25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. (SkG) benti á það dæmi gegn því, sem ég sagði um, að einmenningskjördæmin gætu leitt til óréttlátra úrslita, að stjórnarfar í Bretlandi væri skýr sönnun um hið gagnstæða.

Þessu svara ég aftur á þann hátt, að þegar einmenningskjördæmin eru farin að skipta mörgum hundruðum, þau eru að ég hygg á sjöunda hundrað í Englandi, þá vaxa líkur á því, að óeðlilegt misræmi, sem verður í einu kjördæmi, vegist upp í öðru. En þar að auki hefur það komið fyrir í Englandi, að sá flokkur, sem hafði minni hl. greiddra atkvæða, fékk meiri hl. á þingi og tók þar með við stjórn landsins, en stjórnarandstaðan hafði á bak við sig meira þingfylgi, en stjórnin.

Það hefði vel mátt benda á Bandaríkin líka og hefur oft verið gert. Þar er sömu sögu að segja. Þar er fjöldi kjördæmanna svo gífurlega mikill, auk þess sem þeim er breytt alveg reglulega, og þar hefur það líka komið fyrir, að maður hefur verið kosinn Bandaríkjaforseti, þótt hann hafi haft færri greidd atkvæði á bak við sig en sá, sem féll.

Út af því, sem hv. þm. Mýr. (HS) sagði hér, vil ég ítreka það, að það verður að líta á fleira en bara þau mál, sem eru fyrir sýslunefndum, þegar maður talar um það, hvort ein sýsla eða eitt hérað sé menningarleg og fjárhagsleg heild. Og þegar allt er saman tekið, þá hygg ég, að það muni ekki standast, að sýslurnar séu yfirleitt slíkar heildir.

Hann sagði einnig, að með þessu nýja kjördæmaskipulagi væri ekki verið að taka upp neinar nýjar einingar. Ég vil nú halda því fram, að kjördæmi, hvernig sem það svo er, sé ekki lítilvæg eining í þjóðfélaginu. Það er eining, sem hefur það hlutverk að kjósa menn til að sitja Alþingi Íslendinga. Það eitt er eining, sem ekki er rétt að misvirða.

Hans síðustu orð voru að tilgreina hér — í fyrsta skipti, að ég hygg, í þessum umr. með nafni — ummæli eftir Ásgeiri Ásgeirssyni frá þeirri tíð, er hann var forsrh., þar sem hann talaði um sýslurnar og kjördæmin. Ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp nokkrar setningar eftir sama mann og vil þá byrja á þessum orðum, sem hann sagði í umr. hér á Alþingi um kjördæmamál:

„Ég er ekki að afsaka það,“ sagði hann, „sem ég sagði, að gömlu kjördæmin væru lífseig, því að það eru þau. Ég hef alltaf staðið á þeim grundvelli, að maður eigi að varðveita sem mest af því gamla, sem til er með þjóðinni, en gera endurbætur, sem jafna misrétti.“

Hann sagði einnig: „Við Íslendingar, sem erum ekki fjölmennir, ættum að geta sætt okkur við þetta, að viðurkenna jafnan rétt hver annars, hvar sem menn búa. Það ætti að vera krafa okkar litla þjóðfélags, að þessi réttur sé jafn. Og þó að einhverjar deilur rísi í sambandi við þetta mál, þá er það ekki sjúkdómseinkenni, heldur vaxtarverkir heilbrigðs þjóðfélags, sem ekki vill sætta sig við misrétti þegnanna.“ Hann sagði enn fremur: „Það læt ég ekki segja mér, að mannréttindi séu hættuleg þingræðinu og frelsinu:“ Hann sagði enn fremur: „Er stjórnarskráin of heilög til að breyta gömlum rangindum?“ Og hann sagði enn fremur: „Þróunin hefur jafnan gengið í jöfnunarátt. Frá því byrjað var að skipta veldissprota kosninganna upp á milli þegnanna, þá hefur jafnan stefnt í þá átt og mun ekki linna, fyrr en að fullu eru jöfnuð áhrif þegnanna. Þegnarnir hafa smátt og smátt verið afklæddir öllum mannamun. Réttinn til íhlutunar eiga nú allir jafnt án tillits til ýmissa eldri takmarkana.“ Og það geta orðið mín síðustu orð hér, höfð eftir sama manni: „Hans hátign, þjóðarviljinn, er hinn eini trausti grundvöllur undir nútíma þjóðskipulagi.“