14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Till. þær um breyt. á kjördæmaskipun landsins, sem hér liggja fyrir í frv.-formi, hafa verið alllengi á leiðinni. Lengst hafa þær þó verið í samningum á milli þeirra tveggja flokka, sem saman höfðu myndað ríkisstj. og lýst því yfir, að eitt af verkefnum stjórnarinnar væri að leysa kjördæmamálið.

Það var ekki fyrr en miðvikudaginn 1. apríl s.l., að Alþb. bárust skriflegar till. stjórnarflokkanna um þá lausn á málinu, sem þeir töldu sig geta staðið sameiginlega að. Í þeim till. var gert ráð fyrir, að þingmenn yrðu 63, þar af 11 landsk. þm. til jöfnunar milli þingflokka. Fimm dögum síðar svaraði Alþb. þessum till. með gagntilboði. Í tilboði Alþb. var lagt til, að þingsæti yrðu 60, þar af 11 uppbótarsæti. Til þess að tryggja örugga afgreiðslu málsins bauðst þingflokkur Alþb. til þess að standa gegn öllum brtt., sem fram kynnu að koma við efnishlið málsins, enda gerðu allir þm. stjórnarflokkanna þá einnig hið sama. Jafnframt krafðist Alþb. þess, að minnihlutaríkisstj. Alþfl. yrði látin víkja frá völdum, strax og fjárl. væru afgreidd og kjördæmamálinu tryggður framgangur, en við stjórn landsins tæki hlutlaus starfsstjórn utanþingsmanna, sem gætti hlutleysis ríkisvaldsins í komandi kosningabaráttu.

Þessu tilboði Alþb. svöruðu stjórnarflokkarnir með nýju tilboði um, að þingsætin yrðu 65, þar af 11 uppbótarsæti, þar sem þeir töldu ekki mögulegt að ná samstöðu nægilega margra þingmanna um töluna 63 eða 60.

Slík skipan þingsins hefði ekki aukið réttlæti milli þingflokkanna, eins og hæstv. forsrh. vildi hér halda fram í kvöld. Til þess hefði þurft að auka við uppbótarsætin, ef ekki hefði átt á nýjan leik að sækja í misrétti á milli þingflokka.

Kröfunni um, að Alþfl.-ríkisstj. viki frá völdum, svöruðu báðir stjórnarflokkarnir neitandi. Sjálfstfl. taldi þó, að til mála kæmi að mæta kröfum Alþb. um hlutlausa ríkisstj. með því að draga nokkuð úr valdi ríkisstj. í ýmsum málaflokkum, svo að minni hætta ætti þá að vera á misbeitingu ríkisvaldsins í kosningabaráttunni.

Þegar sýnt þótti, að Alþb. gæti fengið þá efnislegu afgreiðslu kjördæmamálsins, sem það hafði lagt fram tillögur um, vildi það ekki stofna málinu í hættu vegna deilunnar um ríkisstj. Það er því algerlega rangt, sem hæstv. forsrh. sagði hér í kvöld, að Alþb. hefði reynt að gera kjördæmamálið að verzlunarvöru. Alþb. setti aðeins fram réttmæta og sjálfsagða kröfu, en Alþfl. hikaði ekki við að setja kjördæmamálið í voða, til þess að hann gæti hangið í stjórnarstólunum áfram, þó sem áhrifalaus stjórn þar undir umsjá íhaldsins.

Augljóst var, að Sjálfstfl. mat svo mikils fyrir sig að halda áfram við völd Alþfl.-stjórninni, og einnig það, að Alþfl. hefði aldrei vikið frá, nema íhaldið hefði þá rekið hann úr stjórnarstólunum, að áframhaldandi barátta Alþb. fyrir því, að ríkisstj. viki, hefði stofnað kjördæmamálinu í beina hættu.

Niðurstaðan varð því sú, að málið skyldi flutt efnislega samkvæmt tillögum Alþb., en ríkisstj. svipt valdi, eins og hér segir:

1. Erlendum lánum, sem tekin kunna að verða, ráðstafar Alþingi sjálft, en Alþfl.-stjórnin fær ekki vald til þess að úthluta eða ráð stafa slíku lánsfé. Með þessu er komið í veg fyrir, að minnihlutastjórn Alþfl. geti úthlutað af handahófl og eftir pólitískum hagsmunum sínum lánsfé, sem nema mun mörgum tugum milljóna króna.

2. Ríkisstj. fær ekki aðstöðu til þess að taka í sínar hendur úthlutun á fjárfestingarleyfum, veitingu á báta-, skipa- og bílaleyfum. Innflutningsskrifstofan mun hafa fullnaðarvald um afgreiðslu þessara leyfa, en forstöðumenn hennar eru fjórir, einn úr hverjum flokki.

3. Vald ríkisstj. til þess að úthluta atvinnubótafé verður af henni tekið og fengið í hendur þingkjörinni nefnd.

4. Ríkisstj. fær ekki vald til þess að úthluta fé til flugvallabygginga, en ákveðið, að því skuli skipt á fjárl., eins og verið hefur með vega- og brúafé.

5. Sama regla verður tekin upp um ráðstöfun á hinum sérstaka benzínskatti, sem gengið hefur til vegagerðar milli héraða. Ríkisstj. fær ekki vald til þess að skipta þessu fé, en Alþingi mun gera það við afgreiðslu fjárlaga.

Þó að hæstv. forsrh. segði hér í umr. fyrr í kvöld, að Alþfl.-stjórnin hafi í rauninni frá upphafi alltaf hugsað sér að framkvæma öll þessi atriði á þessa leið, sem samkomulag varð um, fer því alls fjarri, því að það tók Alþfl. langan tíma og mikið erfiði að fallast á þessi skilyrði, en þar réð það baggamuninn, að Sjálfstfl. hafði þar öll ráð og lét Alþfl.-stjórnina samþykkja þessi skilyrði. Þannig verður valdsvið ríkisstj. í nokkrum fjárveitingamálum takmarkað og reynt með því að koma í veg fyrir flokkslega misnotkun.

Alþb. ber að sjálfsögðu enga ábyrgð á núverandi ríkisstj. Það hefur reynt, eftir því sem aðstæður leyfðu, að losa þjóðina við þessa stjórn. Enginn vafi leikur á, að það er Sjálfstfl., sem ber ábyrgð á setu stjórnarinnar. Hann hefur myndað stjórnina, hann hefur stýrt gerðum hennar, hann neitar að láta stjórnina víkja, og hann ber því alla ábyrgð á verkum stjórnarinnar í stóru og smáu.

Þó að dregizt hafi að koma kjördæmamálinu inn í þingið í frumvarpsformi, hefur samt sem áður mikið verið rætt og ritað um málið að undanförnu. Framsfl. hefur lagt sig allan fram í baráttunni gegn fyrirhugaðri kjördæmabreytingu. Hann hefur afflutt málið á hinn herfilegasta hátt, pantað mótmælasamþykktir frá hreppsnefndum og búnaðarfélögum og reynt að halda því fram, að kjördæmabreytingin jafngilti stórkostlegri árás á réttindi og aðstöðu þess fólks, sem úti á landi býr. Það er því full ástæða til, einmitt nú, þegar frv. um kjördæmabreytinguna hefur verið lagt fram á Alþingi, að ræða frammi fyrir alþjóð aðalatriði málsins og víkja þá jafnframt með nokkrum orðum að málflutningi þeirra framsóknarmanna, sem mest hafa barizt á móti málinu.

Öllum landsmönnum er ljóst, að það misrétti, sem núgildandi kjördæmaskipan leiðir af sér um aðstöðu stjórnmálaflokkanna innbyrðis, getur ekki staðið lengur. Öllum er líka ljóst, að misréttið á milli hinna einstöku kjósenda eftir því, hvar á landinu þeir eiga heima, er orðið svo mikið, að við það verður ekki unað lengur. Þetta misrétti milli flokkanna kom þannig fram í síðustu kosningum, að Alþb., sem hlaut tæp 16 þús. atkv., hlaut 8 þm. kjörna, en Framsfl., sem hlaut tæp 13 þús. atkv., hlaut 17 þm. kjörna, eða m.ö.o., sá flokkurinn, sem hlaut minna atkvæðamagn, hlaut rúmlega helmingi fleiri þm. Þannig lagað misrétti er ekki hægt að búa við. Misrétti kjósenda er þó orðið enn þá stórkostlegra í víssum tilfellum. Þannig fengu í síðustu kosningum 426 kjósendur á kjörskrá á Seyðisfirði að kjósa einn þm., en í Gullbringu- og Kjósarsýslu voru 7.515 kjósendur á kjörskrá, og þeir höfðu aðeins sama rétt og Seyðfirðingar, máttu kjósa einn þm. Hér er að vísu um mesta misræmið að ræða, en dæmin um misréttið eru fjölmörg, ekki aðeins á milli smærri kjördæma úti á landi og fjölmennustu kjördæmanna í aðalþéttbýlinu, heldur einnig í kjördæmum dreifbýlisins innbyrðis. Eitt dæmi um það er, að 1.778 kjósendur í Rangárvallasýslu hafa rétt til þess að kjósa tvo þm., en 2.485 kjósendur í Suður-Þingeyjarsýslu hafa aðeins rétt til þess að kjósa einn þm.

Enginn stjórnmálaflokkur treystir sér til þess lengur að neita því, að þetta misrétti eigi að leiðrétta. Framsfl. verður líka í orði að viðurkenna þessa þörf. Aðalblað flokksins, Tíminn, hefur gert það. Hann hefur játað og nú einnig hv. þm. N-Þ., Gísli Guðmundsson, í umr. í kvöld, að réttmætt sé, að þingmenn Rvíkur verði 12 í stað 8. Hann játar líka, að rétt sé að fjölga þm. á svæði Gullbringu- og Kjósarsýslu. Framsfl. hefur nú lýst sig fylgjandi því, að þingmannafjöldinn verði 60 og að aukningin komi aðallega þéttbýlinu til góða. Deilan á milli þeirra flokka, sem nú flytja frv. um breytta kjördæmaskipun, og Framsfl. stendur því ekki um fjölgun þm. og ekki um það, hvaða svæði eigi að fá viðbótarþingsæti. Deilan stendur um það, hvernig kjósa skuli þm. landsbyggðarinnar.

Framsfl. leggur á það höfuðáherzlu, að þingmenn alls staðar annars staðar, en í stærstu kaupstöðunum séu kosnir í einmenningskjördæmum. Þannig vill Framsfl. gera aðalatriði úr því, svo að dæmi sé tekið, að þeir 5 þm., sem Vestfirðingar eiga að kjósa, þ.e.a.s. fólk, sem býr á svæðinu í Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu, Ísafjarðarkaupstað og Strandasýslu, séu kosnir í fimm hólfum, en alls ekki fimm í einu lagi. Framsókn telur þá þm. Vestfirðinga, sem kosnir eru í einu lagi hlutbundinni kosningu, lakari fulltrúa Vestfirðinga en hina fimm, sem kosnir eru meirihlutakosningu í fimm kjördæmum, auðvitað misstórum.

Það gefur auga leið, að hólfakosning Framsóknar hlýtur að leiða af sér misrétti. Réttur minni hlutans er alveg fyrir borð borinn, og hæglega gæti svo farið, að öll þingsætin á svæðinu lentu til þess flokksins, sem hefði ekki nema 1/3 kjósenda svæðisins á bak við sig. 2/3 hlutar kjósenda á svæðinu hefðu þá engan fulltrúa fengið. Hlutfallskosningar á svæðinu koma í veg fyrir svona misrétti. Fái einhver flokkur 1/5 hluta atkvæða á svæðinu, fær hann örugglega einn fulltrúa.

Stefna Framsfl. að skipta landinu upp í einmenningskjördæmi og afnema um leið uppbótarþingsætin er íhaldssamasta og ranglátasta till., sem heyrzt hefur í kjördæmamálinu um langan tíma. Sú stefna mundi, ef framkvæmd yrði, stórauka á misréttið milli flokkanna og raunverulega svipta þúsundir manna atkvæðisrétti. Stefna Framsóknar um einmenningskjördæmi miðar að því að búta í sundur tvímenningskjördæmin, og sum einmenningskjördæmin vill hún búta niður í fjóra hluta, sbr. t.d. tillögurnar um Gullbringu- og Kjósarsýslu. Tillögur Framsóknar eru því um að „leggja niður kjördæmi“, svo að orð hennar séu notuð, því að ef það heitir að leggja niður kjördæmi, að kjördæmi kjósi þm. saman með öðru, þá ætti hitt ekki síður að heita að leggja niður kjördæmi að búta það sundur í fjögur umdæmi.

Hin ofsafengna barátta Framsfl. gegn kjördæmabreytingunni stafar auðvitað af því, að flokkurinn stritast í lengstu lög við að halda í þau sérréttindi, sem núverandi kjördæmaskipun veitir honum. Rök Framsfl. í málinu eru því yfirleitt léttvæg og einkennast mest af ofsalegum fullyrðingum, sem auðvitað fá ekki staðizt gaumgæfilega og hleypidómalausa athugun. Hér skal vikið að nokkrum þessum fullyrðingum framsóknarmanna.

Flokksvaldið mun aukast með hinni nýju kjördæmaskipun, segja þeir. Engin rök fylgja þessari fullyrðingu, en hamrað þeim mun meira á henni.

Nokkur reynsla er fengin fyrir hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum. Þar eru í framboði fjórir menn á lista hvers flokks. Í fimm manna kjördæmunum, sem nú er lagt til að taka upp, verða tíu menn á hverjum framboðslista. Enginn vafl er á því, að flokksstjórnirnar í Reykjavík hafa síður en svo haft meiri áhrif á framboðin í tvímenningskjördæmunum, en í einmenningskjördæmunum. Framboðin í tvímenningskjördæmunum eru ákveðin af fulltrúaráðum flokksfélaga í kjördæminu. Eins mundi þetta verða í hinum nýju kjördæmum. Allt bendir til, að stærri heildir, sem standa að nýju kjördæmunum, yrðu einmitt sterkari gagnvart flokksstjórnarvaldinu, en á minni svæðunum og framboðin því öruggari í höndum heimamanna, en verið hefur.

Kjördæmabreytingin er árás á landsbyggðina og mun draga úr valdi héraðanna, segja framsóknarmenn. Hér er um algera fullyrðingu að ræða, sem ekki er studd neinum frambærilegum rökum. Hvernig má það vera, að 5 þm. frá Vestfjörðum, sem kosnir eru hlutfallskosningu í einu kjördæmi, séu dugminni á Alþingi en 5 þm. frá sama svæði, sem kosnir væru í fimm smákjördæmum?

Stækkun kjördæmanna mun styrkja aðstöðu landsbyggðarinnar frá því, sem nú er. Breyttir tímar kalla blátt áfram á stærri kjördæmi, á stærri landssvæði en áður til samstarfs. Hinir ýmsu málaflokkar geta ekki lengur takmarkazt við þröng sýslumörk. Samgöngumálin, hvort sem er á sjó, landi eða í lofti, krefjast skipulagningar fyrir heila fjórðunga í einu. Raforkumálin eru ekki lengur mál hvers einstaks byggðarlags eða sýslu, þau eru málefni heils fjórðungs. Svipað er að segja um menningarmál. Og atvinnumálin verður líka að skipuleggja og leysa í stærri sniðum, en áður. Byggja þarf upp í landinu atvinnulegar heildir, en hætta smáhokrinu. Stóru kjördæmin ýta þannig undir rétta þróun og munu verða til þess að þjappa fastar saman dreifðum og veikum smákjördæmum.

Hámarki nær áróður framsóknarmanna gegn kjördæmabreytingunni, þegar þeir nefna breytinguna landeyðingarstefnu og segja, að hún muni leiða til flótta fólks frá landsbyggðinni og upplausnar í þjóðlífinu, og segja, að hún sé upphaf að því, að skera eigi niður fjárveitingar til nauðsynlegra framkvæmda úti á landi.

Hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, sagði í ræðu sinni, að Alþb. hefði lagt til í fyrrv. ríkisstj., að niður væru skornar fjárveitingar til verklegra framkvæmda úti á landi, og að m. a. hafi það lagt til, að sérstakur fjárfestingarskattur yrði lagður á. Þessar till. áttu að hans dómi sérstaklega að sýna, að þeir flokkar, sem nú standa að kjördæmabreytingunni, stefndu að árásum á landsbyggðina. Hér fer Eysteinn Jónsson algerlega með rangt mál. Hann veit fullvel, að hann lagði sjálfur til, að samþykkt yrði stórfelld gengislækkun og fjárveitingar til verklegra framkvæmda úti á landi, þar með lækkaðar um helming. Alþb. stóð gegn þessu, en benti á, að réttara væri, ef ekki fengist samkomulag um sparnað í rekstri ríkisins, að leggja þá á sérstakan fjárfestingarskatt, á svipaðan hátt og gert hefur verið í Noregi. Slík skattlagning hefði lækkað fjárveitingar, um miklu minni upphæð, en Eysteinn Jónsson knúði fram með efnahagsmálalöggjöfinni á s.l. vori.

Þessi sami hv. þm. sagði, að Einar Olgeirsson hefði lagt til, að breytt yrði um stefnu í fjárfestingarmálunum, og taldi, að á bak við slíka till. lægi árásarhugur á landsbyggðina.

Einar Olgeirsson hefur aldrei lagt til að minnka fjárveitingu til gagnlegra framkvæmda úti á landi. Hann hefur þvert á móti staðið með öllum þýðingarmestu framfaramálum landsbyggðarinnar, og má þar m.a. minnast á eina þýðingarmestu framkvæmdina, sem samþykkt hefur verið á Alþingi fyrir landsbyggðina árið 1946, þegar togarakaupin þá voru ákveðin. En þá stóð á Framsfl. að fylgja því mikla nauðsynjamáli landsbyggðarinnar, og Eysteinn Jónsson sýndi þá fullkomið skilningsleysi í þeim efnum.

Landeyðingarstefna, segja framsóknarmenn, stefna, sem leiða mun af sér flótta fólksins utan af landi. — Vel á minnzt. Hefur gamla kjördæmaskipunin verið vörn gegn fólksflóttanum utan af landsbyggðinni? Hafa einmenningskjördæmin reynzt vera einhver vörn í þeim efnum? Hafa þau tryggt jafnvægi í byggð landsins, eins og það er svo hátíðlega orðað? Nei, ekki aldeilis. Um margra ára skeið hefur fólksstraumurinn utan af landi runnið til Reykjavíkur og nágrennis hennar. Aldrei hefur þessi straumur verið stríðari, en á árunum 1950–56. Hver var ástæðan? Á þeim árum var ekki um neina kjördæmabreytingu að ræða. Engin ný, stór hlutfallskosningakjördæmi var þá rætt um. En hvað réð fólksflóttanum utan af landi þá? Það var röng stefna í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar. Það var sú stefna, sem vanmat íslenzka framleiðsluatvinnuvegi, — sú stefna, sem leiddi það af sér, að fiskiskipaflotinn minnkaði þá frá ári til árs, — sú stefna, sem leiddi af sér síendurteknar framleiðslustöðvanir og jafnvel bann við að framleiða fisk til útflutnings. Það var sú stefna, sem mat hernámsstörf meir, en íslenzka atvinnuvegi, — sú stefna, sem varð til þess, að þm. landsbyggðarinnar, þm. Framsfl. fóru í kapphlaup um að ráða kjósendur sína til vinnu á Keflavíkurflugvelli. Hernámsstefnan var sannkölluð landeyðingarstefna. Hún magnaði fólksflóttann utan af landi og ógnaði blátt áfram heilum kjördæmum með fólksleysi. Sú landeyðingarstefna hefði lagt niður kjördæmi úti á landi, ef ekki hefði orðið nokkur stefnubreyting 1956. Sú landeyðingarstefna, hernámið, getur enn lagt niður kjördæmi og það á miklu hryllilegri hátt ,en með venjulegum fólksflótta. Þannig getur röng stefna í þjóðmálum, í fjármálum, í atvinnumálum, í utanríkismálum, ógnað landsbyggðinni og þjóðinni allri.

Sú breyting, sem nú er lagt til að gera á kjördæmaskipun landsins, stefnir vissulega í rétta átt. Hún er þó ekkert fullnaðarréttlæti, og hætt er við, að breytingar verði þörf aftur, áður en langir tímar líða. Kjördæmabreytingin er út af fyrir sig stórmál, en hún er þó smámál hjá því, hver meginstefnan verður í þjóðmálum okkar á næstu árum.

Það er fásinna að ota því að mönnum, að alþingiskosningarnar í sumar snúist eingöngu um kjördæmamálið. Reynslan hefur sýnt okkur, svo að ekki verður um villzt, að hvað sem kjördæmaskipan landsins líður, þá er hægt með rangri stjórnarstefnu að leiða yfir þjóðina hættur og stórtjón og upplausn í byggðum landsins.

Stefna vinstri stjórnarinnar var í rétta átt. Hefði hún staðið við heit sitt um brottför hersins, hefði tekizt enn betur. Alþfl. brást vinstra samstarfinu með samningum sínum við íhaldið í verkalýðsfélögunum, og Framsfl. rauf síðan þá samstöðu vinstri manna, sem skapazt hafði, með ósanngjarnri kröfu um kauplækkun verkamanna og bænda. Það var sigur Alþb. í kosningunum 1956, sem knúði þá fram stefnubreytingu. Enn mun það ráða úrslitum um stefnuna í þjóðmálunum á komandi árum, hversu fast Alþýðubandalagsmenn sækja kosningarnar á komandi sumri. Sigur Alþb. í komandi kosningum mun tryggja framgang kjördæmamálsins og er jafnframt krafa fólksins um róttæka framfarastefnu, sem gilda skal um allt land. — Góða nótt.