25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. út af ummælum hv. 5. landsk. (BG).

Hv. 5. landsk. sagði, að ég hefði sagt, að sýslufélögin eða héruðin væru sjálfstæðar félags-, fjárhags- og menningarlegar einingar. Ég hef haldið þessu fram í umr. og held þessu fram. Mér er fullkunnugt um það, að Mýramenn og Borgfirðingar eiga margt sameiginlegt og vinna að mörgum málum sameiginlega, en það raskar því ekki, að þessi sýslufélög eru sjálfstæðar fjárhags- og félagslegar einingar.

Ég held því líka fram, að í sambandi við breytinguna á Hnappadalssýslu gerðist ekkert svipað og hér á að gerast. Hnappadalssýsla var sameinuð Snæfellsnessýslu, svo að það er ein félags- og fjárhagsleg eining síðan, Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla. Öll mál þessa héraðs fara sameiginlega fram á sýslufundi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, og önnur mál þeirra eru líka sameiginleg.

Það, sem ég hef haldið fram í þessum umr., er, að það, sem hér er verið að gera, er ekki að mynda neinar nýjar einingar. Það er aðeins verið að fyrirskipa þessum héruðum, að þau skuli kjósa þm. saman, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og ég ætla að ljúka þessum fáu orðum mínum með því að vitna til annars manns, sem hafði sama skilning á þessu hugtaki og ég hef. Ég ætla að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp úr ummælum, sem herra Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi þm. V-Ísf., núverandi forseti Íslands, hafði á Alþingi 1933. Hann sagði þetta:

„Sýsluskiptingin hefur þróazt um þúsund ár, og það skal sterk rök til þess að raska þeim grundvelli, ef hægt er að finna aðra leið til jöfnunar á kosningarrétti manna, en að raska svo fornum grundvelli. Þessi héruð, sýslufélögin og bæjarfélögin, eru sjálfstæðar fjárhagseiningar og menningareiningar, sem eru orðnar svo samvanar til starfs, og það verða ekki búin til með lögum önnur héruð, sem betur séu til þess fallin að vera kjördæmi.“

Þetta eiga að vera mín síðustu orð í þessari umr., og þau sanna, að það, sem ég hef haldið fram um þetta, er skilningur manna, sem eru vanir að fást við þjóðmál.