25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Gumundsson:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. (BG), sem talaði hér síðast, sló því föstu í ræðu sinni, að þar sem einmenningskjördæmi væru, þar yrði niðurstaðan í kosningum röng. Niðurstaðan af kosningakerfinu verður röng, sagði hann. Hvernig skyldu nágrannar okkar, Bretar, hafa komizt af með þetta kerfi fram á þennan dag? Ég held, að það sé þó ekki litið svo á almennt, að þingræðið sé þar þannig gallað um fram það, sem gerist hjá öðrum þjóðum, að ekki sé viðunandi.

Frsm. meiri hl. stjskrn., hv. 1. þm. Reykv., talaði hér í gærkvöld. Hann talaði m. a. um það í ræðu sinni og hefur gert það áður, að ýmsar framkvæmdir úti um byggðir landsins væru nú á tímum ofvaxnar hverju héraði fyrir sig og því þyrfti samtök héraðanna í ýmsum efnum. Hann talaði um vegagerðir, hann talaði um framkvæmdir í raforkumálum, hann minntist á skólabyggingar, og hann minntist jafnvel á starfsemi kaupfélaganna. Ég ber ekki á móti því, að samvinna héraða um ýmis viðfangsefni og ýmsar framkvæmdir geti verið gagnleg og nauðsynleg. En hitt fæ ég ekki skilið, að það sé nauðsynlegt að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, til þess að slík samvinna geti átt sér stað áfram.

Hv. 5. landsk. þm. (BG) var að tala um þetta sama efni í ræðu sinni hér áðan, og hann var að tala um Borgarfjarðarhérað, hann var að tala um samstarf þar í skólamálum, hann var að tala um kaupfélagsmál í því héraði, og hann sagði sem rétt er, að íbúar Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu og nokkuð af íbúum Snæfellsnessýslu væru í sama kaupfélaginu. En geta þeir ekki haldið því áfram að hafa samvinnu sín á milli um viðskiptamál, þó að kjördæmaskipunin sé óbreytt? Þeir hafa gert þetta undanfarna áratugi og allt farið vel. Er nú allt í einu svo komið, að þessi samvinna sé úr sögunni, nema kjördæmin séu lögð niður og búið til stórt kjördæmi í staðinn, sem nái yfir miklu stærra svæði? Hvað á það yfirleitt að þýða að vera með svona fimbulfamb um þessa hluti, sem hver maður sér að hefur ekki við nokkur minnstu rök að styðjast?

Ég skal nefna eitt dæmi um samvinnu héraða, þar sem ég á heima. Fyrir 30 árum mynduðu Vestur-Húnvetningar og Strandamenn samtök um það að koma upp héraðsskóla. Þeir standa enn sameiginlega að þessum skóla. Þetta hafa allan tímann verið tvö kjördæmi samkvæmt stjórnarskránni, Vestur-Húnavatnssýsla og Strandasýsla. Það hefur enginn lifandi maður orðið var við, að það gerði neitt erfiðari samvinnu þeirra um skólamál, þó að þetta væri ekki eitt kjördæmi. Og hvernig á nú að fara að, ef það er þannig, eins og manni skilst, að hv. 5. landsk. þm. telji það vera, að til þess að héruð geti haft samvinnu, t.d. í skólamálum, þurfi þau að vera eitt kjördæmi, — hvernig á nú að fara að þarna fyrir norðan? Ég sé ekki betur, ef þessi kenning hans er rétt, en að hann verði að flytja brtt. við frv. um það, að Strandamenn og Vestur-Húnvetningar skuli vera í sama kjördæmi. Samkv. hans bollaleggingum er útilokað, að þeir geti haft samvinnu um þennan skóla, þetta skólahald, nema þeir verði í einu og sama kjördæminu. — Nei, þrátt fyrir allt þetta skraf hafa stuðningsmenn þessa frv. ekki fært fram snefil af rökum fyrir því, að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frv., til þess að héruðin geti haft samvinnu sín á milli um ýmsa hluti. Það er ekki von, að þeir hafi gert það, því að það eru engin rök fyrir þessu spjalli þeirra.

Í ræðu sinni í gærkvöld lagði frsm. meiri hl., hv. 1. þm. Reykv., mikla áherzlu á það, að kosningaaðferðin þyrfti að vera sú sama um allt land. Hvenær skyldu þeir sjálfstæðismenn hafa skipt um skoðun í þessu efni? Þeir hafa átt sinn mikla þátt í því að móta það kosningafyrirkomulag, sem nú er hér, og hér er einmitt blandað kerfl, hlutfallskosningar í nokkrum kjördæmum, en annars staðar einmenningskjördæmi.

Hv. þm. gerir sér tíðrætt um það, að við framsóknarmenn viljum ekki skipta Reykjavík í einmenningskjördæmi. En má ég spyrja: Hafa Reykvíkingar óskað eftir þeirri breytingu? Vilja þeir hverfa frá því kosningafyrirkomulagi, sem þeir hafa undanfarið búið við? Ekkert hef ég heyrt um það. Þvert á móti segja þeir, hv. 1. þm. Reykv, og félagar hans í nál. sínu um þetta frv., að hugmyndin um að skipta Reykjavík í einmenningskjördæmi hafi ekki fengið neinn hljómgrunn. Ætli það hefði ekki komið hljóð úr horni hjá þessum hv. þm. og fleirum, ef framsóknarmenn hefðu borið fram till. um að fyrirskipa með lögum nýtt fyrirkomulag við kosningar í Reykjavík, sem íbúar hennar yfirleitt væru algerlega andstæðir? En það er einmitt þetta, sem þeir þrír flokkar, sem að þessu frv. standa, eru að gera gagnvart héruðunum utan Reykjavíkur. Þeir vilja fyrirskipa þeim með lagaboði að taka upp kosningafyrirkomulag, sem ekkert þeirra hefur óskað eftir, svo að vitað sé. Hitt er aftur kunnugt, að í mörgum héruðunum er meiri hluti kjósenda algerlega andvígur þessari fyrirhuguðu breytingu. Það er líka fullkomið öfugmæli, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Reykv. í gærkvöld, að með breyt. sé ekki tekinn réttur af neinum. Og það virðist ætlun þeirra, sem að frv. standa, að þvinga það fram gegn vilja fólksins og taka af því réttindi, sem það hefur lengi notið.

Í umr. í gær gerði ég að umtalsefni, hver áhrif samþykkt þessa frv. mundi hafa á aðstöðu einstakra héraða, sem ætlunin er að svipta réttinum til að hafa sérstakan fulltrúa fyrir sig á Alþingi. Ég nefndi t.d. tvö héruð, annað á Suðurlandi, hitt á Norðurlandi, Vestur-Skaftafellssýslu og Norður-Þingeyjarsýslu.

Kjósendatalan í þessum sýslum hvorri fyrir sig er um 10% af heildartölu kjósenda á þeim stóru kjörsvæðum, sem þær eiga að teljast til samkv. frv. Og ég sýndi fram á, að möguleikar fólksins í þessum héruðum til að koma manni úr sínum hópi á þing, ef frv. þetta verður samþ., væru vægast sagt ákaflega litlir. Hvað sagði svo hv. frsm. meiri hl., 1. þm. Reykv., í gærkvöld, þegar hann fór að svara þessu? Hélt hann ekki fram því sama og þeir kjördæmabyltingarmenn hafa áður gert, að einstök héruð stæðu betur að vígi en áður, ef frv. yrði samþ., þar sem íbúar þeirra gætu þá leitað til sex þm. með sín mál? Hélt hann því ekki fram eins og áður, að fámennu héruðunum væri mestur styrkur í því að sameinast öðrum fjölmennari? Nei, hann nefndi þetta ekki með einu orði í svari sínu í gærkvöld. Hann sagði, þegar hann var að tala um Vestur-Skaftfellinga, að væntanlega yrði hv. 2. þm. Rang. núv., Sveinbjörn Högnason, á þingi framvegis og Vestur-Skaftfellingar gætu leitað til hans með sín mál, því að hann hefði einu sinni áður verið þeirra þingmaður, væri fæddur og uppalinn í Vestur-Skaftafellssýslu og kunnugur þar. Kom þannig fram í ræðu hv. þm., að vonir sínar um fyrirgreiðslu í málum eftirleiðis geti Vestur-Skaftfellingar byggt á því, að einn af núv. þm. Framsfl. verði áfram á þingi og taki sérstaklega að sér að gæta hagsmuna þeirra. Hv. þm. kom ekki til hugar að vísa á neinn Sjálfstfl.-þm., sem líklegur væri til að annast málefni Vestur-Skaftfellinga. Hefur þó þm. þeirra síðustu árin verið í þeim flokki. Sama var niðurstaðan hjá hv. 1, þm. Reykv., þegar hann fór að tala um Norður-Þingeyjarsýslu. Hann taldi líklegt, að núv. þm. N-Þ. yrði svo ofarlega á lista Framsfl. eftir kjördæmabreytinguna, að hann næði kosningu og gæti áfram sinnt málum héraðsins, nefndi ekki með einu einasta orði, að íbúum þeirrar sýslu mundi verða nokkur stoð í félagsskapnum við fjölmennari héruðin, ekki heldur, að þeir gætu séð hag sínum borgið með því að leita til allra hinna sex væntanlegu þingmanna í stóra kjördæminu. Nei, þeir yrðu eftir sem áður að setja traust sitt í þessu efni á einn þm., sem nú er þm. þeirra, og á það, að hann yrði á þingi áfram. Hvernig lízt mönnum nú á þennan málflutning hjá hv. 1. þm. Reykv., einum aðalforsvarsmanni þessa frv.? Þegar bent er á stórkostlega annmarka á því frv., sem hér liggur fyrir, þá er svarið frá honum þetta hér í hv. þd.: Það kemur ekki að sök, þó að þetta sé stórgallað, hér eru tveir mikilhæfir menn á þingi nú, verða sjálfsagt áfram, — já, við skulum vona það, — og þeir eiga að bjarga þessu við. En ekki verða þessir menn eða við hinir, sem hér erum nú, á þingi um aldur og ævi, þó að sumir kunni að verða hér eitthvað lengur. Hvað tekur þá við? Ja, hvernig lízt mönnum á blikuna, þegar því er haldið fram af einum aðalforsvarsmanni málsins, að það geri ekkert til, þótt það séu stórkostlegir gallar á þessu frv., vegna þess að eitthvað fleira eða færra af þeim mönnum, sem nú eiga sæti á þingi, muni verða þar áfram og þess vegna komi ekki að sök þessir miklu annmarkar, sem á lagasmíðinni eru?

Þau voru eftirtektarverð, þessi svör hv. 1. þm. Reykv. hér í gærkvöld. Hann sem sagt sleppti því alveg að telja frv. það til gildis, sem höfundar þess hafa helzt talið því til gildis áður, að menn ættu með sín mál aðgang að fleiri þm. en áður og það væri til þess að gera kjördæmin sterkari og héruðin að stækka kjörsvæðin. Ég fór að hugsa um það undir ræðu hv. þm., hvað hefði komið fyrir hann. Og mér sýndist, að það væri líklega það, sem á leikhúsmáli er kallað „að detta úr rullunni“. Um stund, meðan hann flutti ræðu sína, gleymdi hann að flytja fram þær falskenningar, sem hann og félagar hans, sem styðja þetta frv., hafa annars stöðugt verið að veifa í kringum sig. Sennilega alveg óvart hitti hann á það rétta. Héruðin þurfa að hafa sérstaka fulltrúa hvert fyrir sig. Og samkv. því, sem fram kom í ræðu hans, eru það ekki einstakir þm. Sjálfstfl., sem þar er á að byggja, heldur þingmenn Framsfl. Hann benti á einstaka þm. Framsfl., sem þurfa að vera á þingi áfram til þess að annast málefni hinna fámennu héraða. Það er engin ástæða til fyrir okkur framsóknarmenn að gera athugasemdir við þennan þátt í ræðu 1. þm. Reykv. Hitt veit ég ekki, hvort frambjóðendur Sjálfstfl., sem fara út í kjördæmin í vor í kosningabaráttuna, telja þennan ræðukafla hv. þm. sérlega gott og hentugt nesti í það ferðalag. En það er heimilismál þeirra þar á bæ, sem ég skal ekki skipta mér af.