessum greinum er ekki reynt að svara með rökum. En þess í stað þrástagast einn aðaloddviti þessa máls, Bjarni Benediktsson, á því dag eftir dag í blaði sínu, Morgunblaðinu, hvað greinarnar séu vitlausar. Gjafir eru þeim gefnar, sem sýna fram á nauðsyn þess og réttmæti, að héruðin haldi rétti sínum. Goðorðin skulu upp gefast möglunarlaust. Segja má með rétti, að ofstopinn og frekjan ríða ekki við einteyming.

Í síðustu kosningum var ekki á stjórnarskrármálið minnzt eða kjördæmabreytingu. Þeir flokkar, sem nú standa fyrir breytingu á kjördæmaskipuninni, héldu því þá beinlínis leyndu fyrir mönnum, hvað flokkarnir hefðu í hyggju. Alþfl., sem nú stendur fyrir því að gerbreyta kjördæmaskipuninni og leggja niður kjördæmin, var þá í kosningabandalagi við Framsfl. Þetta bandalag hefur foringjalið Alþfl. hreinlega rofið og kemur nú aftan að þeim, sem kusu þá. Ég fullyrði, að enginn, sem á þingi situr nú, hefur minnzt á það við kjósendur sína, að hann ætlaði á þing til þess að samþykkja að leggja kjördæmin niður. Þingmenn hafa blátt áfram ekkert umboð til þess að fremja slíkt og koma þannig aftan að mönnum.

Ætlunin er að þvinga þetta frv. fram í viðjum flokksbandanna. Fjöldi fólks hlynntur þeim flokkum, sem að þessu standa, er á móti þessu máli. En það á að segja við þetta fólk: Þú mátt ekki bregðast flokknum, og það er kosið um svo margt annað. — Það á að leika sama leikinn og áður og reyna að fá fram lögfesta kjördæmaskipun, sem mikill þorri manna er á móti í rauninni.

Pólitískir ofstækismenn verða fengnir til þess að koma fram og fara um og segja við fólk, sem ekki er í Framsfl. — og menn hafa svo sem heyrt sýnishorn af þessum málflutningi hér í kvöld: „Í kjördæminu hjá þér er eða verður kannske kosinn framsóknarmaðurinn. Þú ert ekki í Framsfl., og þess vegna skiptir það engu máli fyrir þig, jafnvel betra, að þið afsalið ykkur þm.“ En er nokkurt vit í svona hugsunarhætti? Á það að koma til mála, að menn fórni þannig hagsmunum héraðsins á altari flokksofstækis, sem ekki styðst við nokkra rólega íhugun eða mat á málefnum? Sem betur fer, eru það aðeins fáir, sem hægt er að bjóða svona málflutning, og miklu færri en þeir vona, sem fyrir þessu standa. Það getur ekki orðið um það deilt, að hér er um svo stórfellda breytingu og örlagaríka að ræða á stjórnskipun landsins, að það er ekki leyfilegt að kjósa um annað en hana, þegar hún verður lögð fyrir í almennum kosningum í vor. Menn verða þá að gera það upp við sig, hvort þeir vilja afsala sér þeim rétti, sem þeir hafa nú í héraðakjördæmunum til þess að kjósa sérstaka fulltrúa, og innleiða hlutfallskjör eða ekki. Ekkert annað má komast þar að, því að hér er ekki um að ræða neitt einkamál hvers og elns, heldur mál, sem varðar framtíð héraðsins og framtíð þjóðarinnar.

Þeir, sem eru á móti því að afsala sér réttinum, verða því að gera það upp við sig að kjósa engan annan mann á þing en þann, sem lýsir yfir því, að hann muni ekki undir neinum kringumstæðum á það fallast að leggja kjördæmið niður. — Góða nótt.